06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (2623)

79. mál, hagnýting síldaraflans

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja fáein orð í sambandi við þessa þáltill. Hér er vissulega um merkilegt mál að ræða, sem ég geri ráð fyrir að allir séu sammála um að tæplega megi bíða lengur raunhæfra aðgerða og úrlausnar, því að segja má, að nýting okkar á síldaraflanum sé enn á frumstiginu, og við höfum ekki efni á því að halda að okkur höndum eða láta lengur reka á reiðanum í þessu efni. Ég tel ekki ástæðu til að fara út í hin almennu atriði málsins, því að hv. frsm. hefur gert þeim góð skil. En ég vil til athugunar fyrir hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, vekja athygli á atriðum, sem skipta miklu máli í sambandi við síldariðnaðinn.

Það er staðreynd, að við vinnslu síldarmjöls og lýsis fer allt að 30% af þurrefni síldarinnar forgörðum. Þetta er ekki nein ný uppgötvun, en samt eru t.d. síldarverksmiðjur ríkisins, sem elztar eru í starfi á þessu sviði, nú fyrst á síðustu árum að afla sér svokallaðra soðkjarnatækja til þess að fullnýta þurrefni síldarinnar. Aðrar síldarverksmiðjur, sem hafa risið upp á síðustu árum, hafa ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í þessar framkvæmdir, þótt þær hafi sífellt reynt að fá fé til þeirra.

Þess verður að geta, að þær lánsstofnanir, sem til hefur verið leitað, virðast hafa gert sér ljósa hina þjóðhagslegu nauðsyn að láta ekki lengur 30% af þurrefni síldarinnar í vinnslu fara ár eftir ár forgörðum, en þessar lánsstofnanir hafa ýmist talið sig ekki hafa neitt fjármagn og því talið sig vanmegnugar þess að láta fé til þessara framkvæmda eða þá aðrar svo litið, að í raun og veru hefur ekki verið um að ræða, að málið leystist á þann hátt eða með þeirra aðstoð einni.

Ég á í mínum fórum rekstrar- og stofnkostnaðaráætlun fyrir soðkjarnatæki í verksmiðju, sem getur afkastað um 2500–3000 málum á sólarhring, Sú verksmiðja tók s.l. sumar á móti tæplega 140 þús. málum síldar og fékk um 3000 tonn af síldarmjöli úr þeirri síld. En ef fyrir hendi hefðu verið soðvinnslutæki, þá hefði verksmiðja þessi fengið í viðbót milli 9 og 10 hundruð tonn af síldarmjöli, en þessi fram undir 10 hundruð tonn af mjöli runnu s.l. sumar í sjóinn, og sama hefur skeð hjá flestum eða öllum síldarvinnsluverksmiðjum til þessa dags.

Miðað við verðlag s.l. árs, var gert ráð fyrir, að tækin með nauðsynlegum breytingum og viðaukum á verksmiðjunni í sambandi við tækin mundu kosta allt að 3½ millj. kr., og miðað við síldarmjölsverð, t.d. síðastliðið haust, hefði það síldarmjöl, fram undir 1000 tonn, selst fyrir nálega 4½ millj. kr., en aukinn rekstrarkostnaður vegna soðvinnslunnar mundi hafa numið um 2 millj. og brúttóhagnaðurinn því orðið um 2½ milljón, eða um 5/7 af stofnkostnaði, — á einu ári um 5/7 af stofnkostnaðinum. Vegna verðlagsbreytinga í sambandi við stofnkostnað og eins ef til vill í sambandi við verðfall á síldarmjöli má gera ráð fyrir, að þetta dæmi sé nú ekki algerlega raunhæft og verði ekki eins glæsileg útkoma og var s.l. ár, ef nú ætti í þetta fyrirtæki að ráðast. En það má segja. að fyrr má nú vera en hægt sé á minna en tveimur árum að borga upp svona vinnslutæki.

Aðrar þjóðir, t.d. Norðmenn, munu ekki láta eina einustu síldarverksmiðju sína vanta svona tæki, en við höfum horft upp á það, eins og ég hef getið um, ár frá ári, að fram undir þriðjungur af þurrefni síldarinnar hefur farið í sjóinn.

Ég geri ráð fyrir, að það verði ekki mikil breyting í þessum efnum, nema það opinbera komi til, þetta er stærra verkefni fyrir hverja og eina verksmiðju en hún ræður við fjárhagslega án aðstoðar. Ég er hér ekki að tala um fjárhagslegt framlag, heldur aðstoð ríkisvaldsins í, að lánsstofnanir þjóðarinnar láni fé til þess að koma svona tækjum upp.

Ég vil því vænta þess, að sú hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, skoði rækilega þessa hliðsíldariðnaðarins, um leið og hún væntanlega tekur undir málflutning flytjenda þessarar þáltill., að reyna að bæta og verðauka síldaraflann með fullkomnari og betri meðferð til matvælagerðar en verið hefur. En síldarverksmiðjuvinnslan verður áfram í gildi, því þó að við tækjum nú rögg á okkur og reyndum að bæta vinnubrögð okkar í því efni að nýta betur og fullkomna matvælavinnslu í sambandi við síldveiðarnar, þá er vitanlega aldrei nema einhver hluti af síldaraflanum, sem kemur þannig að landi, að hann verði nothæfur til matvælagerðar eða matvælavinnslu,

Það er í raun og veru líka annað mál, sem er ástæða til að minnast á, þó að ég geti ekki dæmt um það, hvort það mál er í dag raunhæft, og það er síldarherzluverksmiðja.

Ég hef ekki kunnugleika, hef ekki kynnt mér það, hvort okkar lýsisframleiðsla er nægilega mikil til þess, að lýsisherzluverksmiðja geti grundvallazt á vinnslu þess magns. En það er sannarlega ömurleg staðreynd að geta ekki selt okkar mikla og góða lýsi, hvort sem það er síldarlýsi eða aðrar lýsistegundir, öðruvísi en sem hráefni, að þurfa að selja það sem hráefni til jafnvel keppinauta okkar, sem þá ráða algerlega verðinu, í staðinn fyrir það, að ef hægt væri að herða lýsið, sem kallað er, þá mundum við hafa miklu öruggari og víðari markað fyrir þessa ágætu og verðmiklu vöru.

Ég vildi nota tækifærið og skjóta þessum atriðum fram til athugunar fyrir þá nefnd, sem væntanlega fær málið til meðferðar.