14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

88. mál, söluskattur

Páll Porsteinsson:

Herra forseti. Þegar núv. hæstv. ríkisstj. settist að völdum og hæstv. forsrh. flutti tilkynningu fyrir hönd ríkisstj. í upphafi þessa þings, var það tekið fram, að það væri yfirlýst stefna ríkisstj. að breyta skattakerfinu að verulegu leyti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er fram borið í samræmi við þessa yfirlýsingu og er því eitt af stefnuskráratriðum eða stefnuskrármálum núv. hæstv. ríkisstjórnar. Það er því eðlilegt að ræða þetta stóra mál öðrum þræði með tilliti til þeirrar heildarstefnu, sem ríkisstj. hefur markað.

Þegar hér var til meðferðar fyrir nokkru frv. til l. um efnahagsmál, sem fól í sér gengisbreytingu og ýmsar fleiri ráðstafanir, voru þau rök færð fyrir því máli, að það væri úr garði gert og það yrði að samþykkja vegna þjóðarbúskaparins í heild og einkum vegna greiðslubyrðarinnar við útiönd. Nú er hér einungis um að ræða tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þetta frv. fjallar að því leyti um vissan afmarkaðan þátt í þjóðarbúskapnum, þann þátt, sem snertir afkomu ríkissjóðs sjálfs.

Þegar litið er á það, að tekið er fram, að gengisbreytingin muni ekki hafa í för með sér hækkun á fjárlögum nema 43.6 millj. kr., virðist eðlilegt að líta svo á, að þetta frv. sé stærra í sniðum en nauðsyn ber til til þess að bera uppi þá gjaldahækkun, sem af gengisbreytingunni leiðir.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að víkja að því, að það er nú í fyrsta sinn, að í senn á að lögfesta mikla gengisbreytingu og stórfellda hækkun á söluskatti. Söluskatturinn var upphaflega lögleiddur til þess að standa straum af uppbótum til framleiðslunnar, m.ö.o. til þess að koma í veg fyrir breytingu á gengisskráningunni. En nú á þessu þingi á að gera hvort tveggja í senn, að breyta gengisskráningunni að miklum mun og lögfesta það frv., sem hér liggur fyrir, um stórkostlega hækkaðan söluskatt frá því, sem verið hefur.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að tekjur af nýjum, almennum söluskatti nemi 280 millj. kr., eins og margir hafa bent á í þessum umræðum. En þess ber að gæta, að: fjárlagafrv., þar sem þessi till. kemur fram, er ekki prentað fyrr en nokkuð er liðið á þetta ár. Því er ekki útbýtt hér á þingi fyrr en eftir þinghléið, um mánaðamótin janúar og febrúar, og lög um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði voru þá í gildi og miðuð við, að fjárlög yrðu ekki afgr. fyrr en í lok febrúarmánaðar. Með þingfrestuninni og með lögunum um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði var af hálfu þingmeirihlutans og með samþykki hæstv. fjmrh. þannig búið í hendur hans, að þess var ekki að vænta, að fjárlög og því síður þau tekjuöflunarlög, sem í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna standa, yrðu fullgerð fyrr en a.m.k. febrúarmánuður var liðinn. Þetta hlaut hæstv. fjmrh. að vera ljóst þegar um s.l. áramót, og þess vegna hlýtur sú áætlun, sem hann hefur gert um tekjur af þessum nýja söluskatti, að hafa verið miðuð við 10 mánuði þessa árs. Og nú má gera ráð fyrir því, að marzmánuður verði að mestu leyti liðinn, þegar hægt verður að framkvæma þau lagaákvæði, sem stefnt er að að setja með þessu frv. En við það missist ekki nema einn mánuður frá því, sem hæstv. fjmrh. hlaut að gera sér ljóst að hægt væri að innheimta þessi gjöld, þegar hann samdi áætlun sína. Og einn tíundi hluti af 280 millj. er ekki nema 28 millj.

Hins vegar er það augljóst, að þar sem 7.7% söluskattur af tollverði vöru er áætlaður 154 millj. kr. í fjárlagafrv., og mér virðist samkv. brtt. frá meiri hl. fjvn., að þá sé ráðgert að hækka þetta upp í 157 millj. kr., þá hlýtur sá tekjustofn að skila með 8.8% álagi milli 170 og 180 millj. kr. Frá þessu dregst svo væntanlega 1/4 hluti, vegna þess að þetta verður ekki innheimt nema 9 mánuði ársins. En þrátt fyrir það hlýtur þessi tekjustofn, sem felst í bráðabirgðaákvæði þessa frv., að skila nokkuð hátt á annað hundrað millj. kr. Fram hjá þessu er ekki hægt að komast.

Eins og bent hefur verið á, hefur hæstv. fjmrh. fært þau rök fram, að um leið og þetta frv. verður lögfest, sé stefnt að því að fella niður aðra skatta eða lækka ýmsa aðra tekjustofna ríkissjóðs, og þá kemur fyrst til greina eftirgjöf eða lækkun á hinum almenna tekjuskatti. Það er mjög eftirtektarvert í sambandi við þetta mál, hvað þær áætlunartölur breytast ört, sem farið er með í því sambandi. Þegar miðað er við árið 1959, þá er talið, að sú eftirgjöf, sem eigi að gera á tekjuskattinum, nemi 75 millj. kr. Þegar bókin Viðreisn er gefin út og búin til prentunar, sem var ekki fyrr en — eða a.m.k. var hún ekki af hendi látin fyrr en eftir þinghléið; þá er þetta áætlað 107 millj. Nú virðist sú tala vera orðin úrelt, svo ört breytast þessar áætlanir, og nú er áætlað, að þessi lækkun á tekjuskatti muni nema 110 millj. kr. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun; að það sé einkennilegt, hvað þessar áætlanir breytast ört, og það væri mjög fróðlegt að fá það upplýst hér í þessum umræðum; við hvaða grundvöll þessar áætlanir eru miðaðar. Nú er það kunnugt, að framtalsfrestur rennur að sönnu út í kaupstöðum í janúarlok, en í sveitahreppum og víða úti um land ekki fyrr en í febrúarlok, og skattanefndir munu víðast hvar ekki vera farnar að starfa enn þá. Það er því útilokað, að skattanefndir hafi látið uppi áætlanir um skattgjaldstekjur manna á árinu 1960. Það væri því næsta fróðlegt að heyra, hvernig þessi grundvöllur er lagður, sem þessar áætlanir eru byggðar á.

