14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

88. mál, söluskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjhn. hafa báðir lagt á það mikla áherzlu að sýna fram á, að ekki hafi orðið reikningsskekkja hjá sérfræðingunum, sem aðstoðuðu hæstv. ríkisstj. Hins vegar hafa þeir aldrei sagt, að hæstv. ríkisstj. sjálf hafi ekki reiknað vitlaust, svo að það getur vel verið, að þetta sé alveg rétt hjá þeim, það sé bara hæstv. ríkisstj. sjálf, sem hefur reiknað rangt, en ekki sérfræðingarnir. En það verður ekki komizt fram hjá tölunum, eins og þær standa í fjárlagafrv., 280 millj., sem söluskatturinn átti að gefa á 10 mánuðum, ekki 12 mánuðum, eins og hæstv. ráðh. heldur fram, heldur 10 mánuðum, því að það held ég að sé ofrausn að ætla að telja hv. þm. trú um, að ríkisstj. hafi búizt við tekjum af söluskatti í janúar og febrúarmánuði, sem eru báðir liðnir, þegar við nú erum að ræða um frv. Þetta segir sig sjálft og er algerlega vonlaust að halda því fram, að þessar 280 millj. hafi verið miðaðar við 12 mánuði, það gat ekki átt sér stað.

Ég hef ekkert fullyrt um það áður og geri ekki heldur enn, hvort það hefur verið reiknað skakkt eða ekki, ég hef meiri tilhneigingu til að álíta, að það hafi verið reiknað rétt og þessi skattur muni geta gefið svona mikið. Mér þykir það sennilegra, enda er það alveg óskiljanlegt, hvernig þessar 280 millj. gátu allt í einu hrokkið ofan í 140, sem innanlandsskatturinn er áætlaður að gefa, en eins og menn vita, eru þessar 280 millj. reiknaðar af almennum skatti, en ekki af innflutningi. En hann gerði þetta, þessi frægi skattur, hann fór á fimm vikum úr 280 millj. niður í 140, og gera ekki aðrir betur á svo skömmum tíma.

Hv. frsm. meiri hl., 11. þm. Reykv. (ÓB), tók hér Frjálsa þjóð upp úr vasa sínum í dag og las talsvert úr henni. Þeir eiga nú ekki sæti hér, neinir frá flokki þessa blaðs nú, svo að það var langt seilzt. En hann sparaði ekki víturnar í garð þeirra manna, sem skrifa Frjálsa þjóð, og gaf í skyn, að þar mundi um geðbilaða menn vera að ræða. ( ÓB: Það er ekki satt.) Jú, það held ég, að sé ekki ofsagt. Hann gaf það í skyn, að þar mundi einhver veiklun vera á ferðinni. Og veiklunin átti að liggja í því, að þar sem blaðið hélt því fram, að þarna hefði verið reiknað rangt, þá væru líka aðrir reikningar rangir hjá hæstv. ríkisstjórn, og kom hv. frsm. með dæmi til að afsanna þetta og nefndi lækni, sem mistækist um að lækna mann, þá hlytu aðrar lækningar hans líka að vera varhugaverðar, sem hann framkvæmdi þar á eftir. En það er ólíku saman að jafna þarna. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að þetta sé rétt, sem stendur í Frjálsri þjóð, að ef rangt er reiknað um 280 millj., þá sé líka rangt margt annað, sem sagt er í grg. efnahagsmálafrv. og fjárlagafrv., og það var það, sem blaðið var að segja.

