11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2724)

144. mál, flugsamgöngur

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 363 um flugsamgöngur, sem hér er til umr. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leitast við að fá fullnægjandi upplýsingar um það þegar á þessu ári, hvort De Havilland-Caribou-flugvélar, sem framleiddar hafa verið í Kanada á undanförnum árum, henti Íslendingum til innanlandsflugs betur en aðrar flugvélar, m.a. hvort þær geti orðið til almennari nota og sparað fjármagn í byggingu flugvalla.“

Það eru ekki nema rúm 20 ár, síðan flugsamgöngur hófust hér á landi. Að sjálfsögðu voru þá ekki til flugvellir né önnur tæknileg aðstaða, sem flugið þarf með. En sú uppbygging kom smátt og smátt og þó mun fyrr en búast mátti við. Á skömmum tíma komust á skipulegir fólksflutningar með flugvélum milli nokkurra þéttbýlustu héraða landsins. Á fyrstu árum flugsins voru sjóflugvélar mikið notaðar, enda þurftu þær ekki aðra flugvelli en sjóinn. Íslendingar almennt voru ekki lengi að venjast hinni nýju tækni, bæði flugmenn og farþegar. Ungir sem gamlir, sjúkir sem heilbrigðir ferðuðust ekki síður flugleiðis en á annan hátt, og mér er nær að halda, að mikill meiri hluti ferðafólks taki að öðru jöfnu loftið fram yfir land og sjó í langferðum.

En skortur flugvalla setti flugsamgöngum tilfinnanleg takmörk. Flugvellir eru oftast mikil og dýr mannvirki og það hlaut því svo að fara, að ýmis héruð yrðu að bíða þess lengi, að flugsamgöngur yrðu þeim til almennra nota. Við þetta bættist svo það, að sú þróun varð í framleiðslu farþegaflugvéla, að hætt var framleiðslu sjóflugvéla. Er nú svo komið, að Íslendingar eiga aðeins eftir eina farþegaflugvél af þessari gerð, og hún mun einnig brátt falla úr sögunni fyrir aldurs sakir. Þetta mun valda mikilli afturför í flugsamgöngum fyrir héruð, sem eingöngu höfðu sjóinn fyrir flugvelli, nema annað komi til, sem bætir þetta upp.

Stórir og dýrir flugvellir eru fleiri þjóðum umhugsunarefni en Íslendingum, Þess vegna hafa sérfræðingar í flugvélasmíði brotið um það heilann, hvernig leysa megi þennan vanda. Sjálfsagt er þyrilvængjan einn árangurinn af þessum tilraunum og hann ekki ómerkur. En sú lausn var mönnum samt ekki fullnægjandi, þótt mikill og góður árangur hafi orðið af þeirri nýjung. Fyrir allmörgum árum hófust tilraunir með nýjar gerðir flugvéla fyrir stuttar flugbrautir. Þær tókust misjafnlega. En fyrir rúmum þremur árum tóku verksmiðjur í Kanada ákvörðun um smíði slíkrar flugvélar eftir tveggja ára undirbúning og rannsóknir sérfræðinga um gerð hennar. Síðan hafa þessar De Havilland-Caribou-flugvélar verið framleiddar og reyndar á margvíslegan hátt. Flugvélar þessar eru ætlaðar til herflutninga, sjúkraflutninga, farþegaflutninga og vöruflutninga. Þær flytja milli 20 og 30 farþega í ferð. En meginkostur þessarar flugvélar og sá, sem mestu máli skiptir fyrir Íslendinga, er, að flugvélin er gerð fyrir mjög stuttar flugbrautir. Samkv. grg. verksmiðjunnar um flughæfni þessarar vélar á jafnvel 150 m löng flugbraut að nægja henni við beztu skilyrði, en 396537 m löng braut á að vera fullnægjandi við mjög erfið eða jafnvel allra erfiðustu skilyrði. Til samanburðar má geta þess, að þær flugvélar, sem nú eru notaðar hér í innanlandsflugi, þurfa allt að 1200 m langar flugbrautir.

Þegar þáltill. um flugsamgöngur var til umr. hér í hv. Alþ. í fyrra, las ég upp bréf flugmálastjóra um hæfileika þessara flugvéla fyrir stuttar flugbrautir. Í þessu bréfi skýrði hann ýtarlega frá, að tvenns konar aðferðir væru viðhafðar með þessum vélum við flugtak og lendingu. Er þar greint frá því, að með annarri aðferðinni þurfi í hæsta lagi 537 m langa flugbraut, en með hinni 396 m langa braut. Fyrir skömmu leitaði ég enn upplýsinga hjá flugráði um þá reynslu, sem fengizt hefur síðan í fyrra af þessari tegund flugvélar. Í svarbréfi flugmálastjóra, dags. 26. apríl s.l., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Allmikil reynsla hefur þegar fengizt af De Havilland-flugvélinni, og virðist þessi flugvél yfirleitt gera heldur betur en lofað var af verksmiðjunni. “

