01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (2720)

170. mál, skógrækt

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi á þskj. 507, um framkvæmdaáætlun um skógrækt, er flutt af fjvn., og er gerð grein fyrir ástæðunni til, að till. er flutt, í grg. hennar. Þarf ég því ekki að fylgja henni úr hlaði með mörgum orðum,

Ástæðan til þess, að fjvn. sérstaklega hefur tekið þetta mál upp, er sú, að það hefur í sambandi við fjárveitingar til skógræktarinnar bæði nú í ár og síðustu ár verið sífellt vaxandi vandamál, hvernig ætti að leysa þá fjárþörf, sem þar er fyrir hendi. Það var á s.l. ári svo komið, að algert vandræðaástand var ríkjandi hjá skógræktinni í sambandi við það að koma þeim plöntum í jörð, sem voru þá til ráðstöfunar í uppeldisstöðvum skógræktarinnar. Á því ári var þessi vandi leystur með ýmiss konar samskotum, sem þá var gengið í af aðilum þessa máls, og var safnað á 5. hundrað þús. kr.

Við afgreiðslu fjárlaga nú í vetur var mjög sótt á það af skógræktinni, að fjárveiting til skógræktarinnar yrði aukin mjög verulega, og vísað til þess, að ella væru ekki nein úrræði til að koma í jörð þeim plöntum, sem þá væru til ráðstöfunar. Til þess að leysa þennan vanda var að því ráði horfið, eins og hv. þm. muna, að hækka álag það á vindlinga, sem heimilað er í fjárlögum að leggja á söluverð tóbakseinkasölunnar til landgræðslusjóðs. Var álag þetta hækkað um 10 aura, eða úr 20 aurum í 30 aura, og er gert ráð fyrir því, að þessi hækkun framlagsins, sem mun veita skógræktinni nokkur hundruð þús. kr. aukin fjárráð á þessu ári, geti leyst þann vanda, sem nú er við að glíma. En þessi atriði leiða glöggt í ljós, að það er sérstök nauðsyn að vinna hér að meira kerfisbundið en gert hefur verið, og hefur reyndar skógræktarstjóri ítrekað gert till. um, að gerð verði framkvæmdaáætlun um skógrækt til nokkurra ára, til þess að það liggi ljóst fyrir, hvernig skógræktin megi haga sínu starfi, þannig að ekki komi til vandræða vegna fjárskorts, er að því komi að setja plönturnar niður.

Nú er það svo, eins og menn vita að það tekur nokkur ár, frá því að fræi er sáð og þar til trjáplöntur eru gróðursettar, og verður því að gera sér nokkrar hugmyndir um það nokkur ár fram í tímann, hvaða fé muni verða til ráðstöfunar til framkvæmda, þegar sáning fer fram. Þessi staðreynd veldur því, að það er í fáum greinum, sem er eins mikil þörf á því, að unnið sé eftir ákveðinni áætlun, og einmitt í sambandi við skógræktina. Og það er vitanlega mjög raunalegt að horfa upp á það, að trjáplöntur, sem búið er að ala upp með ærnum kostnaði og fyrirhöfn, komist ekki í jörð fyrir þá sök, að þá sé ekki fé til ráðstöfunar til þess að sinna þeim þætti skógræktarinnar.

Þetta er í stuttu máli orsök þess, að þessi till. er flutt. Fjvn. telur nauðsynlegt, að það verði tekið til athugunar, hvernig að þessum málum verði unnið næstu 5 ár a.m.k., og reynt að gera sér grein fyrir því, hvernig hægt verði að samræma annars vegar framkvæmdir skógræktarinnar og hins vegar þær fjárveitingar, sem ætla má að geti orðið til ráðstöfunar í þessu skyni. Sú leiðin að hækka smám saman, eins og gert hefur verið, álag á vindlinga er raunar neyðarúrræði, og væri að sjálfsögðu heppilegt, að hægt væri að hverfa frá slíkri fjáröflunarleið, og hlýtur það að koma til athugunar í sambandi við afgreiðslu málsins. En hvernig sem niðurstaða þess máls verður, þá held ég, að það sé engum efa bundið, að það sé á allan hátt hagstætt fyrir skógræktina og starf þeirra manna, sem að því eiga að vinna á næstu árum, að geta unnið eftir fyrir fram gerðri áætlun. Það hafa áður verið gerð drög að þeirri áætlun, sem ætlað var að gilti þá um fimm ára bil. Sú áætlun var aldrei framkvæmd. En sú vinna, sem í hana var lögð þá, mun vafalaust koma að gagni við það verkefni, sem hér er lagt til að lagt verði út í, og þarf hins vegar auðvitað að samræma margt í þeirri áætlun og alls ekki víst, að hún sé í meginefnum þess eðlis, að það sé hægt að leggja hana til grundvallar. En allt slíkt kemur til athugunar. Höfuðefni málsins er, að þessi áætlun verði gerð og með því reynt að girða fyrir, að það skapist öngþveitisástand næstu árin í sambandi við framkvæmdir skógræktarinnar.