10.03.1960
Efri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

88. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég skal svara hér nokkrum fsp. og aths., sem fram hafa komið frá þeim fjórum hv. þm., sem hér hafa talað um málið.

Varðandi fsp. síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Vestf. (SE), um, hvað gert sé ráð fyrir að 3% söluskatturinn nemi miklu á þessu ári, vil ég svara því, að það er gert ráð fyrir, að þessar 280 millj, skiptist á þessu ári nokkurn veginn til helminga milli 3% söluskattsins og 8% innflutningssöluskattsins, að það verði ekki langt frá 140 millj., sem hvor um sig muni gefa á þessu ári.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa allir fjórir talið það mikið hneykslunarefni, að þessu frv. hafi verið dreift úti í bæ, eins og þeir hafa orðað það, dreift út um borg og bý að undanförnu, en stjórnarandstæðingum ekki sýndur sá trúnaður að sýna þeim frv. Þetta er á ákaflega miklum misskilningi byggt. Þegar drög höfðu verið gerð að frv., en áður en það færi í prentun, þótti ríkisstj. og undirbúningsnefndinni sjálfsagt að hafa samráð við þá aðila, sem fyrst og fremst verða að framkvæma lögin og innheimta skattinn, en eins og kunnugt er, eru það fyrst og fremst kaupmenn, kaupfélög, iðnaðarnnenn, verktakar, sem það verkefni lendir á að innheimta skattinn og skila honum. Ég skil ekki í rauninni, hvernig nokkur hv. þm. getur talið það til hneykslunarefnis, þó að haft sé samráð við þessa aðila eða samtök þeirra varðandi framkvæmdaratriði frv. og teknar til athugunar þær ábendingar og aths., sem þeir kynnu að gera. Þetta var gert næstu dagana áður en frv. fór í prentun, og þeir aðilar, sem þannig var leitað umsagnar hjá varðandi þessi framkvæmdaratriði, voru Samband íslenzkra samvinnufélaga, Kaupmannasanntök Íslands, verzlunarráðið, Félag íslenzkra iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Vinnuveitendasamband Íslands. Þetta eru þau samtök, sem hafa innan sinna vébanda yfirleitt þá aðila, sem eiga að sjá um framkvæmd og innheimtu skattsins. Ýmsar ábendingar þessara samtaka hafa verið teknar til greina í frv., og ætla ég, að öllum óvilhöllum mönnum blandist ekki hugur um, að það er fremur til bóta, að sá háttur var á hafður varðandi undirbúninginn, sem hér er skýrt frá, til þess að ábendingar þessara aðila gætu komið þá strax inn í frv. Það hefði tafið málið meir, ef í meðferð þingsins hefði þurft að fara að leita álits og kalla til alla þessa aðila. Ádeilur hv. stjórnarandstæðinga í þessu efni eru því algerlega úr lausu lofti gripnar.

Þá er því haldið fram, að álögur með þessu frv. séu auknar stórkostlega frá því, sem boðað hefði verið. En það er ekki minnsti fótur fyrir þessu. Í fjárlagafrv. var boðað, að ná þyrfti 280 millj. kr. Það er skýrt tekið fram þar, gert ráð fyrir, að það yrði aðallega með almennum söluskatti. Eins og ég gat um áður, hefur það reynzt svo, vegna þess að fyrsti ársfjórðungur fellur niður, vegna þess að skattprósentan verður ekki hærri en 3% og vegna ýmissa undanþága, að þá næst ekki þessi fjárhæð með söluskattinum í smásölu eingöngu, heldur þarf að hækka nokkuð innflutningssöluskattinn til þess að vinna upp það, sem á vantar. Sú upphæð, sem hér er um að ræða, 280 millj., er nákvæmlega sama upphæð sem alltaf hefur verið boðuð, og er það því gersamlega rangt, þegar stjórnarandstæðingar tala um, að þessi skattupphæð eða álögur séu miklu, jafnvel stórkostlega miklu hærri en boðað hafi verið.

