01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2742)

38. mál, samstarfsnefndir launþega og vinnuveitenda

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og sjá má á fram komnu nefndaráliti, hefur ekki náðst fullt samkomulag innan allshn. um þetta mál. Meiri hl. mælir með samþykkt till. með þeirri viðbót, að ríkisstj. verði falin framkvæmdin í samráði við félög launþega og vinnuveitenda. Minni hlutinn, hv. 4. landsk., Hannibal Valdimarsson, hefur lagt fram sérálit, og mun væntanlega verða gerð grein fyrir því hér á eftir.

Nefndin hefur skrifað allmörgum aðilum og óskað álits þeirra á tillögunni. Í svörum tveggja aðila. sem þó báðir telja gagnsemi þessa samstarfs ótvíræða, kemur fram sá ótti, að ef till. yrði samþykkt, væri verið að fara inn á svið hins frjálsa samkomulags, sem gilda ætti í viðskiptum launþega og vinnuveitenda. Þessu til viðbótar bendir annar aðilinn, Iðnaðarmálastofnunin, á, að rétt sé að bíða, unz sendinefnd sú frá nokkrum félögum launþega og vinnuveitenda, sem fór utan á vegum Iðnaðarmálastofnunarinnar fyrir ári til þess að kynna sér þetta samstarf í nágrannalöndum okkar, hafi skilað skýrslu sinni.

Þessu tvennu er því til að svara, að meiri hl. allshn. hefur fallizt á þá skoðun mína, sem kom fram í framsöguræðu fyrir þessu máli, en þá sagði ég m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Heppilegustu leiðina til að koma nefndum þessum á stofn tel ég vera þá, að samstarfsnefndir taki til starfa til reynslu í nokkrum fyrirtækjum með sem ólíkast starfssvið og síðan væri starf þeirra og árangur tekið til rannsóknar og endurskoðunar eftir t.d. 12 mánuði og þá teknir upp samningar á grundvelli erlendrar og innlendrar reynslu. Óhætt er að slá því föstu, að illmögulegt væri að byggja algerlega á reynslu annarra þjóða vegna ólíkra atvinnuhátta og annarra ástæðna og þess vegna mætti forðast ýmis mistök, sem þar hafa átt sér stað.“

Með þessu og öðru, sem ég sagði þá, undirstrikaði ég skýrt, að ég teldi þekkingu íslenzkra aðila næga á starfi þessu í nágrannalöndunum til þess að geta leiðbeint um það hér, en innlendu reynsluna vantaði, til þess að grundvöllur fyndist til samninga um þessi þýðingarmiklu mál.

Það, að meiri hlutinn er því samþykkur, að ríkisvaldið hafi hér forgöngu um í samráði við félög launþega og vinnuveitenda, er ekki vegna þess, að við teljum það eiga að vera framtíðarþátttakanda í þessu samstarfi öðruvísi þá en sem aðila að þeim frjálsu samningum, sem gilda eiga í samskiptum launþega og vinnuveitenda, heldur vegna eftirfarandi atriða:

Það er liðinn hálfur annar áratugur, síðan samningar voru gerðir í nágrannalöndunum milli launþega og vinnuveitenda um þessi mál. Innan dönsku verkalýðshreyfingarinnar var sú skoðun sett fram strax í byrjun þessa samstarfs og oft áréttuð síðan, að innan samtakanna væri fullur skilningur á því, að veruleg aukning lífskjaranna gæti því aðeins átt sér stað, að á undan hafi farið aukning framleiðsluverðmætanna. Danska verkalýðshreyfingin hefur því heils hugar snúið sér að nánari samvinnu við vinnuveitendur til framleiðsluaukningar, en tekur það um leið fram, að vitaskuld haldi samtök launþega áfram að vera sérhagsmunasamtök, sem vinni að bættum kjörum meðlima sinna. En það eru sameiginlegir hagsmunir um fjölda verkefna, sem einmitt er hægt að ná fram með samvinnu við vinnuveitendur.

Á þessu langa tímabili hafa sömu samningsaðilar hér heima ekki beitt sér fyrir neinu slíku samstarfi, og þeim litla vísi, sem til er hér á landi að slíku starfi, hefur verið komið á af einstaka vinnuveitanda og starfsmönnum hans. Það hefur engin almenn kynning á málinu heldur farið fram. En fyrir þremur árum sendi Iðnaðarmálastofnunin framámann hjá verkalýðshreyfingunni til að kynna sér þessi mál hjá nágrannaþjóðunum. Þessi maður lagði fram skýrslu um ferðalagið, og mun ég vitna í hana síðar, — og fyrir ári fór fjölmenn sendinefnd á vegum sömu samtaka til að kynna sér þessi mál í Danmörku og Noregi. Þótt margir þessara nefndarmanna hafi skrifað tímaritsgreinar um ferðina og látið uppi mjög jákvæðar skoðanir á þessu máli og gildi þess fyrir okkur hér heima, hefur ekki verið gert meira í því.

Þetta finnst mér vægast sagt hæg þróun, og mætti jafnvel segja, að það væri engin þróun. Það er líka mín persónulega skoðun, að það séu ýmis öfgaöfl, sem kæri sig lítið um samstarf sem þetta, og því tel ég í hæsta máta eðlilegt, að ríkisstj. verði falin forganga í þessu máli í samráði við félög launþega og vinnuveitenda, enda hefur enginn einn aðili hérna heima betri aðstöðu til þess að skapa þau skilyrði, sem hin nauðsynlega innlenda reynsla byggist á, eða safna á eina hendi því, sem jákvætt og neikvætt getur talizt við þetta nauðsynlega samstarf.

