09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (2800)

21. mál, jarðboranir í Krýsuvík og á Reykjanesi

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Um fyrri hluta þessarar þáltill., er hér liggur fyrir, vil ég taka það fram, að ég er því, sem þar kemur fram sammála, svo langt sem það nær. En rannsóknir, sem till, fjallar um, ættu að ná yfir stærra svæði en Reykjanes eitt. Og þörf er á, að samhliða fari fram rannsóknir á því, hvort jarðhiti kunni að finnast nær byggðum á Suðurnesjum, þótt ekki komi hann fram á yfirborði jarðar. Rannsóknir þær, sem till. fjallar um, þyrftu að fela í sér m.a. jarðboranir, sem eru dýrar, og þyrfti því að koma til veruleg fjárveiting í þessu skyni.

Vegna seinni hluta þáltill., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Jafnframt ályktar Alþingi að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að Hafnarfjarðarkaupstað verði hið bráðasta veitt afnot af jarðbor ríkisins og Reykjavíkurbæjar til framhaldsrannsókna í Krýsuvík“ — tel ég rétt, að það komi fram að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur í höndunum bréf frá hæstv. fyrrv. atvmrh., Emil Jónssyni, dags. 18. nóv. s.l. varðandi það atriði, sem sá hluti till. fjallar um. Hljóðar það svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af viðtölum við yður, herra bæjarstjóri, vill ráðuneytið hér með staðfesta, að það hefur ákveðið, að jarðborinn verði fluttur til Krýsuvíkur til borunar þar, þegar lokið er borunum með honum í Reykjavík samkvæmt gerðum samningum.“

Enn fremur hefur bæjarráð Hafnarfjarðar átt viðtal við hæstv. núv. raforkumálaráðherra, Ingólf Jónsson, og hafa þeir aðilar í samráði við jarðborunardeild ríkisins þegar komið sér saman um, hvenær hagkvæmast sé fyrir alla aðila, að hafnar séu boranir í Krýsuvík.

Bæjarráði Hafnarfjarðar hefur borizt afrit af bréfi raforkumálastjóra til atvmrn., þar sem m.a. segir svo um það atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Um hina fyrirhuguðu jarðborun í Krýsuvík er hins vegar það að segja, að hana er ekki hægt að framkvæma fyrr en með vorinu, þegar frostlaust er orðið. Auk annarra atriða kemur það sérstaklega til athugunar, að við borunina þarf talsvert magn af köldu vatni til kælingar, og verður í Krýsuvík að dæla þessu vatni um 2 km langar pípur úr Kleifarvatni. Er augljóst, að frost geta valdið töluverðum rekstrartruflunum á kælivatnskerfinu, og telur jarðhitadeildin mjög óvarlegt að hefja boranir í Krýsuvík, fyrr en frostlaust er orðið. þ.e. þegar komið er fram í apríl eða maí. Í samræmi við þetta er fyrirætlað að hefja í febrúarmánuði undirbúning í Krýsuvík að borun þar,“ segir að lokum í bréfi raforkumálastjóra og þessar undirbúningsframkvæmdir eru nú þegar hafnar.

Ég sé ekki ástæðu til að tortryggja yfirlýsingar hæstvirtra ráðherra um afnot jarðborsins í Krýsuvík, og eftir því sem ég þekki til þessa máls, tel ég, að fyrir því sé séð. Það má að vísu segja, að það sé ekki í mínum verkahring að sporna við því, að samflokksmenn hæstv. raforkumálaráðh. beiti sér fyrir því, að Alþ. samþykki sérstaka ályktun. Þar sem skorað er á hann að standa við loforð sín og fyrirrennara síns, og skal ég ekki beita mér gegn því, að þeir, sem svo mjög vantreysta hæstvirtum ráðh., fái þeim vilja sínum framgengt. En ég treysti hæstv. ráðh. víst þeim mun betur en þeir, að ég tel því máli, hvenær jarðborinn kemur til Krýsuvíkur, jafnvel borgið, hvort sem síðari hluti þáltill. verður samþykktur eða hann hefði aldrei komið fram.