24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (2834)

12. mál, byggingarsjóðir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og ég tók hér fram í umr. fyrir eitthvað rúmri viku, er ég sammála hv. 7. þm. Reykv. um það, að byggingarsjóður ríkisins þurfi á miklu fé að halda í viðbót við þær föstu tekjur, sem húsnæðismálastofnunin hefur nú, sem er um 40 millj. kr. Ég skal þess vegna gleðjast yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefur nú birt í blöðum sínum og gefið hér á hv. Alþ. hátíðlegar yfirlýsingar um það, að hún útvegi byggingarsjóði ríkisins 40 millj. kr., að mér skilst sem viðbótarupphæð við fastar tekjur sjóðsins, og ég sé, að hæstv. félmrh. kinkar kolli við því og staðfestir þar með það loforð, að þarna sé um að ræða 4o millj. kr. í viðbót við árlegar tekjur sjóðsins. Ef þetta gæti gerzt t.d. á þann hátt, að þær 15 millj. kr., sem seðlabankinn hefur veitt sem bráðabirgðalán til 3 mánaða eða svo, — ef hægt er að haga því þannig, að þær tækjust nú ekki af árlegum tekjum sjóðsins og seðlabankinn yrði með einhverju móti í samkomulagi við ríkisstj. fenginn til þess að breyta þessu 15 millj. kr. bráðabirgðaláni sínu í fast lán, gleddi það mig enn meir, því að þá værum við að færast mjög nær því marki, að bætt væri úr brýnustu nauðsyn húsbyggjenda. Ég vil eindregið víkja því til hæstv. ríkisstj. og sérstaklega til hæstv. félmrh., hvort það mundi nú ekki vera möguleiki á því, að þessu 15 millj. kr. bráðabirgðaláni seðlabankans yrði breytt í fast lán og þyrfti þannig ekki að taka þær 15 millj. af árlegum tekjum sjóðsins.

Hina vegar í sambandi við það, sem upplýst hefur verið um útvegun hinna 40 millj., sem ættu að koma frá atvinnuleysistryggingunum að nokkru og frá viðskiptabönkunum að nokkru, hefur verið upplýst, að þessi útvegun fjár, þetta loforð, væri gefið í trausti þess í fyrsta lagi, að stjórn atvinnuleysistrygginganna féllist á ýmis skilyrði seðlabankans, og þegar loforðið er nú gefið, hefði ég vænzt þess, að það væri búið að ganga úr skugga um það, að stjórn atvinnuleysistrygginganna féllist á þessi skilyrði, því að annars hvílir loforðið alveg í lausu lofti. En nú hef ég nokkuð gildar ástæður til þess að ætla það, að stjórn atvinnuleysistrygginganna hafi ekki enn þá veitt nein svör við þessum málaleitunum og að grundvöllurinn sé þannig varla nægilega, traustur fyrir þessum hátíðlega gefnu loforðum. Ég hefði talið alveg sjálfsagt, að hæstv. ríkisstj. hefði gengið úr skugga um það við atvinnuleysistryggingasjóðsstjórnina, sem er skipuð af Alþ. og hefur sitt lögákveðna verkefni um vörzlu og ráðstöfun þess mikla sjóðs verkalýðsins, að ekki væru gefin loforð út á hana án þess, að fullt samkomulag væri fengið við þessa stjórn. Á sama hátt hefði ég vænzt þess, að áður en loforðið var gefið og birt blöðum og birt á Alþ., væri búið að ganga út frá því við bankana, með hvaða hætti þeir breyttu bráðabirgðalánum, sem þar kunna að vera vegna húsnæðismála, í föst lán, og vil vænta þess, að það verði upplýst hér, að svo sé, svo að sá hluti af þessu loforði hvíli ekki heldur í lausu lofti.

Ég heyri það, að talað sé um, að bankarnir eigi að breyta lausum lánum, sennilega bráðabirgðavíxillánum til húsnæðismála, í föst lán, og er mér ekki kunnugt um, að það geti verið annað en þeir bráðabirgðavíxlar, sem viðskiptabankarnir hafa á undanförnum árum veitt einstaklingum, sem hafa verið í nauðum staddir með hálfbyggð hús og oft á því stigi, byrjunarstigi, að þau voru ekki orðin fokheld og áttu þannig ekki rétt á lánum úr húsnæðismálastofnuninni. En þá hafa bankarnir stundum af góðvild hlaupið undir bagga með þessu fólki, að veita víxillán út á loforð um, að þessir víxlar greiddust upp, þegar viðkomandi lántakandi fengi lán hjá húsnæðismálastofnuninni. Nú mun það hafa verið upplýst af vissum aðila, sem talar í nafni ríkisstj., að þetta loforð bankanna gildi ekki um þessa bráðabirgðavíxla í viðskiptabönkunum, og þá vil ég spyrja: Hvaða bráðabirgðalán eru það, sem bankarnir hafa veitt, ef það eru ekki þessi lán? Mig langar til þess að fá að vita hjá hæstv. félmrh., hvort þetta loforð um fyrirgreiðslu bankanna gildi um þau lán, sem bankarnir hafa veitt út á væntanleg lán frá húsnæðismálastofnuninni, eða hvort þarna sé um eitthvað annað að ræða. Ég vil sem sé vona það, að þessi hátíðlegu loforð hæstv. ríkisstj. um 40 millj. kr. lán til húsnæðismálastofnunarinnar í víðbót við hennar árlegu tekjur standist og séu vel undirbyggð, og vildi enn fremur vænta þess, að það yrði reynt allt hvað hægt væri með atfylgi ríkisstj. að koma í veg fyrir, að bráðabirgðalán seðlabankans yrði tekið af árstekjum húsnæðismálastofnunarinnar, svo að þær 15 millj. kynnu þá kannske að geta bætzt við sem varanlegt lán.

Þá vil ég aðeins út af nokkuð digurbarkalegum ummælum hæstv. landbrh. hér áðan viðvíkjandi byggingarsjóði sveitanna víkja að einu atriði, og það er þetta: Hann var að tala um óreiðuskuldir byggingarsjóðs sveitanna frá dögum vinstri stjórnarinnar. En það skyldi nú ekki vera, að það væri nú dálítið maðkað í mysunni hjá núverandi hæstv. ríkisstj. í sambandi við þennan sjóð, byggingarsjóð sveitanna? Mér er kunnugt um það, að þessi sjóður skuldar í erlendu fé 16.7 millj. kr. Sú skuld hækkar nú við gengislækkunina um 23.7 millj. kr. Höfuðstóll sjóðsins fer úr 42 millj. rúmum niður í 18.6 millj. kr. fyrir atbeina þessarar hæstv. ríkisstj. núna, og það er alltilfinnanleg rýrnun hjá sjóðnum. Eitthvað þarf af aðgerðum bara til þess að bæta þetta upp, að ég ekki segi meira, svo að sjóðurinn væri betur staddur eftlr en áður.

Ég vænti svo, að hæstv. félmrh. gefi mér vitneskju um þetta nánar, sem ég spurði um viðvíkjandi bönkunum og fyrirgreiðslu þeirra í sambandi við húsnæðismálastofnun ríkisins.