09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (2681)

46. mál, þjóðháttasaga Íslendinga

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 79 flyt ég ásamt fimm öðrum þingmönnum Framsfl. till. til þál. um þjóðháttasögu Íslendinga. Till. sjálf og grg., sem henni fylgir, skýrir þetta mál svo, að ekki er þörf á að reifa það með langri ræðu.

Íslendingar hafa oft verið nefndir söguþjóðin, enda ávallt lagt rækt við sögu sína. Þau menningarafrek að skrá Íslendingasögurnar skipa íslenzku þjóðinni á bekk með menningarþjóðum, en hin sérstæða menning þjóðar vorrar veitir henni framar öllu öðru rétt til sjálfstæðis. Þótt þau sögurit, er síðan hafa verið skráð, séu af annarri gerð en Íslendingasögurnar og nái ekki slíkri reisn sem þær, hefur sú gifta fylgt þjóðinni, að þráður sögunnar er óslitinn, frá því að land var numið. Það er meginstyrkur íslenzkrar menningar.

Á síðari árum hafa ýmis verk verið unnin á sviði íslenzkra sagnfræða, sem vert er að sé gaumur gefinn. Má í þessu sambandi nefna, að fyrir tilhlutun menntamálaráðs er unnið að því að rita sögu Íslendinga, og hefur Bókaútgáfa menningarsjóðs þegar gefið út nokkur bindi af því verki. En sú saga er fyrst og fremst um þá menn, sem lifað hafa og starfað í landinu, þeirra aðstöðu og verk, um stjórnarskipun þjóðarinnar og sjálfstæðisbaráttu.

Benedikt Gröndal skáld hafði hug á að rita norræna þjóðmenningarsögu og mun hafa haft á prjónum árum saman samhliða öðrum verkum að safna efni í slíkt rit. Hann mun hafa gert drög að efnisskipun þess ritverks og birti eitt sinn lista, þar sem taldir voru hátt á annað hundrað efnisþættir, sem fjalla skyldi um í slíku riti. Því miður auðnaðist honum ekki að ljúka þessu stórvirki, og enginn Íslendingur hefur síðan færzt í fang að semja þjóðmenningarsögu svo víðtæka sem Benedikt Gröndal hugsaði sér, en um einstök atriði þess efnis hefur verið fjallað.

Jónas Jónsson tók sér fyrir hendur að semja rit um íslenzka þjóðhætti. Hann markaði viðfangsefni sínu þrengra svið en Benedikt Gröndal hafði ætlað sér. Rit Jónasar er hið merkasta, svo langt sem það nær. Þegar það er metið, ber að hafa í huga, að það er verk eins manns unnið í hjáverkum mitt í önn dagsins á síðari hluta ævi hans og án þess að hann nyti til þess verulegrar fjárhagsaðstoðar. Þetta rit er samt svo stutt ágrip af þjóðháttasögu, að það gerir þessu efni engan veginn viðhlítandi skil. Iðnsaga Íslands veitir mikla fræðslu um þróun iðnaðar hér á landi, þó að þar við megi auka. Í fleiri ritum er vikið að íslenzkum þjóðháttum á ýmsum tímum, svo sem í riti Guðmundar Finnbogasonar: „Íslendingar“, og riti Jóns Aðils: „Gullöld Íslendinga“, en um íslenzka þjóðhætti er samt engin samfelld saga, heldur sundurleitar heimildir, og mikið af því efni er einungis geymt í minni manna.

Á öllum öldum hafa þjóðhættir tekið einhverjum breytingum, en aldrei hafa þær orðið jafnhraðar og stórfeldar sem á síðustu árum. Skipun byggðarinnar í landinu hefur þróazt mjög ört á þá leið, að meiri hluti þjóðarinnar býr nú í þéttbýli. Atvinnuhættir hafa gerbreytzt á stuttum tíma, ný tæki rutt sér til rúms, en hin eldri verið lögð til hliðar og vinnubrögð tekið stakkaskiptum í samræmi við það. Þeir, sem nú eru frumvaxta, vita ekki skil á því af eigin raun, hvaða aðstöðu foreldrar þeirra áttu lengst af við að búa, svo gagngerar hafa breytingarnar orðið á stuttum tíma.

