14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

88. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög mikið. Ég sem nm. í fjhn. flutti hér engar brtt. Það var ekki af því, að mér virtist ekki frv. þetta vera þannig, að því þyrfti mikið að breyta, heldur fyrir hitt, að ég var þess fullviss, að engar brtt. mundu verða teknar til greina, og mér varð það einnig ljóst af ræðu hæstv. fjmrh. áðan, að sú ályktun hafði verið rétt. Það er nokkuð hart að þurfa að vinna að málum með þessa vitund og vissu, að meiri hl. tekur ekki til greina neinar brtt., jafnvel við frv., sem þó er viðurkennt í grg., að hefur verið samið í flýti, og þeir, sem það hafa samið, vilja ekki beinlínis leggja nafn sitt við að bera fullkomna ábyrgð á.

Um þær fram komnu brtt., sem hér liggja fyrir, vil ég segja það, að ég get stutt þær nálega allar, ég tel þær yfirleitt vera til bóta.

Hæstv. fjmrh. kom hér í ræðustólinn. Maður gat ætlað, að það væri til þess að kvitta fyrir það, sem fram hafði komið af aths. við frv. Sú kvittun hans, sem hann gerði, var ákaflega ófullkomin að öðru leyti en því, að hún sýndi fullkominn einstrengingshátt. Hann var vitanlega í þeirri höfðingjakápu, sem hv. 5. þm. Austf. (PÞ) nefndi hér áðan, og það vildi svo skemmtilega til, að hann var ekki aðeins í þessari kápu, heldur sneri hann henni oft við, meðan hann var í ræðustólnum. Hann var ýmist í henni svartri eða í henni hvítri, og stundum mátti segja, að hann sneri aðeins við ermunum. Mér finnst fara illa á því fyrir þennan ágæta höfðingja að koma fram yfirleitt í svartri kápu, mér fyndist, að hann ætti jafnan að vera í þessari kápu hvítri. Þannig mundi ég kunna vel við hann.

Hæstv. fjmrh. sagði, að hann gæti varla tekið alvarlega mótstöðuna gegn söluskattsfrv. frá framsóknarmönnum, vegna þess að þeir hefðu í 12 ár að einhverju meira eða minna leyti verið með söluskatti. Nú hefur ekki frá okkur framsóknarmönnum komið fram nándar nærri eins mikil fordæming á söluskatti og t.d. frá samstarfsflokki Sjálfstfl., Alþfl. Jafnvel sýndi hv. 5. þm. Austf. fram á það, að í fyrradag var blað Alþfl. að fordæma söluskattinn. Mér hefði þess vegna fundizt, að hæstv. fjmrh. hefði átt að byrja á því að setja ofan í við samstarfsflokkinn.

Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi verið utan dyra, þegar sýnt var fram á það hér í ræðu, að söluskatturinn, sem Sjálfstfl, hafi kallað „Eysteinsskatt“ af einni tiltekinni vöru, sem er þó meðal sýnishorna af þeim vörum, sem á að skattleggja, var í janúar 6.6%, en verður í apríl, þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur væntanlega tekið gildi með lögum, 15.7%. „Gunnarsskatturinn“ er sem sagt 15.7%, þegar „Eysteinsskatturinn“ er 6.6%, og þarna getur hæstv. ráðh. séð, hvers vegna við framsóknarmenn erum á móti þessu söluskattsfrv. Við erum á mótí því að beita söluskatti svona sterklega eins og Sjálfstfl. vill gera nú og Alþfl, gerir með honum, þrátt fyrir það, sem hann lætur Alþýðublaðið tala til sinna kjósenda um söluskattinn samhliða.

Hæstv. fjmrh. spurði: Eru framsóknarmenn á móti því, að afnuminn verði 9% skatturinn, sem á að afnema, 6+3%? — Ég er ekki á móti því, að sá skattur verði afnuminn. Ég hefði viljað, að þeim skatti væri breytt, en ég get þrátt fyrir það ekki verið með þessum nýja söluskatti. — Hann spurði: Eru þeir framsóknarmennirnir á móti því, að afnuminn verði tekjuskattur á launatekjum? Þetta er í raun og veru of snemma fram borin spurning, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur enn ekki sýnt sitt nýja tekjuskattsfrv.

