24.02.1960
Sameinað þing: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2836)

12. mál, byggingarsjóðir

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki eyða löngum tíma til þess að deila við hæstv. félmrh. um það, hvaða flokkar hafi sýnt mestan áhuga eða áhugaleysi í þessum málum, en í því sambandi nægir alveg að benda á, að það liggur fyrir sögulegur dómur um það, t.d. hvort Alþfl. eða Framsfl. er áhugameiri í þessum efnum. Á árunum 1944–49 var þessi hæstv. ráðh. félmrh. fyrir hönd Alþfl., eða a.m.k. var Alþýðuflokksmaður þá félmrh., ef það hefur ekki verið hann á þessum árum. Það mun rétt, að Stefán Jóh. Stefánsson mun hafa verið félmrh. eitthvað af tímanum. en Alþfl. fær hins vegar með félagsmálastjórnina á árunum 1944–49. En Framsfl. fór svo aftur með stjórn félagsmálanna á árunum 1950–56. Og ég held, ef þessi tvö tímabil eru borin saman, að þá sjáist nokkurn veginn ljóst, hvorum flokknum sé betur að treysta til forustu í þessum efnum, því að ég held, að það sé alveg óhætt að slá því föstu, að það var svo að segja ekkert gert í byggingarmálum kaupstaðanna af opinberri hálfu á árunum 1944–49, ekki um neina aukningu á þeirri starfsemi að ræða. Hins vegar var á árunum 1950–56 um stórfellda aukningu að ræða í þessari starfsemi, stóraukin öll framlög hins opinbera til íbúðabygginga í kaupstöðunum, svo að þessi sögulega reynsla sker alveg nægilega úr um deilu okkar hæstv. félmrh. um það, hvort Alþfl. eða Framsfl. sé betur treystandi í þessum málum, og þarf ég ekki að fara fleiri orðum um það.

Þá var hæstv. félmrh. að halda því fram, að þær till., sem framsóknarmenn hefðu lagt fram í byggingarmálunum á seinasta ári hér á hæstv. Alþ., hefðu ekki verið raunhæfar, Ég hef ekki enn þá heyrt nein rök frá hæstv. félmrh. fyrir því, að hér hafi ekki verið um raunhæfar till. að ræða, og ég held, að ef maður færi út í það að rifja upp hverja einstaka till. í þessum efnum, sé hægt að sýna fram á það, að þær hafa verið fullkomlega raunhæfar. Það var að sjálfsögðu fullkomlega raunhæft að leggja til, að nokkrum hluta af tekjuafgangi, sem fyrir lá, yrði ráðstafað til slíkra framkvæmda. Það fé var handbært, það var ekki um óraunhæfa till. þar að ræða. Það var einnig um raunhæfa till. að ræða, að það yrðu boðin út vísitölubréf byggingarsjóðs og seld á opnum markaði. Það sýnir salan á bréfum Sogsvirkjunarinnar, að það hefði vel mátt afla tekna með þessum hætti. Og þannig má rekja þetta áfram, þessar till., sem við höfum flutt. Reynslan hefur sýnt það og aðstæðurnar hafa sýnt það, að þær voru fullkomlega raunhæfar, svo að þessir sleggjudómar hæstv. ráðh. falla alveg um sjálfa sig.

