14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

88. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég get að verulegu leyti vísað til þess, sem ég sagði hér í hv. d. um meginatriði þessa frv. við 1. umr. Um sum þessara meginatriða, einkanlega þau, sem um var þá deilt, liggja nú fyrir nánari upplýsingar, m.a. frá þeim aðilum, sem hv. stjórnarliðar a.m.k. hafa tæplega aðstöðu til að rengja. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að minna á, að hæstv. fjmrh. fullyrti og raunar margendurtók, að hér væri ekki um neinar nýjar álögur að ræða, þar sem jafnháir skattar væru lagðir á og af væri létt, í öðru lagi, að ágizkanir okkar stjórnarandstæðinga um skattþungann væru rangar, og í þriðja lagi, að almenni söluskatturinn yrði aðeins lagður einu sinni á, þ.e.a.s. á síðasta stig framleiðslu og sölu.

Eftir að frv. hefur verið athugað í fjhn., svör hafa verið fengin við mikilvægum atriðum hjá sjálfum sérfræðingum ríkisstj. og nokkurt tóm hefur gefizt til frekari athugunar á frumvarpsbákninu, liggur svo ljóst fyrir sem verða má, að allt, sem ég og aðrir stjórnarandstæðingar sögðum um málið við 1. umr., er rétt í öllum meginatriðum, bæði hvað viðkemur þeim atriðum, sem ég hér nefndi, og öðrum.

Til þess að geta stutt fullyrðingar sínar um það, að engar nýjar álögur væru á lagðar, líkum varð hæstv. fjmrh. að grípa til þess í fyrsta lagi að vefengja það, að söluskatturinn yrði 509 millj. á ári, eins og ég fullyrti, og í öðru lagi að hækka þær upphæðir, sem til frádráttar koma, langt upp fyrir raunveruleikann. Á viðræðufundi fjhn. með hagstofustjóra spurði ég um skatthæðina, miðað við ár, og var svar hans við því þetta: Söluskattur í tolli, óbreyttur frá því, sem nú er, er áætlaður 154 millj. kr. — Ég sé nú reyndar í brtt. hv. fjvn., sem nú er verið að útbýta, að það er gert ráð fyrir, að þessi hluti skattsins verði eitthvað hærri. Hækkun þessa skatts, sem gert er ráð fyrir, nemur 180.6 millj., og almenni söluskatturinn er áætlaður 173 millj. kr. Samtals verður þetta 507.6 millj, kr., eða nær því nákvæmlega sú upphæð, sem ég nefndi hér sem lágmark.

Nú kann því að verða haldið fram, að villandi sé að miða skattþunga við heilt ár, þar sem hækkunin á söluskatti í tolli eigi aðeins að innheimtast í níu mánuði á þessu ári. Ég hygg þó, að hæstv. fjmrh. muni hika við að lýsa því hér yfir, svo að ekki verði um villzt, að þessi hækkun verði afnumin í árslokin, án þess að nokkur annar skattur verði lagður á í staðinn, enda er í grg. frv. ekki svo mikið sem gefið undir fótinn með slíkt, heldur aðeins sagt, að endurskoðun laganna muni verða framkvæmd. Og svo mikið er víst, að embættismenn ríkisstj. brosa að þeirri hugmynd, að hér sé um einhvern bráðabirgðaskatt að ræða, en fara hins vegar ekki dult með þá skoðun sína, að söluskatturinn muni fara síhækkandi næstu árin, og er það raunar svo augljóst sem verða má, að það er hið eina rökrétta framhald þeirrar stefnu í skattamálum, sem nú hefur verið tekin upp. Hér er því alveg vafalaust um varanlegan skatt að ræða að óbreyttri stefnu og því óhugsandi að ræða málið á öðrum grundvelli þegar af þeirri ástæðu.

