24.05.1960
Sameinað þing: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (2758)

138. mál, steinsteypt ker til hafnabygginga

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. sú til þál. um framleiðslu á steinsteyptum kerjum til hafnabygginga, sem ég ásamt nokkrum öðrum hv. alþm. hef leyft mér að flytja á þskj. 339, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hvort eigi sé hagkvæm aðstaða til þess á Akranesi að koma þar á fót framleiðslu steinsteyptra kerja til hafnabygginga víðs vegar um land. Ef í ljós kæmi við slíka athugun, sem vænta má, að Akranes sé kjörinn staður til slíkra framkvæmda, mundi eðlilegt og hagkvæmt, að yfirstjórn hafnarmálanna hefði þessar framkvæmdir með höndum og sölu kerjanna.“

Svo sem segir í grg. fyrir till., er sennilegt, að engin þjóð, miðað við fólksfjölda, verji jafnmiklum fjármunum til hafnabygginga og við Íslendingar. Á hverju ári er varið tugmilljónum króna í þessu skyni, og með tilliti til þeirrar aukningar, sem nú á sér stað á skipaflota landsmanna, er það fullvíst, að ekki verður slakað á í þessum efnum. Það má jafnvel frekar gera ráð fyrir, að um verulega aukningu verði að ræða og stærri áfangar teknir fyrir en verið hefur að undanförnu, þegar frá eru teknar ein eða tvær framkvæmdir, sem ráðizt hefur verið í á undanförnum árum.

Nú er það svo, að öll aðstaða til hafnarframkvæmda er mjög mismunandi á hinum ýmsu stöðum. Kemur þar margt til greina, t.d. hvort fyrir hendi er nærtækt gott byggingarefni, svo sem möl, grjót og sandur, en víðast hvar, þar sem ráðizt er í að byggja varanlegar hafnir, eru þær byggðar úr steinsteypu. Er þá framkvæmdinni oftast hagað þannig, að strax og komið er út á nokkurt dýpi, eru steypt ker notuð, og verður þá að ráðast í dýrar framkvæmdir á hverjum stað, til þess að unnt sé að steypa kerin og flotsetja þau síðan. Þessi kostnaður getur verið mjög mismunandi og fer að sjálfsögðu mest eftir því, hve aðstaðan er góð frá náttúrunnar hendi. Þennan kostnað mætti spara fyrir marga aðila með því að framleiða kerin á einum stað, þar sem góð aðstaða væri fyrir hendi, og fleyta kerjunum síðan til hinna ýmsu hafna.

Á stríðsárunum undirbjuggu Englendingar byggingar á stórum höfnum á þennan hátt. Aðaluppistaðan í þeirri stækkun, sem átt hefur sér stað á höfninni á Akranesi á undanförnum árum, er einmitt nokkur af þessum kerjum, sem Englendingar byggðu á stríðsárunum.

Ég geri ráð fyrir, að sú rannsókn, sem hér er lagt til að verði látin fram fara til athugunar á máli þessu, leiði í ljós, að þessi tilhögun sé bæði hagstæð og ákjósanleg, og kemur þá til álita, hvaða aðili eigi að standa fyrir framkvæmdinni. í fljótu bragði virðist vera eðlilegast, að það komi í hlut hafnarmálastofnunar ríkisins eða vita- og hafnamálaskrifstofunnar undir forustu vitamálastjóra. Það er hægt að benda á ýmis rök því til stuðnings. T.d. ræður enginn einn aðili yfir meiri upplýsingum um það, hvaða hafnarframkvæmdum er líklegast að unnið verði að hverju sinni og þá um leið hvaða stærð af kerjum sé heppilegast að byggja með tilliti til þess, og fleira mætti til nefna, en það er annað mál, og mun ég ekki fara frekar út í það að þessu sinni.

Sem ákjósanlegan stað fyrir þá framleiðslu, sem hér um ræðir, höfum við bent á Akranes og sem rök fyrir því staðarvali höfum við bent á nokkur mjög þýðingarmikil undirstöðuatriði. T.d. er sementsverksmiðja ríkisins staðsett þar og því ekki um neinn flutningskostnað á sementinu að ræða til framkvæmdanna, auk þess sem þar er nærtækt úrvals steypuefni, sem telja verður að skipti mjög miklu máli í þessu sambandi.

Ég get svo látið lokið þessum orðum mínum um mál þetta að sinni. En það er skoðun mín, að hér sé um mikið fjárhagslegt hagsmunamál að ræða og því fullkomið tilefni til þess, að slík rannsókn, sem hér er lagt til, verði látin fram fara. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og fjvn.