24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2831)

12. mál, byggingarsjóðir

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af ummælum hæstv. félmrh. um það, að við framsóknarmenn sýndum áhuga í orði í sambandi við húsnæðismálin, vil ég minna á það, að þegar ég talaði hér fyrir till. okkar framsóknarmanna á þingi í fyrravetur um aukið fé til húsnæðismála, leiddi ég rök að því, að þegar hafi verið gerðar aðgerðir í húsnæðismálum, hefur Framsfl. alltaf komið þar við sögu. Ég vil minna á, að Framsfl. hafði forustu um það, þegar byggingarsjóði sveitabæja var komið á laggirnar. Hann ásamt Alþfl. kom á lögum um verkamannabústaði. Sömu sögu er að segja um byggingarsamvinnufélögin, smáíbúðalánin og síðast húsnæðismálastofnunina eða veðlánakerfið. Framsfl. hefur alltaf verið þar við mál riðinn, þegar eitthvað hefur gerzt í þessum málum. Það er því alveg að ástæðulausu, að verið sé að glósa með það hér á hv. Alþ., að framsóknarmenn hafi áhuga á þessu máli í orði.

En ég vil líka minna á það, að þegar þetta mál var hér til umr. á hv. Alþ. fyrir tæpu ári, var því lýst yfir af hendi þeirrar ríkisstj., sem þá sat að völdum, að þegar hún hefði leyst aðkallandi vandamál, sem hún væri að vinna að nú, sem sagt efnahagsmálin, þá mundu þessi mál líka verða leyst. En hvar hefur komið fram á s.l. ári áhugi Alþfl.-stjórnarinnar í húsnæðismálum, hvar hefur hann birzt? Mér er ekki kunnugt um það og væri þess vegna ánægja að því að fá upplýsingar um það.

Ég vil minna á það í sambandi við ræðu hæstv. ráðh., að hann talaði um, að það hefði verið búið að veita lán út á tekjur byggingarsjóðsins. En okkur voru ljósir þeir möguleikar, sem byggingarsjóðurinn hafði til tekna á árinu 1959, og við gerðum grein fyrir því. Það, sem málið snerist um, var viðbótarfé, sem sjóðnum yrði veitt. Það voru viðbótartekjur til ráðstöfunar á árinu 1959, það var það, sem við fórum fram á. En þetta viðbótarfé kom bara ekki. Það kom ekkert viðbótarfé á árinu 1959, og þegar hæstv. ráðh. vitnar í það, sem gert var um síðustu áramót, þá er það nákvæmlega bara það, að lánað er út á væntanlegar tekjur sjóðsins. Nú vil ég taka það fram, að það er að vísu hagræði fyrir húsbyggjendur, að það skyldi vera gert, en það komu ekki aukatekjur í byggingarsjóðinn við þá ráðstöfun.

Það liggur líka fyrir í sambandi við þá yfirlýsingu, sem hæstv. ríkisstj. gaf nú um það, hvað gert yrði í þessum málum, að það er, að mér skilst, ekki komið um það samkomulag, hvort atvinnuleysistryggingasjóður veitir þá aðstoð, sem honum er ætlað að veita. Og það er líka ósamið við bankana um þann þátt, sem þeir eiga að leysa. Þess vegna er ekki kominn neinn nýr þáttur í þessu máli enn þá. og það er a.m.k. alveg að ástæðulausu fyrir þá aðila, sem ekki hafa staðið betur að málum húsbyggjenda en gert var hjá fyrrv. ríkisstj. og enn þá hefur verið gert hjá þessari ríkisstj., að fara að tala um, að aðrir menn hafi áhuga aðeins í orði.