Á hitt ber einnig að líta, að þeir liðir, sem til greina koma til frádráttar, eru allir miðaðir við eitt ár og því algerlega villandi og rangt að reikna dæmið í öðru tilfellinu út frá 9 mánaða skattheimtu, en í hinu tilfellinu út frá heils árs innheimtu, eins og hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjhn. gera. Á s.l. ári var söluskattur áætlaður 151.4 millj. kr., og óumdeilanleg hækkun til ríkissjóðs nemur því 356.2 millj. kr. Frá þessari upphæð vilja stjórnarsinnar einnig draga 70 millj. kr. söluskatt, sem áður rann til útflutningssjóðs. Slíkt er auðvitað villandi, þar sem gengisbreytingin gerir miklu meira en svara til allra skatta og tolla, sem til hans runnu. En jafnvel þó að þetta sé gert, stæði samt eftir hækkun upp á 286 millj. kr. rúmar. Enn vilja þeir draga frá þær 56 millj. kr., sem bæjarfélögunum eru ætlaðar. Að mínu viti fær þetta ekki heldur staðizt, þar sem vitað er, að útgjöld bæjarfélaganna aukast alveg vafalaust um hærri upphæð en þeirri nemur sem bein afleiðing af gengisfellingunni. Miðað við óbreytta þjónustu og framkvæmd til bæjarfélaganna er óhugsandi, að unnt verði að lækka útsvör frá því, sem áður hefur verið, og er hér því ekki að neinu leyti um að ræða, að verið sé að draga úr útsvarsálögum, heldur þvert á móti, þegar á heild þessara efnahagsaðgerða er litið. Eftir stendur þá aðeins, að fella á niður allt að 75 millj. kr. tekjuskattinn, ef miðað er við það, sem hann varð á s.l. ári, á móti 356 millj. kr. aukinni skattheimtu til ríkissjóðs eða á móti niðurfellingu innanlandssöluskattsins, sem þó er rangt að gera, eins og ég hef áður sýnt fram á.

Það þarf því alveg furðulega óskammfeilni, vil ég segja, til að bera þá fullyrðingu fram hér á hv. Alþingi og fyrir þjóðina, að hér sé einungis um tilflutning gjaldheimtu að ræða, en engar nýjar álögur. Þvert á móti held ég, að hverju barni sé auðskilið, að hér er um að ræða nýja flóðöldu verðhækkana og dýrtíðar, sem hlýtur að þrengja mjög kosti launamanna umfram það, sem þegar er orðið með gengisfellingunni, með vaxtahækkuninni og margvíslegum hækkunum ýmissa gjalda og skatta, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir. Þannig verður verðhækkun af völdum þessarar nýju skattheimtu um eða yfir 14%, miðað við tollverð allra skattskyldra erlendra vara, en það eru yfirgnæfandi flestar innfluttar vörur og þ. á m. allar neyzlu- og nauðþurftavörur almennings, og allur söluskatturinn, eins og hann verður, miðað við þetta frv., nemur yfir 20% af tollverði innflutts varnings. Það varpar nokkru ljósi á það, hve hér er um gífurlega skattheimtu að ræða, að söluskatturinn einn kemur til með að verða 48 millj. kr. hærri en allir tollar og skattar til ríkissjóðs árið 1956 og um tveir þriðju hlutar af öllum áætluðum tollum og sköttum samkvæmt fjárlagafrv. fyrrv. hæstv. fjmrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem lagt var fram hér á hv. Alþingi 20. nóv. s.l. En skatthæðin öll, 507.6 millj. að dómi hagfræðinganna, svarar til 14 þús. kr. árlegra álaga á hverja fimm manna fjölskyldu, á móti 6 þús. kr. á s.l. ári.

Við þetta er þó því að bæta, að allar þessar tölur eru byggðar á þeim áætlunum, sem starfsmenn hæstv. ríkisstj. hafa gert um það, hve miklu mætti ná í ríkissjóð með þessum hætti, og mun óhætt að fullyrða, að þær áætlanir eru gerðar af mikilli varúð. Hinu hef ég sleppt, sem þó er með vissu vitað og raunar viðurkennt af skattheimtumönnum, að samfara hinum almenna söluskatti eru gífurlegir möguleikar til undandráttar og svika. Má því fullyrða, að sú upphæð, sem almenningur kemur til með að verða að láta af hendi, verður ótöldum milljónatugum hærri en sú, sem til skila kemst í ríkissjóðinn.