Þá er talað um það, að 9% söluskatturinn, sem áður hefur verið innheimtur af iðnaðarvörum og þjónustu, falli niður samkv, ákvæðum þessa frv. Á það hefur verið bent, og það vil ég ítreka, að sá hluti söluskattsins, sem rann til útflutningssjóðs, er nú innheimtur eða jafngildi hans er nú innheimt með álögum á þjóðina, sem felast í gengisbreytingunni, þannig að neytandinn eða kaupandi innfluttrar vöru greiðir í verði vörunnar álag, sem samsvarar þeim söluskatti, sem áður rann í útflutningssjóð. Það má því með miklum sanni segja, að í því efni sé einungis um tilfærslu á gjöldum að ræða, en að það sé ekki verið að létta álögum af þjóðinni með þessari breytingu.

Þriðja atriðið, sem bent er á í þessu sambandi, er það, að af hinum nýja söluskatti eigi 1/5 hluti, eða sem svarar 56 millj. kr., að renna til sveitarfélaganna. Ég vil eindregið taka undir það, sem fram hefur komið í þessum umræðum, að það eru ekki líkur til þess, að þetta framlag til sveitarfélaganna geti orðið til þess að lækka útsvörin frá því, sem þau voru 1959, heldur muni það einungis og væntanlega tæplega nægja til þess að standa straum af þeim gjaldaauka, sem sveitarfélögin verða fyrir sem afleiðingu af ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar.

Í grg. fyrir efnahagsmálafrv, er ráðgert, að hækkun á vísitölu muni nema kringum 13% vegna ákvæða þeirrar löggjafar. Ég hef aflað mér upplýsinga um það hjá félmrn. og Sambandi íslenzkra sveitarfélaga, hvað útsvör muni hafa numið miklu alls hjá öllum sveitarfélögum á landinu árið 1959. Um þetta liggja ekki fyrir lokareikningsskil, en það er áætlað af þeim mönnum, sem kunnugastir eru þessum málum, að útsvör hjá öllum sveitarfélögum á landinu hafi numið s.l. ár yfir 400 millj. kr., eða nánar tiltekið 425 millj. kr. Ef við leggjum þessa tölu til grundvallar og berum tekjuaukann, 56 milljónirnar, saman við það, þá sjáum við, að 56 millj. af heildarútsvarsálagningu sveitarfélaganna nema einungis rúmum 13%, og það er ekki með neinum líkum hægt að gera ráð fyrir, að gjaldaauki sveitarfélaganna verði minni en þessu nemur eða minni en ráðgert er að vísitalan hækki við áhrif efnahagslöggjafarinnar. Þvert á móti eru allmiklar líkur til þess, að gjöldin hækki umfram þetta.

Enn fremur er það mikilvægt atriði í þessu sambandi, hvernig þessum tekjum verður skipt milli sveitarfélaganna, og tel ég ákvæði gildandi laga um jöfnunarsjóð ekki vera þess eðlis, að skiptingin verði eðlileg milli sveitarfélaganna, ef þeim ákvæðum er fylgt, en um það efni ræði ég ekki nánar nú.

Í sambandi við umræður um fjárlagafrv. og efnahagsmálafrv. var þingmönnum og þjóðinni boðað, að fyrirhugað væri að leggja á almennan, lágan söluskatt með sem fæstum undanþágum. Það má því með miklum sanni segja, að mönnum komi ekki mjög á óvart ákvæði þessa frv. um 7.7% söluskattinn á tollverð vöru og jafnvel ekki heldur ákvæðin um 3% söluskattinn. En það, sem mönnum kemur sérstaklega á óvart, bæði þingmönnum og þjóðinni almennt, í þessu frv., eru ákvæðin um 8.8% söluskattinn, sem felast í bráðabirgðaákvæðum frv. Nú er þetta sett í bráðabirgðaákvæðin og orð látin falla um það, að þetta eigi að innheimta til bráðabirgða nú á þessu ári, einkum vegna þess að 3% skatturinn verði ekki innheimtur allt árið 1960.

Þá er á það að líta, hvaða líkur eru til þess; að þessum skatti, sem nú á að innheimta samkvæmt bráðabirgðaákvæðum þessa frv., verði aflétt, þegar þetta ár er liðið. Það hafa ekki verið færð fram rök fyrir því í þessum umræðum og meira að segja ekki bent á það með neinum líkum, að tekjuþörf ríkissjóðs fari minnkandi, hún muni verða þeim mun minni á árinu 1961 en 1960 sem þessum skatti nemur, enda hygg ég, að það sé næsta erfitt að færa rök fyrir því, Í áætlunum í sambandi við þessi efnahagsmálafrv. og í sambandi við heildarstefnu núv. ríkisstjórnar í efnahags- og skattamálum er gert ráð fyrir því, að gjaldeyristekjurnar fari ekki vaxandi að neinu ráði. Gjaldeyristekjurnar 1960 eru áætlaðar nálega þær sömu og á árinu 1958, og það er yfirlýst stefna ríkisstj., að nú eigi að kippa að sér hendi umfram það, sem verið hefur um erlendar lántökur. Rökrétt ályktun af þessu er sú, að innflutningsmagnið muni alls ekki aukast, t.d. á næsta ári, og að sá gjaldstofn eða sá grunnur, sem söluskatturinn, þegar reiknað er af tollverði vöru, er reiknaður af, muni ekki hækka.