Ég spurði við 1. umr. þessa máls: Hvernig getur það staðizt, sem stendur í grg. efnahagsmálafrv, á bls. 20, að meðalhækkun á innfluttum vörum muni sennilega verða um 25%? Ég fékk engin svör við þessu þá og hef ekki fengið þau enn. Og ég ætla mér að spyrja að því enn: Stenzt þetta nú, að meðalhækkun á innfluttum vörum verði ekki nema 25%, þegar allar þessar ráðstafanir koma til, sem fram eru komnar í frumvörpunum, fjárlagafrv., efnahagsmálafrv. og þessu söluskattsfrv.? Stenzt þetta nú? Þetta var nefnilega það, sem Frjáls þjóð var að tala um. Þessir útreikningar taldi blaðið að mundu ekki standast, og ég held, að þetta sé rétt, þeir geti ekki staðizt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það, sem sagt er í grg. efnahagsmálafrv. um þessa hluti, sé miðað við gengislækkunina eina, en ekki annað, ekki við söluskattinn. Er það ekki rétt? (ÓB: Jú, jú, það er alveg rétt til getið.) Nú, það var mikið, að maður fékk þetta fram. M.ö.o.: söluskatturinn á eftir að hafa sín áhrif á þá kjaraskerðingu, sem felst í verðhækkunum, bæði innlendra vara og erlendra.

Og það var fleira af þessu tagi í þessu frv., sem ég talaði um við 1. umr. og ég spurði um um daginn, en fékk þá engin svör. Nú hefur hv. frsm. viðurkennt þetta, enda er hann kunnur að því að tala málefnalega um þessa hluti, en þá fylgir líka fleira með. Þá stenzt ekki heldur það, sem sagt var, að landbúnaðarverð hækkaði ekki væntanlega nema um 12%. Þá stenzt ekki heldur, að húsaleigan hækki ekki nema um 10—11%. Og þá stenzt ekki heldur það, að hækkun vísitölu framfærslukostnaðar muni verða um 13%. M.ö.o.: allar þessar tölur, sem nefndar voru í grg. með efnahagsmálafrv., standast ekki lengur. Hitt er hægt að deila um, hvað mikið þær hækka.

Mér skildist á ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan og reyndar líka hv. frsm. meiri hl., að þetta frv. hefði ekki innifaldar neinar álögur á fólk í landinu, engar álögur, og hæstv. fjmrh. greindi svo rækilega frá þessu, að hann las upp tölurnar, sem kæmu til lækkunar á móti þessum 280 millj. kr. skatti, og fékk út núll. Er þá söluskattur á Íslandi 280 millj. núna, ef hér er ekki um álögur að ræða? Ég hélt, að hann væri ekki nema 154 millj. plús 114.

Þá vil ég geta þess, að ég hef fengið frá fróðum manni dæmi um það, hvað búast megi við að innflutt vara hækki, sem kostar á fobverði 1000 kr. fyrir gengislækkun, hvað hún hækki í verði við gengislækkunina og söluskattinn samkv. þessu frv. Í þessu dæmi er fob-verð vörunnar talið 1000 kr., flutningsgjaldið 100 kr., tollar og innflutningsgjald 40% og annar kostnaður en þetta í innflutningnum 50 kr. á þessar 1000. Og miðað við 55% yfirfærslugjaldið, sem var, en nú hverfur, en gengislækkunin kemur í staðinn, breytast þessar tölur þannig eftir þessu dæmi, sem mér hefur verið gefið upp: Fob-verð 1000 kr. verður 1500 kr. vegna gengisbreytingar. Flutningsgjald 100 kr. verður 120 kr. samkv. ákvörðun, sem tekin hefur verið fyrir skömmu. Tollar og innflutningsgjöld 40%, voru 400 kr. fyrir gengislækkun, en 600 kr. á eftir. 7.7% söluskattur er 115 kr. fyrir gengislækkun, 366 kr. eftir gengislækkun, þar sem hann er þá orðinn 161/2 %. Og annar kostnaður, sem var talinn 50 kr., hækkar upp í 60. Kostnaðarverð þessarar vörutegundar, sem er miðuð við 1000 kr. fob-verð, verður fyrir gengislækkun 1665 kr., eftir gengislækkun og hækkun söluskatts 2646 kr. Síðan er gert ráð fyrir í þessu dæmi, að 45% álagning komi á vöruna, þ.e. bæði heildsölu- og smásöluálagning til samans. Er þá verð þessarar vöru orðið fyrir gengislækkun 2414 kr., eftir gengislækkun og söluskattshækkun 3837 kr. En við þetta bætist, að 3% söluskattur á þessa vöru, sem enginn er fyrir gengislækkun, nemur 85 kr. Útkoman verður sú, að það, sem kostaði 2414 kr. fyrir gengislækkun, verður 3922 eftir gengislækkun. Hækkunin er 1508 kr., eða 621/2 %.

