05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (2602)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal nú ekki blanda mér í þetta mál mikið, en stefna þessarar stjórnar í atvinnumálum rifjar upp fyrir mér barn, sem við áttum saman, hv. 3. þm. Reykv. og ég, og hét nýsköpunarstjórnin, og hún hafði þá stefnu í atvinnumálum, að atvinnufyrirtækin mættu vera eign ríkisins, þau mættu líka vera eign félaga, þau mættu vera eign bæjar- og sveitarfélaga og einstaklinga. Og þetta barn okkar, sem við áttum þá, það lifir enn þá, er eins konar móðir eða amma þeirrar hugsjónar, sem hér hefur verið borin fram, að þetta þjóðfélag byggist á því, sem skynsemin segir fyrir um, að einstaklingurinn er undirstaðan að verulegu leyti, bæjar- og sveitarfélögin, þar sem það á við, og ríkið, þar sem hinum báðum sleppir. Þetta er hin víðsýna, frjálslynda umbótastefna, sem þessi hv. þm. og ég beittum okkur fyrir í framkvæmd ásamt með hæstv. félmrh., sem átti sæti í þeirri stjórn líka á árunum 1944–47. Og þetta afkvæmi okkar vona ég að lifi lengi, lifi jafnvel enn þá lengur heldur en skyndiástir Framsóknar-sósíalista.