Jafnframt og sem bein afleiðing af þessum ráðstöfunum, sem ég hef nú bent á að felast í stefnu ríkisstj., þá er stefnt að samdrætti innanlands í verklegum framkvæmdum: Af því hlýtur að leiða það, að ekki eru líkur til þess, að 3% söluskatturinn skili hærri tekjum á næsta ári en hann gerir nú, ef miðað er við 12 mánuði ársins, og ég ætla, að nú sé gert ráð fyrir, að tekjur af 3% söluskattinum nemi á 9 mánuðum þessa árs í kringum 140 millj. kr.

Ef hið sama gjald væri innheimt af jafnháum gjaldstofni árið 1961, ætti hann ekki að skila nema 175 millj. kr. á 12 mánuðum. Í viðbót við þetta tók svo frsm. meiri hl. fjhn. það fram nú við þessa umr., að það hefði aldrei verið fullyrt, að nægar tekjur fengjust með því að innheimta 3% söluskattinn einan. Þessu til viðbótar kemur svo fram sú skoðun hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls hér í d., að miklar líkur bendi til þess, að þróun skattamála á næstunni verði sú, að innheimtar verði í vaxandi mæli til ríkissjóðs tekjur af söluskatti.

Þegar á allt þetta er litið, virðist það fremur ólíklegt, að ekki sé meira sagt, að það þyki grundvöllur fyrir því að afnema t.d. um næstu áramót eða fyrir næstu áramót, fyrir árið 1963, þann skatt, sem nú á að innheimta samkvæmt bráðabirgðaákvæði þessa frv. En þar sem málið liggur þannig fyrir, er ekki hægt að horfa fram hjá því, að það felst í því nokkur blekking af hálfu hæstv. ríkisstj. að túlka þetta bráðabirgðaákvæði svo sem það elgi einungis að standa 9 mánuði þessa árs.

Þá er á það að líta, hvert viðhorf almennings muni vera til þess skatts, sem innheimta á samkv. þessu frv. Þess er þá að geta, að söluskatturinn leggst jafnt á allar vörur, bæði nauðsynlegar og ónauðsynlegar, og á það hefur verið bent í þessum umræðum, að sú skoðun hefur komið fram hjá forustumönnum Alþfl. hér áður á Alþingi og lögð á það mikil áherzla af þeirra hálfu, að söluskatturinn væri jafnvel sérstaklega ranglátur tekjustofn, vegna þess að hann leggst jafnþungt á allar vörur, bæði þær nauðsynlegustu og hinar, sem eru miður nauðsynlegar. Sá er munur á honum og t.d. verðtolli, að vörurnar eru flokkaðar, þegar um verðtollsálag er að ræða, og mestu nauðsynjavörurnar ýmist undanskildar tollinum eða aðeins lágt tollgjald innheimt af þeim. Og svo virðist sem Alþýðuflokksmenn, stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., séu jafnvel enn á þessari skoðun, eftir því sem fram kemur í aðalmálgagni flokksins, þó að það sé svo sem eftir öðru, að þeir greiði atkv. með þessu frv., því að það er nú orðin dagleg venja hér á þingi, að þeir greiði atkv. með því, sem þeir hafa mest fordæmt áður, en nú fyrir örfáum dögum, þ.e.a.s. föstudaginn 11. þ.m., segir svo um söluskattinn í forustugrein í Alþýðublaðinu:

„Þegar lífskjör alþýðunnar eru svo knöpp, að hún getur ekkert leyft sér nema nauðþurftir, er að sjálfsögðu mjög óeðlilegt að leggja á þær vörur söluskatt. Við þær aðstæður kemur skatturinn þyngst niður á þeim, sem sízt skyldi.“

Á meðan þetta frv. er til umræðu hér í hv. d., flytur aðalmálgagn Alþfl. þessa kenningu. En ég endurtek það, að það er alveg eftir öðru í þeim herbúðum, að þm. flokksins greiði atkv. með frv. þrátt fyrir þetta.

Ef á að gera sér grein fyrir því, hvað söluskatturinn samkv. þessu frv. er raunverulega mörg prósent, ef hann kæmi allur á tollverð vörunnar, verður að taka tillit til þess, að grunnurinn, sem 3% söluskatturinn er reiknaður af, er hærri en tollverð vörunnar. Ef þau 3% ætti að innheimta með því að reikna þau af tollverðinu, jafngildir það 4–5%.

Nú hefur það komið fram í þessum umræðum, að þær hækkanir og sú skerðing á lífskjörum almennings, sem kemur í kjölfar þessa frv., hafi ekki verið reiknuð með í grg. fyrir efnahagsmálafrv. eða þegar hvíta bókin var gefin út. Nú er það og auðsætt, að byggingarkostnaður hlýtur að hækka verulega vegna söluskattsins, sem leggst á byggingarefnið og að nokkru leyti á byggingarvinnu samkv. þessu frv. Söluskatturinn hlýtur að auka byggingarkostnaðinn og þar af leiðandi hækka húsnæðislið vísitölunnar, en það var einmitt húsnæðisliður vísitölunnar, sem ráðgert var í efnahagsfrv. að ætti að vega svo mikið að halda meðaltalshækkuninni niðri í 13%.

Það er því alveg augljóst, að með þessu frv. er að verulegu leyti kippt stoðum undan þeim útreikningum, sem efnahagsmálafrv. grundvallaðist á.