Ég er því meðmæltur, að hækkaður sé frádráttur, jafnvel svo, að niður falli skattur á hinum almennustu tekjum, ekkert sérstaklega á því, sem kallað hefur verið launatekjur, heldur á þeirri tekjuhæð, sem er sambærileg við almennar launatekjur. En ég er því aðeins með því, að ekki sé að sama skapi lækkaður skattur á þeim, sem hæstar tekjur og breiðust hafa bökin. Þegar ég segi: að sama skapi, þá á ég við, að ég sé á móti því, að niður falli hlutfallslega skattur á hátekjum. Og ég er á móti því, að rjálað sé á þennan hátt við tekjuskattslögin til þess að leggja á hinn almenna söluskatt og hækka innflutningsskattinn eins og þarna er gert.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á reikningsskekkjuna. Það kemur mjög í ljós, að þeim stjórnarflokkamönnum er mjög viðkvæmt, að talað sé um reikningsskekkju. Ég minntist á það í dag, að annaðhvort hlyti þetta að vera reikningsskekkja ellegar dæmið hefði ekki verið reiknað á þeim tíma, sem það átti að reiknast, því að það er óumdeilanlegt, að þær aðalefnahagsráðstafanir, sem stjórnarflokkarnir eru að gera, hefðu átt að liggja fyrir Alþingi samtímis, því að þar hefur það mikil áhrif til afstöðu, hvað hver þáttur þeirra aðgerða er stór, og þar verður að meta hvað eina með tilliti til annars, sem gera á.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. sagði það réttilega, að mönnum gæti misreiknazt og það væri mannlegt, jafnvel hagfræðingar gætu reiknað skakkt, þótt það hefði ekki átt sér stað í þetta sinn, — en það væri mannlegt. Það er alveg satt. Það er mannlegt að reikna skakkt. Það má segja það jafnvel, að við höfum öll og eigum öll þann rétt, að á það sé litið, að ófullkomleiki okkar gerir það að verkum, að okkur getur yfirsézt, og það er mannlegt í því sambandi að reikna dæmi skakkt. En hitt verð ég að segja, að þegar ekki er gerð tilraun til að reikna dæmi, sem á að liggja fyrir, á réttum tíma, eins og hér hefur þá átt sér stað, ef dæmið hefur ekki verið reiknað skakkt, þá er það ómennska, hrein ómennska að láta það verk óunnið. Það tel ég alveg sérstaklega ámælisvert og miklu ámælisverðara en að hafa reiknað dæmið skakkt. Og fyrir mér mega hv. stjórnarfiokkar taka á sig ómennskuorðið.

Þá minntist hæstv. fjmrh. á það, að ákvæðin um vald ráðherrans á ýmsum stöðum í þessu frv. væru hneykslunarhella. En hann taldi, að það væri ekki ástæða til þess, að slíkt ætti sér stað, vegna þess að þetta væri mjög sambærilegt við það, sem verið hefði í lögum áður. T.d. hefði það verið í lögum um tekjuskatt áður, og hann sannaði það með upplestri sínum, að ráðherra gat ákveðið sekt. Hins vegar benti hann á það, að hver sá, sem ráðh. úrskurðaði undir sektarákvæði og gerði sekt, gæti áfrýjað. Þetta er allt saman alveg rétt. En þó að þetta hafi verið í lögum, þá er ekki sjálfsagt, að það hafi verið heppilegt ákvæði. Og þó að sá, sem ráðh. dæmir til sektar eða úrskurðar til sektar, geti áfrýjað, þá er annað til líka, og það er það, að ráðh. misbeiti valdi sínu þannig að ívilna skjólstæðingum sinum, að ívilna vinum sínum, og þeir menn áfrýja vitanlega ekki.

Það er í þessu sambandi auðvitað rétt að taka til greina, að hæstv. ráðh. segir: Þetta hefur verið svona áður. Spurningin er þá: Er það verra nú? Ég tel ákaflega eðlilegt, að menn vakni til umhugsunar einmitt um þetta

gallaða ákvæði, þegar fram er komin ríkisstj. eins og sú hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr að völdum, sem leitast við að ná slíku valdi undir sig á mjög áberandi hátt, en það gerði þessi hæstv. ríkisstj. með því efnahagsmálafrv., sem hún lagði fyrir og samþ. var af liðsmönnum hennar og gert að lögum. Þar á ég við t.d. ákvæðið um að ákvarða vaxtakjör í stofnlánadeildum atvinnuveganna og lánstíma, sem Alþingi hafði jafnan áður gert. Þegar slíkt á sér stað, vakna menn eðlilega til meðvitundar um, að hér hefur verið löggjöf, sem getur verið hættuleg, þegar fram koma öfl, sem eru einræðishneigð, og hæstv. ráðh. verður að afsaka, þó að vakin sé athygli á þessu nú og menn gerist óánægðir með þessi ákvæði.