Þá er það ein ádeilan, að með þessu frv. sé fjmrh, fengið næstum ótakmarkað vald, jafnvel dómsvald, og muni þetta vera einsdæmi í íslenzkri löggjöf. Ég skal varðandi þetta atriði geta þess í fyrsta lagi, að í þessu frv., eins og í gildandi lögum um söluskatt, er gert ráð fyrir, að fjmrn. hafi ýmsar undanþáguheimildir, geti með reglugerð eða á annan hátt veitt ýmsar undanþágur.

Í lögunum um söluskatt, sem nú eru í gildi, III. kafla laga nr. 100 frá 1948, eru ákvæði, þar sem segir svo m.a.: „Fjmrn. er heimilt að ákveða með reglugerð, að vissir flokkar gjaldenda og vissar vörutegundir og þjónusta, auk þess sem áður er nefnt, skuli undanþegið söluskatti.“ Þarna er mjög rúm heimild í gildandi lögum, og ég ætla ekki, að þær heimildir, sem eru í þessu frv., séu öllu rýmri.

Varðandi hitt, að fjmrh. sé fengið dómsvald eða úrskurðarvald, þá vil ég taka það fram, að í tollalögum hefur það ákaflega lengi verið þannig af hagkvæmni- og framkvæmdaástæðum, að fjmrh. hefur haft úrskurðarvald um ýmis atriði varðandi útreikning tolla og annarra slikra gjalda, og ekki aðeins að hann hafi haft úrskurðarvald, heldur beint tekið fram í l., t.d. í tollskrárlögunum frá 1954, að úrskurður fjmrh. sé fullnaðarúrskurður. Þar segir, í 20. gr. tollskrárlaganna: „Nú rís ágreiningur um það, hvernig tolla skuli vörur, og skal þá fjmrh. skera úr þeim ágreiningi, og er sá úrskurður fullnaðarúrskurður í málinu.“ Þetta ákvæði hefur staðið í íslenzkum lögum í áratugi. Að vísu má gagnrýna þetta ákvæði með ýmsum rökum, að það sé hæpið að taka þannig ákveðin mál undan úrskurðarvaldi dómstóla og fela þau ráðh., og ég tek að ýmsu leyti undir þau rök, að það sé ekki heppilegt, að ráðh. sé þannig falið fullnaðarúrskurðarvald í máli, þannig að ekki sé heimilt að bera það undir dómstóla. Það, sem í þessu frv. er ákveðið, gengur auðvitað miklu, miklu skemmra, því að hér er eingöngu ákveðið, að ef skattskyldur aðili skýri rangt frá um eitthvað, sem skiptir máli um söluskatt, skal hann greiða sekt, sem skal ákveðin allt að tífaldri þeirri söluskattsupphæð, sem tapazt hefur við vanrækslu hans eða rangfærslu, og auk þess greiði hann hinn vantalda söluskatt. Fjmrh. ákveður sektina, þ.e.a.s. allt að tíföldu, nema hann eða sá, sem í hlut á, óski eftir, að málinu sé vísað til dómstólanna, en hverjum einasta manni er heimilað að fara þá venjulegu dómstólaleið. Ástæðan til þess, að n. hefur sett þetta ákvæði inn í frv., er eingöngu af hagkvæmniástæðum, til þess að þurfa ekki í hverju atriði í hvert skipti, sem einhver slík mistök eiga sér stað, að fara dómstólaleiðina, heldur til þess, ef aðili er ásáttur um það, að fjmrn. ákveði sektina. En ef hann óskar eftir, að málið gangi til dómstólanna, er honum það heimilt. Þessar ádeilur fá því alls ekki staðizt.

