14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

88. mál, söluskattur

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vil taka fram til viðbótar því, sem ég hef áður sagt í þessum umræðum.

Síðan ég talaði hér í kvöld, hefur hæstv. fjmrh. flutt ræðu og enn fremur frsm. meiri hl. fjhn. En mikið vantar á, að í ræðum þeirra kæmu fram upplýsingar um ýmislegt, sem spurt hefur verið um í þessum umræðum, m.a. af mér.

Hæstv. fjmrh. sagðist varla vita, hvort hann ætti að taka það alvarlega, að þm. og ekki sízt við þm. Framsfl. teldum ástæðu til að halda langar ræður um þetta mál. Hér er nú samt um að ræða tekjuöflunarmál fyrir ríkissjóð, sem á að gefa yfir 430 millj. kr. í tekjur samtals. Það eru ekki allt nýjar álögur, þar eru meðtaldar 154 millj., sem innheimtar hafa verið áður og eru færðar sem sérstakur liður á fjárlagafrv. En þegar á þessa tölu er litið annars vegar og hins vegar á það, að niðurstaða fjárlaga 1959 á sjóðsyfirliti er aðeins rúmar 1000 millj., þá felast í þessu frv. hvorki meira né mínna en fullkomlega 2/5 hlutar af heildarupphæð fjárlaga 1959. Mér finnst ekkert óeðlilegt, að það frv., sem felur í sér slíkar álögur eða er svo stórfelldur tekjustofn fyrir ríkið og hefur svo ríkuleg áhrif á niðurstöður fjárlaga, sé rætt.

Hæstv. fjmrh. tók að spyrja um það, hvaða skoðanir Framsfl. hefði á ýmsu í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, hvort hann teldi óþarft að afla þessara tekna o.s.frv. Ég ætla ekki að gera þessar spurningar hæstv. ráðh. að umræðuefni hér í nótt. Fyrir liggur innan skamms að ræða fjárlagafrv. við 2. umr., og þá munum við þm. Framsfl. taka þátt í þeim umræðum, og mun ráðh. vera það auðvelt að bíða eftir upplýsingum af þessu tagi þangað til

Hæstv. fjmrh. fór hér með nokkrar tölur um það, hvaða áhrif þau gjöld, sem innheimta á samkv. þessu frv., muni hafa á svokallað heimili vísitölufjölskyldunnar, og mér virtist niðurstaðan vera sú, að í raun og veru mundi vísitölufjölskyldan hagnast á þeim breytingum á gjaldstofnum og gjaldheimtu, sem stefnt væri að í sambandi við þetta frv. og væntanlegt frv. um breyt. á tekjuskattinum. Ég held, að í þessu efni eigi sér stað nokkuð mikill undandráttur á tíund hæstv. ráðh. Þegar hann stillir þessu dæmi upp, tekur hann áreiðanlega söluskattsfrv. alveg einangrað út úr heildarráðstöfununum, en metur ekki í þessu sambandi áhrifin af efnahagsmálalöggjöfinni, sem nýlega hefur verið sett.

Það er annars eftirtektarvert, að þessir hv. ræðumenn, sem báðir tala málefnalega jafnan og eru skilmerkilegir í málflutningi, sneiða hjá því að tala efnislega um þetta frv., sem fyrir liggur. Ég bar hér fram nokkrar fsp. í ræðu minni í dag til skýringa á málinu og hef engin svör fengið. Ég spurðist t.d. fyrir um það, hvort ekki bæri að skilja frv. svo, ákvæði 6. gr. þess, að þau ákvæði tækju einungis til þess söluskatts, sem um ræðir í II. kafla frv., en ekki til þess skattgjalds, sem á að innheimta samkv. bráðabirgðaákvæðum, og ef þetta væri rétt skilið, hvað væri fyrirhugað um undanþágu frá skattgjaldi samkv. bráðabirgðaákvæðunum. Ég spurðist fyrir um það, hvort fyrirhugað væri að gera breytingu á um skattanefndir í landinu. Ekkert svar. En ef það er ekki fyrirhugað, sýnist mér, að 22. gr. þessa frv. mætti eða ætti að orðast öðruvísi en þar er gert. Sýslumenn eru t.d. formenn yfirskattanefnda og hreppstjórar eru formenn undirskattanefnda, en það er gert ráð fyrir því, að þessir menn, sem eiga að veita viðtöku söluskatti, eigi að tilkynna skattstjóra eða skattanefnd um þá atvinnurekendur og aðra söluskattskylda aðila, sem andast eða verða gjaldþrota, m.ö.o., að formenn skattanefnda virðast eiga að tilkynna sjálfum sér um aðila, sem andast eða verða gjaldþrota. Ég spurði um það, hver væri grundvöllur þeirra áætlana, sem gerðar eru og gefnar upp í sambandi við skattgjaldstekjur, en skattgjaldstekjurnar eru auðvitað undirstaða þess, hve há fjárhæð sá skatthluti er af tekjuskatti, sem gefinn verður eftir. Ekkert svar.