Í framsöguræðu minni fyrir þessari till. vitnaði ég í samning þann, sem gerður var í Danmörku 1947 milli verkalýðssambandsins og vinnuveitendasambandsins. Síðan sá samningur var gerður, hafa margir slíkir verið gerðir og starfssvið nefndanna fært út mjög verulega. Þannig hafa verið gerðir slíkir samningar í byggingariðnaðinum hjá flestum stofnunum Kaupmannahafnarborgar og annarra borga. hjá ríkinu, hjá samvinnufyrirtækjum, í mjólkurbúum og sláturhúsum einstaklinga og hjá einstökum fyrirtækjum, sem hafa staðið utan vinnuveitendasambandsins danska, og í öllum þessum greinum hefur hinum upprunalega samningi verið fylgt í öllum aðalatriðum. En að sjálfsögðu hefur orðið að laga starf nefndanna eftir mismunandi uppbyggingu og tilgangi mismunandi rekstrarforma.

Skömmu eftir að hinn upprunalegi samningur um samstarfsnefndir var undirritaður, gerðu þessir sömu aðilar með sér annan samning um vinnuathuganir til að koma á hagræðingu, sem stefnir að aukinni framleiðni. Þessi samningur byggist á sömu grundvallarskoðun og samstarfsnefndirnar, þeirri, að fyrir hendi sé gagnkvæmur skilningur á viðfangsefninu, samhliða því, að tortryggni sé útilokuð á milli þessara aðila, og í beinu framhaldi af þessum vinnuathugunum hafa komið viðræður og athuganir á nýjum launagreiðsluformum og þætti launþegana í réttmætri hlutdeild í arði, sem verður til vegna framleiðniaukningarinnar.

Ég vitnaði hér áðan í ummæli tveggja aðila um þessa tillögu. Auk þeirra hafa eftirtaldir aðilar látið álit í ljós um hana, en það er Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem mælir með samþykkt hennar, Landssamband ísl. verzlunarmanna, sem mælir með samþykkt hennar, og Vinnuveitendasamband Íslands segir í sínu bréfi, að framkvæmdanefnd sambandsins hafi á fundi samþykkt einróma að mæla með, að rannsókn sú, er í till. greinir, verði látin fara fram. Síðan hefur mér borizt bréf frá Félagi ísl. iðnrekenda, þar sem þeir tjá mér, að þeir telji eðlilegt, að slík rannsókn, sem um getur í till., verði framkvæmd að frumkvæði ríkisstj., en í samvinnu við félög launþega og vinnuveitenda.

Það hefur vakið nokkra undrun mína, að Alþýðusamband Íslands hefur ekki sent umsögn þrátt fyrir óskir um það, en núv. framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins var sá aðili, sem fór út á vegum Iðnaðarmálastofnunar Íslands fyrir þremur árum, og hann hefur látið skoðanir sínar í þessu máli í ljós í tímaritinu Iðnaðarmálum, og leyfði ég mér að birta hluta af þeirri grein hans með grg. minni fyrir þessu máli. Mig langar að ljúka þessum orðum mínum með því að vitna enn á ný í orð þessa manns, sem er núv. framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, eins og ég áður tók fram, með leyfi forseta. Hann segir:

„Ég tel mig hafa fengið góða yfirsýn yfir þessa starfsemi, jafnframt því sem ég hef sannfærzt um að slík starfsemi gæti tvímælalaust orðið að liði hér á landi, ef rétt væri á málum haldið. Ekki aðeins í iðnaði og verksmiðjurekstri, heldur einnig í sjávarútvegi, fiskiðnaði og ýmsum greinum landbúnaðarstarfrækslu, svo sem mjólkuriðnaði, kjötiðnaði o.fl., mundi slík samvinna um framleiðnimálefni geta orðið atvinnulífinu gagnleg. Ekki leikur á tveim tungum, að hér er fyrir hendi verkefni, sem ber að gefa gaum, það verður að teljast í fyllsta máta eðlilegt, að hið opinbera hafi hér frumkvæði og reyni að fá samtök vinnumarkaðarins til samstarfs um þessi mál, svo mikilvæg sem þau eru fyrir afkomu þjóðarheildarinnar. Því verður ekki að óreyndu trúað, að ekki sé fyrir hendi skilningur hjá þessum aðilum á gildi þess að koma slíkri samvinnu á, svo vafalítið sem það er, að hún á að geta orðið þjóðhagslega mikilvæg, ef rétt er á málum haldið, og líkleg til að leggja grundvöll að stórbættum lífskjörum almennings. Eins og nú háttar til, er ekki aðeins rétt að kanna nýjar leiðir, heldur beinlínis skylda allra ábyrgra aðila að leita nýrra úrræða. Samstarf um framleiðnimálefni er vafalaust eitt af því, sem þar kemur til greina.“

Þetta voru orð hans. Eins og ég tók fram í byrjun míns máls, eru 6 meðlimir af 7 í allshn. Sþ., sem mæla með samþykkt till., en einn aðilinn, hv. 4. landsk. þm. (HV), hefur skilað séráliti og mælir með, að hún verði felld.