27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (2772)

177. mál, skaðabætur vegna endurbóta á vegakerfi landsins

Jón Árnason:

Herra forseti. Það er eins og fram kemur í grg, fyrir þessari till., að þá hefur verið unnið að því nú á undanförnum tveimur árum að byggja nýtt símahús á Akranesi. Því máli er nú svo langt komið, að í þetta hús verður ekki einungis flutt á yfirstandandi ári, eins og frummælandi gat um áðan, heldur standa vonir til þess, að það verði þegar í næsta mánuði flutt í þetta nýja hús, og það var vissulega mikil þörf orðin fyrir slíka nýja byggingu fyrir síma- og póststarfsemina á Akranesi.

Eins og hæstv. ráðh. gat um hér áðan, var það snemma í vetur, sem ég ræddi þetta mál við símamálaráðh. Og það er ekki einungis þessi samþykkt, sem gerð var í janúarmánuði s.l., sem Akurnesingar hafa gert í sambandi við bætta símaþjónustu, því að það hefur verið okkar áhugamál um langan tíma að fá þar nokkuð bætt úr. Og þegar fjvn. var að störfum í vetur, lá þetta orðið fyrir skv. upplýsingum, sem ég fékk frá póst- og símamálastjóra, að ráðh. hafði fallizt á þetta, og mér var kunnugt um það. Og ég satt að segja undrast það, að bæjarstjórinn, sem átti að taka að sér að flytja þetta mál við ríkisstj. og þá aðila, sem málunum ráða, skyldi ekki, eftir að till. var samþ. í janúarmánuði, leita sér neinna upplýsinga um málið eða gera tilraun til að fylgja því eftir annað en að senda till. frá sér, því að ég er ekki í neinum vafa um það, að ef hann hefði gert það, þá hefði hann fengið þær sömu upplýsingar sem ég fékk um mál þetta. Og ég vil nota einmitt þetta tækifæri til að þakka hæstv. ráðh. fyrir þá fyrirgreiðslu, sem málið hefur nú fengið hjá ríkisstj.