27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2663)

93. mál, klak- og eldisstöð fyrir lax og silung

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. og leggur einróma til, að hún verði samþykkt.

Till. fjallar um það, að Alþingi skori á ríkisstj. að koma upp klak- og eldisstöð fyrir lax og silung á hentugum stað í landinu, svo fljótt sem við verður komið, á grundvelli X. kafla laga frá 1957, um lax- og silungsveiði, en í þeim lögum er ríkisstj. heimilað að koma upp klak- og eldisstöð, einni eða fleiri, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum.

Verkefni þessara stöðva, segir m.a. í lögunum, er, að þær afli seiða til fiskræktar og geri tilraunir með klak og eldi fisks. Þær skulu og veita fræðslu um meðferð klaks og um fiskeldi, eftir því sem við verður komið.

N. sendi veiðimálastjóra till. til umsagnar, og mælir hann með samþykkt hennar, Í áliti veiðimálastjóra segir m.a. um kostnaðarhliðina, með leyfi hæstv. forseta:

„Í bréfi til landbrn., dags. 6. jan. s.l., lagði ég til, að notuð yrði heimild í 82. gr. laga nr. 53/1957, um lax- og silungsveiði, til þess að koma upp tilraunaeldisstöð á vegum ríkisins, sem lokið yrði að koma upp fyrir árslok 1963. Gerði ég lauslega áætlun um kostnað við byggingu slíkrar stöðvar, sem ætla má að verði alls 3–4 millj. kr. Um kostnað við byggingu slíkrar stöðvar er ókleift að segja nánar, fyrr en henni hefur verið valinn staður og áætlun hefur verið gerð um byggingarkostnaðinn í einstökum atriðum. Á fyrsta ári, sem yrði notað til undirbúnings byggingar stöðvar, er gert ráð fyrir, að kostnaður verði 100 þús., næsta ár verði hann 500 þús. og það, sem á vantar á heildarkostnaðinn, mundi þurfa að hálfu hvort árið 1962 og 1963.

Í nefndu bréfi var lagt til við ráðuneytið, að liðurinn 30. d. Kostnaður við eldistilraunir, á 16. gr. fjárlaga fyrir árið 1960 yrði hækkaður um 100 þús. kr. til að standa undir kostnaði við undirbúning og áætlun um tilraunaeldisstöð, og hefur hæstv. fjvn. samþykkt hækkunina.“

Með grg. fyrir till. eru prentaðar sem fskj. till. veiðimálastjóra til landbrn. um, að ríkið reisi fullkomna tilraunastöð. Þessi grg. er fróðleg og flytur ýtarlegar upplýsingar um málið.

Ég vil svo að lokum geta þess, að fjöldamargir aðilar hafa hvatt til þess, að slík eldisstöð, sem till. fjallar um, verði reist, og má í því sambandi benda á síðasta búnaðarþing, landssamband veiðifélaga og landssamband ísl. stangveiðimanna.