14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

88. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er nú raunar ekki álitlegt að ætla sér að taka hér til máls og andmæla þeirri stefnu, sem stjórnarflokkarnir fylgja í efnahagsmálum, eftir það að einn hinn prúðasti út liði þeirra hefur talið, að andmæli jaðri við geðbilun. (ÓB: Nei, það er misskilningur.) Ekki var nú hægt að skilja þetta á aðra leið, þó að fínt væri í sakirnar farið. Ekki undanskildi hann það, sem menn yfirleitt setja út á efnahagsmálastefnuna, þó að hann talaði fyrst og fremst til fjarstaddra, þar sem var „Frjáls þjóð“.

Þetta stjórnarfrv., sem hér er til umræðu, ber nafnið: frv. til laga um söluskatt, en ætti, ef rétt væri að orði komizt, heldur að heita frv. til laga um söluskatta, því að það er um tvo söluskatta, sem skulu á leggjast og koma báðir, sinn í hvoru lagi, á erlendu vöruna. Með þessum sköttum er til ofanálags á gengisfellingu, vaxtahækkun o.fl., sem búið er að gera, verið að misþyrma efnahagslífinu. Vitað er raunar, í hvaða tilgangi það er gert. En hvers vegna er verið að misbjóða lögmálum tungunnar líka? Sennilega er það gert til að láta svo lítið sem hægt er á sköttunum bera, enda var sagt frá frv. í almennri útvarpsfrétt í gær sem frv. um 3% almennan söluskatt og ekki meira. Þannig tókst að fela hálfan sannleikann fyrir eyrum alþjóðar í það sinn: Þessi aðferð minnir á. aðferð hestaprangarans, sem sagði, þegar hann var spurður um aldur á hesti, sem hann var að selja: „O níu og níu vetra er hann.“ Kaupandinn skildi þetta þannig, að klárinn væri níu vetra. En hann var tvisvar sinnum níu vetra, nefnilega átján vetra. Vill nú ekki hæstv. forseti leiðrétta stílinn hjá stjórn sinni og úrskurða mildilega, að um pennaglöp hljóti að vera að ræða, af því að eintala geti ekki í þessu sambandi réttilega verið fleirtala né fleirtala eintala?

En fyrirsögn frv. er vitanlega í fullu samræmi við það; að þegar verið var að ræða gengisfellingarfrv. og innihald þess, var gert ráð fyrir nýjum almennum söluskatti á lágri prósentu, og í aths., sem fylgja frv. því til fjárlaga fyrir 1960, sem hæstv. fjmrh. samdi, um leið og hann reif niður áður samið frv. samráðherra síns úr Alþfl., er beinlínis og skýrt tekið fram, að það sé ekki ætlunin að breyta núverandi söluskatti á innflutningi. Þau orð, einmitt þau orð voru fólki til einhverrar hughreystingar, meðan verið var að koma gengisfellingarfrv. mikla í gegn.

En nú er þetta frv. um söluskatt, þegar til kemur, ekki aðeins um almennan söluskatt, eins og boðað hafði verið og menn gerðu ráð fyrir að það yrði, 3%, heldur líka hækkun um 8.8% á söluskatti á tollverði allrar innfluttrar vöru, að viðbættum innflutningsgjöldum, og það er meira en tvöföldun á þeim skatti. Í stað 7.7% á hann nú að verða 16.5%. Að vísu er hækkunin í bráðabirgðaákvæði, sem miðað er við yfirstandandi ár. En hverjum dettur í hug, að ríkisstj. láti ákvæðið falla niður að árslokum? Enginn lætur sér í alvöru detta annað í hug en að skattaukinn verði framlengdur.

Ýmsar getur hafa verið að því leiddar, hvers vegna ríkisstj. gaf yfirlýsinguna í grg. fjárlagafrv. um, að hún ætlaði ekki að hækka innflutningsskattinn. Því er haldið fram af mörgum, að hagfræðingarnir og stjórnin sjálf hafi reiknað skakkt. Hv. frsm. meiri hl. eyddi í það allmörgum orðum að sverja þetta af hagfræðingunum, sverja fyrir barnið, má segja eftir ræðu hans. Auðvitað getur engin blóðprófun farið fram í þessu sambandi, og ég ætla ekki að gera kröfu til hennar. En það finnst á með þessu, að ríkisstj. þykir hin mesta vanvirða að því, að þetta skuli hafa komið fyrir, og ég lái henni það ekki.