Alkunn er reynslan af þeim söluskatti, sem verið hefur í gildi að undanförnu að þessu leyti, en augljóst er, að sízt muni verða breyting á til bóta með þessu frv., og það jafnvel þótt til komi gífurleg aukning eftirlits og hvers kyns skriffinnsku í sambandi við álagningu og innheimtu.

Í grg. ríkisstj. með frv. um efnahagsmál var fullyrt, eins og flesta mun reka minni til, að heildarkjaraskerðing vegna efnahagsaðgerðanna yrði sem næst 3% og 1% hækkanir mundu sennilega verða af öðrum ástæðum. Með þessu var beint gefið til kynna, að allar efnahagsaðgerðirnar hefðu verið teknar með í reikninginn, og látið skiljast svo ótvírætt sem verða mátti, að þarna væri um allar aðgerðirnar að ræða. Það var sagt, að verðhækkanir yrðu sem svaraði 13 vísitölustigum vegna aðgerðanna, en 1% af öðrum ástæðum, en hins vegar mundu gagnráðstafanir svara til 10 vísitölustiga. Í annan stað koma svo fullyrðingar hæstv. fjmrh. og fleiri um það, að með þessu frv. sé ekki um neina kjaraskerðingu að ræða, og er það enn ein staðfesting á því þegar þetta var gert að umtalsefni í grg. með efnahagsaðgerðunum, að þarna væri allt tínt til, sem heildaraðgerðirnar hefðu í för með sér. Í sambandi við þetta lagði ég þá spurningu fyrir hagstofustjóra, hvort kjaraskerðing af völdum söluskattsins hefði verið tekin með í reikninginn, þegar fullyrt var, að kjaraskerðing vegna efnahagsaðgerðanna í heild yrði aðeins 3%. Hann kvað þetta ekki vera svo og skýrði jafnframt frá því, að hann teldi beina kjaraskerðingu, nettókjaraskerðingu eins og hann orðaði það, vegna þessa frv. 3% til viðbótar þeirri, sem áður væri komin, eða m.ö.o., hann taldi kjaraskerðinguna af völdum þessa frv. jafnmikla og hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar hafa metið alla gengisfellinguna, og segir það sína sögu um það, hvað hér er um að ræða.

Ég spyr nú, hvort það sé hugsanlegt, að hæstv. fjmrh. hafi verið ókunnugt um þetta mat hagstofustjóra eða hvort hann hafi vísvitandi haft í frammi hér á hv. Alþingi fullyrðingar, sem jafngilda hreinum fölsunum. Ég fæ ekki betur séð en hann eigi hér aðeins um tvo kosti að velja: annaðhvort að ómerkja orð hagstofustjóra eða biðja afsökunar á fyrri fullyrðingum sínum. Í þessu sambandi vil ég taka fram, að hagstofustjórinn talaði í þessu sambandi ekki um vísitölustig, eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. var hér að tala um, heldur um beina kjaraskerðingu, nettókjaraskerðingu af völdum þessa frv.

Það er upplýst, að reiknað er með, að hinn almenni söluskattur á vörum og þjónustu verði innheimtur af sölu að verðmæti 5767 millj. kr. Þessi upphæð, sem nemur því sem næst andvirði allrar þjóðarframleiðslunnar, gefur strax vísbendingu um það, að skatturinn muni ekki ávallt innheimtur aðeins einu sinni, eins og látið er í veðri vaka, heldur í ýmsum tilfellum oftar, ekki sízt þegar þess er gætt, að sala og þjónusta upp á 2400 millj. kr. er skattfrjáls að sögn sérfræðinga ríkisstjórnarinnar.