Varðandi undanþágur að öðru leyti er deilt á þetta frv. fyrir það, að þar séu svo margar undanþáguheimildir. Það má nefna til dæmis, að í tollskrárlögunum frá 1954, — þau voru undirskrifuð af þáv. fjmrh., Eysteini Tónssyni, — eru svo margar undanþáguheimildir fyrir fjmrh., að það tekur nú á þriðju blaðsíðu í Stjórnartíðindunum. Fjmrh. er heimilt: a) að endurgreiða, b) að heimta ekki aðflutningsgjöld o.s.frv. Undanþáguheimildir alls konar eru taldar hér upp í stafliðum, og þær eru svo margar, að stafrófið nægir ekki. Þegar komið er að stafliðnum ö, verður að byrja að nýju og kalla næsta staflið aa, því að svo margar undanþágur taldi þáv. fjmrh. sér nauðsynlegt að hafa í sinni hendi, að stafrófið nægði ekki. Að menn úr þessum sama flokki og stuðningsmenn þessa fyrrv. fjmrh. skuli nú koma og telja það einhverja goðgá og einsdæmi, eins og þeir segja, að nokkrar undanþáguheimildir eru í þessu frv. fyrir fjmrn., það er í rauninni alveg óskiljanlegt. Hins vegar er ljóst, að vegna þess að við slík skattalög eins og þessi koma alltaf í framkvæmdinni ýmis vafaatriði, þykir ekki möguleiki fyrir fram að binda það í öllum smáatriðum í lögunum og þess vegna verði að hafa vissar undanþáguheimildir fyrir fjmrn.

Þá ræddi hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) um það, að stjórnarflokkarnir hefðu gersamlega brugðizt fyrirheitum sínum frá því fyrir kosningar. Hann sagði, að það hefði verið lofað stöðvun dýrtíðarinnar, stöðvunarstefnan væri nú orðin skop eitt, því að stofnað væri til meira dýrtíðarflóðs en nokkurn tíma hefði þekkzt. Nú vil ég taka það fram varðandi minn flokk, að í stefnuskráryfirlýsingu hans frá því í október s.l., fyrir kosningar, er það skýrt tekið fram, að stefnan er sú að koma á jafnvægi þjóðarbúskaparins, m.a. með því að stefna að raunhæfri gengisskráningu og stöðugu gengi, enn fremur, að í bili verði að halda áfram þeirri stöðvunarstefnu, sem var haldið uppi á s.l. ári, en það sé aðeins eitt spor og verði að finna úrlausnir til varanlegri bóta.

Ég held, að engum manni hafi blandazt hugur um það, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru af fyrrv. hæstv. ríkisstj. og studdar af Sjálfstfl. á s.l. ári til að stöðva dýrtíðina á því ári, voru bráðabirgðaráðstafanir, sem ekki gátu haldizt lengi, þær kostuðu það mikið fé, það miklar niðurgreiðslur og uppbætur úr ríkissjóði, að þetta var aðeins bráðabirgðaráðstöfun, meðan verið væri að finna varanlegri úrræði.

Varðandi það, að stofnað sé með aðgerðum núv. stjórnar til meira dýrtíðarflóðs en áður, þá verð ég að segja, að það kemur úr hörðustu átt frá forsrh. vinstri stjórnarinnar að tala þannig, því að í þeirri ríkisstj., sem hann veitti forstöðu, vinstri stjórninni, sem sat í rúmlega tvö ár, hækkaði framfærsluvísitalan úr 185 stigum upp í hvorki meira né minna en 220 stig, sem hún var komin, þegar stjórnin skildi við og gaf sjálfri sér þann vitnisburð og þau eftirmæli, að það væri ekki samkomulag eða samstaða í ríkisstj. um nein úrræði til stöðvunar á verðbólgunni eða til úrbóta í efnahagsmálum.

Sami hv. þm. segir, að því hafi verið lofað að afnema tekjuskattinn alveg og allt tekjuskattskerfið, en nú eigi aðeins að afnema tekjuskatt af lægri tekjum eða launatekjum, en öll spillingin og allt kerfið eigi að haldast, allt báknið skilið eftir, eins og hann komst að orði. Hér er farið með algerlega staðlausa stafi. Svo að ég vitni aftur í stefnuskrá Sjálfstfl., þá segir þar varðandi skattamálin: „Endurskoðun fari fram á lögum um skatta, tolla og útsvör“ — sú endurskoðun er þegar hafin — „með það m.a. fyrir augum að tryggja jafnrétti skattþegna og að skattar á eyðslu komi í stað tekjuskatts og útsvara, eftir því sem fært er.“ — Hér er engu lofað um það að afnema útsvör eða afnema tekjuskatta, heldur að stefna að því að draga úr þeim og taka heldur þarfir hins opinbera með óbeinum sköttum.