Það er í sjálfu sér um svo stórt mál að ræða hér, og áhrif þess eru svo margþætt, að það er erfitt að lýsa því nægilega greinilega með almennum orðum, og því verður ekki heldur við komið í umræðum sem þessum að draga fram mjög mörg dæmi máli sínu til sönnunar, en ég ætla þó að rökstyðja þessi orð mín með því að nefna hér eitt dæmi. Áður hef ég vikið að áætlunum um hækkun á vísitölu og nauðsynjavörum. En það er margt fleira, sem nauðsynlegt er að kaupa vegna framkvæmda og vegna atvinnurekstrar en það, sem fært er inn í vísitöluna, og eitt dæmi af þeirri tegund ætla ég að nefna.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það, hvað heimilisdráttarvél af mjög algengri gerð, þ.e.a.s. Fergusondísildráttarvél, muni hækka við áhrif efnahagsmálalöggjafarinnar og áhrif þessa frv. Nú er það nokkuð misjafnt, jafnvel þó að um svona ákveðin tæki sé að ræða, hvort menn velja alveg fullkomnustu gerð að öllu leyti eða láta sér nægja að taka þær með miðlungsútbúnaði, sem ekki er hægt að telja af fullkomnustu gerð. Ef tekin er dráttarvél, sem er með þeim útbúnaði, sem hin smærri bú hér á landi telja sér nauðsynlegt að fá, þ.e.a.s. engin tæki, heldur bara venjulegir hjólbarðar og það, sem nauðsynlega þarf að fylgja vélinni, eins og hún er keypt af meðalbúum og hinum smærri hér á landi, þá lítur það dæmi svona út: Ef slík vél hefði verið keypt í janúar 1960 og þá vitanlega með 7.7% söluskatti, hefði hún kostað í útsölu til kaupandans 52200 kr. Ef hún hefði verið keypt við skulum segja í dag, eftir að efnahagsmálafrv. ríkisstj. er orðið að lögum, og með því að taka tillit til 20% farmgjaldahækkunar, sem nýlega hefur verið ákveðin, hefði sams konar vél kostað í dag 77414 kr. En verði hún keypt í apríl, þegar þetta frv. hefur væntanlega orðið að lögum, og tekið er þá tillit til 16.5% söluskatts af tollverði vörunnar og 3% söluskatts á síðasta stigi, eins og það er kallað, þá kostar slík vél 8576 5 kr. Hækkunin við ráðstafanir ríkisstj. síðan í jan. þ.á. nemur rúmlega 64%.

Nú má athuga ýmsa liði í þessu dæmi. Í janúar þ.á. hefðu öll gjöld til ríkisins, þ.e.a.s. tollar og söluskattur samtals af þessari dráttarvél, numið 9219 kr., en eins og gjöldin verða væntanlega í apríl, eftir að þetta frv. hefur verið lögfest, nema gjöld til ríkisins af þessari vél 22130 kr., þ.e. hækkun, sem stendur í sambandi við það kaupverð, sem ég greindi áðan. En ef við reynum að gera okkur grein fyrir ákvæðum þessa frv. eins út af fyrir sig og lítum á söluskattinn bara einan, lítur sá þáttur dæmisins þannig út, að í janúar hefði söluskattur numið af dráttarvélinni 3415 kr., en væntanlega í apríl, ef þetta frv. verður samþ. óbreytt, mun hann nema 13477 kr.

Þetta var um dráttarvélar með þeim útbúnaði, sem hin smærri bú hér á landi telja sér nauðsynlegt að fá. En hin stærri bú og þeir, sem hafa meiri fjárráð, vilja gjarnan fá slíka vél t.d. með sterkustu gerð hjólbarða, með ýmsum mælum, ljósamæli o.fl., sem margir láta vanta. Ef dæmið er athugað út frá þeim forsendum, lítur það þannig út, og þá miðað við það fullkomnasta, en engin tæki, hvorki til jarðyrkju né heyvinnslu með, heldur aðeins vélina í fullkomnasta ástandi.

Í janúar 1960 hefði hún kostað með 7.7% söluskatti 59190 kr. Hefði hún verið keypt í gær eða í dag, hefði hún kostað 87950 kr., en verði hún keypt í apríl, eftir að þetta frv. hefur verið samþ., mun slík vél kosta 97450 kr. Er þá hækkunin frá því í janúar þ. á. tæp 65%. Öll gjöld til ríkisins, þ.e.a.s. tollar og söluskattur, hefðu numið í janúar 10469 kr., en munu væntanlega nema í apríl 25166 kr. Þar er því að ræða um nálega 140% hækkun á þessum gjöldum til ríkisins. En ef við lítum nú á þetta frv. sérstaklega og lítum á söluskattinn einan, hefði hann numið í janúar 3883 kr., en nemur væntanlega í apríl 15332 kr., eða hér er um að ræða á söluskattinum einum nálega 300% hækkun á þessu eina stykki.

Það hefur oft í Morgunblaðinu, aðalmálgagni hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl., á undanförnum árum verið talað um Eysteinsskattana. Ja, hvernig skyldu nú Eysteinsskattarnir hafa verið í þessu sambandi? Eysteinssöluskatturinn nam 6.6% af útsöluverði þessara ákveðnu dráttarvéla, en Gunnarssöluskatturinn mun væntanlega nema 15.7% af útsöluverði sömu vélategunda án verðbreytinga erlendis.

Ég ætla, að þetta dæmi bregði nokkru ljósi yfir það, hvað verið er að hafast að hér á hv. Alþingi af þingmeirihlutanum undir forustu hæstv. fjmrh.

Að því hefur verið vikið í umræðunum um þetta mál, að sá mikli annmarki væri á að lögleiða þann tekjustofn, sem um er fjallað í þessu frv., að hann væri erfiður í innheimtu og að það væri mjög líklegt, að hann kæmi ekki allur til skila í ríkiskassann. Hæstv. fjmrh. svaraði því hér við 1. umr. á þá leið, að það væru heldur kaldar kveðjur, sem þeir fengju frá þeim þm., sem á þetta bentu, aðilar, sem ætlað væri að innheimta söluskattinn og skila honum til ríkisins.

