09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (2799)

21. mál, jarðboranir í Krýsuvík og á Reykjanesi

Alfreð Gíslason bæjarfógeti:

Herra forseti. Hv. 3. Þm. Reykn. (MÁM) og ég höfum leyft okkur að flytja till. til þál. um ýtarlegar rannsóknir á jarðhitasvæðinu á Reykjanesi og afnot hins stóra jarðbors til framhaldsrannsóknar í Krýsuvík, hvort tveggja með það fyrir augum, að hin mikla hitaorka á þessum svæðum verði beizluð og hagnýtt til almenningsþarfa.

Hér á Alþ. hefur öðru hverju síðustu tvo áratugi verið mikið rætt um jarðhitann og hagnýtingu hans til híbýlahitunar og iðnaðar. Hafa verið færð rök að því, að beizlun hitaorkunnar í þarfir almennings og til iðnaðarframleiðslu gæti með tímanum orðið einn veigamesti hyrningarsteinninn undir efnahagslegu sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar. Forráðamönnum þjóðarinnar hefur því verið og er í sívaxandi mæli ljós hin geysilega þýðing, sem hagnýting jarðhitans getur haft fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Eitt veigamesta atriðið til að leysa hina miklu erfiðleika. sem íslenzka þjóðin á við að stríða og mun sennilega um ófyrirsjáanlega framtíð eiga við að stríða í sambandi við skort á erlendum gjaldeyri, er einmitt hagnýting jarðhitans, sem óhjákvæmilega takmarkar í stórum stíl innkaup þjóðarinnar á erlendu eldsneyti. Rannsóknir á jarðhitanum með borunum eru tiltölulega ungar hér á landi. Fyrsta borun eftir heitu vatni mun hafa verið framkvæmd við laugarnar hér í Reykjavík árið 1928, og nokkru seinna hófust svo boranir á Reykjum í Mosfellssveit. En fyrstu gufuboranir munu hafa farið fram í Hveragerði 1943 á vegum rannsóknaráðs ríkisins. Fyrir réttum 15 árum, eða árið 1945, var stofnað til jarðborana ríkisins, sem tóku við starfsemi rannsóknaráðs á þessu sviði. Síðan hefur verið borað víðs vegar um landið, bæði eftir heitu vatni og gufu. Þessar boranir fóru fram sem sjálfstæð rannsókn ríkisins á jarðhita víðs vegar um landið, auk þess sem annazt var um boranir fyrir þá, sem þess óskuðu. Þessar boranir hafa að sjálfsögðu gefið allvíðtæka þekkingu á jarðhitanum og eðli hans.

Þessi rannsóknarstarfsemi rannsóknaráðs ríkisins og síðar jarðborana ríkisins hefur orðið til þess, að á ýmsum stöðum, þar sem jarðhita hefur orðið vart á yfirborði jarðar í nánd við kauptún og kaupstaði, hafa sumir þessara staða komið á hjá sér hitaveitu, svo sem Reykjavík, Selfoss, Ólafsfjörður, Sauðárkrókur og Hveragerði. Hitaveita Reykjavíkur er að sjálfsögðu langveigamesta fyrirtækið af þessum hitaveitum, en þar munu um 40 þúsund manns njóta þessara mikilvægu þæginda, en 4500 manns á hinum hitaveitusvæðunum. Talið er af fróðum mönnum, að hitaveitur þessar allar spari um 40–45 þús. smálestir af eldsneyti, gas- og ketilolíu á ári hverju, og mun beinn gjaldeyrissparnaður þjóðarbúsins vegna þessara hitaveitna nema um 30 millj. kr. árlega. Auk þessa beina og raunhæfa hagnaðar, sem hitaveitur þessar velta þjóðarheildinni, eru hitaveiturnar sjálfar undir flestum eðlilegum kringumstæðum taldar fjárhagslega trygg fyrirtæki, sem borgi sig sjálf niður á tiltölulega skömmum tíma, miðað við mikinn stofnkostnað.

