27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í D-deild Alþingistíðinda. (2747)

126. mál, rækjumið

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Menn hafa verið þeirrar skoðunar, sem til þekkja, að talsvert mundi vera af rækju á djúpmiðum fyrir Austurlandi.

Á s.l. sumri fór Björgvin Jónsson fyrrv. alþm., kaupfélagsstjóri á Seyðisfirði, fram á það við þá Norðmenn, sem stýra hafrannsóknarleiðöngrum Norðmanna hér við land og þar með skipinu Johan Hjort, að þeir tækju með sér rækjuvörpu og köstuðu henni í tilraunaskyni út af Austurlandi. Urðu forráðamenn þessa leiðangurs við þessari beiðni og köstuðu rækjuvörpunni, og brá svo við, að þeir fengu strax rækju, og var aflinn talinn mikill og rækjan sérstaklega góð.

Af þessu tilefni m.a. hafa fiskifræðingar íslenzkir mjög mikinn áhuga fyrir því, að rækjuleit, regluleg rækjuleit, rækileg, gæti farið fram á þessum slóðum, og Austfirðingar hafa, eins og gefur að skilja, ákaflega mikinn áhuga fyrir því, að ekki verði töf á því, að slíkar rannsóknir eigi sér stað.

Það mun þegar hafa verið gerð áætlun um slíka leit af fiskifræðingum, og það er markmið okkar, sem flytjum þessa þáltill., að Alþ. samþ. áskorun á hæstv. ríkisstj. um að stuðla að því, að þessar fyrirætlanir, sem fiskifræðingarnir hafa nú þegar á prjónunum, gætu orðið framkvæmdar þegar í sumar og þá svo myndarlega, að nokkuð mætti ganga úr skugga um það, hvers vænta má um rækjuveiðina á þessum slóðum.

Okkur flm. hefur borizt nokkur vitneskja um reynslu frá Noregi í þessum efnum, og sýnir sú reynsla og raunar einnig reynsla hér við land á grunnmiðum, þótt hún sé ekki eins stórfelld og í Noregi, að hér er um stórmál að ræða og stærra mál en flestir munu í fljótu bragði gera sér grein fyrir. En við höfum fengið um hendur Lúðvíks Ingvarssonar sýslumanns í Suður-Múlasýslu nokkrar upplýsingar um reynslu Norðmanna í þessu efni, en Lúðvík Ingvarsson er mikill áhugamaður um þessi mál og hefur ritað okkur þar að lútandi. Þar kemur fram, að úti fyrir Rogalandi í Noregi hefur þessi veiði verið stunduð að ráði síðan 1954, og þar er ekki um neitt smávægilegt að ræða, því að það hefur stöðugt aukizt þátttakan í veiðunum og veiðisvæðið farið stækkandi á úthafinu, unz svo var komið árið 1958, að 200 skip tóku þátt í þessum veiðum. Hvað gerzt hefur síðan 1958, er okkur ekki kunnugt. Þessar veiðar eru þar stundaðar á um 40 tonna bátum, áhöfnin er 2 og stundum 3 menn, og afli hefur verið þar góður, eins og aukin þátt taka í veiðunum bendir til, og tekjur verulegar af þessum veiðum. Þegar þess er svo gætt, að það er mjög mikil vinna í landi við verkun rækjunnar, sjá allir, hversu stórfelldur þáttur þetta gæti orðið í atvinnulífi sjávarplássanna á Austurlandi, ef þær vonir rættust, sem vöknuðu, þegar þessi litla tilraun var gerð á s.l. sumri og það kom í ljós, að þarna var strax rækja fyrir, þegar reynt var.

Nú sé ég ekki ástæðu til að setja á lengri ræðu um þetta, því að aðalatriðið er ekki það, heldur hitt, að koma þeim upplýsingum á framfæri, sem ég nú þegar hef greint, og málinu sjálfu til nefndar í þeirri von, að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu á hv. Alþ. Þess vegna mun ég láta við þetta sitja, en óska eftir því, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn. og þá í því trausti, að það geti fengið afgreiðslu nú á þessu þingi. (Forseti: Það eru ákveðnar tvær umr. um till.) Ég bið afsökunar. Það munu hafa verið ákveðnar tvær umr., því að hér mun um kostnað að ræða, og því er ekki ástæða til að fresta þessari umr., heldur vísa till. til n. að henni lokinni.