Þessar fullyrðingar hv. 2. þm. Vestf. um svik við loforð frá því fyrir kosningar, eru því tilhæfulausar. Það, sem hann er að tala um að hafi verið lofað, er tilbúningur hjá honum.

Þá segja þessir hv. þm., að því hafi verið lofað í fjárlagafrv. að breyta ekki núgildandi söluskatti af innflutningi. Þetta er ekki alls kostar rétt, því var aldrei lofað. Hins vegar segir í fjárlagafrv. eða grg. þess, sem samin var um áramót: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi.“ Þetta er rétt, það var ekki áformað um áramótin, þegar fjárlagafrv. var samið. Það var gert þá ráð fyrir, að söluskattur á síðasta stigi, söluskattur á smásölu og þjónustu, mundi væntanlega geta aflað ríkissjóði þeirra tekna, sem þyrfti. Við nánari athugun á þessu máli og af þeim ástæðum, sem ég hef þegar greint, nægir það hins vegar ekki á þessu ári, og þess vegna varð að grípa til þess að taka nokkra viðbót á innflutningssöluskattinum.

Hv. 2. þm. Vestf. segir, að þessi söluskattur leggist á almenning með miklum þunga, en það muni ekki nema nokkur hluti hans koma í ríkissjóð. Ég verð að segja, að mér finnst þetta kaldar kveðjur frá fyrrv. forsrh. og formanni Framsfl. til þeirra aðila, sem eiga að innheimta skattinn. Mér finnst það kaldar kveðjur frá form. Framsfl. að leyfa sér hér á Alþingi að brigzla kaupfélögum, kaupmönnum og iðnaðarmönnum um það, að þeir ætli að stinga í eigin vasa og stela hreinlega miklum hluta af söluskattinum. Ég vil algerlega mótmæla þessu. Þó að vitanlega kunni að koma fyrir í fjölmennum hóp, að einhver og einhver standi ekki fyllilega skil á skattinum, þá er ég sannfærður um, að þessar stofnanir munu taka þessu með skilningi og sýna fulla hollustu og heiðarleik í því að innheimta þennan skatt fyrir hið opinbera. Að vísu er þetta í sama anda og frá málgagni Alþb., þegar það leyfði sér að halda því fram nú fyrir nokkru, að vegna þess, hve kaupsýslumenn væru óánægðir með hin ströngu verðlagsákvæði, sem ríkisstj. hefði sett, ætlaði stjórnin að leggja á þennan söluskatt til þess að bæta kaupmönnum það upp, af því að þeir mundu stinga honum að mestu leyti í sinn vasa. Þessi orð, bæði málgagns Alþb., og hv. formanns Framsfl., verða að standa á þeirra reiknirugl, en ég vil endurtaka, að ég mótmæli þessum dylgjum og aðdróttunum algerlega.

Þá sagði sami hv, þm., 2. þm. Vestf., að tölur þær, sem gefnar voru upp um tekjumissi ríkissjóðs vegna tekjuskattsins, stangist gersamlega á, þar sem það sé ýmist talið 75 millj. kr. eða 110 millj. kr. .Ég skaut fram í ræðu hans, að báðar tölurnar eru réttar, og það hlýtur hv. þm. að vita, ef hann hefur lesið bæði fjárlagafrv. og efnahagsmálafrv.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að tekjuskatturinn á árinu 1960 gefi 75 millj kr. minna en áætlað var í fjárlögum ársins 1959, og er skýrt tekið fram, að áætlunin, miðuð við fjárlögin 1959, lækkar um 75 millj. kr. Hins vegar hefur skattstofan reiknað það út, hver mundi verða heildarupphæð tekjuskattsins á þessu ári, annars vegar miðað við núgildandi skattalög og hins vegar miðað við það frv., sem ríkisstj. hefur látið semja og bráðum verður lagt fyrir Alþingi, um það sem sagt að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur, og útreikningur skattstofunnar er sá, að tekjumissirinn sé a.m.k. 110 millj. kr. á þessu ári. — Þessar tölur eru báðar réttar og engin ástæða til að vera að reyna að flækja það, sízt af mönnum, sem hljóta þó að vita betur.

