05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2605)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þessi till., sem hér er til umr., er um það, hvernig eigi að knýja af stað starfrækslu síldarverksmiðjanna á Ingólfsfirði og Djúpuvík á Ströndum, og einnig að koma upp síldariðnaði á öðrum stöðum á Vestfjörðum. Niðurstaða flm. er sú, að einstaklingar þeir, sem átt hafa um langa hríð síldarverksmiðjur þar á Vestfjörðum og ekki starfrækt þær, muni í framtíðinni ekki vera færir um að gera það, og þess vegna er kallað á ríkisvaldið til hjálpar. Ég álít þetta að öllu leyti eðlileg, og ég sé ekki neina aðra leið til þess að tryggja, að þessi atvinnutæki verði nýtt, en að aðstoð ríkisvaldsins komi til. Ég lýsi því fullum stuðningi mínum við þessa tillögu.

Hitt gleður mig, að verða áheyrandi þess á hv. Alþingi Íslendinga. að vinur minn, Sigurður Bjarnason, hv. 1. þm. Vestf., skuli nú vera orðinn þjóðnýtingar- og ríkisrekstrarmaður og hafa hér uppi hróp og köll um það, að þjóðnýta beri fyrirtæki einstaklinga. Það er mér nokkuð nýtt. En ég fagna þessari hugarfarsbreytingu og legg honum þetta ekkert til lasts á nokkurn hátt. Hann víkur að ýmsu í sinni grg., sem ég held að hafi líka við rök að styðjast. Hann minnir á það, að það hafi haft örlagaríkar afleiðingar fyrir byggðarlög á Vestfjörðum, þegar verksmiðja eins og Hesteyrarverksmiðjan hætti þar starfsemi og var lögð niður og flutt til Hjalteyrar við Eyjafjörð. Hann segir líka, að reynslan hafi staðfest það, að hið opinbera eitt hafi bolmagn til þess að eiga og reka síldarverksmiðju, og er ég honum sammála um það. Einstaklingsframtakið þar hefur ekki haft bolmagn til þess og hefur bilað hvað eftir annað, og bölið af því hefur ekki lent á eigendunum sjálfum, það hefur lent á fólkinu í viðkomandi byggðarlögum. Það er hið alvarlega við það.

Það er ekkert á móti því út frá einmitt þessu að rifja það upp, að einmitt hlutafélagið Kveldúlfur, sem núv. hæstv. forsrh. mun hafa verið einn aðaleigandi í, átti og starfrækti um árabil verksmiðju á Hesteyri í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þegar það borgaði sig ekki eins vel að reka síldarverksmiðju þar og miðsvæðis norðanlands, var rekstri síldarverksmiðjunnar á Hesteyri hætt. Það var ákaflega eðlilegt eftir gróðasjónarmiðum einstaklingsframtaksins. Verksmiðjan var rekin til þess að græða á henni auðvitað, eins og atvinnutæki einstaklinga eru hugsuð. Þá var rekstrinum hætt. En þetta hafði verið einkaatvinnugrundvöllur fyrir kauptúnið á Hesteyri, fyrir kauptúnið á Látrum, fyrir kauptúnið á Sæbóli. Þrjú kauptún lögðust í auðn í Norður-Ísafjarðarsýslu. þáv. kjördæmi hv. núv. 1. þm. Vestf., og ég segi það: Honum er vorkunn, þótt hann muni enn þá eftir þessum búsifjum einkaframtaksins, einkaatvinnurekstrarins í hans eigin kjördæmi og segi: Hann dugir ekki, þetta skipulag dugir ekki, það er ríkisrekstur, sem þarf að koma til. (Forseti: Ég vil spyrja hv. alþm., hvort hann hyggist tala hér í langan tíma, því að í raun og veru átti að slíta þessum fundi eftir hálfþrjú.) Ég hafði nú ekki gert ráð fyrir, að þetta yrði nema um 2O mínútna ræða um það, hvað einstaklingsrekstur gæfist illa og ríkisrekstur væri happasæll. (Forseti: Þetta mál verður síðar á dagskrá.) Þá vík ég að efninu aftur. Ég verð við tilmælum forseta. — [Frh.]