Flestum, sem um þetta hugsa, mun verða ljóst, að þess þarf vel að gæta, að ekki bresti í höndum núlifandi kynslóðar mikilvægur þáttur íslenzkrar menningar, þannig að samhengið slitni. Ýmissa ráða hefur verið leitað til að koma í veg fyrir, að tengsl milli fortíðar og nútíðar rofni á þessu sviði. Þjóðminjasafnið hefur verið eflt, byggðasöfnum komið upp í ýmsum héruðum og kvikmyndir gerðar af nokkrum þáttum út atvinnulífinu. Þetta er gott, en þó ekki fullnægjandi. Söguþjóðin getur ekki látið sér nægja minna en skráða þjóðháttasögu, svo skilmerkilega og fullkomna sem kostur er. Meginefni þjóðháttasögu verður nákvæm lýsing á þróun íslenzkra atvinnuvega. Í slíku riti ber þó jafnframt að fjalla um fleira, svo sem ferðalög á landi og sjó, heimilishætti, húsbúnað, félagsstörf og samkomur.

Flutningsmönnum þessarar till. er það kunnugt, að unnið er að því að kanna heimildir um vissa þætti þessa efnis. Í fjárlögum fyrir árið 1959 eru veittar til þjóðfræðasöfnunar 30 þús. kr. Fyrir það fé er unnið að því fyrir forgöngu og með umsjá þjóðminjavarðar að safna heimildum um vissa þætti landbúnaðarstarfa. Lúðvík Kristjánsson ritstjóri hefur unnið að því árum saman að safna efni í skilmerkilega sögu um þróun bátaútvegsins. En hann mun eiga alllangt í land með að ljúka verkinu og skrá þá sögu, og hann hefur ekki haft tök á að fjalla um aðra þætti sjávarútvegsins. Þetta sýnir, að ýmsir hafa áhuga á þessu máli, enda mun það verða æ augljósara, er tímar líða, að það er mikilsvert menningaratriði, að ekki sé látið undir höfuð leggjast að taka þetta mál föstum tökum.

Í ýmsum ríkjum, þ. á m. í nágrannalöndum okkar, mun menningarsögu þjóðanna vera meiri og meiri gaumur gefinn. Um skeið mun hafa verið unnið að því á Norðurlöndum að koma á fót samnorrænni þjóðfræðastofnun, og mun Íslandi hafa verið gefinn kostur á því að gerast aðili að þeirri stofnun. Að því er ekki vikið í þessari till., og samþykkt hennar hefur ekki áhrif á afstöðu Íslands í því efni. Í till. þessari er ekki gert ráð fyrir nýrri þjóðfræðastofnun hér á landi. Það er skoðun okkar flutningsmanna, að auðið sé að láta vinna merkileg verk og þýðingarmikil á þessu sviði án þess að koma á fót nýrri ríkisstofnun. Við teljum sjálfsagt að veita þjóðminjasafninu aukinn stuðning til þess að framkvæma þá heimildasöfnun á þessu sviði, sem það hefur átt frumkvæði að og þegar hafið. Og að því er stefnt með till. að fá heimspekideild Háskóla Íslands og menntamálaráð til þess að veita liðsinni við framkvæmd þessa máls og að samráð séu höfð og samvinna við Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélag Íslands og Landssamband iðnaðarmanna.

Undirbúning að útgáfu þjóðháttasögu má greina í þrjá þætti, heimildasöfnun, ritstörf og útgáfu ritsins. Við söfnun heimilda þarf að sýna mikla alúð og nákvæmni. Skráðar heimildir um þetta efni eru ekki fullnægjandi, þótt kannaðar séu. Vinda þarf bráðan bug að því að skrásetja margt um þetta efni eftir frásögn núlifandi manna. Það er ætlun okkar flm., að n., sem skipa á samkv. þessari till., hafi forgöngu um, að skipulega sé unnið og markvisst að söfnun heimilda og með þeim hraða, sem fært þykir. Jafnskjótt og aflað hefur verið fullnægjandi heimilda að dómi n. um hvern meginþátt þessa efnis fyrir sig, verði hafizt handa um að rita þjóðháttasöguna og við það höfð hæfileg verkaskipting, síðan gefi Bókaútgáfa menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins ritið út, eftir því sem handrit verða fullgerð.

Það er ætlun okkar flm., að kostnaður við þetta verk verði að nokkru leyti greiddur af fé menningarsjóðs, að nokkru leyti með framlögum samkv. fjárlögum og enn fremur verði leitað samninga við stofnanir þær, sem n. á að hafa samráð við, um fjárhagslegan stuðning við verkið.

Ég sé, að ákveðnar hafa verið tvær umræður um þessa tillögu, og mun það vera gert með tilliti til þess, að um einhvern kostnað verður að ræða, ef till. verður samþykkt og framkvæmd. Ég legg því til, að till. verði vísað til hv. fjvn. að þessari umræðu lokinni.