Hæstv. fjmrh. reyndi í framsöguræðu fyrir frv. að tína fram ýmislegt til að sanna, að dæmið hefði ekki verið skakkt reiknað, og það gerði frsm. meiri hl. líka. En það, sem þeir segja um þetta og telja fram að sýni, að dæmið hafi ekki ver;ið rangreiknað í vetur, er þannig, að ef útkoman stafar ekki af röngum reikningi, er niðurstaðan af því, að dæmið hefur alls ekki verið reiknað fyrr en núna, heldur farið eftir ágizkun. Þetta er hluti af stóru efnahagsmáladæmi hæstv. ríkisstj. Það eykur náttúrlega grunsemdir um, að ekki megi taka mark á útreikningunum í heild og þá ekki heldur ályktununum, sem stjórnarflokkarnir draga af útreikningum sínum. Hitt er líka sannarlega ámælisvert og óhæfa frá hendi hæstv. ríkisstj., að reikna ekki öll dæmin samtímis í hinu mikla kerfi, að leggja ekki fyrir Alþingi samtímis í frv. eða með greinilegum, sönnum upplýsingum allar aðalefnahagsmálatillögur sínar, af því að þær eru svo byltingarkenndar sem þær eru, þær eru svo stórar í sniðum. Þær eru hver um sig liður í kerfi, sem þarf að vera hægt að fá yfirlit yfir við lagasetninguna, um leið og hún fer fram, en ekki nóg að fá það yfirlit eftir á. Þetta er óumdeilanlegt. Og þess vegna er það, að frá mínu sjónarmiði skiptir það furðulitlu máli, hvort skakkt hefur verið reiknað eða hvort ekki hefur verið reiknað; annað hvort þetta hefur átt sér stað.

Það má segja, að frá sjónarmiði stjórnarflokkanna skipti það kannske ekki miklu máli, hvernig málin eru lögð fyrir, af því að þeir virðast ráðnir í því að taka engar hrtt. frá stjórnarandstöðunni til greina. En jafnvel þótt svo sé, mætti ætla og væri sanngjarnt að ætla, að ýmsir í stjórnarliðinu hefðu gott af því að fá heildaryfirlitið fyrr en eftir á. Ég er viss um, að til eru menn, sem varla geta verið ánægðir með það, að búið var að lýsa því yfir, að ekki væri ætlunin að hækka söluskatt af innflutningi, en samt er hann meira en tvöfaldaður. Ég skora á þá menn í stjórnarliðinu að gjalda varhug við svona vinnubrögðum liðsoddanna og hindra, að þau eigi sér stað eftirleiðis.

Fjhn. las frv. yfir, svo sem skylt var, og fékk til viðtals við sig menn, sem höfðu sem embættismenn þjónað ríkisstj. við að semja það og gera útreikninga í sambandi við það. Þessir menn gáfu okkur nm. ýmsar upplýsingar. Venjulegt er, þegar um frv. er að ræða sem þetta, að senda þau til umsagnar fyrirtækjum og félagssamtökum, sem telja má að þau varði sérstaklega, en það var neitað um að hafa þann hátt á að þessu sinni. Að vísu neitaði meiri hl. n. því ekki ákveðið, fyrr en hann hafði spurt einhverja yfirboðara, en þá kom fullkomin neitun. Til þess var í þessu sambandi vitnað, að frv. hefði, meðan það var í smiðum, verið sent til umsagnar. Hæstv. fjmrh. hafði líka sagt frá þeim útsendingum og hverjum hefði sent verið, þegar hann talaði við 1. umr, málsins. Við í minni hl. óskuðum eftir því að fá að sjá umsagnirnar. Jú, fram voru lagðar þrjár umsagnir, en ráðh. hafði ekki látið formanni n. fleiri í té. Þær voru, að mig minnir, frá verzlunarráðinu, frá Landssambandi iðnaðarmanna og frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Félagi íslenzkra iðnrekenda saman. Ég óska, að það sé gerð athugasemd fram í, ef þetta er rangt. Nokkrar athugasemdir komu fram í þessum erindum. Sumar af þeim höfðu verið teknar til greina, áður en gengið var frá frv. En ekkert kom fram frá tveimur, sem hæstv. fjmrh. sagði að látnir hefðu verið fá frv. eða frumvarpsuppkastið til umsagnar, áður en gengið var frá því. Það voru, að ég hygg, Kaupmannasamtök Íslands og Samband íslenzkra samvinnufélaga.