Það er nú kunnara en frá þurfi að segja, að það hafa ýmsir á undanförnum árum látið í ljós þá skoðun, að bæði tekjuskatturinn, sem lagður er á samkv. framtölum manna, og fleiri gjöld til ríkisins innheimtust ekki svo skilvíslega sem lög mæltu fyrir um. Það færi eftir því, hvaða aðstöðu skattþegnarnir hefðu til þess að gera framtöl sin þannig úr garði, að skattþunginn yrði sem minnstur o.s.frv. Þetta mætti rökstyðja með mörgum tilvitnunum í þingskjöl frá liðnum árum. En ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að greina mörg dæmi um þetta. Ég hef hér fyrir hendi eitt dæmi, þar sem þessi skoðun er ótvírætt látin í ljós, og það vil ég nefna þessum orðum til stuðnings.

Þegar Alþfl. beitti sér fyrir því á þingi að fá samþ. till. um að láta kanna gaumgæfilega möguleika á, að tekjuskattur verði afnuminn með öllu, var sú till. flutt af 7 þm. flokksins og þ. á m. af 2 þm., sem nú eiga hér sæti í þessari hv. d. Í grg. með þeirri till. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þýðing tekjuskattsins er gerbreytt. Hann er orðinn lítill hluti ríkisteknanna, en mikill meiri hluti þeirra er ábeinir skattar. Atvinnuvegir landsmanna eru orðnir svo fjölbreyttir og tekjustofnar einstaklinga svo margbreytilegir, að það er ýmsum atvikum háð, hvaða tekjur eru gefnar upp til skatts og hverjar eru það ekki. Þannig hefur skapazt í þjóðfélaginu verulegt misrétti, sem er fastlaunafólki í óhag. Stafar þetta af þeirri staðreynd, að mikill hluti skattgreiðenda hikar ekki við að telja rangt fram, og sýnir það bezt, að skatturinn er ekki í samræmi við réttarmeðvitund þjóðarinnar. Af þessum sökum væri það veruleg bót að losna við hann.“

Hér stendur skráð í þskj., sem borið er fram af 7 þm. Alþfl., sú skoðun, að íslenzkir skattþegnar hiki ekki við að telja rangt fram til tekjuskatts. Skattskýrslur manna eru þó undirritaðar með drengskaparyfirlýsingu, eins og kunnugt er. Og það hefur verið á það bent í þessum umræðum af hv. 3. þm. Norðurl. v., að mjög svipuð skoðun hefur verið flutt í þingræðum af hálfu forustumanna Alþfl. um söluskattinn, þann tekjustofn, sem við erum hér að ræða um, enda mun það hafa verið svo, að nokkur reynsla var fengin fyrir því að innheimta söluskatt af smásölu, en horfið frá þeirri skattheimtu með tilliti til þess, að reynslan þótti benda til, að skatturinn kæmi ekki allur til skila. Nú er þess að gæta, að þeir, sem telja fram til tekjuskatts, og þeir, sem hafa atvinnurekstur með höndum og þykja eiga hægast með að haga framtölum sínum þannig, að skattbyrðin verði ekki þung, eru yfirleitt sömu gjaldþegnarnir, það er sömu Íslendingarnir og þeir, sem eiga að annast innheimtu söluskattsins í smásölu og skila honum til ríkisins. Ég held því, að ef hæstv. fjmrh. finnst það kaldar kveðjur frá mér og öðrum þm., sem benda á þann annmarka, sem þessu fylgir, þá sé ástæða til þess fyrir hann að líta sér nær til þeirra kenninga, sem hans eigin stuðningsmenn í núv. ríkisstj. hafa áður flutt.

Þessu næst ætla ég að fara örfáum orðum um einstök atriði þessa frv.

Þegar frv. er lesið, þá er það augljóst, að ýmsar greinar þess eru þannig úr garði gerðar, að framkvæmd frv., ef að lögum verður, hlýtur að hafa mikla erfiðleika í för með sér. Ég bendi á ákvæði í 4. gr., þar sem úttekt eiganda úr eigin fyrirtæki, hvort sem um er að ræða vöru, vinnu eða þjónustu, þar með talin þjónusta viðgerðarverkstæða vegna eigin rekstrar, á að skattleggjast. Í sömu grein er tekið fram, að þjónusta fyrir hinn skattskylda aðila sjálfan skuli í ýmsum tilfellum skattleggjast. Og það er eins, ef um skipti er að ræða á vörum eða skipti gegn vörum og þjónustu er að ræða, þá á það að skattleggjast. Ég held, að það verði ekki á móti því mælt, að ákvæði sem þessi hljóti að verða mjög torveld í framkvæmd. Það er að sönnu gert ráð fyrir því að framkvæma þetta á þann hátt, að sé um að ræða skipti á vöru og þjónustu, gjafir, afhendingu vara án endurgjalds, úttekt eiganda úr eigin fyrirtæki eða ef greitt er í vörum og þjónustu, þá skuli miða þetta við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. En hvaða opinber aðili á að meta þetta? Ég hygg, að þó að það mat og eftirlit yrði lagt á herðar skattanefnda, þá hefðu þær ekki auðvelda aðstöðu í þessu efni.

Í fyrsta skipti í íslenzkri stjórnmálasögu á nú að teygja skattheimtu til ríkisins svo langt að innheimta söluskatt af matvælum framleiddum innanlands, sem ganga kaupum og sölum milli framleiðenda og neytenda. Nú á að skattleggja til ríkisins landbúnaðarafurðir, svo sem kjöt, skyr, osta, kartöflur og aðra garðávexti samkv. ákvæðum þessa frv. Hið sama er að segja um fisk, sem íslenzkir fiskimenn draga úr sjó og hér er hafður á boðstólum.

