06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (2611)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ja, nú er bæði til umr. till. hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Austf. Er það ekki rétt? Maður fer ekki út fyrir efnið, þó að maður tali um till. og um hv. þm. En ég er ekki með nein syndug áform um að tala mjög lengi. Ég ætla aðeins að víkja hér að örfáum atriðum, sem hafa komið fram, síðan ég talaði.

Hv. 3. þm. Austf. sagði í upphafi síns máls, að það hefði ekkert tilefni verið af minni hendi að gera jafnheiftúðlegar árásir á einstaklingsreksturinn og ég hefði gert. Í tilefni af því, að till. liggur fyrir Alþ. og er hér á dagskrá um það, að einstaklingsfyrirtæki hafi verið ónotuð árum saman og það hafi komið illa við fólkið í þeim byggðarlögum, þar sem fyrirtækin eru staðsett, og beðið um, að ríkið komi til aðstoðar þessu fólki með því að taka að sér rekstur þessara fyrirtækja eða styrkja einstaklingana, sem eiga þau, þá held ég, að fyllsta tilefni hafi gefizt til þess að líta yfir farinn veg einstaklingsrekstrar og opinbers rekstrar, a.m.k. í þessum landshluta, og það gerði ég með ræðu, sem stóð innan við klukkutíma. Tilefni held ég að liggi hér fyrir okkur á hvers manns borði í formi till. og svo staðreyndir sögunnar hins vegar, sem voru raktar. Hitt verð ég að segja, að mikill misskilningur er hjá 3. þm. Austf., ef hann stendur í þeirri meiningu, að ég hafi verið að gera persónulegar árásir á einstaklingana, sem eru að brjótast í atvinnurekstri. Ég gerði ekki persónulegar árásir á Einar Sigurðsson atvinnurekanda, hv. 3. þm. Austf. Ég gerði ekki persónulegar árásir á sæmdarmann eins og Hannes heitinn Stephensen á Bíldudal eða Ágúst heitinn Sigurðsson. Ég sagði bara, hvernig atvinnulífið blómgaðist á þessum tímum og hvernig það hrörnaði og hvernig það dó og hvernig fólkið þjáðist undir því, fór engum hrakyrðum um þá menn, sem þarna áttu hlut að máli, enda er ég þeirrar skoðunar og vildi hafa sagt það nógu skýrt í minni fyrstu ræðu, að ég teldi, að það væri skipulagið, brestir í því, sem yrðu því valdandi, að svona eyður kæmu, þegar einstaklingsreksturinn brygðist.

Ég kann hins vegar vel að meta það, að skapmiklum manni, atvinnurekanda eins og hv. 3. þm. Austf„ honum hlaupi kapp í kinn og hann vilji verja ekki aðeins sig persónulega sem atvinnurekanda og sína frammistöðu, heldur einnig það skipulag, sem hann starfar undir og hann telur, en ekki ég, að sé hyrningarsteinn þjóðfélagsins og atvinnulíf þjóðarinnar eigi að byggjast upp á þeim grundvelli sem hann starfar á. Ég met það því við hann, að hann kemur hér í ræðustólinn og ræðir það hreinskilnislega og ver sitt atvinnuskipulag, eins og hann telur sig hafa aðstöðu til, og þá í leiðinni auðvitað sig og sína stéttarbræður í atvinnurekendastétt persónulega einnig, ef hann telur, að að þeim hafi verið ódrengilega vegið.