Ég vona, að þarna hafi ekki verið reiknað rangt í þessu dæmi, sem mér hefur verið látið í té, og það sé ekki um það að villast, að þessi vara, eins og hún er tekin í þessu dæmi, hljóti að hækka þetta, bæði með gengislækkuninni og hækkun söluskattsins. En þetta var vara, sem hafði áður 55% yfirfærslugjald.

Mér var líka látið í té annað dæmi. Það var yfir vöru, sem var með 30% yfirfærslugjaldi áður, sem að sjálfsögðu fellur niður nú, því að gengislækkunin kemur í staðinn, — vara, sem verður ekki niðurborguð, og það er ýmislegt af nauðsynjum almennings, sem fellur undir þennan flokk, þ. á m. ýmis efni til fatnaðar, ýmsar tegundir skófatnaðar o.fl. Það er miðað við 1000 kr. fob-verð fyrir gengislækkun, alveg eins og áðan. Þessar 1000 kr. í fobverði verða eftir gengislækkunina 1790 kr., af því að þær báru ekki nema 30% yfirfærslugjald. Flutningsgjaldið verður eins og áðan, það hækkar úr 100 kr. upp í 120 kr. Tollar og innflutningsgjöld, 40%, hækka úr 400 kr. í 764 kr. Söluskatturinn hækkar úr 115 kr. í 441. Annar kostnaður, 50 kr. hækkar í 60. Kostnaðarverð þessarar vöru hækkar úr 1665 kr. í 3175 kr. Síðan er gert ráð fyrir 45% álagningu, bæði í heildsölu og smásölu, eins og í hinu dæminu. Verður sú álagning í fyrra dæminu 749 kr., en í síðara dæminu 1429 kr. Kostnaðarverð þessarar vöru í þessum vöruflokki hækkar því úr 2414 kr. í 4604 kr., og þá er eftir að bæta við þá upphæð 3% söluskatti hér innanlands, sem gerir 138 kr., þannig að endanlegt verð vörunnar í þessu dæmi hækkar úr 2414 í 4742, eða um 96.4%.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að hann vissi ekki, hvort hann ætti að taka alvarlega þá andstöðu, sem kæmi fram hjá stjórnarandstæðingum gegn söluskattinum. Hann minnti á, að söluskattur hefði verið lögtekinn 1948, — og hvers vegna geta þá framsóknarmenn ekki verið með þessum söluskatti, fyrst þeir voru með honum þá? Ekki þarf ég að svara þessu fyrir mig út af fyrir sig, því að ekki hef ég greitt atkv. með neinum söluskatti á Alþingi og mun ekki heldur gera nú. En enda þótt framsóknarmenn hafi gert þetta áður, var þá sá söluskattur alveg sams konar og þessi? Var sá söluskattur lagður á allar innlendar matvörur, öll innlend matvæli eins og þessi? Og fylgdi sá söluskattur gengislækkun, eins og þessi? (Fjmrh.: Hv. þm. er margsinnis búinn að samþykkja söluskatt á hverju ári, sem hann hefur verið settur.) Það var verið að tala um söluskattinn, sem var lagður á 1948. En var verið að fella gengið 1948? Hvenær hefur Framsfl. samþ. söluskatt, um leið og hann samþ. gengislækkun? (Fjmrh.: 1950 til dæmis.) Það var ekki lagður á söluskattur 1950. — En það er fleira í þessu en þetta. Ef hæstv. fjmrh. getur sýnt fram á það, að söluskatturinn 1948 sé lagður á eftir sömu reglum og þessi, þá hefur hann nokkuð til síns máls. Ég bíð eftir, að hann reyni það. En þar að auki gæti ég náttúrlega spurt: Er allt rétt, sem einhvern tíma hefur verið gert, hvort sem það er hæstv. ráðh. eða aðrir? Telur hæstv. ráðh. sig skuldbundinn til þess að samþ. allt, hvenær sem er, sem Sjálfstfl. hefur samþ. einhvern tíma? Það er aum röksemdafærslan, ef þessi á að duga.

