27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (2706)

122. mál, tæknimenntun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil láta þess getið þegar við fyrri hluta þessarar umr., að ég tel hér vera hreyft við mjög athyglisverðu og merkilegu máli, sem fyllsta ástæða sé til að gefa mikinn gaum. En ég vil jafnframt nota tækifærið til þess að skýra frá því, sem hv. flutningsmanni hefur af eðlilegum ástæðum ekki verið kunnugt, að það eru þegar tvö ár síðan ég eða menntmrn. skipaði n. sérfróðra manna einmitt til þess að fjalla um hliðstæð efni og þau, sem hann fjallar um í till. sinni. Verkefnið er svo stórt, að n. hefur ekki enn lokið störfum sínum, þó að ég hafi fylgzt nokkuð með störfum hennar og viti, að þeim miðar vel áfram.

Það er langt síðan ég fyrir mitt leyti hef gert mér alveg ljóst, að eitt brýnasta viðfangsefnið á sviði íslenzkra menntamála er einmitt að bæta tæknimenntun þjóðarinnar, að bæta tæknimenntun æskunnar. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að í því efni dygði ekki að auka fræðslu í tæknigreinum í þeim skólum, sem fyrir hendi eru, né heldur að endurbæta neinn einstakan þeirra skóla, sem nú starfa, heldur vanti beinlínis í íslenzka skólakerfið lið, sem sérstaklega á að tryggja staðgóða og mikla tæknimenntun, á öðru stigi þó en háskólasviðinu.

Það, sem ég vildi segja, er þetta, að þó að það þurfi eflaust að auka tæknifræðslu á öllu hinu almenna skólasviði, sem við nú höfum starfandi, þ.e.a.s. allt frá barnaskólum og til stúdentsmenntunar, — ég er þeirrar skoðunar, að námsskráin þar sé enn of miðuð við gamla tíma og það hafi verið dregið um of að taka nægilegt tillit til hinnar nýju þekkingar, sem hefur verið að gerbreyta högum mannkynsins á hinum allra síðustu áratugum, — en ég er þeirrar skoðunar, að gera þurfi enn meira, að hér þurfi enn stærri og enn róttækari tök, ef við eigum að geta staðið öðrum þjóðum á sporði í samkeppninni með okkar útflutningsvörur og ef við eigum að halda áfram að geta bætt lífskjör okkar hér á landi jafnmikið og við viljum geta bætt þau. Við þurfum að gera enn meira en þetta. Við þurfum m.ö.o. að bæta inn í skólakerfið lið skóla, sem nú eru alls ekki til.

Þetta vandamál er ekki sérvandamál fyrir okkur. Það hefur verið rætt mjög mikið t.d. á Norðurlöndum undanfarin allra síðustu ár. Ég hygg, að sú leið, sem er verið að fara á sumum Norðurlandanna, mundi einnig henta okkur hér, þ.e. að búa til nýja tegund af skólum, tækniskólum, sem eru eins konar millistig á milli sériðnskólanna og vélskólanna, sem við höfum núna, og háskólanna, þ.e. að búa til eins konar tæknifræðingamenntun, — eða hvað sem hún yrði kölluð, — sem veitt yrði í sérstökum þætti skólakerfisins, sem sé almennari og mun meiri en sú tæknimenntun, sem nú er veitt t.d. í vélskólanum hér eða í iðnskólanum eða hugsanlegri framhaldsdeild við iðnskólann hér, sem stendur til að setja upp, en þó séu ekki gerðar eins miklar kröfur til manna og eru gerðar í almennu verkfræðinámi í háskóla. Það er án efa hægt að setja saman tæknimenntunarnámsskrá, þar sem menn þyrftu ekki að hafa lokið stúdentsprófi, en mundu geta orðið til mjög mikils gagns, þó að ekki væri um að ræða fullkomna verkfræðimenntun.

Það er þetta, sem ég tel að hér eigi að gera og vil segja aftur að sé eitt brýnasta verkefnið, sem nú þurfi að vinna að í íslenzkum skólamálum eða íslenzkum menntamálum. Ég vil því fagna því, að þessu máli er hreyft hér á Alþ., og vildi aðeins nota tækifærið til þess að skýra frá því, að því fer fjarri, að þetta mikla vandamál hafi ekki vakið athygli okkar í menntmrn. og okkar ráðunauta, heldur þvert á móti, því hefur verið þar rækilegur gaumur gefinn. Og þó að segja mætti, að ég hefði óskað eftir því, að störfum þeirrar n., sem að þessu hefur starfað, hefði miðað hraðar áfram, þá veit ég, að ástæðan til þess, að hennar störfum er ekki lokið, er eingöngu sú, hversu stórt og vandasamt málið er í raun og veru. En mér skal vera ánægja að því að skýra þeirri þingnefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, frá þeim upplýsingum, sem sú n. hefur aflað sér, og hvaða hugmyndir þar eru efst á baugi.