Hæstv. fjmrh. í sinni hvítu kápu gerði hér grein fyrir útreikningum, sem áttu að sanna það, að þetta söluskattsfrv. væri til ávinnings fyrir almenning í landinu, þ.e.a.s., að vísitöluheimilið græddi á því, að hann væri settur, en tapaði engu. Og þetta fékk hann út með því að segja, að þessi skattur ætti að koma í staðinn fyrir afnám 9% söluskattsins, afnám tekjuskatts af launatekjum og til þess að sveitarfélögin gætu fengið hluta af söluskatti og með því lækkað útsvör hjá sér.

Nú er það svo, eins og ég sagði í dag, að það er lítil ástæða til þess að leggja á þennan skatt vegna afnáms þess söluskatts, sem rann áður í útflutningssjóð. Sá skattur var látinn renna í útflutningssjóð til þess að vega á móti þeirri gengisskekkju, sem útflutningssjóðurinn þurfti að standa straum af. Gengisfellingin átti því að gera mögulegt að fella niður þennan skatt. Ég er búinn að segja það fyrir mitt leyti, að afnám tekjuskattsins, eins og afnámið hefur verið boðað, tel ég mjög vafasamt til hagsbóta fyrir þá, sem fá söluskattinn í staðinn, og ég tek undir það með þeim, sem sögðu það hér í dag, að það væri ákaflega vafasamt, að sveitarfélögin gætu lækkað útsvör sín með tilliti til þess hluta, sem þau eiga að fá af söluskattinum, vegna þess að þarfir sveitarfélaganna til tekjuöflunar aukast mjög við efnahagsmálaaðgerðirnar yfirleitt.

Hæstv. ráðh. benti á það, sem ég hafði líka lýst yfir í dag, að ég hef verið því fylgjandi, að hluti af söluskatti þeim, sem ríkið aflar, gengi til sveitarfélaganna. Ég hef tekið þátt í að flytja frv. um það hér á hv. Alþingi, og ég tel einmitt, að slík tekjuöflun hjá ríkissjóði sé þess eðlis, að það sé mjög eðlilegt, að sveitarfélögin njóti hennar að einhverju leyti. En ég sagði í dag, að meðan ég vissi ekki um það, hvernig skiptingin ætti að verða til sveitarfélaganna, teldi ég of mikið á huldu til þess að taka afstöðu til ráðagerða hæstv. ríkisstj. í þessu efni. Nú upplýsti hæstv. ráðh., hvernig væri hugsað að skipta söluskattinum milli sveitarfélaganna, sem sé þannig, að fara ætti eftir höfðatölu, og þó ætti ekkert sveitarfélag að fá meira en sem næmi 50% af útsvarsfúlgu líklega s.l. árs. Þetta var formið, sem hugsað var, þegar söluskattsfrv. var lagt fram hér á Alþingi. Raunar var upphaflega talað um, ef ég man rétt, að hámarkið í skiptingu yrði þriðjungur af útsvarsfúlgu, en ef ég man rétt, þá var það til samkomulags, að fært var upp í 50%. Mér þykja þetta heldur góðar fréttir, en þó ekki nógu góðar fréttir, vegna þess að ég tel, að viðmiðunarmarkið ætti að vera hærra, og það er vegna þess, hve sveitarfélögin eru mismunandi stór og hve mismunandi aðstaða þeirra er. Af því að þetta er neyzluskattur, teldi ég réttast, að honum væri skipt eftir höfðatölunni eingöngu og viðmiðunarhámarkið væri ekki haft, eða ef það er haft, þá álít ég réttara, að það væri hærra en 50%, og þetta er af því, að stærð sveitarfélaganna er svo mismunandi og aðstaða öll, að hámarkið verkar ekki réttilega á úthlutunina.

Hæstv. fjmrh. hafði um það dálítið sterk orð, hve undarleg væri afstaða mín að vera á móti söluskattsfrv., sem fæli í sér þessa réttingu mála sveitarfélaganna, sem ég hefði verið áhugamaður um. En ég verð nú að segja það, að mér sýnist þetta skattafrv. vera svo eitrað epli, að ég vil alls ekki bíta í það fyrir þann litla hluta, sem er ekki eitraður, en það tel ég að sé hluti sá, sem sveitarfélögin eiga að fá. Ég get ekki verið með svona álagningu, þó að hún feli í sér þetta réttlætisbrot. Og svo er líka á það að líta frá sjónarmiði sveitarfélaganna, að einmitt af því að þetta söluskattsfrv. er svo nærgöngult almenningi, leggst svo þungt á almenning, þá er mjög vafasamt, að það borgi sig fyrir þau að taka við þessum hluta til þess að vera með hinu og taka á sig erfiðleikana, sem því fylgja.