Ég spurðist fyrir um það, eftir að fundum hafði verið lokið hjá okkur, — fyrr var ekki ráðrúm til þess, því að þessi erindi voru athuguð á seinni fundi okkar, — þá spurðist ég fyrir um það hjá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, hverju sætti, að það hefði ekki skilað áliti um frv. Mér barst svar á þessa leið:

„Að gefnu tilefni viljum vér upplýsa: Hinn 3. marz bárust oss í hendur frá fjmrn. drög að frv. um söluskatt. Á bréfspjaldi, er fylgdi, stóð eftirfarandi: „Samkv. viðtali við fjmrh. eru yður hér með send til athugunar sem trúnaðarmál drög að frv. um söluskatt.“ Þar sem þetta var sent sem trúnaðarmál til athugunar, töldum vér ekki rétt á því stigi að senda skriflegar aths. eða álitsgerð til hæstv. fjmrh., enda var ekki farið fram á slíkt.“

Á þessu heyrir maður, hvernig á því stóð, að Samband íslenzkra samvinnufélaga sagði ekki sitt álit, og satt að segja finnst mér það ekkert undarlegt eftir því, hvernig málinu hafði til þess verið víkið. Ég tel, að sending frv. til Sambandsins hafi verið mjög óformleg og óvenjuleg og aðeins til málamynda, að hæstv. ráðh. sendi það, — aðeins til málamynda, það er augljóst. Um Kaupmannasamtök Íslands veit ég ekkert, ég hef ekki spurzt þar fyrir. En þetta sýnir, að ekki hefur verið fylgt venju með að vinna að þessu frv., hvorki hefur það verið gert utan Alþingis né enn þá í Alþingi.

Hinn almenni söluskattur, 3%, á að leggjast á vörur, bæði erlendar og innlendar, á síðasta sölustigi þeirra, og hann á einnig að leggjast á vinnu og þjónustu á síðasta stigi viðskipta. Þetta er mjög víðtækur skattur og verður erfiður í framkvæmd. Til viðbótar þeim álögum, sem áður hafa verið ákveðnar, verður hann réttnefnd plága. Nú sagði hv. frsm. meiri hl. áðan, og það er í samræmi við það, sem t.d. hæstv. fjmrh. sagði í framsöguræðu sinni, að hér væri ekki um nýjan skatt að ræða, heldur tilfærslu á álögum. Honum taldist til, að lagður yrði niður skattur sá, sem áður var og gekk að mestu til útflutningssjóðs, enn fremur yrði lækkaður tekjuskattur, og svo væri ákveðið, að partur af söluskattinum gengi til sveitarfélaganna. Mér virðist, að þetta, sem hér er fram talið, t.d. tvennt hið fyrra, sé yfirleitt það, sem notað er, þegar stjórnarflokkarnir eru að reyna að réttlæta sínar stórkostlegu nýju álögur. Allar eiga þær að réttlætast af þessu sama, þetta á að mæta þeim. En úr því að útflutningssjóður er lagður niður og tekjuöflun hans er að miklu leyti flutt til ríkissjóðs og vitanlega flutt útgjöld með, þar sem eru niðurgreiðslurnar, þá vil ég spyrja: Hvað er það, sem kemur á móti hinni miklu gengisfellingu? Yfirleitt munu menn hafa haldið, að þegar gengið yrði fellt, væri hægt að létta af þjóðinni mikilli tekjuöflun, sem höfð var í frammi til þess að jafna gengið.

