24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (2829)

12. mál, byggingarsjóðir

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Þessi till. var flutt í upphafi þings, og er þess vegna rétt að geta þess í upphafi vegna þeirrar meðferðar, sem hún kemur til með að fá í væntanlegri n., að vissu atriði í henni þarf að breyta, vegna þess að í till. er miðað við næstu áramót, að vissar ráðstafanir skuli vera gerðar þann tíma. en hér þyrfti að setja annað tímatakmark, eins og ég mun síðar víkja að.

Till. gengur í stuttu máli út á það, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að útvega byggingarsjóði það lánsfé, sem húsnæðismálastjórn telur nauðsynlegt til að bæta úr brýnustu þörfum. Og í sambandi við það finnst mér rétt að upplýsa, hvernig þessi mál stóðu um það leyti, sem till. var flutt, en síðan hafa ekki orðið verulegar breytingar á því, en þó að vísu útvegað nokkurt lánsfé, sem ég mun koma að.

1. des. s.l., eða um það leyti, sem till. var lögð fram hér á Alþ., lágu málin þannig fyrir hjá húsnæðismálastjórn, að þar lágu fyrir um 1550 umsóknir vegna fokheldra íbúða, sem þess vegna voru allar lánahæfar. Til þess að það væri hægt að veita til jafnaðar 80 þús. kr. lán út á þessar íbúðir, sem er að sjálfsögðu algert lágmark, þurfti um 92 millj. kr. Nú gerðist það í desembermánuði, um áramótin, að ríkisstj. útvegaði til bráðabirgða lánsupphæð, sem nam 15 millj. kr., og kemur það hér til frádráttar, svo að um áramótin hefur þetta þá staðið þannig eða upp úr áramótunum, að til þess að veita til jafnaðar 80 þús. kr. lán út á þessar 1550 íbúðir hefði þurft 97 millj. kr. Þessu til viðbótar kemur svo það, að fyrir lágu hjá húsnæðismálastjórn um 240 umsóknir á sama tíma vegna íbúða, sem voru að verða fokheldar og eru sennilega orðnar það núna og því lánshæfar. Hefði átt að veita til jafnaðar 80 þús. kr. lán út á hverja þessara íbúða, hefði þar þurft um 19–20 millj, kr.

Það hefur svo gerzt síðar, að með sérstökum ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið hér á Alþ. og mönnum er kunnugt um, hefur byggingarkostnaður verið stórkostlega, hækkaður, svo að það virðist vera algert lágmark núna að veita a.m.k. 100 þús. kr. lán út á hverja íbúð og er að sjálfsögðu of lítið. En ef lánsupphæðir á þessum 1800 íbúðum. sem ég hef nefnt, yrðu 100 þús. kr. til jafnaðar, mundu þar bætast við 36 millj. kr., þannig að til þess að fullnægja þessum 1800 lánsbeiðnum, sem fyrir lágu um áramótin, þarf um 140 millj. kr., ef hver íbúð ætti að fá um 100 þús. kr. lán, og er þá ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni vegna þeirra íbúða, sem á þessu ári verða fokheldar og þar með lánshæfar. En samkvæmt þessu má telja, að það sé nokkurn veginn lágmark í þessum efnum, að til þess að fullnægja aðeins þeirri þörf að koma áfram þeim íbúðum, sem eru fokheldar, þurfi nú um 140 millj. kr.

Mér finnst rétt að benda á það í þessu sambandi, að ef farið hefði verið eftir till. okkar framsóknarmanna á seinasta Alþ., hefði átt að vera hægt að fullnægja þessari þörf nú á þessu ári. Við lögðum fram till. hér á þinginu um það, að byggingarsjóði ríkisins yrði útvegað samanlagt 80 millj. kr. á s.l. ári umfram hinar föstu tekjur sjóðsins. Og ef tilsvarandi upphæð hefði svo verið útveguð á þessu ári, þá eru þar komnar um 160 millj. kr. umfram hinar föstu tekjur sjóðsins, og það hefði átt að verða til þess að bæta sæmilega úr þessum þörfum. Nú var hins vegar ekki farið eftir till. okkar framsóknarmanna á seinasta þingi um þessa aukafjáröflun, heldur var heildarlánveitingin lækkuð á s.l. ári frá því, sem verið hafði á undanförnum árum, og vegna þess er hallinn á þessu núna enn þá meiri og tilfinnanlegri.