Þá kom hér hv. 9. þm. Reykv. (AGl) með sama slúðrið og verið hefur undanfarið og síðast í morgun í málgagni hans, Þjóðviljanum, um það, að fundizt hafi 100 millj. kr. skekkja í útreikningunn hagfræðinganna. Ég minntist á það í framsöguræðu minni, að þetta er tilbúningur einn; það hefur engin skekkja verið í þessum áætunum eða undirbúningi.

Það var í vetur, að sami hv. þm., 9. þm. Reykv., grét krókódílstárum, — held ég, að það hafi verið, — yfir því, að ekki skyldi fást þá ákveðið strax, að sveitarfélögin skyldu fá hluta af söluskattinum, og honum þótti það vera hin mestu brigðmæli af hendi stjórnarflokkanna og ekki sízt af minni hendi að fallast ekki á það þá strax fyrir þinghléið að lögákveða sveitarfélögunum hluta af söluskatti. Nú er þetta hugsjónamál hans komið inn í þetta frv., þannig að sveitarfélögin fá fimmta hluta af þessum söluskatti, og er áætlað, að það nemi 56 millj. kr. og er tekið fram í fjárlagafrv. En þá bregður svo við hjá þessum hv. þm., sem var svo viðkvæmur og sorgbitinn í vetur út af þessu, að það kemur ekki eitt ánægjuorð út yfir hans varir út af því, að nú fái sveitarfélögin eitthvað, — ekki einn fagnaðartónn heyrðist úr hans barka út af því. Hvers vegna? Er það virkilega þannig, að hann hafi engan áhuga á þessu og að honum sé nákvæmlega sama, hvort bæjar- og sveitarfélögin fái söluskattinn, jafnvel kannske, að honum sé heldur illa við það, að núv. stjórn beiti sér fyrir því? Eða hvernig má skýra það eftir hans hrókaræður hér í vetur og hans mikla brennandi áhuga á þessu máli, að nú einmitt, þegar frv. er lagt fram, sem tryggir bæjarog sveitarfélögunum þetta mál, sem verið hefur baráttumál í nærri áratug, á hann ekki eitt orð til að lýsa neinni ánægju eða gleði sinni yfir, að þetta skuli nú vera að komast í lög.

Hv. stjórnarandstæðingar hneykslast bæði á þessum 3% söluskatti og einnig og sumir þeirra jafnvel öllu meira á 8% innflutningssöluskatti. Manni verður að spyrja: Hvernig vilja þessir hv. þm. afla þessara tekna? Ég býst við, að þeim sé ljóst, að til þess að fjárlögin geti orðið afgreidd tekjuhallalaus, verður að afla þessara 280 millj. kr. Eru þessir hv. stjórnarandstæðingar á móti því að afnema tekjuskattinn á almennum launatekjum? Eru þeir á móti því að afnema hinn rangláta og erfiða 9% söluskatt, sem nú er á iðnaði og þjónustu? Eða eru þeir á móti því, að bæjarog sveitarfélögin fái þessar 56 millj. kr. til þess að geta lækkað útsvörin? En einmitt vegna þessara þriggja liða þarf að afla ríkissjóði þessara tekna.

Þessir þrír liðir, afnám tekjuskatts á launatekjur, afnám 9% söluskattsins á iðnað og þjónustu og framlagið til sveitarfélaganna til að lækka útsvörin, nema samtals 280 millj., nákvæmlega sömu upphæð og þetta frv. á að afla.

Ég ætla, að það séu ekki fleiri atriði, sem ástæða er til að svara að sinni.