Með þessum söluskatti er í fyrsta sinn í sögu landsins tekið upp að skattleggja handa ríkissjóði vörur, sem þjóðin framleiðir sér til matar: kjötið, fiskinn (nefnilega soðninguna), mjólkurvörur nema nýmjólk. Grænmeti á líka að skattleggja, það á að skattleggja rafmagn og vatn frá hitaveitum o.s.frv., gjafir á meira að segja að skattleggja. Ég veit ekki, hvort á að undanþiggja jólagjafir, ég veit það ekki. Það er sagt, að ýmislegt liggi á bak við þetta frv. í væntanlegum reglugerðum, og það var sagt um aths., sem við vorum að gera í nefndinni, sumar hverjar, að þær þyrfti ekki að gera sem leiðréttingar á lögunum, því að það mundi verða tekið tillit til þessa í reglugerð. En þarna stendur það samt óskilgreint, að gjafir séu skattskyldar. Þarna er á ferðinni frá mínu sjónarmiði svo mikil skattgræðgi, að ég leyfði mér í nál. mínu, sem er á þskj. 176, að segja, að hæstv. ríkisstjórn, sem tekur upp þessa skattgræðgisstefnu, gerði sig með henni líka Þorsteini sáluga matgoggi, sem hið kynsæla skáld, Jón Thoroddsen, segir frá í sögunni Pilti og stúlku. Það var veizla, brúðkaupsveizla. Þorsteinn matgoggur sat úti við dyr. Fyrst gleypti hann í sig vel mældar tíu merkur af graut, því næst tæmdi hann stórt trog, fullt af kjöti, og flæddi feitin yfir barmana eins og stórstraumsflóð á fjöru. Eftir það tók hann toll af hverjum diski, sem inn var borinn. „Hver lummudiskur,“ sagði hann, „er fram hjá fer, skal gjalda sex bleðla með sírópi og sykur á. Það er lagaleiga hjá kaupmönnum,“ sagði hann. Nú á þetta að verða lagaleiga hjá hæstv. ríkisstj. Vel má segja, að grautarskálin svari til fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. Efnahagsmálafrv. er kjöttrogið mikla, sem út af flýtur, og svo er þetta söluskattsfrv. tolltakan af hverjum diski. Auðvitað þurfti Þorsteinn matgoggur ekki þennan mikla mat sér til viðurværis, en hann át samt og át sér til óbóta. Það þurfti að styðja hann til hvílu. Engar sannanir eru heldur fyrir því, að ríkisstj. þurfi allar þessar nýju álögur, hvort sem þær eru viðurkenndar sem nýjar eða kallaðar til hljómfegurðar tilfærslur.

Hæstv. forsrh. sagði í nóvember á Varðarfundi, svo sem landskunnugt er, og endurtók það í áramótaávarpi sínu, að ef ekki yrði tekin upp ný stefna í efnahagsmálum, mundi þurfa 250 millj, á ári í nýjum sköttum. Nú var tekin upp ný stefna, og þá er tekið miklu meira. M.ö.o.: það er hafður háttur Þorsteins matgoggs að taka meira en þörf er á til viðurværis. Álögur á þjóðina á að auka um meira en 1100 milljónir, eins og sannað hefur verið. Söluskatturinn nýi gerir meira en forsrh. sagði að hann þyrfti, hann gerir það út af fyrir sig.

Aðstoðarmenn ríkisstj., sem komu á fund fjhn.; upplýstu, að 3% söluskatturinn gerði á ári yfir 170 millj. og skattaukinn, 8.8% á innflutninginn, 180 millj., eða samtals fælist í þessu frv. skattur yfir 350 millj. á ári: Þó að dregið sé frá tekjuöfluninni það, sem telja má til tilslökunar á móti, er ekki með nokkrum hætti hægt að samrýma útkomuna upplýsingum forsrh.

