02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (2736)

38. mál, samstarfsnefndir launþega og vinnuveitenda

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umræðu, fjallar um að fela ríkisstj. að hefja nú þegar rannsókn á og gera till. um, hvort finna megi starfsgrundvöll fyrir samstarfsnefndir launþega og vinnuveitenda innan einstakra fyrirtækja. Í grg., sem fylgir á þskj. 66, segir m.a., að með tillögu þessari sé bent á ákveðna leið, er mætti verða til að bæta samstarf launþega og vinnuveitenda, og sé því gengið feti framar en gert hafi verið áður á hæstv. Alþingi, sem hefur, eftir því sem mér er bezt kunnugt, aðeins fjallað almennt um þetta mál.

Byrjun á starfi þessara nefnda mun að finna í síðustu heimsstyrjöld, þegar sú staðreynd varð ljós, að félög og samtök launþega gátu lagt drjúgan skerf af mörkum, þegar um var að ræða hagkvæmni í notkun efnis, véla og vinnuafls til hinnar stórkostlegu framleiðslu styrjaldarþjóðanna.

Í nágrannalöndum okkar hafa þær verið að þróast síðustu 10–15 árin, en strax árið 1945 komust ákvæði um þær inn í samninga launþega og vinnuveitenda í Noregi, ári síðar í Svíþjóð og árið 1947 í Danmörku.

Þeir, sem kynnt hafa sér starfsemi þessara nefnda í nágrannalöndum okkar, líta svo á, að þær hafi haft mikla þýðingu í auknu og bættu samstarfi þessara aðila, sérstaklega á eftirstríðsárunum, þegar þeir urðu að taka höndum saman að margvíslegri endurskipulagningu og uppbyggingu niðurbrotinna atvinnuvega með það markmið að leiðarljósi að bæta lífskjör fólksins og allan aðbúnað á grundvelli aukinnar framleiðslu og meiri hæfni til samkeppni í hinum frjálsa viðskiptaheimi. Það er líka viðurkennt í þessum löndum nú, að samstarfsnefndunum hafi tekizt á undraverðan hátt í mörgum stórfyrirtækjum að sýna í verki, að aukið samstarf launþega og vinnuveitenda hefur orðið báðum aðilum til góðs, og það má fullyrða, að reynsla frændþjóðanna í þessum efnum hafi sýnt án nokkurs vafa, að beggja hagur hafi verið að starfsemi þeirra. Sá hagur hefur ekki sízt skilað sér í aukningu framleiðsluverðmæta með minnkandi vinnutapi á vinnumarkaðinum og með hækkandi vöruverði.

Að reynslu grannþjóðanna fenginni eru allir þeir, sem málum þessum hafa kynnzt meðal þeirra, sammála með fáum undantekningum að viðhalda og auka starfsemi nefndanna. í samningi þeim um samstarfsnefndir, sem undirritaður var af fulltrúum verkalýðssambandsins og vinnuveitendasambandsins í Danmörku 1947, er m.a. starfsgrundvöllur nefndanna skýrt markaður, og með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa 5. og 7. gr. þessa samnings, og hljóðar 5. greinin á þessa leið:

.,Nefndinni er ætlað að vera vettvangur samvinnu, ráðgjafar og upplýsinga. Verkefni samstarfsnefndar eru eftirfarandi: í því skyni að efla framleiðsluna á nefndin að fjalla um verkefni, sem varða hagkvæman rekstur, þ. á m. notkun tæknilegra hjálpargagna, skipulagningu vinnunnar, efnissparnað og slíkt, þannig að stefnt sé að slíkri skipulagningu vinnunnar, að framleiðsluafköstin verði aukin sem mest með það fyrir augum að lækka framleiðslukostnað, stuðla að lágu vöruverði og vinna fyrirtækinu, starfsmönnum þess og þjóðfélaginu í heild gagn.

Nefndin á auk þess að stuðla að sem beztri starfsmenntun innan fyrirtækisins. Í því skyni að bæta sem mest vinnuskilyrði og um leið auka starfsgleði manna á nefndin að fjalla um mál, sem varða aðbúð verkamanna, öryggi, heilbrigði og starfsöryggi, og enn fremur svipuð mál, sem varða vinnuskilyrði.

Ef horfur eru á, að verkamönnum verði fækkað eða rekstri fyrirtækisins breytt, á nefndin að fjalla um slík mál með eins löngum fyrirvara og unnt er í því skyni að draga sem mest úr óþægindi um, sem þau kynnu að baka þeim starfsmönnum, sem yrðu fyrir þessu. Í því skyni að vekja sem mestan áhuga starfsmanna á rekstri fyrirtækis síns ber vinnuveitanda að veita samstarfsnefndinni þær upplýsingar um fjárhag fyrirtækisins og aðstöðu þess, samanborið við hliðstæð fyrirtæki, sem þýðingu hafa fyrir framleiðsluskilyrði og sölumöguleika yfirleitt.