Við hinn mikla hagnýta árangur, sem náðst hefur með þeim hitaveitum, sem þegar hefur verið stofnað til, er ekki nema eðlilegt, að mikill áhugi sé vakinn hjá öðrum bæjar- og sveitarfélögum og heilum byggðarlögum fyrir hitaveituframkvæmdum, ekki sízt þar sem jarðhitinn er auðsær, eins og t.d. á Reykjanesi. Hin síðari árin hefur mikill áhugi ríkt hjá Suðurnesjamönnum um, að hafnar yrðu raunhæfar rannsóknir á möguleikum á hitaveituframkvæmdum fyrir byggðarlögin suður með sjó. Með tilkomu hins stórvirka jarðbors ríkisins og Reykjavíkurbæjar hefur áhugi þessi fengið byr undir báða vængi. Keflavíkurbær og Njarðvíkurhreppur hafa haft forgöngu um mál þetta. Hitaveitunefndir eru starfandi í báðum sveitarfélögunum, og hefur mikið samstarf verið þeirra í milli. Er nú unnið að rannsókn á hitaþörf bæjanna, kortagerð og teikningum fyrir væntanleg aðveitukerfi frá Reykjanesinu. Nefndirnar hafa lagt land undir fót og gengið um Njarðvíkur- og Hafnaheiðar þverar og endilangar í leit að svokölluðum „heitum blettum“, þar sem snjó ekki festir, því að slíkir blettir gefa vonir um, að virkjunarhæfur jarðhiti sé þar undir. Slíkir heitir blettir hafa hins vegar ekki fundizt og því úti vonin um það, að öruggt sé að finna jarðhita nær þéttbýlinu en á jarðhitasvæðinu við Reykjanesvita. Jarðfræðingar telja að vísu, að ekki sé ósennilegt, að jarðhita sé að finna í sprungubelti, sem liggi um skagann í norðaustur í stefnu á Kollafjörð, en engin fullvissa er um, að svo sé. Séu tilraunaboranir gerðar, þar sem sprungubelti þetta er talið liggja, kvað heppni ein ráða því, hvort borhola lendi í sprungu eða ekki, eftir þeim upplýsingum, sem framangreindar hitaveltunefndir hafa frá jarðborunum ríkisins. Tilraunaboranir á stöðum, þar sem enginn vottur jarðhita er á yfirborðinu, eru auk þess mjög kostnaðarsamar. Hver slík borhola, 200–250 m djúp, mun kosta um 500 þús. kr. Það má því telja mjög mikla áhættu að leggja út í slíkar tilraunaboranir, því að mistakist þær, er miklu fé kastað á glæ að óþörfu. Því vafasamari er slík áhætta sem örugg vissa er fyrir því, að nær óþrjótandi hitaorka er í nokkurra kílómetra fjarlægð.

Jarðhitasvæðið við Reykjanesvita er eitt af minni jarðhitasvæðum landsins að flatarmáli. Það er aðeins um einn ferkm að stærð. Þar eru bæði gufuhverir, leirhverir og einn goshver með söltu vatni. Ríkissjóður er eigandi að stærsta hverasvæðinu, en einnig er töluvert hverasvæði í landareign Kalmanstjarnar. Gufusvæði þetta við Reykjanesvitann hefur verið mjög lítið rannsakað með jarðborunum. Aðeins ein tilraunaborun var gerð af jarðborunum ríkisins árið 1956. Boruð var þá 160 m djúp hola. 8 tommu við, í nokkurra metra fjarlægð frá salthvernum. Upp úr holu þessari gýs 180° heit, en sölt gufa með miklum krafti, en gos borholunnar er jafnkröftugt nú og það var fyrir fjórum árum, þegar hún var boruð. Ekki hefur þess heldur orðið vart, að borhola þessi hafi haft lamandi áhrif á gufuhveri á hitasvæðinu. Eftir þessa einu tilraunaborun 1956 hafa engar frekari boranir verið gerðar á Reykjanesinu. Þótt sölt gufa hafi komið upp úr þessari einu holu, er ekkert sennilegra en fersk gufa sé á næsta leiti, ef boranir yrðu framkvæmdar víðar og borað dýpra.