Allt ber að sama brunni, álögurnar eru harkalegar úr hófi fram. Með þeim í heild er safnað glóðum elds að höfði almennings. Þessir söluskattar í ofanálag, — ég segi í ofanálag á það, sem á undan er komið, eru skattpíning. Þeir valda stórfelldri dýrtíðaraukningu. Enn fremur er almenni söluskatturinn mikill gallagripur og hlýtur að vekja mikla gremju, ekki sízt þegar vitað er, að komast hefði mátt hjá að bæta honum við. Hann er fyrirhafnarsamur, innheimtan. er lögð á alla seljendur hinnar skattskyldu vöru, skriffinnskan hjá þeim vex óhjákvæmilega í stórum stíl. Eftirlit og umsjón af ríkisins hálfu verður kostnaðarsamt og skriffinnskan þar blómgast. En svo kemur það til, að ekkert eftirlit dugir, skatturinn næst ekki allur nema hjá sumum. Almenningur greiðir skattinn, þegar kaup eru gerð, en seljendur smeygja sér hjá að skila honum öllum til ríkisins, þ.e.a.s. þeir seljendur, sem geta það og eru þannig gerðir, að þeir vilja mata sinn krók. Það er rétt, sem sagt var hér við 1. umr., að þessi skattur er skattur á heiðarleikann fyrst: og fremst.

Það er raumar kaldhæðnislegt, að flokkur, sem hafði og hefur lýst því yfir hvað eftir annað, að það verði að leggja niður tekjuskatt, helzt allan, vegna þess að ekki takist að ná honum inn og það eigi sér stað svo mikill óheiðarleiki í sambandi við hann og valdi misrétti, skuli nú standa fyrir því aftur á móti að leggja á þennan skatt, hinn almenna söluskatt, sem reymsla er fyrir að er skatta afsleppastur.

Í fljótu bragði séð er sólskinsblettur í þessu frv. Það er ákvæðið um, að 20% af sköttunum, sem þar er ákveðið að taka, skuli renna til sveitarfélaganna. Ég tel rétt, að söluskattur gangi til sveitarfélaganna að nokkru leyti. Ég hef verið þeirrar skoðunar áður og stutt það mál í n., sem um þetta fjallaði, og lagt fram till. um það á Alþingi. Ég tel, að þarna sé algerlega rétt stefnt. En þrátt fyrir það er það svo, að ég tel ekki hægt að greiða frv. atkv. vegna þessa ákvæðis. Fyrst er, að það er ákveðið þarna, að þessi hluti, fimmtungurinn, skuli renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og skiptast þar. En ekkert er upplýst um það og ekkert hefur fengizt upplýst um það, eftir hvaða skiptireglum eigi að deila þessum skatthluta milli sveitarfélaganna. Ef það ætti að vera eftir þeim l., sem nú gilda um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, teldi ég það hina mestu fjarstæðu og ekki koma til mála að samþykkja skattinn og tilfærsluna þannig. Og svo kemur annað til, að skattheimtan öll er svo hörð, að ég teldi það of dýru verði keypt fyrir sveitarfélögin að fá hluta af slíkum álögum. Það mundi koma í bakseglin. Heima fyrir skerða slíkir skattar svo lífskjör almennings, að ég tel ekki. koma til mála fyrir sveitarfélögin að óska eftir því að fá skatt undir þessum kringumstæðum.

Ég er þannig stemmdur, þó að hv. frsm. meiri hl. kunni að þykja það grunsamlega sjúklegt, að mér virðast álögur þær, sem stofnað hefur verið til af stjórnarflokkunum, vera svo miklar, að vel væri hægt að láta sveitarfélögin hafa væna fúlgu af þeim söluskatti, sem áreiðanlega kemur án þessarar lagasetningar í ríkissjóðinn, ef vilji væri verulegur fyrir hendi. En það er ekki ávinningur fyrir sveitarfélögin að taka þátt í að steypa dýrtíðarflóði yfir fólkið í landinu, þó að þau fái einhvern hluta af því, sem inn er kallað svo freklega.

Allt þetta finnst vafalaust hv. frsm. meiri hl. öfgar og sennilega mörgum í stjórnarflokkunum. En við skulum athuga það svolítið nánar. Auðvitað hafa öfgar stundum verið til í stjórnarandstöðu, því er ekki að neita. Ekki þótti hún t.d. sérstaklega heiðarleg, stjórnarandstaðan, þegar vinstri stjórnin sat að völdum. En það þætti mér illt, ef ég tæki þátt í svipaðri stjórnarandstöðu, það vil ég ekki gera.