Ég hef minnzt á það hér áðan, að það mun vera vonlaust fyrir hæstv. ráðh. að telja þingmönnum trú um það, að 280 millj. séu miðaðar við 12 mánuði eða allt árið 1960. Ég held, að það sé hyggilegra að viðurkenna, að það hefur ekki getað verið miðað við meira en 10 mánuði ársins, eða 28 millj. að meðaltali á mánuði. Hitt er nefnilega stærðfræðilegur ómöguleiki, að það hafi verið á annan hátt. En ég skildi hv. frsm. meiri hl. þannig, þegar hann ræddi um þessa upphæð, að það hefði enginn útreikningur verið gerður á þessu, þ.e.a.s. fyrir neitt ákveðið tímabil, og ekki heldur, hvað háar prósentur þurfti að leggja á í söluskatti, bara alls ekki neinn útreikningur, upphæðin hafi verið sett inn í frv. alveg eins og hún kemur fyrir sig. Ef þetta er svo, og ég ætla mér ekkert að rengja það, — ef þetta er svona, er þá ekki eitthvað meira af upphæðum inni í fjárlagafrv. alveg eins og að það sé ekki hægt að henda reiður á, hversu réttar þær eru, þær upphæðir, sem þar eru nefndar, fyrst þessi er þannig til komin? Getur ekki verið, að einhverjir tekjuliðir fjárlagafrv. séu allt of lágt áætlaðir, jafnvel sem nemur því, sem þessi hefur verið settur of hátt? Kannske hæstv. ríkisstj. eigi þarna nokkur milljónahundruð falin í tekjum, sem koma, en ekki er reiknað með? Það má við öllu búast, ef þetta á sér stað við undirbúning frv.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að vegna þess að margar undanþágur væru í þessu frv., þá væri það eitt atriðið, sem hefði valdið því, að það hefði orðið að grípa til innflutningssöluskatts til þess að ná þessari upphæð. Ég hef ekki gagnrýnt neinn í því efni, þótt undanþágur séu í frv. En ef þær valda hér miklu um, teknar hafi verið upp undanþágur, svo að upphæðin af þeim ástæðum hafi orðið lægri eða svona miklu lægri, ætlaði þá hæstv. ríkisstj. í upphafi engar undanþágur að hafa, eða hvaða undanþágur voru það, sem hún hugsaði sér að hafa frá upphafi, fyrst þessar eru nýtilkomnar? Ég veit ekki, hvaða vörutegundir það geta verið, sem hún hefur hugsað sér að leggja á söluskatt, þegar hún lagði fram fjárlagafrv., en hefur nú horfið frá. Ætlaði hún t.d. að leggja söluskatt á nýmjólk? Eða ætlaði hún að leggja söluskatt á neyzluvatn? Einhver atriði hljóta það að vera, sem hún hefur hugsað sér fyrst að leggja á söluskatt, en horfið siðan frá, fyrst þetta er ein ástæðan fyrir því, að upphæðin lækkaði.

