27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (2806)

21. mál, jarðboranir í Krýsuvík og á Reykjanesi

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það er varðandi þá afgreiðslu, sem fjvn. hefur gert í sambandi við þá þáltill., sem við höfum flutt í sambandi við jarðhitarannsóknir á Reykjanesi.

Ég hef litlu við þá ræðu að bæta, sem hv. 3. landsk. (AGb) flutti hér áðan, en mig langar þá til í sambandi við síðari hluta þessarar till., sem hv. 7. landsk. þm. (GeirG) kom hér inn á áðan, að segja það, að flutningur þessarar till. er síður en svo vantraust á þá menn, sem með þessi mál fara nú. Ég gat þess hér, þegar till. var rædd í upphafi, að síðari hluti till. væri fram kominn vegna fenginnar reynslu í þessum málum og til þess að fyrirbyggja, að hægt yrði að segja, að ekki hafi verið gert allt, sem hægt væri til þess að tryggja, að borinn kæmi til Krýsuvíkur nú í sumar. Þessi hv. þm. viðhafði þá þau orð í sambandi við þær ráðstafanir, sem ekki stóðust árið 1959, að ekki hafi verið hægt að koma með borinn vegna frosta. Það sem af er þessu ári hefur ekki sýnt, að um mikil frost muni vera að ræða, og ég ætlaðist til með þessari till. eða síðari hl. hennar fyrst og fremst, að það yrði tryggt, að sá dráttur, sem varð á málinu í tíð fyrrv. ríkisstj., kæmi ekki fyrir aftur. Ég var fullviss um, að hæstv. núv. raforkumálaráðh. mundi gera sitt ýtrasta og hann teldi á engan hátt vantraust við sig, að þessu máli væri fylgt eftir eins og hægt væri.

Það er nú upplýst af jarðboranadeild ríkisins, að borinn sé nú þegar á leið suður í Krýsuvík, svo að segja má, að með flutningi þessarar till. hafi tilgangur hennar náðst, og jafnframt vildi ég segja það, að með flutningi fyrri hl. hafi tilganginum verið náð líka, með því að nú hefur ríkisstj. verið falin þessi till., og hún muni þá hefja undirbúning að heildarlöggjöf í sambandi við þessa hluti. Ég veit, að þær rannsóknir, sem fram þurfa að fara suður á Reykjanesi, verða ekki látnar sitja á hakanum, nema síður væri.