Upplýsingar um reikninga fyrirtækisins á að veita í sama mæli og veittar eru hluthöfum með reikningsyfirlitinu, sem lagt er fyrir venjulegan árlegan aðalfund fyrirtækisins. Ekki má krefjast upplýsinga um önnur mál, ef það gæti skaðað hagsmuni fyrirtækisins, né heldur má krefjast upplýsinga um einkamál.“

7. gr.: „Eftir því sem unnt er, eiga nefndirnar að vinna að því, að gert sé út um ágreiningsmál með umr. í nefndinni, til þess að koma á og viðhalda góðum skilyrðum og vinnufríði í hverju einstöku fyrirtæki.

Samstarfsnefndirnar geta ekki fengizt við mál, er varða heildarsamninga, gerð þeirra, framlengingu, uppsögn, túlkun eða breytingar á þeim, né þau mál, sem varða breytingar á kaupi og kjörum.“

Á þessum greinum samningsins sést, að samstarfsnefndirnar eru aðeins ráðgefandi, og skýrt tekið fram, að öllum deilum um samninga um kaup og kjaramál skuli halda utan við starfssvið þeirra og vera eftir sem áður í höndum heildarsamtakanna. Hlutverk nefndanna er annars vegar að bæta eldri aðferðir og finna nýjar til að bæta skipulag til aukningar framleiðslu, að lækka kostnaðinn við framleiðsluna með það sjónarmið fyrir augum, að framleiðsluaukning sé fyrsta skrefið til raunhæfra kjarabóta, og hins vegar sé hlutverk þeirra að fjalla um aðbúnað verkafólks á vinnustað, öryggisráðstafanir til að afstýra slysum, atvinnuöryggi og önnur félagsleg vandamál starfsfólksins. Fulltrúar í nefndunum ræða um þau vandamál og þær till., sem liggja fyrir hverju sinni, á fundum sinum, og er þar reynt að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Til þess að gagnkvæmur skilningur á viðfangsefninu og fullur trúnaður sé á milli aðila, er það ekki aðeins talið mikilvægt, heldur nauðsynlegt fyrir þessu samstarfi, að þeir, sem fyrirtækjunum stjórna, gefi fulltrúum starfsfólks síns upplýsingar um rekstrarafkomu, söluhorfur á framleiðslunni, útvegun hráefnis o.s.frv., eða allt það, sem getur haft þýðingu fyrir reksturinn, framleiðsluna og atvinnuöryggi starfsmanna fyrirtækjanna. Þess vegna er ákvæði um, að samstarfsnefndunum séu gefnar sams konar upplýsingar og hluthöfum á aðalfundi.

Það, sem ég hef sagt um nefndarstarf þetta í nágrannalöndunum, er auðvitað langt frá því að vera tæmandi. Mér finnst þó rétt að draga fram enn eitt atriði til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning, og það er, að ekki aðeins samstarfsnefndirnar, heldur einnig heildarsamtökin í löndum þessum hafa staðið í vegi fyrir hvers konar áformum vinnuveitenda til þess að auka vinnuálagið á kostnað verkafólks, eins og nokkur dæmi voru til um, meðan samstarf þetta var á frumstigi.

Þá finnst mér og rétt að geta þess, að ábyrgir menn á vegum danska verkalýðssambandsins hafa mikinn áhuga á aukningu og útfærslu á starfssviði nefndanna og halda því m.a. fram, að í núgildandi samningi sé það mikill ókostur, að ekki skuli mega ræða um vandamál í sambandi við kaup- og kjarasamninga. Í því sambandi hefur mikið verið rætt að undanförnu um nýjar leiðir í launagreiðslufyrirkomulagi eða hreinan ágóðahlut, þar sem því er hægt að koma við, og þess sé gætt, að launþegar nái sínum hlut úr þeirri framleiðsluaukningu eða ágóðaaukningu, sem verður til við aukna hagræðingu og byggist á þessu samstarfi.

Nú er mér fyllilega ljóst, að það, sem heppilegt þykir hjá útlendum, þarf ekki að hafa sama gildi hér. En ég bendi í grg. till. á ummæli tveggja Íslendinga, sem hafa kynnt sér þessi mál gaumgæfilega og taka jákvæða afstöðu til þeirra. Síðan er mér kunnugt orðið um fleiri innlenda aðila, sem tekið hafa sömu vinsamlegu afstöðuna til málsins, bæði í ræðu og riti. Persónuleg skoðun mín er sú, að samstarfssvið þetta hljóti að vera vísir að frambúðarlausn þessara viðkvæmu mála, ein þýðingarmesta aðferðin í þjóðfélagi sem okkar til að bæta samúð launþega og vinnuveitenda, því að umr. um vandamálin leiða til gagnkvæms skilnings og koma kannske í veg fyrir, að lítilfjörleg ágreiningsatriði valdi tjóni að óþörfu. Heppilegustu leiðina til að koma nefndum þessum á stofn tel ég vera þá, að samstarfsnefndir tækju til starfa til reynslu í nokkrum fyrirtækjum með sem ólíkast starfssvið og síðan væri starf þeirra og árangur tekið til rannsóknar og endurskoðunar eftir t.d. 12 mánuði og þá teknir upp samningar á grundvelli erlendrar og innlendrar reynslu. Óhætt er að slá því föstu, að illmögulegt væri að byggja algerlega á reynslu annarra þjóða vegna ólíkra atvinnuhátta og annarra ástæðna og þess vegna mætti forðast ýmis mistök, sem þar hafa átt sér stað,

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.