Það hefur nokkuð verið gagnrýnt hér, að frv. var ekki sent til umsagnar neinum, eftir að hv. fjhn. fékk það til meðferðar. Þó að ég sé ekki búinn að vera mörg ár á þingi, þá man ég ekki eftir neinu stórmáli, sem lagt hefur verið fyrir hv. Alþingi, að ekki fylgdi um það einn einasti stafur frá neinum aðila utan þings, ekki ein einasta umsögn eða álitsgerð. Þvert á móti er það algengt að láta álitsgerðir fylgja frumvörpum, annaðhvort í upphafi, þegar þau eru lögð fyrir þingið, eða þá eftir að málin hafa fengið meðferð í nefnd. En hér fylgir enginn stafur. Hæstv. ráðh. hefur getíð þess, að uppkast að frv. hafi verið sent nokkrum aðilum. En frv. sjálft hefur aldrei verið sent neinum. Þingmenn hafa enga hugmynd um það, hvernig þetta uppkast hefur verið. Þm. vita ekkert um, hvað þeir sérfræðingar eða aðstoðarmenn hafa sett í frv. og hvað hæstv. ríkisstj. sjálf. Það er engin álitsgerð frá neinum hér á ferðinni með þessu frv. nema álit hæstv. ríkisstj. sjálfrar.

Þá hefur hæstv. fjmrh. tekið því miður vel, að það hafi verið fundið að því ákvæði 25. gr. frv., að fjmrh. skuli ákveða sektir, eins og segir í þeirri grein, og vitnar í önnur lög sem fordæmi. En sérstaklega leggur hann þó áherzlu á það, að í þessari grein sé fram tekið, að hver sá aðili, sem eigi að greiða sekt, hafi það á valdi sínu að vísa máli til dómstólanna. Þetta ákvæði er ekki sérstaklega sterkt til þess að réttlæta hitt, að pólitískur ráðh. hafi þetta vald, því að það hafa allir menn vald til þess að áfrýja máli sínu frá undirrétti til yfirréttar, svo að í þessu tilfelli er ekkert nýtt í þessu ákvæði og hæstv. fjmrh. þarna settur að þessu leyti hliðstæður undirrétti. Þótt hæstv. ráðh. geti bent á, að hliðstætt dæmi hafi verið í lögum áður, breytir það engu um þá skoðun mína, að ég tel þetta mjög varhugavert.

Hæstv. fjmrh. kom með mjög eftirtektarverðar tölur hér áðan í ræðu sinni um það, hvaða útgjaldaaukning fyrir vísitölufjölskyldu, sem svo er kölluð, samþykkt þessa frv. hafi, og ef ég hef tekið rétt eftir, nefndi hann, að 8.8% söluskattur í innflutningi mundi auka útgjöld vísitölufjölskyldunnar um 1700 kr. á ári og hinn almenni söluskattur, 3%, mundi auka útgjöld þessarar fjölskyldu um 1525 kr. á ári. Ég vona, að ég hafi tekið rétt eftir þessum tölum. Ég fór aðeins að kíkja á Hagtíðindin í þessu sambandi og fór að brjóta heilann um það, hvernig árstekjur þessarar vísitölufjölskyldu mundu endast samkv. þessum tölum. Ef útgjöld fjölskyldunnar eru 1525 kr. á ári vegna 3% söluskatts, hlýtur fjölskyldan að kaupa vörur fyrir 51 þús. kr. Það held ég, að sé þó ekki rangur reikningur. Ef hún hefur 1525 kr. útgjöld af 3% söluskatti, hlýtur þessi fjölskylda að kaupa vörur og þjónustu fyrir 51 þús. kr. (Gripið fram í.) Nei, það er einmitt það, sem ég ætla að koma að, og hv. þm. hlýtur að sjá það, að fjölskylda getur ekki greitt 1525 kr. í 3% söluskatt, nema hún kaupi vörur og þjónustu fyrir 51 þús. kr. Hv. frsm. segir, að hún borgi ekki söluskatt af öllu, sem hún þarf til lífsviðurværis. Hún á ekki að borga söluskatt af mjólk. Einhverja aura verður hún því að hafa í mjólk umfram þessa 51 þús., sem fer í hin kaupin. Það er reiknað með, að vísitölufjölskyldan kaupi mjólk og mjólkurvörur fyrir 8339 kr. Ef helmingur af þessu er neyzlumjólk, kaupir hún mjólk fyrir 4169 kr. yfir árið, og það er vafalaust það minnsta, sem slík fjölskylda getur komizt af með. Hún greiðir ekki söluskatt af húsaleigu, en vísitölufjölskyldunni eru reiknaðar 10200 kr. í húsaleigu. Fjölskyldan greiðir ekki söluskatt af útsvari enn þá, en hvaða útsvar er á þessari fjölskyldu, get ég ekki fullyrt um. Ég hef ekki tölur yfir það. Þó hef ég nokkra vísbendingu um það, því að hæstv. ráðh. sagði, að þessi fjölskylda mundi fá 700 kr. lækkun á útsvari vegna þess hluta söluskatts, sem á að ganga til sveitarfélaganna. En hvað á ég þá að áætla útsvarið hjá þessari fjölskyldu, fyrst lækkunin er 700 kr.? Mig minnir, að hann nefndi 10–15% lækkun, en þar hefur hann sennilega átt við Reykjavík. En ef 700 kr. lækkun er 15%, hlýtur útsvarið sjálft að vera í kringum 4700 kr., og það er ekki ósennilegt, að svo sé.