Við athugun frv. verður þó enn ljósara, að skatturinn er í mörgum tilfellum tvíheimtur af sömu vörunni og þjónustunni. Þannig leiða t.d. ákvæði 3. mgr. 3. gr. og fleiri frumvarpsákvæði af sér, að verulegur hluti af andvirði allra innlendra iðnaðarvara, þ. á m. allra unninna landbúnaðarvara, og flestrar eða allrar þjónustu, sem framkvæmd er, er tvískattaður. Hvers konar framleiðslutækjum er með þessum ákvæðum gert að greiða söluskatt af keyptri raforku, öllum tegundum hráefna til hitunar, öllum orkugjöfum véla, hvers konar viðgerðum á framleiðslutækjum, öðrum en skipum, einnig af kaupum framleiðslutækjanna flestra, niðursetningu véla og ýmsum þáttum mannvirkjagerðar, sem rekstrinum tilheyra, enn fremur af öllum umbúðum um framleiðsluvörurnar og hjálparefnum hvers konar. Þessir þættir framleiðslukostnaðarins mynda að sjálfsögðu mjög verulegan hluta hins endanlega verðs til neytenda, og skattlagning á þá kemur auðvitað að fullu fram í því verði, sem neytendur verða að greiða, ásamt skatti á verðið, eins og það þá er orðið. Hér er því um svo augljósa tvísköttun að ræða, að ekki þarf um að deila. Það er því ein blekkingin ofan á aðrar, að hér sé um eitthvert algert einstigsálag að ræða, að því er almenna skattinn snertir. Raunverulegar verðhækkanir af völdum hans munu því nema miklu meira en 3%.

Í öllu því skattaflóði, sem dunið hefur yfir á liðnum tímum, hefur innlendri matvælaframleiðslu með öllu verið hlíft við beinni skattlagningu, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) lagði hér áherzlu á í ræðu sinni, og jafnvel hinir hugkvæmustu valdamenn í þeim efnum hafa aldrei getað látið sér detta í hug, að menn mundu una því, að skattlögð væri neyzla nauðsynlegustu matvæla, sem þjóðin sjálf framleiðir, svo sem kjöts, fisks, grænmetis og mjólkurvara. Allir hafa talið jafnsjálfsagt, að þessi undirstöðufæða, sem þjóðin sjálf aflar, að sumu leyti við erfið skilyrði, væri friðhelg fyrir oki skatta og tolla. Nú fær bóndinn og skyldulið hans eitt að neyta kjöts og mjólkurvara og grænmetis án þess að greiða af þeim vörum skatta til ríkissjóðs, en þetta leyfist honum aðeins af náð undantekningarákvæðis í lögum. Allir aðrir verða að gjalda skatt af slíkri neyzlu, annarri en mjólkurdrykkju í heimahúsum, og ekki aðeins einu sinni, heldur tvívegis, að því er unnar búvörur varðar.

Þessi nýi siður er áreiðanlega í fullri andstöðu við allar hugmyndir manna um vitlega skattheimtu. Ég fæ ekki heldur betur séð en hann brjóti einnig algerlega í bága við gildandi reglur um verðlagningu búvara, því að hvers virði er samkomulag bænda og neytenda um búvöruverð, ef stjórnarvöld leyfa sér, strax og þessir aðilar standa upp frá samningsborðinu, að stórhækka verðið til neytenda með margfaldri skattlagningu?

Ég hef leyft mér að flytja brtt. um það, að allar landbúnaðarvörur verði skattfrjálsar og þannig horfið frá því eindæma glapræði að skattleggja neyzlu þeirra matvæla, sem almenningi eru nauðsynlegust, og hindra, að sámkomulag bænda og neytenda um verðlagningu sé brotið.

Ég flyt einnig brtt. um, að öll veiðarfæri sjávarútvegsins verði skattfrjáls. Sýnist mér, að ærið sé að gert, þegar ýmsir stærstu kostnaðarliðir útvegsins, svo sem olíur, viðgerðir vélaverkstæða og fæði skipverja, eru reyrðir undir skattaokið.

Einnig flyt ég brtt. við 3. gr. og a-lið 6. gr., sem miða að því að draga úr tvísköttun á innlendar framleiðsluvörur og skattlagningu á útflutningsvörur.