Hann sagði, að ég hefði heldur átt að lofsyngja t.d. hann fyrir þann rekstur, sem hann hefur rekið á Flateyri. Ég hef ekki lastað hann fyrir þann rekstur, sem þar er. Ég hef sagt bara Flateyringum það, að ég óttaðist, að það kynni að koma slíkt eyðutímabil í þeirra atvinnulífi sem komið hefði annars staðar þrátt fyrir álíka blómlegan atvinnurekstur einstaklings og um skeið hefur verið á Flateyri. Það hefur verið blómlegur atvinnurekstur þar að undanförnu í nokkur ár. En ég óttast einmitt, að slík eyða kunni að koma þar, og það er fólkinu dýrt, það er fólkinu þjáningarfullt og það væri áreiðanlega ekki sök fyrst og fremst Einars Sigurðssonar persónulega, það væri sök þess skipulags, sem hann starfar undir og hefur oftrú á. Hann sagði t.d.: Það er ekki sanngjarnt að bera saman samvinnurekstur og einstaklingsrekstur, bæjarrekstur og einstaklingsrekstur eða ríkisrekstur og einstaklingsrekstur. — Samvinnufélögin hafa fólkið, það er rétt. En er það ekki einmitt það, sem sýnir, að það er góður grundvöllur að byggja á að hafa fólkið? Samvinnufélagsskapurinn hefur meiri ítök í fólkinu en einkaatvinnurekandinn hefur í því. Það er kostur. Það er það, sem skapar öryggi. Og ef einkaatvinnurekandinn gæti skilið það, þá mundi hann áreiðanlega telja það sem plús við rekstrarform samvinnufélaganna að styðjast við fólkið. Bæjarfélagið hefur afl fólksins í bæjarfélaginu undir sínu rekstrarformi. Það er styrkur. Þess vegna verða ekki þessar sorglegu eyður eins tíðar undir slíkum rekstri. Það bjargast lengur, þó að á bjáti, einstaklingsgetan brestur fyrr, sem eðlilegt er, og af því skapast hörmungarnar. Og svo er aftur ríkisreksturinn. Hann, eins og tekið er fram í grg. með till. hv. 1. þm. Vestf., stendur lengst, er t.d. fær um að standa undir dýrum fyrirtækjum eins og síldarverksmiðju. Þó að síldin leggist frá um mörg ár, er þá væntanlega geta til, þegar síldin kemur aftur, að setja fyrirtækið í gang. Einstaklingurinn er þrotinn að kröftum, þegar hann er búinn að verða fyrir þessu áfalli árum saman, og megnar það ekki, og þá er kallað á ríkið, og það er sú staðreynd, sem við erum að ræða hér.

Einstaklingsreksturinn verður að berjast á eigin spýtur, sagði hv. 3. þm. Austf. Það er bæði rétt og ekki rétt. Meira að segja hv. 3. þm. Austf. hefur ekki eingöngu barizt á eigin spýtur. Hann hefur fengið ríkisaðstoð. Það er ekkert lastvert reyndar. En hann hefði ekki getað haldið úti sínum togurum, þessum gömlu togurum, sem hann tók að sér að reka og á sóma fyrir, nema með því að fá bátagjaldeyri á þann fisk, sem þessir togarar öfluðu, eins og vélbátar. Það var frá ríkinu, sem hann fékk það. Og hann hefur á fleiri hátt fengið aðstoð frá ríkinu. Þess vegna hefur það blessazt fram á þennan dag.

En við hugsum á margan hátt gerólíkt, hv. 3. þm. Austf. og ég. Hann lítur bara á það sem eðlilegastan hlut af öllu eðlilegu, að Kveldúlfur gæfist upp á Hesteyri og flytti sig til á annan stað, sem var gróðavænlegri. Þetta er alveg eðlilegur hlutur séð frá sjónarmiði einstaklingsframtaksins. Einstaklingsframtakið byggir sinn atvinnurekstur á gróðavon, en ekki á hugmyndinni um þjónustu við fólkið. Og hvað er þá eðlilegra en þeir flytji sig til eftir gróðavoninni? Og í framhaldi af þessu segir hann: Það er ekkert eðlilegra en fólkið flytji sig til með fiskinum, með síldinni, með gróðamöguleikunum. — Það er bara ekki eins auðvelt og segja það, að fátækur maður eigi að taka sig upp frá Siglufirði, frá sínu litla húsi eða frá sínum litlu eignum þar og frá sinni staðfestu, og flytjast allt í einu suður á land eða austur á firði, eftir því sem fiskgöngur eða síldargöngur skapa atvinnumöguleika. Það er ekki þjáningarlaust og ekki auðgert fyrir þá efnaminnstu. Það er auðvelt fyrir auðugan atvinnurekanda að vippa sér til, og hann gerir það auðvitað í gróðavon, aukinni gróðavon, ef hann er að flytja sín fyrirtæki af einum stað á annan.

Ég verð að segja, að það er dálítið kaldranaleg hugsun fésýslumanns, sem kemur fram í þessum orðum hv. 3. þm. Austf. að segja: Fólkið á Hesteyri, fólkið á Látrum og Sæbóli, það er eðlilegt, að það missti þarna atvinnutækin. Ég aumkast ekkert yfir það. Það fór þaðan í burtu, af því að það vildi ekki vera þarna lengur. — Undir hans mannlega svip og yfirbragði hefði ég vænzt að verða var við hlýlegri hugsanir til meðbræðranna en þessi orð hans bera vitni um.