Fjmrh. vildi vefengja það, sem ég hafði talið augljóst, að sveitarfélög yrðu fyrir útgjaldaaukningu vegna þeirrar löggjafar, sem nýlega er búið að setja, og vegna þeirra ákvæða, sem felast í þessu frv. Ég lét þau orð falla, að þær 56 millj., sem áætlað er að sveitarfélög fái samkv. þessu frv., mundu ekki gera betur en að vega á móti þeirri útgjaldaaukningu, sem sveitarfélögin yrðu fyrir. Hæstv. ráðh. telur, að sveitarfélögin muni geta lækkað útsvör, m.a. vegna þess, að fólksfjölgun hafi áhrif á það, að útsvar hvers einstaklings þurfi ekki að vera jafnhátt og áður. Mér virðist hann líta um of til höfuðborgarinnar, þegar hann kveður upp þennan dóm. Það er ekki svo, að fólki fjölgi í öllum sveitarfélögum landsins. Sums staðar er jafnvel um fólksfækkun að ræða, og á öðrum stöðum tekur fólksfjöldi litlum eða engum breytingum. Þetta eru því ekki almenn rök gagnvart öllum sveitarfélögum á landinu, og þess ber enn fremur að gæta, að þau sveitarfélög, þar sem fólksfjölgun er ör, þurfa að byggja upp til þess að búa í haginn fyrir þessa auknu fólksfjölgun, ef ekki á að verða kyrrstaða, svo að erfiðleikum valdi, þannig að aukinn fólksfjöldi kallar á aukin útgjöld vegna aukinna framkvæmda.

Þá segir hæstv. ráðh., að útsvörin geti lækkað hlutfallslega vegna hækkaðra skattgjaldstekna. Þá kem ég enn og aftur að því: Hvernig er hann fenginn, þessi grundvöllur, sem hinar hækkuðu skattgjaldstekjur eru byggðar á?

Hæstv. ráðh. furðaði sig á því, að sú skoðun kæmi fram hjá okkur framsóknarmönnum, að söluskatturinn væri ranglátur, þar sem hann leggst jafnþungt á allar vörur, og að hann mundi reynast erfiður í innheimtu og óvissa ríkti um það, hvort hann kæmi allur til skila. Ég benti á það fyrr í þessum umræðum, að ýmsir aðrir og þeir, sem nú eru stuðningsmenn hæstv. ráðh., hafa sagt meira um þetta en við framsóknarmenn, og ég vil árétta það með því að benda á, að meira að segja nú, meðan verið er að fjalla um þetta frv., þá er skrifað um þessa hlið málsins í málgagni annars stjórnarflokksins. S.l. föstudag, hinn 11. þ.m., segir svo í forustugrein í Alþýðublaðinu um söluskattinn: „Hér þarf einfalt kerfi, sem er auðskilið, og sem minnstar undanþágur. Hér þarf umfram allt nákvæmt eftirlit með innheimtu skattsins“, þ.e.a.s. söluskattsins, „svo að honum verði ekki hreinlega stolið á leið frá neytanda til ríkiskassans. Það mun fara verulega eftir þessu framkvæmdaratriði, hvort almenningur sættir sig við skattinn eða ekki.“

Þetta er skráð í Alþýðubl. 11. þ.m. Þessa viðvörun ætti hæstv. ráðh. vissulega að taka til greina frá stuðningsmönnum sínum og ekki vanda um við okkur stjórnarandstæðinga, þó að við bendum á þessar staðreyndir.

Að síðustu vil ég láta það koma fram, áður en þessum umræðum lýkur hér í d., að við umræður um þetta mál hefur það sannazt, að þegar gerð er grein fyrir heildarstefnu ríkisstj. í hvítri bók, sem ber nafnið „Viðreisn“, hefur ekki verið tekið tillit til áhrifa söluskattsins, þegar metin er kjaraskerðing fólksins og áhrifin á lífskjörin. En aftarlega í þessari bók er þó skýrt frá því, að þennan skatt eigi að leggja á. Það segir svo á bls. 33 í þessari hvítu bók: „Veruleg ný tekjuöflun verður einnig að koma til. Er það ætlun ríkisstj., að þeirra tekna verði aflað með nýjum söluskatti, og mun frv. um hann verða lagt fyrir Alþingi á næstunni. Er áætlað, að heildartekjur af þeim skatti verði 280 millj. kr.“ o.s.frv. Hér er skýrt frá því, hvað fyrirhugað sé um nýjan skatt, sem á að leggjast á vöruverðið í landinu. En þegar myndinni er brugðið upp, sem ekki aðeins þm., heldur almenningur í þessu landi á að festa sjónir á til að meta áhrif heildarstefnunnar á lífskjörin, á viðskiptakjör heimilanna, þá er það undan fellt að taka áhrifin af þessum skatti með. Þetta hefur sannazt í þessum umræðum.

Nú er það svo, að vitanlega er það dyggð af hálfu hvers manns og skylda hans í raun og veru að haga máli sínu svo, að hann tali það eitt, sem „með vissu hann veit, að vert er að gilda“, eins og skáldið kemst að orði. Ég geri þó mikinn mun á — og það mun hver maður gera — því, sem einn eða annar lætur sér líða um munn í viðtali, og hinu, sem prentað er í þskj. og lagt fram sem rök í máli. En ég geri ekki minni mun á hinu, því, sem þó kann að koma fram í þskj., og því, sem prentað er í hvítri bók undir skjaldarmerki hins íslenzka lýðveldis og dreift út um allt land sem staðreyndum. Það er munur sambærilegur við það að meta íslenzka fánann annars vegar og mislitt klæði hins vegar. En það hefur sannazt í þessum umræðum, að í þessari bók, sem er innsigluð skjaldarmerki hins íslenzka lýðveldis, er farið með staðreyndir á blekkjandi hátt og myndin sett þannig upp, að þeir, sem bókina lesa, hljóta að draga aðrar ályktanir af henni en raunverulega efni standa til.

Þetta vil ég átelja nú að síðustu, þegar ég lýk máli mínu, og ég segi það, að svo snauð af sómatilfinningu hefur engin ríkisstj. á Íslandi verið fyrr að leyfa sér slíka meðferð á máli undir skjaldarmerki hins ísl. lýðveldis.