14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

88. mál, söluskattur

Alfred Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram þrjár brtt. við þetta frv., till., sem eru skriflegar og of seint fram komnar. Fyrri tvær þessara tillagna snerta 6. gr. frv. um undanþágu frá söluskatti. Legg ég þar til, að auk innlendra dagblaða og hliðstæðra blaða, svo og tímarita, sem ekki eru gefin út í ágóðaskyni, verði enn fremur bækur frumsamdar á íslenzku undanþegnar skattinum.

Þá legg ég það til, að á eftir 15. tölulið þessarar greinar komi nýr töluliður, sem verði töluliður 16, svo hljóðandi: „Nauðsynlegustu lyf samkvæmt skrá staðfestri af fjmrh.“

Loks ber ég svo fram brtt. við 17. gr. frv., svo hljóðandi: „Eigi má álagning í heildsölu og smásölu hækka vegna söluskatts af innfluttum vörum.“

Ég mun nú gera örlítið nánari grein fyrir þessum litlu brtt., en langar þó til að fara örfáum orðum um þetta frv. fyrst.

Það er óþarft að taka fram, að ákvæði þessa frv. um söluskatt verða til þess að stórauka dýrtíðina í landinu, og virðist þó tæpast á það bætandi. Fyrst er gengislækkunin með þeim afleiðingum, sem hún hefur á allt verðlag. Eru þær nú sem óðast að koma fram þessa dagana í stórkostlegri hækkun vöruverðsins. Þá er vaxtahækkunin, hún mun síðar segja til sín á ýmsan og óþægilegan hátt í verðlagshækkunum. Þriðji dýrtíðarpósturinn er svo þessi víðtæki söluskattur, sem lagður verður ofan á rándýra vöru og alls konar þjónustu. Fyrst er söluskattur, mjög hár, lagður á tollverð allrar innfluttrar vöru, að viðbættum aðflutningsgjöldum og áætlaðri álagningu. Þessi 1. stigs söluskattur nemur hvorki meira né minna en 15%. Þegar búið er að reikna þennan skatt á vöruna og bæta ofan á allt saman raunverulegri álagningu heildsala og smásala, þá skal í annað sinn lagður söluskattur á þessa. sömu vöru, og skal sá skattur nema 3% af smásöluverðinu, eins og það leggur sig. Þannig er söluskatturinn lagður tvisvar á alla innflutta vöru, auk þess sem 3% söluskatturinn leggst á innlenda vöru og alla selda þjónustu. Þessi skattur mun því reynast, þegar hann er kominn á, fullboðlegur sem dýrtíðarvaldur og sóma sér vel við hliðina á gengislækkun og vaxtahækkun.

Næstu mánuðina munu fara fram látlausar verðhækkanir, og mun hver hækkunin reka aðra. Eru þær hækkanir, sem verða þessa dagana, aðeins byrjunin á þessu dýrtíðarflóði, sem hæstv. ríkisstjórn steypir yfir þjóðina af ráðnum hug. En auk þessara vöruverðshækkana hækkar einnig öll þjónusta, sem látin er í té í atvinnuskyni, því að af henni skal einnig greiddur 3% söluskattur. Hæstv. ríkisstj. mun reynast sannkölluð dýrtíðarstjórn, líklega sú mesta í landinu til þessa dags, og takist henni öll dýrtíðaráformin, verður hún því miður hallærisstjórn öllum öðrum meiri.

Áætluð upphæð söluskattsins er, eins og kunnugt er, nálægt 500 millj. kr. á þessu ári. Þetta er lagt á neytendur í landinu og er þó ekki helmingur þeirra auknu álaga, sem á þjóðina eru lagðar af hæstv. ríkisstj. sérstaklega. Þessar álögur eru langt umfram þarfir og því verri en gagnslausar. Þær eru liður í pólitískri stefnubreytingu, sem afturhaldssömustu öflin í þjóðfélaginu nú beita sér fyrir. Þær eru liður í endurskiptingu þjóðarteknanna, nýrri skiptingu á þann veg, að hinir mörgu smáu beri minna úr býtum en áður og að þeir fáu stóru á sviði viðskipta og atvinnu fái aukinn gróða og aukin völd. Álögurnar túlka sem sé fráhvarfið frá jöfnuði lífskjaranna til misréttis og aðstöðumunar. Núverandi valdhafar á Íslandi sjá ofsjónum yfir hinni tiltölulega almennu velmegun, sem hér hefur ríkt síðustu áratugina. Þeim finnst jöfnuðurinn orðinn of mikill, félagslega tillitið til hins óbreytta borgara meira en samrýmist pólitískum skoðunum þeirra og kenningum. Því er þetta afturhvarf.