Í lok ræðu sinnar sagði hv. þm., að það gerði gæfumuninn með Austfirðingum og Vestfirðingum, að síldin lægi nú við Austfirði, en ekki við Vestfirði. Jú, jú, það er vissulega gott fyrir Austfirðinga, að síldin skuli hallast þar að núna um nokkur ár, og þá var þeim eðlilega hjálpað til að koma þar upp síldarverksmiðjum. Nú eru til verksmiðjur á Vestfjörðum. Þar hefur síldin legið við land áður, og okkur er kunnugt um sömu reynslu og Norðmenn hafa öðlazt, síldin kemur aftur á sömu slóðir eftir lengri eða skemmri tímabil. Um 1920 lá hún við Vestfirði alveg sérstaklega. Síðan eru um 40 ár, og hún hefur verið að færast núna á vestursvæðið smátt og smátt, Við getum þess vegna búizt við, að það komi sams konar síldargengd við Vestfirði innan fárra ára eins og var 1920, og þá hefur ríkið enga síldarverksmiðju á Vestfjörðum í rekstrarhæfu lagi, aðeins eru þessar tvær verksmiðjur í einstaklingsrekstri, sem þeir orka ekki að hreyfa.

Þetta er ekki góður búskapur. Það þyrfti sannarlega til þess að skapa aukið öryggi í okkar atvinnulífi og til þess að vera betur við því búinn að moka upp síldinni, ef hún leggst að Vestfjörðum, að vera þar ein eða tvær góðar síldarverksmiðjur, sem ríkið ætti og héldi þar við, meðan síldin leggst ekki þar að, en hefði rekstrartilbúna, þegar síldin kæmi á þær slóðir. Og það er einmitt þetta, sem hv. 1. þm. Vestf. kom auga á. Einstaklingarnir, sem eiga þarna verksmiðjur, orka ekki að halda þeim rekstrarhæfum. Þær verða þess vegna, ef þær eru í einstaklingseign, óviðbúnar, órekstrarhæfar, þegar síldin kann að leggjast að Vestfjörðum. Þess vegna þarf ríkið að eiga þarna verksmiðju. Ég er honum alveg hjartanlega sammála um það. Og það er rétt, sem í grg. segir, sé ríkið eigandi að verksmiðjum í öllum landshlutum, má það búast við, að það verði að standa undir óhreyfðri verksmiðju á þessum eða hinum staðnum. En ekkert er eðlilegra. Þetta er gjaldeyrisöflun fyrir þjóðfélagið, þetta er sameiginlegt starf fyrir skipshöfnina á þessum eina báti, sem hv. 3. þm. Austf. var einmitt að tala um, þó að tekinn sé toppurinn af gróðanum á öðrum verksmiðjum, þar sem síldin leggst fastast að, til þess að skapa öryggi í öðrum landshluta. Við erum eitt samfélag, og það er eðlilegt, að ríkið geri þetta, en ekki einstaklingar, og þetta er ríkið líklegt til þess að geta, en alveg víst, að einstaklingarnir geta það ekki, jafnvel ekki þeir allra ríkustu.

Ég sé nú ekki ástæðu til að segja miklu meira. Ég hef í þessari minni seinni ræðu enn undirstrikað það, að ég er algerlega fylgjandi framkominni till. og tel, að hún byggist á mikilli þörf fólksins í Vestfjarðakjördæmi, tel, að ríkið komi þar eitt til greina að eiga verksmiðju, sem e.t.v. þyrfti að halda órekinni í nokkur ár enn, en gæti líka gefið þjóðarbúinu miklar tekjur, sem annars nýttust ekki, ef síldin eftir 40–50 ára fjarveru kæmi aftur að Vestfjörðum, síldin notaðist ekki, nema þar væri verksmiðja rekstrarhæf.

Ef hæstv. forseti væri ekki orðinn svona áþolinmóður, gæti ég farið mjög lofsamlegum orðum um marga einstaklingsatvinnurekendur og mundi þá aðallega lofprísa þá, þegar skilyrðin eru þeim hagkvæm og allt blómgaðist, því að það gerir það annað veifið hjá þeim, en það er eins og í sorglegri sögu, svo koma eyðurnar og svo koma skuggalegu tímabilin, þegar gallar einstaklingsrekstrarskipulagsins bitna á fólkinu sjálfu með margfalt meiri þunga og alvarlegar en á atvinnurekendunum sjálfum, jafnvel þó að þeir stundum fari þráðbeint á hausinn.