Það getur ekki farið fram hjá neinum, að hér er um nýjung að ræða. Og í þessu sambandi er rétt að minna á, að það hefur nú tekið 6 mánaða samningaþóf og baráttu að fá því framgengt, að bændastéttin fengi 2.85% verðhækkun á landbúnaðarafurðir sínar. Þetta er verðhækkun, sem neytendur eiga að greiða. En fáum dögum eftir að samningar hafa náðst um þetta eftir sex mánaða þóf, leggur ríkisstj. það fyrir hér á hv. Alþingi, að þessar vörur, sem ganga kaupum og sölum innanlands frá framleiðendum til neytenda, skuli nú skattleggja um 3%, eða fyllilega sem samsvarar þeirri hækkun, sem bændurnir eiga að fá. Ef neytendurnir eiga raunverulega að bera þetta, virðist mér, að hér sé komið harkalega í bakið á þeim, þegar samningar milli neytenda og framleiðenda eru nýlega um garð gengnir. En ef það er ætlunin að greiða þessa verðhækkun niður á landbúnaðarvörum, virðist mér það vera ekki neinar hagkvæmniástæður, sem þar liggja til grundvallar, að ríkið leggi á skatt til þess að greiða sjálft niður skattinn, það sem honum nemur. Þá er ekkert orðið eftir að þessu leyti annað en fyrirhöfnin og skriffinnskan, og svo er talað um það öðrum þræði, að margt í þessu frv. sé fram borið af hagkvæmniástæðum, bæði hvað undanþágur séu fáar o.fl.

Í 6. gr. þessa frv. eru ákvæði um, hvaða vörur eigi að vera undanþegnar söluskatti. Það kemur ekki alveg skýrt fram af orðalagi gr., hvort undanþágurnar eru einungis miðaðar við þann söluskatt, sem um er rætt í II. kafla frv., eða hvort 6. gr. nær til ákvæða frv. alls. Ég vænti, að þetta verði skýrt í umræðunum hér á eftir af framsögumanni — eða ráðherra. En mér virðist, að samkv. því, sem frv. er sett upp, ef svo má segja, eða eins og efni frv. er niður raðað, þá virðist mér eðlilegast að skilja 6. gr. þannig, að þar sé einungis rætt um undanþágur frá þeim söluskatti, sem fjallað er um í II. kafla frv. Og ef svo er, þá kemur það í ljós, að vegna þess, hve háa fjárhæð á að innheimta samkv. bráðabirgðaákvæðum þessa frv., þá ná þessar undanþágur skemmra en ella. Mér virðist; að ef ætti að láta þessar undanþágur ná til þeirrar fjárhæðar, sem innheimt verður samkv. bráðabirgðaákvæði .frv:; þá sé eðlilegt; að það komi fram í þessum umræðum, hvort tekið er tillit til þess í áætlunum um þennan gjaldstofn í heild eða hve langt hæstv. fjmrh. ætli sér að ganga í þessu efni. En í 6. gr. er rætt um m.a. skip og flugvélar. Það eru tæki, sem kosta miklar fjárhæðir, a.m.k. svo að milljónum skiptir, togarar og vélbátar líka, og 8.8% af tollverði slíkra tækja hlýtur að nema verulegum fjárhæðum.

Þá vil ég enn fremur bera fram fsp. um það, hvort það sé ætlunin að breyta ákvæðum um skattanefndir. Ég veit, að það á ekki heima í þessu frv., en þetta frv. stendur þó að því leyti í sambandi við störf skattanefnda, að þeim er ætlað að annast framkvæmd þessara ákvæða að ýmsu leyti. Það má óljóst ráða það af orðalagi þessa frv., að að þessu sé stefnt. Þess vegna spyrst ég fyrir um þetta, en ræði það ekki nánar að svo stöddu.

En áður en ég hverf frá því að ræða um einstök atriði þessa frv., vil ég benda á, að mér virðist sumt í því vera þannig, að það sé síður en svo stefnt að aukinni hagkvæmni í framkvæmd skattheimtu hjá ríkinu. Ég minni á, að fyrir fáum dögum var hér til umræðu á Alþingi frv., sem heimilaði ríkisstj. að ákveða að eigin vild álagningu á tóbak, án nokkurra takmarka í lögum. Ég held, að þetta frv. sé nýlega afgr. sem lög frá hv. Nd. Þegar ríkisstj. hefur fengið þessa nýju löggjöf í hendur og til framkvæmda, mætti ætla, að hún sæí sér fært að ná inn eftir þeirri leið þeim tekjum í ríkissjóð af tóbaki, sem hún hygðist innheimta, en í þessu frv., sem nú er til umræðu, fáum dögum eftir að hitt er afgreitt, þá á til viðbótar því að innheimta söluskatt af tóbakinu, meira að segja 3% skattinn, síðasta stigs skattinn, sem svo er nefndur.

Ég hef áður vikið að því, að ef ætlunin er að greiða verðhækkunina, sem af söluskattinum leiðir, á landbúnaðarvörum niður, þá er hér beinlínis stefnt að því að auka skriffinnskuna og taka úr einum vasanum og láta í hinn: Og ég get ekki látið hjá líða að benda á, að jafnvel með allri alvörunni, sem fylgir þessu stóra máli, hefur ríkisstj. þó tekizt að gera sig broslega. Í 20. gr. þessa frv. er ákvæði um það; að fjmrh. megi ákveða, að ekki skuli leggja söluskatt á viðskipti; ef ársveltan nemur eigi meira en 1000 kr. Ég held nú, að miðað við það gildi; sem orðið er á íslenzkri krónu, og miðað við þá veltu, sem einstaklingar og fyrirtæki hafa í þessu landi, þá sé hér óþarflega naumt skorið að tala um ársveltu um 1000 kr. Ég held, að það væri alveg óhætt að bæta einu núlli aftan víð miðað við þær tölur, sem hér er fjallað um yfirleitt hér á hv. Alþingi:

Og þá vil ég enn benda á; að nokkuð skortir á heildaryfirsýn í frumvörpum, sem boða stefnu hæstv. ríkisstj:, þegar við eigum nú með þessu frv. að fella úr gildi tvær greinar efnahagsmálalöggjafarinnar, sem afgr. var sem lög hér fyrir fáum dögum. Það er ekki búið, að ég hygg, að sérprenta löggjöfina; þannig að þingmenn hafi fengið hana í því formi. Talið er, að allt saman þetta sé mótað af einni heildarstefnu ríkisstj., en áður en búið er að sérprenta efnahagsmálalöggjöfina, er okkur boðið upp á að fella nú úr gildi tvær greinar þeirrar löggjafar með þessu frv.