Valdhafarnir okkar renna augum um þessar mundir til landa eins og Bandaríkjanna og Vestur-Þýzkalands, og þar sjá þeir það, sem er þeim betur að skapi en allur jöfnuðurinn á Íslandi. Í Þýzkalandi Adenauers sjá þeir pólitískt sterkt ríkisvald, sem getur bannað stjórnmálaflokka að vild og sett almúganum stólinn fyrir dyrnar eftir geðþótta. Þar sjá þeir iðjuhölda og aðra atvinnurekendur, sem í sannleika kunna að græða og kunna að gæta fengins fjár og ávaxta það. Þar sjá þeir líka þetta sama ríkisvald njóta fulls stuðnings iðjuhöldanna og að sá stuðningur er því nægur, því að þar er valdið, sem peningarnir eru. Þeir sjá, að ríkisvaldið þýzka og iðjuhöldarnir hafa kunnað að notfæra sér hernámið til fjár. Og loks sjá núverandi íslenzku valdhafarnir, að þýzkri alþýðu er haldið í skefjum launalega og afkomulega, enda byggist auður og vald hinna stóru þar í landi á því.

Þessi þýzka fyrirmynd hefur lengi svifið fyrir hugskotssjónum íslenzkra afturhaldsmanna og haft á þá heillandi áhrif. Kom sú aðdáun m.a. fram í ræðu, sem hæstv. menntmrh. flutti opinberlega á s.l. vori, og fullur viðurkenningar og samúðar lýsti hann þá sem sinni skoðun, að eiginlega væri Sjálfstfl. það vel á veg kominn, að hann líktist einna mest flokki Adenauers. Verri væri hann ekki. Slíkt er sem sagt fyrirmyndin, og til þess að ná henni þarf að taka ekki svo fá skref aftur á bak. Það þarf að skerða kjör almennings á Íslandi, svo að um munar, og það þarf að safna auði á fárra manna hendur. Þegar það er komið í kring, verður ríkisstj. föst í sessi og getur haldið áfram stefnu sinni frá félagshyggju og jöfnuði til einstaklingshyggju og dýpri stéttaskiptingar.

Álögurnar í þessu frv. til laga um söluskatt eru einn hlekkurinn í þeirri festi, sem hæstv. stjórn gerir sér í þessu skyni. Með þeim ásamt öðrum ráðstöfunum skal sú dýrtið mögnuð, sem dugir til að venja alþýðu manna af eyðslu. Dýrtíðin á að ganga svo nærri láglaunafólki, að engri eyðslusemi verði við komið. Uppeldisaðferð hæstv. ríkisstj. í þessu efni byggist á því, að snauður almenningur sói ekki verðmætum.

Allar þessar tiltektir hæstv. ríkisstj. verða þjóðinni í heild, menningu hennar og lífskjörum til hinnar mestu óþurftar, nái þær fram að ganga. Á því er enginn efi, enda sjá það nú orðið fjölmargir menn, hinir gætnari og raunsærri, í hennar eigin herbúðum. En hæstv. ríkisstj. mun ekki reynast nógu stór í sniðum til að snúa frá villu síns vegar af sjálfsdáðum, þótt meiri hluti hennar óski þess sennilega í hjarta sínu, að eitthvað verði til þess að stöðva þetta glapræði.

Það væri vel til fundið að stöðva eða fella þetta söluskattsfrv., sem fyrir liggur, því að með því væri einn hlekkurinn í afturhaldsfjötrinum eyðilagður. En þeim möguleika er nú sjálfsagt ekki að heilsa. Hæstv. ríkisstjórn nýtur stuðnings meiri hlutans á þingi, þótt sá meiri hl. sé raunar mjög veikur. Þann meiri hl. mun hún nota til þess að bola sér og áformum sínum braut, og það enda þótt hún fari nærri um, að meiri hluti þjóðarinnar verður ráðstöfunum hennar andvígur. Þess vegna er engin von til þess, að þetta óheillasöluskattsfrv. verði fellt.