Rannsóknir í þessum efnum á jarðhitasvæði Reykjaness eru allt of skammt komnar, og er nauðsynlegt, að þeirri rannsókn, sem hafin var með boruninni 1956, verði haldið áfram. Byggðarlögin suður með sjó telja nú um 9000 íbúa. Þar af eru búsettir í Keflavík og Njarðvíkum 2/3 hlutar þeirra, eða um 6000 manns. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hafa íbúar Keflavíkur og Njarðvíkur keypt olíu til upphitunar árið 1959 fyrir samtals 8½ millj. kr. Það gerir, að olíukaupin eru töluvert á aðra millj. kr. á hverja þúsund íbúa þessara tveggja byggðarlaga.

Þegar á þetta er lítið sem og það, að með jarðhitanum er hægt að fá einhverja ódýrustu hitaorku, sem völ er á, þarf engan að undra, þótt þessi byggðarlög, sem eru aðeins í 22 km fjarlægð frá miklu hitaorkusvæði, bindi miklar vonir við hagnýtingu þessarar orku. En það geta verið fleiri vonir bundnar við hagnýtingu jarðhitans á Reykjanesi en híbýlaupphitunin ein saman. Ég tel ekki ósennilegt, að vegna nálægðar jarðhitagufusvæðisins við sjó væri einmitt á Reykjanesi heppilegur staður fyrir svokallaða sjóefnaverksmiðju, sem í athugun hefur verið hjá sérfræðingum undanfarin ár, en af framleiðsluvörum slíkrar verksmiðju mætti nefna salt og þungt vatn. En allt þetta þarf að sjálfsögðu ýtarlegri rannsóknar en þegar hefur farið fram, enda er gufusvæði þetta hvergi nærri fullkannað með nauðsynlegum borunum. Hér er um ríkiseign að ræða, og er eðlilegt, að ríkið hafi forgöngu um allar nauðsynlegar rannsóknir á hitasvæði þessu, bæði með nýtingu hitans til venjulegrar hitaveitu og hagnýtingu hans til iðnaðarframleiðslu fyrir augum. Hér er því um sameiginlegt hagsmunamál ríkisins og byggðarlaganna suður með sjó að ræða. Af þremur brennandi áhuga- og hagsmunamálum Suðurnesja um þessar mundir, þ.e. steyptum þjóðvegi frá Hafnarfirði um Keflavík, Garð og til Sandgerðis, allsherjar sameiginlegu átaki allra verstöðvanna suður með sjó um uppbyggingu hafna sinna og hitaveitumálinu, þá er hið síðastnefnda ekki hvað veigaminnst í augum okkar Suðurnesjamanna.

Síðari hluti þáltill. okkar hv. 3. þm. Reykn. fjallar um Krýsuvík og komu hins stórvirka jarðbors þangað. Hafnfirðingar hafa þegar látið framkvæma tilraunaboranir þar með mjög góðum árangri, svo að telja má, að hagnýting hinnar geysimiklu hitaorku í Krýsuvík sé örugg. Rannsóknir í Krýsuvík eru nú svo langt komnar, að Hafnfirðingar bíða nú einungis eftir hinum stórvirka jarðbor ríkisins og Reykjavíkurbæjar til lokarannsóknar.

Hafnfirðingar höfðu ástæðu til að gera sér vonir um að fá jarðborinn á s.l. ári til Krýsuvíkur, en af einhverjum ástæðum brást Það. Olli það að sjálfsögðu miklum vonbrigðum. Vonandi fá Hafnfirðingar afnot jarðborsins hið bráðasta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta mál, en ég leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. fjvn.