Hæstv. fjmrh, reiknaði út, að vísitöluheimilið græddi á því, að þessi söluskattur væri settur á, eins og ég tók fram áðan. En til þess að fá það út, þurfti hann fyrst og fremst að telja, að þeir þrír liðir, sem ég nefndi og hann nefndi, væru einmitt greiddir á móti þessum skatti. En nú eru álögur þær, sem hæstv. ríkisstj. stofnar til með svo víðtækum hætti bæði í gegnum fjárlög og með gengisfellingu sinni og því, sem af henni leiðir, svo miklar, að það er bara hagræðing og hentisemiatriði fyrir hæstv. ríkisstj. að setja dæmið upp eins og hæstv. fjmrh. gerði. Og svo er annað, að yfirleitt er það svo, að það, sem hér er um að ræða, lætur ekki reikna sig út, lætur ekki taka sig með tölum, og það er margsýnt, að vísitöluheimilið og jafnaðarútreikningur á álöguþunga hefur ekki raunveruleikann með sér.

Þeir, sem að þessu standa, tala um, að í þessu sambandi sé aðeins um tilfærslu gjalda eða skatta að ræða, og þeir líta svo á, að Pétur megi sætta sig við, ef sá skattþungi, sem hvíldi á Páli áður, lendir á honum. Það geri ekkert til fyrir Pétur, ef þetta hafi hvílt á Páli áður. Þetta eru rökin, og þessi rök standast ekki með nokkru móti, þegar út í lífið kemur. Það, sem er m.a. að efnahagsmálatillögum ríkisstj. og hefur verið að þeim fundið, er það, að tilfærslan á milli Páls og Péturs er þannig, að ef Páll hefur verið efnaðri, fer hann betur út úr þessu, og þunginn færist yfir á veikari herðar Péturs. Það kom mjög greinilega fram t.d. í því, sem lesið var hér upp úr þingtíðindum eftir Haraldi Guðmundssyni, að hann hafði haft þá sýn á hlutunum þá, þó að Alþfl., þ.e.a.s. Alþfl.-fulltrúarnir, virðist ekki hafa það nú, að söluskatturinn fæli það í sér, að barnmarga heimilið, maðurinn með mannmörgu fjölskylduna, yrði fyrir barðinu á honum, án tillits til þess, hvort hann er fátækur eða ríkur, þegar hinn aftur á móti, sem venjulega er efnaðrí, sá, sem hefur ekki fyrir stórri fjölskyldu að sjá, yrði fyrir gróða, ef þannig væri breytt álögunum. Mér fannst eiginlega satt að segja, þó að ég skammist mín hálfpartinn fyrir að segja frá því um mann í hvítri skikkju, að þegar hæstv. fjmrh. var að lýsa tölunum, sem hann vildi þó ekki segja eftir hverjum hann hefði, þá færist honum líkt og Sölva Helgasyni, sem sagðist vera svo vel að sér í reikningi, að hann hefði reiknað tvíbura í eina svarta og haft annan hvítan. Annar tvíburinn hjá hæstv. fjmrh. var auðvitað miklu stærri en hinn. Þannig er reikningskúnstin, þegar henni er beitt á þennan hátt. Ég vefengi það, að tölurnar tali rétt í þessu máli, — tölurnar, sem eru meðallagstölur. Þar að auki hef ég engar sannanir fyrir því, hvernig þessi útreikningur er gerður. Ég hef engar sannanir fyrir því og geri hvorki að fullyrða, að hann sé rangur, eftir því sem dæmið er sett upp, né segja það, að hann hljóti að vera réttur. En hitt er sannleikur –og sannleikur um alla þessa útreikninga, hvort sem dæmin reiknast rétt eða ekki, að þeir ná ekki sjálfu lífinu og tilbrigðum þess. Og ég tel, að miklu meiri sönnun hafi verið í dæmum þeim, sem ég lagði hér fram í dag úr bréfum frá mönnum, sem mæta aðgerðunum og finna, hvernig þær leggjast á, því að sannleikurinn er sá, að yfirleitt eru þessar efnahagsaðgerðir þannig, því miður, að hönd hins almenna framtaks, umbóta og uppbyggingar og framfara er með þeim snúin úr liði. Það mun kosta þjóðina mikla erfiðleika að kippa í liðinn aftur.

Ég tel, að það væri til mikilla báta, ef hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar sneru nú aftur á þessu stigi og felldu þetta frv. með okkur stjórnarandstæðingum og tækju svo þátt í því á breiðum grundvelli samkomulags að byggja upp nýjar tillögur, sem brytu ekki niður og sneru ekki úr liði þá hönd, sem þjóðinni ríður mest á að sé með fullum krafti. Það er hin almenna, starfandi framtakshönd þjóðfélagsins.