27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2615)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um og kemur fram í nál. hv. allshn. á þskj. 469, hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Hefði kannske verið eðlilegra, að ég hefði skilað sérstöku nál. En ég vil taka það fram, að ég er ekki að neinu leyti að setja fót fyrir það, að það væri athugað, með hverjum hætti væri unnt að koma á vinnslu sjávarafurða á Vestfjörðum, og þá tel ég þar með Ísafjarðardjúp, eins og fram er tekið í þessari till. Það er aðalatriði þessa máls. Hins vegar verð ég að segja það, að ég tel, að það hafi ekki mikla þýðingu að fara að leggja í kostnað við það að gera síldarbræðslur á norðurströndum, Djúpuvík og Ingólfsfirði, starfhæfar, meðan svo stendur eins og hefur verið s.l. 13 ár, að ný og vönduð síldarverksmiðja, sem er á Skagaströnd, hefur aldrei haft nægilegt verkefni vegna skorts á hráefni, og jafnvel þegar svo langt er gengið, að hv. síldarbræðslustjórn leyfir sér að fara að rífa úr þessari verksmiðju dýrmæta síldarpressu og flytja hana burt, eins og sannað er að hún hefur gert og ég vil halda, að sú nefnd hafi ekki haft nokkra heimild til að gera, því að ég hef vissu fyrir því, að það er ekki gert með leyfi hæstv. sjútvmrh.

Við vitum, að á þessu svæði, sem nú tilheyrir Vestfjarðakjördæmi, störfuðu á tímabili 4 síldarverksmiðjur: á Sólbakka, Hesteyri, Djúpuvík og Ingólfsfirði. Allar þessar verksmiðjur hafa hætt störfum fyrir löngu vegna skorts á hráefni. Og eins og tekið er fram í grg. fyrir till., er búið að rífa verksmiðjurnar á Hesteyri og Sólbakka fyrir löngu. Hinar hafa ekki verið rifnar, en eru alveg óstarfhæfar og hafa ekki verið starfræktar, vegna þess að þær höfðu enga möguleika vegna hráefnisskorts á undanförnum árum, þar sem síldveiði hefur alveg brugðizt á Húnaflóa á þessu tímabili, þangað til helzt á síðasta sumri.

Ég vildi taka þetta fram, að ég skrifa undir þetta nál. með þeim fyrirvara, að ég ætlast ekki til þess, að það verði farið að leggja í mikinn kostnað við þessar tvær verksmiðjur, á meðan það er alveg víst, eins og verið hefur, að það er hægt að taka á móti þeirri síld, sem þarna er um að ræða, í þá verksmiðju, sem nú er starfhæf og starfandi á Skagaströnd.