Það hefur svo gerzt núna alveg nýlega í sambandi við vaxtahækkunina, að ríkisstj. hefur tilkynnt, að hún ætli að útvega 40 millj. kr. lán til byggingarsjóðsins. En það sjá allir. að það er allt of lítið, þar sem til að fullnægja þörfum þeirra, sem hafa nú fokheldar íbúðir, til að velta þeim raunverulega það, sem er lágmarkslán, 100 þús. kr. á íbúð, þarf nú 140 millj. kr. Þótt þetta sé að vísu spor í rétta átt, sem hæstv. ríkisstj. hefur hér gert með því að útvega þessar millj. kr., þá er það ekki nema lítill áfangi af því, sem gera þarf og það strax á þessu ári. Það má til samanburðar geta þess, að á þeim tíma, sem vinstri stjórnin sat að völdum, var lánað úr byggingarsjóði til jafnaðar á ári um 53 millj. kr., en þrátt fyrir það að ríkisstj. útvegi nú 40 millj. kr. umfram hinar föstu tekjur sjóðsins, verða lánveitingar hans til jafnaðar á árunum 1959 og 1960 ekki nema 52 millj. kr., og þar sem byggingarkostnaður stórhækkar á þessu ári, sést, að þar er um verulega rýrnun að ræða frá því, sem var í tíð vinstri stjórnarinnar, sem var þó ekki heldur fullnægjandi, eins og þær tölur sýna, sem ég hef nefnt hér á undan.

Það, sem þessi till. gengur út á, er, eins og ég hef áður rakið, að ríkisstj. vinni að því að útvega byggingarsjóði það fjármagn, sem húsnæðismálastjórnin telur nauðsynlegt til að bæta úr brýnustu þörfum, og eftir hennar upplýsingum er nú orðið þannig ástatt, að það má telja, að sú upphæð sé ekki öllu minni en 140 millj. kr., og að verulegur hluti þeirrar upphæðar, sem ríkisstj. útvegar, verði handbær sem allra fyrst. Og það er það, sem sú n. þarf að athuga. sem fær þetta mál til athugunar, hvaða tímatakmark hún vill setja í staðinn fyrir, að í till. segir um seinustu áramót, sem nú er úrelt, að það ætti sennilega að vera í kringum 1. apríl eða 1. maí, sem tímatakmarkið yrði sett, og nánari upplýsingar þá fengnar um það frá húsnæðismálastjórninni, hvað mikinn hluta af þessu lánsfé hún teldi æskilegt að fá fyrir þennan tíma, ef ríkisstj. treysti sér ekki til að útvega alla þá lánsupphæð, sem hægt er að sýna fram á samkv. framangreindum tölum, að er þörf fyrir, heldur mundi vilja gera það þá síðar á árinu. En hitt er hins vegar alveg ljóst mál, að þær 40 millj., sem ríkisstj. hefur lofað að útvega, eru alveg ófullnægjandi, þó að það sé hins vegar spor í rétta átt.

Við flm. þessarar till. höfum ekki viljað setja í hana ákveðnar till. um fjáröflun, eins og hafa áður verið í þeim till., sem við framsóknarmenn höfum flutt um þessi mál, og það er gert með tilliti til þess, að ríkisstj. virðist ekki hafa geðjazt að þeim fjáröflunarleiðum, sem við höfum bent á, og telur sig kannske hafa möguleika á einhverjum öðrum leiðum, sem hún álítur hagkvæmari eða sér auðveldari, og þess vegna höfum við ekki viljað binda hendur hennar í þessum efnum og gefa henni alveg frjálst val um það, hvaða lánsöflunarleiðir hún vill fara. En að sjálfsögðu erum við flm. tilbúnir til viðræðna Við ríkisstj. og stjórnarflokkana um þær leiðir, sem til greina geta komið, og tilbúnir til að veita okkar stuðning hér á Alþ. til þess að styðja allar till. um það, sem réttmætar geta talizt.

Þessi till., sem hér liggur fyrir, fjallar ekki aðeina um byggingarsjóð ríkisins, sem veitir lán til íbúða í kaupstöðum og kauptúnum, heldur líka um, að bætt verði úr þörfum byggingarsjóðs Búnaðarbankans, en um hann mun vera þannig ástatt, að hann hefur í fyrsta sinn á s.l. ári ekki fengið neitt aukið fjármagn til sinnar starfsemi, og þess vegna búa nú allmargir menn úti um land í sveitum við mikil vandræði af þeim ástæðum. En hæstv. landbrh., sem er því miður ekki staddur hér, gaf fyrirheit um það á þingi um mánaðamótin nóvember-desember, að það skyldi verða bætt úr þessum þörfum og að því er mönnum skildist fyrir seinustu áramót, en þrátt fyrir þetta fyrirheit landbrh. mun samt enn ekki bóla neitt á efndum í þeim efnum. Þess vegna er ekki sízt ástæða til þess að leggja áherzlu á, að sá liður þessarar till., sem fjallar um byggingarsjóð Búnaðarbankans, nái fram að ganga.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð öllu fleiri að sinni, en ég legg til, að umræðu verði frestað og málinu verði vísað til allsherjarnefndar.