Í umr. um þessi mál á tveimur undanförnum þingum hef ég forðazt allar fullyrðingar um kosti þessarar flugvélar fyrir innanlandsflug hér á landi. En ég hef hins vegar hvatt mjög til þess, að Íslendingar kynntu sér þá nýjung, sem hér er á ferðinni, og að þeir hagnýttu sér þessa nýjung í tæka tíð, ef hún getur orðið að gagni. Allar þær upplýsingar, sem flugráð og flugmálastjóri hafa aflað sér um þessa flugvél, hníga í þá átt, að kostir hennar séu ekki minni en vonir stóðu til 5 upphafi. Þess vegna tel ég tíma til þess kominn að fá úr því skorið þegar á yfirstandandi sumri, hvort hér er um nýjung að ræða, sem getur orðið þýðingarmikil fyrir innanlandsflug hér á landi. Mér sýnist þá helzt koma til, að íslenzkum flugmönnum gefist kostur á að fljúga þessari vél og m.a. að reyna hana í flugtaki og lendingu á stuttum flugbrautum. Dómur íslenzkra flugmanna um þessa vél að fenginni eigin reynslu ætti að vera þyngstur á metunum um kosti hennar eða galla. Verði reynslan sú, að þessi flugvél sé öðrum flugvélum hagkvæmari til innanlandsflugs hér, er óneitanlega fenginn nýr grundvöllur til skipulagningar í þessum samgöngumálum þjóðarinnar. Og þá verður það engin óeðlileg bjartsýni að vænta þess, að áður en langir tímar líði verði komin flugbraut í hverri einustu sveit og hverjum einasta bæ hér á landi, flugbraut fyrir flugvél, sem flytur 20–30 farþega, flugvél, sem gæti flutt auk þess vörur og hvað eina. Í stað þess að verja mörgum milljónum ég vil nærri segja milljónatugum til byggingar á einum flugvelli, mætti nota þá sömu fjárhæð til þess að gera flugbrautir á mörgum stöðum og veita þannig fjölmörgum byggðarlögum samgöngubætur, er lítið eða ekkert hafa haft af flugsamgöngum að segja hingað til.

Fyrir örstuttu fór flugmálastjóri til Finnlands. Ég ætla, að nokkrir hv. þm. hafi verið með í þeirri för og jafnvel einn eða tveir ráðh. Þegar flugmálastjóri kom heim, skýrði hann mér frá því, að hann hefði séð Caribou-flugvél á flugvelli í Noregi. Hann taldi, að þessi flugvél hefði verið þar í reynsluför. Ég hafði orð á því við flugmálastjóra, hvort mögulegt væri að fá slíka flugvél hingað til lands til reynslu. Hann kvaðst fyrir þó nokkru hafa ákveðið að reyna þetta, þegar hann færi til Ameríku innan skamms, en það hafði hann fyrirhugað. En til þess að hraða málinu, kvaðst hann skyldu leita eftir þessu með símskeyti til flugvélaverksmiðjunnar ytra og gera það þá þegar. Þetta var í fyrradag, á mánudag. Í gærkvöld barst svo flugmálastjóra svarskeyti, þar sem lofað var að láta Caribou-flugvél koma hingað innan nokkurra daga og hafa hér sólarhrings viðdvöl. Væntanlega fer flugmálastjóri til Ameríku í kvöld. Hann tjáði mér í gærkvöld, að hann mundi leitast við í þessari ferð að fá dvöl þessarar flugvélar hér framlengda, svo að íslenzkum flugmönnum gæfist kostur á að reyna hana sem rækilegast, þ. á m. fljúga henni og reyna hana í flugtaki og lendingu á stuttum flugbrautum hér innanlands. Það má því segja, að þetta mál hafi skyndilega komizt á æskilegan rekspöl. En það má fyrst og fremst þakka lofsverðum áhuga og dugnaði flugmálastjóra.

Eftir að þessar upplýsingar liggja nú fyrir, kann svo að fara, að viðhorf hv. þm. til þessarar till. breytist nokkuð frá því, sem var, þegar hún var flutt, og ég vil segja, að það er ánægjulegt fyrir alla þá, sem hafa áhuga á framförum í flugsamgöngum okkar hér innanlands. Samt sem áður tel ég rétt, að till. fái athugun í þingnefnd. Þann 20.23. maí n.k., eða eftir 9–12 daga, er þessi Caribou-flugvél væntanleg hingað til landsins. Þingnefnd, sem fær þessa till. til meðferðar, gefst þá alveg óvenjulegt tækifæri til þess að kynna sér mál, sem fyrir hana er lagt, kynna sér af eigin sjón og jafnvel af eigin raun nýjung í flugtækni, sem getur orðið þýðingarmikil fyrir Íslendinga. Enn þá ætla ég engu að spá um það, hver árangur verður í þessu máli. Flugmenn okkar og sérfræðingar eru að mínum dómi þar hæstiréttur. Eftir þeim dómi hljótum við að bíða, og sem betur fer þarf nú sennilega ekki lengi að bíða, e.t.v. geta mikilsverðar upplýsingar í þessu máli legið hér fyrir í nál. innan skamms.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.