27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (2614)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur rætt þetta mál allýtarlega og m.a. sent till. til umsagnar Fiskifélags Íslands, stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, hreppsnefndar Árneshrepps í Strandasýslu og eigenda síldarverksmiðjanna á Djúpuvík og Ingólfsfirði. Allir þessir aðilar, sem nefndin leitaði umsagnar hjá um till., hafa mælt með því, að hún yrði samþykkt.

Nefndin hefur aðeins lagt til, að tvær smávægilegar breytingar yrðu á till. gerðar. Hin fyrri er sú, að inn í till. yrði bætt, að Alþingi skoraði á ríkisstj. að láta fram fara athugun á því fyrir næstu síldarvertíð, hvernig stuðla mætti að starfrækslu umræddra síldarverksmiðja: Í öðru lagi leggur n. til, að sú breyting verði gerð á till., að athugunin á því, hvar heppilegast sé að koma upp síldarverksmiðjum og feitfisksbræðslum, verði ekki að eins látin ná til Vestfjarða, heldur verði almennt orðuð.

Þessar breytingar á till. eru ekki miklar efnisbreytingar, og ég sé ekki ástæðu til þess að fara um hana frekari orðum. Ég gerði ýtarlega grein fyrir nauðsyn þessa máls í framsögu við fyrri umr. þess og leyfi mér að vísa til ummæla minna og fleiri, sem mæltu með till. þá, sem rökstuðnings fyrir málinu.

Að svo mæltu vil ég endurtaka, að hv. allshn. leggur til, að till. verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum, en einn nm. hefur skrifað undir nál. með fyrirvara.