Þarna er ég þá búinn að nefna þrjá útgjaldaliði þessarar fjölskyldu, sem hún borgar ekki söluskatt af: mjólk fyrir 4169 kr., húsnæðiskostnað fyrir 10200 kr. og útsvar fyrir 4700 kr. En þá er ég kominn langt upp fyrir 60 þús. kr. árstekjur, sem vísitölufjölskyldan á að hafa, og hvernig stendur á þessu? (Gripið fram í.) Eins og hverjar? Hverjar? (Gripið fram í.) Ekki þó talan, sem ég hef eftir sjálfum hæstv. ráðherra? Nú, það er. líka nóg. (Gripið fram í.) Nú, borgar maðurinn ekkert útsvar? Kaupir hann enga mjólk? Þarf hann ekkert að borga í húsnæðiskostnað? Það er einhver skekkja í þessu dæmi. Ég vil ekki segja, að hæstv. ráðh. hafi reiknað þarna vitlaust, en það er einhver skekkja í dæminu. Hvernig getur þessari fjölskyldu dugað 60 þús. kr. árstekjur til að kaupa vörur og þjónustu fyrir 51 þús., borga 10200 kr. í húsnæði, kaupa mjólk fyrir meira en 4 þús. kr. og greiða útsvar milli 4 og 5 þús.? Ef hæstv. fjmrh, getur sannfært mig um það, að skekkjan sé hjá mér, skal ég viðurkenna það. En hvar er hún þá? (Gripið fram í.) Ég er búinn að sleppa ýmsu, sem á ekki að greiða söluskatt af, en þetta fólk verður að greiða.

Ég hef ekki minnzt á símakostnað, útvarp, sjúkrasamlag, almannatryggingagjald. (KK: Vatn.) Ha ? ( KK: Neyzluvatn.) Ja, ég tala nú ekki um ósköpin. Það er svo fjöldamargt, sem ég hef ekki nefnt, sem allir vita að þessi fjölskylda verður að greiða og engin 3% koma á. 60 þúsundin fara að verða drjúg með þessu móti.

