05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2601)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera tvær litlar aths. við ræðu hv. 3. þm. Reykv. hér áðan. Hann sagði, að hvorug sú leið, sem nefnd var af hv. frummælanda. samrýmdist stefnu ríkisstj. í þessum málum. Leiðirnar, sem hv. þm. nefndi, voru þær annars vegar að styðja eigendurna til þess að koma á laggirnar lagfæringum og viðbótum á verksmiðjunum, svo að þær yrðu nothæfar, og í öðru lagi sú, að ríkisstj. tæki verksmiðjurnar og ræki þær eða síldarverksmiðjur ríkisins, sem eru eign ríkisins, tækju að sér reksturinn. Þetta taldi hv. þm. að samrýmdist alls ekki stefnu núv. ríkisstj. En þetta er rangt hjá hv. þm. Það liggja hér fyrir og hafa verið samþ. á þessu þingi till. um að styrkja m.a. síldarverksmiðjur á Austurlandi, sem ekki eru í höndum ríkisins, um milljónatug til þess að efla þar starfsemina. Þetta var stefna ríkisstj., og þetta er stefna hennar. Í öðru lagi hafa hér verið samþykktar líka tillögur um það að veita ríkisverksmiðjunum sjálfum stórkostlegar ábyrgðir til þess að auka sína starfsemi. Það er engan veginn stefna ríkisstj. að skipta sér ekkert af einstaklingum og þeirra rekstri, ef þeir eiga í kröggum, heldur þvert á móti að hjálpa þeim, og í öðru lagi að efla ríkisverksmiðjurnar til þess að auka sína starfsemi.