Þá vil ég að lokum fara örfáum orðum um þá heildarstefnu hæstv. ríkisstj., sem fram kemur í þessu frv. og öðrum stjórnarfrumvörpum, sem hér hafa verið til meðferðar. Það er sagt frá því í einni Íslendingasögu, að kappi nokkur átti loðfeld svo haglega gerðan, að annað borðið var hvítt, en hitt dökkt. Hann hafði þann hátt á, að þegar hann gekk til verka, sem voru miður drengileg, sneri hann feldinum þannig, að dökka borðið sneri út, en þegar hann vildi gjarnan láta mikið bera á sér og koma fram með höfðingsskap gagnvart samferðamönnum, þá sneri hann kápunni við, svo að hvíta borðið sneri út. Mér virðist þessi forna líking benda á ýmislegt í fari hæstv. ríkisstj., þegar hún ber fram stefnumál sín hér á hv. Alþingi og rökstyður þau.

Fyrir kosningarnar voru stefnuskrár stjórnarflokkanna miðaðar við það, að það ætti að halda áfram stöðvunarstefnunni svokölluðu, sem fyrrv. ríkisstj. taldi sig fylgja. Í stefnuskrá Sjálfstfl. segir m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Að vísu voru s.l. vetur gerðar bráðabirgðaráðstafanir gegn vexti verðbólgunnar. En öllum er ljóst, að verðhækkunaralda mun senn rísa á ný með meiri þunga en áður, ef ekkert er að gert.“

Þetta er greinileg og ótvíræð viðvörun við verðhækkunaröldu. En Alþfl., flokknum, sem þorði að stjórna, eins og þeir sögðu í Alþýðublaðinu fyrir kosningarnar, þótti nú sjálfsagt ekki nógu sterklega til orða tekið hjá samstarfsflokki sínum, Sjálfstfl., og Alþfl.-menn tóku því miklu ákveðnara til orða að þessu leyti. Hv. þm. Sigurður Ingimundarson komst þannig að orði í útvarpsumræðum 21. okt. í haust, rétt fyrir síðustu kosningar, með leyfi forseta:

Alþfl. stendur einn í baráttunni gegn verðbólgu og vaxandi dýrtíð, gegn hinum flokkunum öllum, verðbólguflokkunum.“

Jafnvel Sjálfstfl., flokkur hæstv. fjmrh., var þá grunaður, að því er virtist, af flokknum, sem þorði að stjórna, um það að standa ekki nægilega vel á verði um stöðvunarstefnuna. En Alþfl. ætlaði ekki að hika eða víkja af þeim verði. Um það bar stefnuskrá flokksins og blaðaskrif greinilega vitni. En hámarki ná þó þessir tónar í yfirlýsingu hæstv. varaforseta þessarar d. Á hana hefur áður verið minnzt hér í d., þegar hann var fjarstaddur, en við mælum hæð fjallanna upp á hæsta tindinn og við metum gildi skáldanna og hinna andlegu verka eftir því, sem mest gildi hefur. Nú er þessi yfirlýsing hæstv. varaforseta þessarar d. svo skorinorð, að hún mun áreiðanlega lifa lengur en allt annað, sem hann hefur látið frá sér fara hingað til á sínum stjórnmálaferli, og þess vegna er það eðlilegt, eins og menn fara oft með úrvalsljóð skáldanna, að til hennar sé vitnað enn, þó að það hafi áður verið gert í þessari hv. d. Hann komst þannig að orði, og fylgdi því mynd af honum á forsiðu Alþýðublaðsins, með leyfi hæstv. forseta, skömmu fyrir seinustu kosningar:

„Undanfarið hafa birzt í Alþýðublaðinu ummæli margra helztu forustumanna þeirra launþegasamtaka, sem Alþýðuflokksmenn hafa forustu fyrir. Þeir eru allir á sömu skoðun, að við krefjumst status quo — óbreytts ástands. En ef opnuð verður nokkur gátt fyrir dýrtíðarflóðið, þá munum við ekki sitja hjá, heldur fara af stað með okkar kröfur. Ég er algerlega sammála þessari stefnu. Ég mun leggja alla áherzlu á að fylgja henni fram. Aðrir flokkar verða að gera sér ljóst, hvað í húfi er: Alþfl. heimtar óbreytt ástand. Við í launþegasamtökunum styðjum þá stefnu. Þjóðin veit, að hverju hún gengur. Hennar er að velja á milli. Ef dýrtíðarflóðinu verður aftur hleypt yfir þjóðina, þá erum við lausir allra mála. Við munum hefja okkar varnarráðstafanir þegar í stað. Þetta er aðvörun til stjórnmálaflokkanna, en það er um leið aðvörun til þjóðarinnar.“