Frv. er í heild þannig úr garði gert, að fyrir þá, sem ekki eru bundnir á pólitískan klafa hæstv. stjórnar, er ekki um annað að velja en greiða atkvæði gegn því. Um einstakar greinar þess skiptir að sjálfsögðu nokkuð misjöfnu máli. Eru þar mörg ákvæði eðlileg og verða þar að vera, eigi söluskattsófagnaðurinn á annað borð að dynja yfir. Um einstök ákvæði má vissulega lengi deila, og skal ég ekki fjölyrða um það. Ýmislegt mætti færa til betri vegar, enda mun hv. stjórnarandstaða freista þess að fá einhverjar lagfæringar á því fram.

Þær till., sem ég flyt, snerta aðeins smávægilegar breytingar, og virðast mér þær sanngjarnar, og því vænti ég þess, að þær verði teknar til fullrar athugunar. Ein till. og sú, sem auðsóttast ætti að vera að fá samþykkta, varðar 6. gr. frv., en sú gr. fjallar um þær vörur, er undanþegnar skulu söluskatti. Legg ég til, að þar verði bætt inn í ákvæði um, að nauðsynlegustu lyf skuli undanþegin skattinum. Mér er næst að halda, að þetta ákvæði hefði átt að vera þarna, en af vangá ekki verið tekið með. Nauðsynlegustu lyf getur enginn viljað skattleggja að óþörfu. Þau eru sjúkum mönnum lífsnauðsyn, — og hver vill níðast á þeim eða sjúkrasamlögunum, sem að nokkru greiða slík lyf?

Dagblöð og tímarit eiga að vera undanþegin skattinum, og er ég ekki að lasta það, þó að ég telji hins vegar brýnni þörf á að undanþiggja nauðsynlegustu lyf, sem færð væru á skrá, sem sjálfur fjmrh. staðfesti.

Aðra tillögu ber ég fram um breyt. á sömu grein, og er hún á þá leið, að ekki aðeins dagblöð og tímarit: skuli skattfrjáls, heldur einnig bækur frumsamdar á íslenzku. Íslendingar eru bókaþjóð, þeir kaupa og lesa fleiri bækur en nokkur önnur þjóð að tiltölu, enda er alþýðumenntun hér í bezta lagi. Allir viljum við eignast sem bezta höfunda íslenzka. En góða höfunda eignast þjóðin ekki, nema hún veiti mörgum tækifæri og aðstöðu til að reyna sig. Útgáfa frumsaminna ritverka er mikið menningarmál, sem ríkisvaldið hlýtur að hlynna að með öllu móti. Því er rétt að mínum dómi, að bækur frumsamdar á íslenzku verði undanþegnar söluskattinum að sínu leyti eins og dagblöð og tímarit.

Síðasta brtt. mín er við 17. gr. frv., eins og ég gat um áðan, gr., sem ákveður söluskatt á innfluttum vörum. Þessi söluskattur á að nema 15% og leggjast á tollverð vörunnar, aðflutningsgjöld hennar og álagningu. Þessi skattur verkar þannig verulega til hækkunar vöruverðsins í landinu og þar með dýrtíðarinnar almennt.

Nú er fyrir mér spurningin þessi: Á þessi hái söluskattur, sem ríkissjóði er ætlaður, að koma til álita við álagningu milliliða í heildsölu og smásölu? Eiga heildsalar og smákaupmenn að fá leyfi til að græða sérstaklega á þessari skattlagningu með því að leggja álagningarprósentu sína einnig á þennan skatt? Mér er ekki grunlaust um, að sú sé tilætlunin og að kaupmannasamtökin krefjist þess. Þetta væri þó ranglátt gagnvart neytendum og raunar eitt ranglætið af mörgum. Heildsalar kunna að segja: Við verðum að fá eitthvað fyrir okkar snúð, fyrir þá fyrirhöfn að standa skil á greiðslu skattsins, og því viljum við fá okkar milliliðagróða aukinn. — Slíku á ekki að anza. Smásalar vöru og þjónustu eiga einnig að standa skil á 3% skattinum án launa, án sérstakrar álagningar fyrir það, eða a.m.k. vona ég, að sá skilningur minn á frv. sé réttur, og sé svo, þá á hið sama að gilda um 15% skattinn. Innheimtan er í báðum tilfellum dálítil byrði, sem þó er raunar ósköp lítil og létt í samanburði við allt, sem á neytendur er lagt. Til þess að taka af allan vafa um þetta atriði hvað 15% skattinn snertir legg ég til, að inn í 17. gr. verði skotið svo hljóðandi málsgrein: „Eigi má álagning í heildsölu og smásölu hækka vegna söluskatts af innfluttum vörum.“

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að leggja þessa skrifl. brtt. fram.