Þá var hæstv. ráðh. að reyna að leiða rök að því og byggði það á þeim tölum, sem ég var með, að það mundi ekki verða nema eitthvað 12 millj. kr. halli hjá húsnæðismálastjórn um næstu áramót með þeirri fjáröflun, sem nú er fyrirhuguð af hæstv. ríkisstj., þ.e.a.s. með föstum tekjum sjóðsins, sem áætlað er að séu um 30–40 millj. kr., og svo þeirri 40 millj. kr. aukafjáröflun, sem ríkisstj. ráðgerir nú. Þetta fékk hann út með því að taka eingöngu þær 1550 umsóknir vegna fokheldra íbúða, sem lágu fyrir um síðustu áramót, og til þess að hver íbúð fengi 80 þús. kr. lán, vantaði 92 millj. kr., og komst að þeirri niðurstöðu, að bara ef þetta hefði ekki verið tekið, mundi halinn ekki vera nema 12 millj. um næstu áramót. En hæstv. ráðh. gleymdi því, sem kom skýrt fram hjá mér og hann veit vafalaust um, að til viðbótar þessum 1550 umsóknum, sem lágu fyrir vegna fokheldra íbúða 1. des., lágu einnig fyrir umsóknir vegna 240 íbúða, sem voru að verða fokheldar og eru vafalaust orðnar það nú, og til þess að fullnægja því, að hver þessi íbúð fái lán upp á 80 þús. kr., vantar þar um 20 millj. kr. Auk þess verður að telja það alveg sjálfsagt mál vegna þess stóraukna byggingarkostnaðar, sem nú hefur átt sér stað, að lánin verði hækkuð um a.m.k. 20 millj. kr., eða upp í 100 þús., það er algert lágmark, og þá skapast þar útgjaldaaukning vegna þessara 1800 íbúða um 36 millj. kr. Svo verður að telja, að það sé ekkert óeðlilegt, þó að á þessu ári, — og það væri ekki óeðlilegt í sambandi við þá íbúðaaukningu, sem þarf að verða í landinu, að það bættust við 700 nýjar fokheldar íbúðir, og ef það væri um að ræða, sem verður að teljast sjálfsagt, að veita 100 þús. kr. lán út á hverja þeirra, þá er þar um 70 millj. kr. upphæð að ræða, svo að mér finnst, ef menn athuga allar þessar staðreyndir og draga ekki neitt undan, að hljóti hallinn að verða um næstu áramót eða halinn í kringum 140 eða 150 millj. kr., ef ríkisstj. aflar ekki meira fjármagns en hún ráðgerir nú. Það eru þessar staðreyndir, sem ríkisstj. verður að gera sér ljósar. Hún verður að líta á málið í heild, en ekki einhvern takmarkaðan hluta lánsbeiðna, sem fyrir lágu 1. des. s.l.

Ég held, að það sé þá ekki fleira, sem ég þarf að segja við hæstv. félmrh., en ætla þá að lokum að snúa mér að hæstv. landbrh. vegna þeirrar tölu, sem hann hélt hér áðan og átti að vera mjög góðgjörn í minn garð, og þakka ég honum fyrir það, að ekki skuli hann bresta góðgirnina. En vegna þess, sem hæstv. ráðh. var að tala um arf vinstri stjórnarinnar, vil ég upplýsa hann um það, sem honum virðist sennilega ekki hafa verið kunnugt um, að á s.l. ári eða árinu 1958 var tekjuafgangur hjá ríkissjóði, sem nam 60–70 millj. kr. og var handbær til ráðstöfunar, þegar vinstri stjórnin lét af völdum. Það var ein af till. framsóknarmanna á síðasta þingi, að tilteknum hluta af þessu handbæra fé, þessum tekjuafgangi, yrði varið til byggingarsjóðs Búnaðarbankans, og ef sú till. hefði verið samþ., sem framsóknarmenn báru hér fram, að tekinn yrði nokkur hluti af þessum handbæra arfi vinstri stjórnarinnar og honum varið til byggingarsjóðs Búnaðarbankans, mundi hann ekki vera nú í þeim vandræðum, sem þessi till. fjallar um. En hæstv. ráðh. er búinn að gleyma þessu, og hann virðist líka vera búinn að gleyma því, hvaða hv. þm. það var, sem hjálpaði til að fella þessa till., að þetta fé yrði notað á þennan hátt, og hjálpaði þannig til að skapa þann vanda, sem byggingarsjóður Búnaðarbankans er í. Ég get upplýst hæstv. landbrh. um það, við hvaða hv. þm. ég á í þessum efnum. Það er hæstv. landbrh. sjálfur. Hann hjálpaði hér á seinasta Alþ. eða vetrarþinginu til þess að fella þá till., að þetta handbæra fé, sem vinstri stjórnin skildi eftir, yrði m.a. notað til þess, að byggingarsjóður Búnaðarbankans gæti staðið við sínar skuldbindingar á síðasta ári, og það er aðalorsök þess vanda, sem sjóðurinn glímir við nú. Og þess vegna held ég, að hæstv. ráðh. ætti nú ekki að vera alveg eins kotroskinn. þegar hann talar um þessi mál, og hann virtist vera hér áðan.