Og þá skulum við athuga, hvort það í raun og veru eru líkur til, að þessi nýja stjórnarstefna hafi í för með sér þann samdrátt og hnignun í þjóðfélaginu, sem stjórnarandstaðan spáir nú. Er nokkur vottur þess kominn fram? Vitanlegt er, að efnahagsmálaaðgerðirnar eru ekki enn komnar yfir menn með þunga sínum, það er langt frá því. Þunginn leggst á fólkið á næstu vikum og mánuðum, en það er ekki farið að finna til hans að nokkru ráði enn í þeim mæli, sem verður, og þó er það farið að finna til hans.

Ég stend í allnánu sambandi við ýmsa menn í mínu kjördæmi, og ég verð þess var, að þeir eru farnir að finna til þess, að það er farið að drjúpa yfir þá ýringur frá þessari stefnu, þó að demban sé ekki enn þá skollin á, þó að veðráttuskiptin séu ekki enn orðin eins og þau verða.

„Blómin sín jarða daprir dalir,

það dregur násúg um skaga og vík,“

segir Einar Benediktsson í kvæðinu „Hafísinn“. Og satt að segja er hér svipað á ferð og hafís á vori. Menn eru farnir að finna gustinn, súginn um skaga og vík og dali. Og um land allt eru að breytast ákvarðanir manna um framfaraathafnir og búsetu. Fyrir þessum orðum mínum vil ég færa sannanir, sem eru sannanir úr mínu eigin kjördæmi, en fréttir hef ég samhljóða hvaðanæva svo að segja af landinu. Ég fæ allmikið af bréfum að norðan. Ég ætla að lesa hér upp stutta kafla úr 3 bréfum, sem ég er nýlega búinn að fá.

Fyrsta bréfið, sem ég ætla að lesa upp úr, er frá bónda í kjördæminu. Það er ungur bóndi. Hann tók fyrir 3 árum ásamt ungri konu sinni jörð, sem ríkið átti og hafði verið í eyði um stund og komin í niðurníðslu. Jörðin var vel í sveit sett, en sem sagt, hún þurfti mikilla endurbóta við, og hjónin hófust handa. Það var byggt fjós á bænum, það voru hresst við fjárhúsin, það var hafin bygging á íbúðarhúsi, og túnið hefur verið stórlega stækkað. Fyrir allt þetta hafa hjónin stofnað til allmikilla skulda og þurfa áfram á lánsfé að halda, því að íbúðarhúsið er ekki komið upp, og það liggur fleira fyrir að gera. Nú skrifar þessi maður mér, en hann hefur áður staðið í sambandi við mig með þessar athafnir sinar, sem sjálfsagt er ekkert sérstakt, því að svo mun vera um marga, að þeir létta til þm. með ýmiss konar fyrirgreiðslur, þegar þeir þurfa á lánsfé að halda. Hann segir:

„Nú er hins vegar fram komið það versta; sem maður í mínum sporum gat fengið framan í sig. Á ég þar við hinar svokölluðu nýju efnahagsráðstafanir. Við þessu var ekki nema eitt að gera fyrir mig. Ég hef nú sagt jörðinni lausri frá næstu fardögum að telja, hefði betur aldrei reynt þetta, fyrst búið er svo að frumbýlingum á voru landi, að engin leið er að komast yfir örðugasta hjallann.“

Þannig verka nú aðgerðirnar á þessum stað. Þetta bréf er dags. 22. febr.

Þá fékk ég annað bréf, sem er dags. 28. febr. Það var frá manni, sem er bóndi, en hefur líka stundað byggingarvinnu, er ágætur smiður og hefur aðstoðað sveitunga sína við að koma upp húsakosti á jörðum þeirra. Hann hafði í vetur snúið sér til Búnaðarbankans fyrir ungan mann í sveit sinni, sem þannig stóð á fyrir, að foreldrar hans vilja fara að hætta búskap, enda önnur börn komin að heiman. Það er óbyggt upp íbúðarhús á jörðinni, gamalt og óhæft til frambúðar, og þessi piltur er nú að festa ráð sitt og vill gjarnan taka við jörðinni af foreldrum sínum, byggja hana upp og búa þar áfram. Það er tvíbýli á þessari jörð, og mótbýlingarnir eru gömul hjón, börn þeirra eru öll farin að heiman, og þau styðjast við búskapinn á hinum helmingnum. Bær er rétt hjá, túnin liggja saman. Þar býr líka gamalt fólk, og þess vegna er það, að ef ekki tekst, að þessi ungi maður taki þarna við, eru mestar líkur til, að þessi 3 býli, þ.e.a.s. tvíbýlisjörðin og einbýlisjörðin rétt hjá, fari í eyði.

