05.04.1960
Sameinað þing: 35. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (2690)

74. mál, dvalarheimili í heimavistarskólum

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 7. þm. Reykv. að flytja till. til þál., sem liggur hér frammi á þskj. 138 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leita samninga við hlutaðeigandi skólanefndir og sveitarstjórnir um það, að bæjarfélög eigi þess kost að fá til afnota á sumrin heimavistarskóla í sveitum til að hafa þar sumardvalar- og námsheimili fyrir kaupstaðarbörn.“

Eins og hv. alþm. vita, hefur sú þróun orðið nú hin síðustu árin, að fólkið hefur flutzt úr sveitum landsins og til þéttbýlissvæðanna og þá ekki hvað sízt til Reykjavíkur og kaupstaðanna hér við Faxaflóa. Þessum fólksflutningum hafa að sjálfsögðu fylgt ýmsir annmarkar og þá kannske ekki hvað sízt á sviði uppeldis- og skólamála.

Það hefur löngum verið keppikefli kaupstaðaheimila að geta komið börnum á sumrum í sveit, þar sem þau gætu dvalizt þar við störf, sem væru við þeirra hæfi. En vegna þess, hve sveitaheimilunum hefur fækkað í hlutfalli við kaupstaðaheimilin nú seinustu árin, hefur það orðið æ erfiðara fyrir foreldra í kaupstöðum að koma börnum sínum til dvalar á sveitaheimilum, og hefur þá af eðlilegum ástæðum það skeð, að sveitaheimilin hafa helzt tekið þau börn til dvalar hjá sér, sem eru frá frændfólki og skylduliði í þéttbýlinu, en aðrir hafa þar orðið út undan.

Með till. þessari til þál., sem hér liggur frammi, leggjum við flm. til, að ríkisstj. og fræðslumálastjórnin beiti sér fyrir því að ná samningum við skólanefndir og sveitarstjórnir um það, að heimavistarskólum í sveitum, sem almennt eru ekki notaðir á sumrin, verði með samningum ráðstafað á þann hátt, að bæjarstjórnir eigi þess kost að senda þangað börn til sumardvalar. Teljum við, að með þessu væri tvennt unnið, að skólahúsin mundu notast betur en ella og að hægt væri á þann hátt að leysa að verulegu leyti þann vanda, sem hefur skapazt við það, að fækkað hefur mjög í sveitum landsins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja rökstuðninginn fyrir þessari till. neitt meira. Henni fylgir að vísu ekki mjög löng greinargerð, en ég held, að í henni sé drepið á flest þau atriði, sem mæla með samþykkt till., og vil ég því aðeins leggja til, að umræðunni verði hér með frestað og málinu vísað til allshn. sameinaðs Alþingis.