Samkvæmt 1. lið 7. gr. er öll vinna við húsa og mannvirkjagerð, sem ekki er unnin á byggingarstað, skattskyld, en hins vegar undanþegin sú vinna, sem unnin er á sjálfum byggingarstaðnum. Með þessum ákvæðum tel ég, að verst þokkuðu ákvæði eldri söluskattsins um þessi efni séu upp vakin og látin ganga aftur. Þróunin í húsabyggingum og mannvirkjagerð stefnir stöðugt meira í þá átt, að vinna og framleiðsla fari fram á verkstæðum og í verksmiðjum, þ. á m. eru uppi ráðagerðir um framleiðslu á heilum húshlutum. Virðist með öllu óeðlilegt að refsa þeim sérstaklega með skattlagningu umfram aðra, sem leitast við að innleiða ný og bætt vinnubrögð í þessu efni. Auk þess sýnist, að erfiðleikar þeirra, sem þurfa að koma þaki yfir höfuð sér, séu þegar alveg nægilega miklir, þótt þeim sé hlíft við frekari skattlagningu á mikinn hluta byggingarkostnaðarins. Brtt. mín við a-lið 7. gr. miðar að því að fría alla vinnu við húsabyggingar þessari skattlagningu.

Loks flyt ég brtt. við 25. gr. frv., en samkv. þeirri grein er fjmrh. veitt vald til þess að meta sakir í brotamálum varðandi þessi lög og ákveða refsingar samkvæmt því mati sínu. Pólitískum ráðh. er því fengið í hendur vald, sem dómstólunum einum ber að hafa. Þetta atriði ræddu bæði ég og fleiri svo við 1. umr. málsins, að ekki er þörf um að fjölyrða nú. Jafnvel hæstv. fjmrh. varð þá að viðurkenna, að hér kynni að vera óþarflega langt gengið. Verður því að óreyndu ekki trúað öðru en hann og aðrir hv. stjórnarsinnar fallist á, að þessi óhæfa verði máð á brott úr frv.

Um aðrar brtt. mínar á þskj. 181 þarf ekki að hafa mörg orð. Þar er, að því leyti sem ég hef ekki þegar rakið, um svo augljósar leiðréttingar að ræða, að skýringa er þar varla þörf.

Þessar leiðréttingar eru að sjálfsögðu aðeins örlítið brot af þeim, sem gera þyrfti, og fer því víðs fjarri, að samþykkt þeirra mundi nægja mér til stuðnings frv. í heild. Þó að nokkrir agnúar yrðu sorfnir af þessu frv., standa aðalatriðin óhögguð. En þau eru í fyrsta lagi, að með þessari nýju skattheimtu er nýrri flóðöldu verðhækkana og dýrtíðar skellt yfir almenning í skjóli þeirra kúgunarlaga, sem stjórnarflokkarnir hafa þvingað fram um lögbann við greiðslu verðlagsuppbóta á laun. Í öðru lagi kemur skattheimtan jafnt á brýnustu nauðþurftir sem óþarfa eyðslu og verður því þeim þyngst í skauti, sem áður höfðu aðeins til hnífs og skeiðar. Í þriðja lagi felur skattheimtukerfið í sér mikla hættu á skattsvikum og hvers konar spillingu, og löggjöfin sjálf, eins og hún er úr garði gerð, býður heim tilviljana- og gerræðisfullri framkvæmd. Í fjórða lagi er stofnað til hinnar viðtækustu skriffinnsku, bæði í atvinnurekstri og verzlun og í skattheimtukerfi ríkisins.

Hver þessara meginástæðna fyrir sig ætti að nægja til þess, að hv. d. felldi þetta frv.

Ég þykist hins vegar vita, að gifta hv. stjórnarflokka muni ekki endast þeim til slíks þrifaverks. En því ríkari ástæða er til að taka vel þeim brtt., sem ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 181, og öðrum brtt., sem fram kynnu að koma og til bóta væru.