Búnaðarbankinn var búinn að samþykkja teikningu af húsbyggingu og allt var í góðu gengi, þangað til fréttirnar komu um efnahagsaðgerðirnar. Þá kemur það upp úr dúrnum, að ungi maðurinn treystir sér ekki til þess að ráðast í fyrirtækið, að byggja upp jörðina og taka þar til að búa. Og bréfritarinn, smiðurinn, vinur hans, segir:

„En hvað skal segja? Ráðstafanir ríkisstj. þeirrar, sem nú situr að völdum, virðast allar miða að því að setja hnífinn á kverkar þeirra, sem vilja sporna við því, að Íslandsbyggð minnki og færist á mölina. Hvað á fólkið að gera, ef það getur ekki byggt yfir höfuð sér eða ræktað og nýtt þá jörð, sem það hefur erjað og annazt? Kemur ekki að því, að fleiri og fleiri jarðir standi auðar og ónýttar? Og þegar slík öfugþróun er komin, fylgir þá ekki annað verra, týnast þá ekki ýmis þjóðleg verðmæti og með þeim ástin til landsins okkar, sem biður eftir aðhlynningu fleiri handa til að skapa meiri verðmæti, fegurra land og meira og betra brauð? Er ekki hætta á, að tungan tapist, ef byggðir dragast saman? Og ef tungan tapast, hvað verður þá langt í það; að við töpum sjálfum okkur, sjálfstæði okkar?“

Þetta var annað bréfið. Þriðja bréfið er dags. 4. þ.m. Þar stendur:

„Getur þú selt fyrir mig trilluna? Ef smáfisks- og ýsuverðið lækkar, eins og stjórnin ætlar að láta verða, er ekki til neins fyrir mig að ætla að lifa af sjósókninni hér. Ég ætla að þiggja boð mágs míns í Reykjavík og flytja suður. Hann segist geta útvegað mér vinnu.“

Ég veit, að þessi maður hefur að undanförnu átt kost á því, að mágur hans hér í Reykjavík sæi honum fyrir atvinnu, ef hann flyttist hingað. Hann hefur ekki þegið þetta, smábátsútgerð hefur veitt honum sómasamlega atvinnu nyrðra á æskustöðvum hans. Nú er breytingin orðin. Nú ætlar hann hingað suður. En mér er spurn: Getur nú, eins og komið er málum, Reykjavík látið honum í té sómasamleg kjör? Getur Reykjavík yfirleitt tekið á móti því fólki, sem efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hrekja frá staðfestum sínum á landsbyggðinni ?

Þessir bréfkaflar eru alls ekki skrifaðir af mönnum, sem eru þannig á sig komnir, að þeir jaðri við geðveiki. En þessir bréfkaflar sýna glögglega, hvað er að gerast. Stefna ríkisstj., sem þetta frv. er liður í, er að stöðva framfarasóknina, snúa henni í kyrrstöðu og flótta frá verkefnum uppbyggingar og landbóta. Það gagnar ákaflega lítið, þó að Morgunblaðið staglist síðustu dagana á orðum bóndans, sem sagði: „Ef hér væri engin mold og engin landbúnaðarframleiðsla, þá væri hér engin þjóð.“ Það gagnar ekkert að skrifa svona, ef unnið er á annan hátt. Stefnan er landeyðingarstefna, hún er þegar farin að verka þannig. Hún hrekur fólkið frá moldinni og frá fiskveiðum strandanna líka. Og frá þessari stefnu þarf í skyndi að snúa, og næst liggur þá fyrir hér í þessari hv. d. að fella þetta frv.