27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (2693)

74. mál, dvalarheimili í heimavistarskólum

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem fyrir liggur á þskj. 138, er um það að skora á ríkisstj. að leita samninga við hlutaðeigandi skólanefndir og sveitarstjórnir um það, að bæjarfélög eigi þess kost að fá til afnota á sumrin heimavistarskóla í sveitum til að hafa þar sumardvalar- og námsheimili fyrir kaupstaðarbörn.

Allshn. hefur rætt þetta mál og leitað um það umsagnar barnaverndarráðs Íslands, fræðslumálastjóra og Rauða kross Íslands og fengið þessar umsagnir. Það kemur fram m.a. í umsögn fræðslumálastjóra, að í þessum skólum, sem hér er um að ræða, þ.e.a.s. í heimavistarbarnaskólum í sveitum, héraðsskólum, húsmæðraskólum og bændaskólum, muni vera rúm fyrir um 1650 manns samtals í heimavistum, en þess er jafnframt getið, að einhverju af þessu rúmi muni vera ráðstafað a.m.k. hluta úr sumrinu, t.d. í bændaskólunum.

Eins og fram kemur í grg. till., er þar gert ráð fyrir, að kannaðir verði möguleikar á því að semja um, að þetta húsnæði verði að meira eða minna leyti notað til sumardvalar fyrir börn úr kaupstöðum, en eins og kunnugt er þeim, sem til þekkja, þá er það í mörgum tilfellum eitt mesta áhyggjuefni foreldra, hvernig megi verða mögulegt að koma börnum í sumardvöl, bæjabörnunum.

Við höfum í allshn. orðið sammála um að mæla með því, að till. verði samþ. með einni minni háttar orðabreytingu, þ.e. að í staðinn fyrir orðalagið „að leita samninga“ komi: að athuga möguleika á samningum, — og þannig breytt leggjum við til að tillagan verði samþykkt sem ályktun Alþingis.