Hæstv. fjmrh. hefur talað allstrangt í garð okkar, sem andmælt höfum þessu frv., og er ekkert við því að segja. Það væri meira að segja óeðlilegt, ef hann gerði það ekki, þar sem hann ber þetta mál svo mjög fyrir brjóstinu. En ekki vil ég kvarta á neinn hátt undan málflutningi hans, þó að hann þoli ekki vel þau andmæli, sem borin eru fram, enda held ég, að það séu aðrir aðilar, sem mættu frekar kvarta undan meðferð hæstv. ríkisstj. á sér en við andstæðingarnir. Ég held, að engir hafi frekar þörf á að kvarta en samstarfsflokkur hæstv. fjmrh., Alþfl., því að meðferðin, sem sá flokkur fær í þessari stjórnarsamvinnu, er bágborin. Það byrjaði snemma, eftir að fyrrv. ríkisstj. var mynduð á Þorláksmessu 1958. Eitt fyrsta verk þeirrar ríkisstj. var að taka aftur kauphækkanirnar, sem Alþfl. ásamt Sjálfstfl. kom á sumarið 1958. Þetta varð Alþfl. að gera,

þótt ekki væri það alveg í samræmi við kenningar hans sumarið áður.

Það má minna á í öðru lagi, þegar Alþfl. gaf út brbl. s.l. sumar, með stuðningi sjálfstæðismanna að vísu, en hann var rétt búinn að gefa út lögin, þegar Sjálfstfl. lýsti því yfir, að hann væri á móti lögunum, og tilkynnti þar með þjóðinni, að Alþfl. hafi með sex þm. gefið út bráðabirgðalög. Þetta, verð ég að segja, er heldur ótuktarlegt.

Í þriðja lagi vil ég minna á, að eftir að Alþfl. hafði boðað það allri þjóðinni í tvennum kosningum, að hann væri búinn að stöðva verðbólguna, var það fyrsta verk núv. hæstv. forsrh. að skýra frá því á fundi hér í höfuðstaðnum, að það vantaði 250 millj. kr. til, að um nokkra stöðvun sé að ræða.

Í fjórða lagi vil ég minna á, að Alþfl. barðist gegn gengislækkun áratugum saman og hefur boðað það til skamms tíma, þó að hann sé hættur því núna, en verður nú að hafa forgöngu um gengislækkun.

Ég vil í fimmta lagi nefna það, að höfuðforingjar Alþfl. boðuðu það á s.l. hausti, eins og minnt hefur verið á, að verði opnuð nokkur gátt fyrir dýrtíðarflóðið með neins konar hækkunum, þá „fari þeir af stað“, sem kallað er. En þessir foringjar verða jafnvel hér á hæstv. Alþingi að greiða atkv. með hverju frv. á fætur öðru, sem hefur í för með sér gífurlegar hækkanir á verðlagi í landinu, en hins vegar bindingu á vísitöluuppbótum.

Þessi meðferð á samstarfsflokki er líklega sú lakasta, sem átt hefur sér stað, síðan stjórnin kom inn í landið.

Ég hef drepið hér á örfá atriði af því, sem hæstv. fjmrh. hefur haldið fram og hv. frsm. meiri hl. fjhn., en ég vil að lokum mælast til þess, ef hæstv. fjmrh. hefur tök á því að greiða fyrir mig úr þeirri flækju, sem ég nefndi áðan um vísitölufjölskylduna, sem átti að hafa 60 þús. kr. árstekjur, kaupa vörur og þjónustu fyrir 51 þús. og greiða 10200 kr. í húsnæðiskostnað, kaupa mjólk fyrir rúmar 4 þús. kr. og greiða útsvar 4–5 þús.., hvernig 60 þús. gátu enzt í þetta allt saman. Ég vil ógjarnan fara með reikningsskekkju viljandi, en ef skekkja er, þætti mér vænt um, að hann segði mér frá því, ekki á þann máta, sem hann greip fram í áðan, að tölurnar væru allar vitlausar nema þær, sem hann nefndi, því að hann kemst ekki fram hjá því, að hvaða fjölskylda sem er verður að greiða húsnæðiskostnað, hún verður að kaupa mjólk fyrir heimilið og hún þarf að greiða útsvar, eitthvert útsvar. Það má deila um tölurnar, en það verður ekki deilt um 51 þús. kr. upphæðina til þess að fá út töluna, sem hæstv. ráðh. nefndi sjálfur, 1525 kr.