Og nú er það augljóst, að í þeim frv., þar sem stefna núv. ríkisstj. kemur fram og er mótuð, er ekki á nokkurn hátt gerð tilraun til þess að hafa hemil á verðlagi eða fylgja hinni svokölluðu stöðvunarstefnu. Þvert á móti er blaðinu nú svo gersamlega snúið við, að nú er ekki aðeins ein gátt opnuð fyrir dýrtíðarflóði, heldur margar gáttir, jafnvel allar gáttir, sem snert er við. Og þannig er framkvæmdin á stefnuskrám þessara flokka, eins og þær voru lagðar fyrir í síðustu kosningum. Fyrir og um síðustu áramót var talið, að það þyrfti ekki nema 250 millj. í nýjum sköttum, eins og aðrir hafa bent á, til þess að sjá borgið efnahagslífi þjóðarinnar og atvinnulífi á þessu ári. Nú eru álögurnar miklu meiri. Þegar áætlanir eru gerðar um gjaldeyristekjur þjóðarinnar í sambandi við efnahagsmálafrv., þá er dæmið sett þannig upp, að gjaldeyristekjurnar 1959 áttu ekkí að vera neitt meiri en 1958 þrátt fyrir 11% aukningu á aflamagni. Þegar innflutningsáætlunin er lögð fyrir, er hún miðuð við niðurskurð á því, sem verið hefur, að ég ætla, fremur en nokkra útþenslu. Það er sem sé greinilega stefnt að samdrætti innanlands um verklegar framkvæmdir, þegar áætlanir eru gerðar um þjóðarbúskapinn í heild. Þá er sem sé dökka borðið á kápunni látið snúa að almenningi. En þegar kemur að því að gera áætlanir í sambandi við þetta frv. og tryggingalöggjöfina, þá er kápunni snúið við og hvíta borðið látið vísa að almenningi. Áætlanir um skattgjaldstekjurnar 1960 breytast svo ört, eins og ég gat um fyrr í þessari ræðu; að þegar miðað er við 1959, eru það 75 millj.; sem á að gefa eftir. Þegar hvíta bókin var gefin út eftir þinghléið, þá var þetta áætlað 107 millj. Nú er það orðið úrelt og nú er áætlunin 110 millj. Svona ört vaxa skattgjaldstekjurnar, þegar áætlanir eru gerðar um þær á árinu 1960, þrátt fyrir þann samdrátt, sem stefnt er að í þjóðarbúskapnum. Og það var látið koma fram í sambandi við efnahagsmálalöggjöfina, að fjölskyldubæturnar mundu alveg vega upp á móti þeirri gjaldabyrði, sem þriggja barna fjölskylda eða stærri hefði af efnahagsmálalöggjöfinni. Nú er tekið fram, að sú lífskjaraskerðing, sem leiðir af þessu frv., sem er eitt stefnuskráratriði ríkisstj., hafi ekki verið tekin til greina í þessum tölum. Þá er grundvöllurinn undir þeim útreikningum a.m.k. mjög hæpinn orðinn.

Svona er rökstuðningurinn, ýmist dökka borðið á kápunni látið snúa að almenningi eða hvíta borðið, eftir því, um hvaða þátt þjóðarbúskaparins er fjallað hverju sinni. En þrátt fyrir þetta er heildarstefna ríkisstj. að skýrast æ betur, bæði fyrir þingmönnum og fyrir almenningi, og það getur ekki farið hjá því, að almenningi í þessu landi virðist gægjast úlfshár undan gærunni. Tekjuskatturinn kom ekki inn í verðlag vöru og hafði ekki áhrif á vísitöluútreikning. En þetta nýja söluskattskerfi, sem nú á að lögleiða og kallað er einstigskerfi, virðist mér vera geysihagleg geit til þess að drýgja tekjur ríkissjóðs á þann hátt að seilast æ dýpra niður í vasa almennings. Ég fæ ekki betur skilið en þetta eins stigs söluskattskerfi feli það í sér, að það eigi að reikna 3% við afhendingu vörunnar, hvar sem hún fer fram í smásölu, t.d. í verzlunum úti á landsbyggðinni. Þá er búið að reikna inn í vöruverðið flutningskostnað, bæði farmgjöld og hafnargjöld, og ýmislegt fleira, sem fyrirtækin úti á landsbyggðinni verða að reikna inn í vöruverðið. Ég fæ því ekki betur séð en að með þessu einstigskerfi og auðvitað í sambandi við heildarstefnuna sé stefnt að því að hækka fyrst farmgjöld, eins og fleiri kostnaðarliði, svo að grunnurinn, sem 3% eru reiknuð af, fari síhækkandi eftir þeim kostnaðarauka, sem leggst á við flutning vörunnar út á landsbyggðina. Þá er þetta eins stigs söluskattskerfi raunverulega eins og snjóbolti, sem veltur niður hlíð og vefur sjálfkrafa utan á sig, eftir því sem hann veltur lengur. Þetta er því jafnframt tæki til þess að seilast niður í vasa almennings úti á landsbyggðinni. jafnvel umfram það, sem gert er á þeim stöðum, þar sem aðalinnflutningur á vörum til landsins fer fram.

Alþingi er eins konar brennidepill félagasamtaka í landinu og félagsmálabaráttunnar. Nokkuð á aðra öld hafa Íslendingar verið að móta þjóðfélag sitt með síauknu félagsstarfi. Og norðlenzki bóndinn, sem sá þá andans sýn fyrir 130 árum, að með stofnun fyrsta búnaðarfélagsins væri stigið mjög merkilegt skref og að hægara yrði síðar „að halda þíðri heilla veiðivök“, hann sá vissulega rétt. Með síauknu félagsstarfi hefur íslenzka þjóðin lyft sér til aukinnar velmegunar og byggt land sitt upp á margan hátt mjög myndarlega nú að undanförnu. Það liggur því í hlutarins eðli, að verðlagsmálin hafa jafnan verið talin veigamikil mál hér á hv. Alþingi, enda hefur að undanförnu miklum tíma verið varið til þess að fjalla um hina einstöku þætti verðlagsmálanna, þá þætti, sem mynda verðlagið og hafa rík áhrif á viðskiptakjör hvers einasta heimilis í þessu landi. Nú virðist það vera orðinn jafnvel aðalþátturinn í stefnu hæstv. ríkisstj. að gefa í þessu efni alveg lausan tauminn og láta verðlagsmálin vera utan við afskipti Alþingis, láta lögmál framboðs og eftirspurnar ráða, láta þá, sem fjárráðin hafa, bæta sinn hag, en þann, sem minni máttar stendur í þjóðfélaginu, sjá sér borgið eftir því, sem hann getur. En ríkisstjórnin hlýtur að verða þess vör, ef ekki nú þegar, þá síðar, að á þennan hátt er hún að vinna gegn hagsmunum almennings í þessu landi.