02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (2813)

27. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Till. þeirri til þál. á þskj. 36 svo og brtt. á þskj. 144, sem hér eru til umr., um fjáröflun til Fiskveiðasjóðs Íslands, vil ég fylgja úr hlaði með nokkrum orðum.

Samkvæmt lögum er heimilt að lána fé fiskveiðasjóðs til skipakaupa og skipabygginga, til byggingar frystihúsa, lifrarbræðslustöðva, fiskimjölsverksmiðja, til dráttarbrauta og til byggingar olíugeyma. Á seinustu árum hefur mikil fjárfesting átt sér stað bæði hvað varðar bátainnflutning og við byggingu fiskvinnslustöðva, og er greinilegt, að sjóðinn mun nú alveg á næstunni skorta tilfinnanlega fé til þess að standa undir útlánum. Af áætlun, sem stjórn fiskveiðasjóðs gerði þann 30. okt. s.l. um fjárhag og lánsfjárgetu sjóðsins fyrir tímabilið frá 29. okt. 1959 og til 31, des. 1960, er áætlað fjármagn hans talið munu nema um 83 millj. kr., en útborganir, sem búið sé að skuldbinda sjóðinn til að inna af hendi á þessu tímabili, munu nema um 80½ millj. kr. Þess ber þó að geta, að þegar yfirlit þetta var gert, var vitað um, að innflutningsskrifstofan hafði afgreitt innflutningsleyfi fyrir 17 skipum, og var áætlað, að fiskveiðasjóður þyrfti að lána til þessara skipa um 42 millj. kr. samkv. gildandi reglum um útlán sjóðsins. Í þessu sambandi er rétt að benda á þá staðreynd, að skipin fara nú yfirleitt mjög stækkandi, og er því stöðugt þörf fyrir meiri lánveitingar af þeim sökum til skipabygginga. Þá kallar gengisbreyting sú, sem nýverið er búið að lögleiða, mjög á aukið lánsfé hjá fiskveiðasjóði.

Eins og ég gat um í upphafi, á fiskveiðasjóður lögum samkvæmt að lána út á fleiri framkvæmdir en skipakaup ein, en vegna fjárskorts hefur lítið verið hægt að sinna öðrum verkefnum. T.d. hefur naumast verið hægt að sinna lánaþörf síldarsöltunarstöðva til endurnýjunar eða nýbygginga. Og sáralitlar lánveitingar hafa gengið til fiskvinnslustöðva og verbúða, ef miðað er við þann kostnað, sem er við að ráðast í þær framkvæmdir nú. Þessar framkvæmdir hljóta nú allar að verða stórum dýrari en áður við þær ráðstafanir, sem nýverið hafa verið gerðar í efnahagsmálum, og gerir það þörfina á auknu fjármagni til fiskveiðasjóða enn þá brýnni en hún hefur verið til þessa dags.

Samkv. brtt., sem ég flyt á þskj. 1491, er enn fremur lagt til, að ríkisstj. beiti sér fyrir þeirri breytingu á löggjöfinni um fiskveiðasjóð, að fé hans megi einnig lána til kaupa á verðmiklum veiðarfærum, og ef sú till. verður samþ. og af lagabreytingu verður, kallar það að sjálfsögðu enn á meira fé til lána hjá fiskveiðasjóði. Eins og hv. alþm. eflaust vita, eru sum veiðarfæri, eins og t.d. herpinætur og fleiri veiðarfæri, nú mjög dýr og erfitt að fá lán til kaupa á þeim. Eðlilegt verður að telja, að starfssvið fiskveiðasjóðs verði útvíkkað þannig, að hann geti einnig lánað fé til meiri háttar veiðarfærakaupa, að sjálfsögðu gegn hæfilegri tryggingu að dómi sjóðsstjórnar.

Ég leyfi mér að vona, að mér hafi tekizt að skýra í fáum orðum þá nauðsyn, sem fiskveiðasjóður hefur fyrir aukið lánsfé, og vænti ég þess, að till. þessar fái jákvæðar undirtektir á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um mál þetta verði frestað og því vísað til n., sem þá yrði væntanlega hv. allshn.