01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (2844)

12. mál, byggingarsjóðir

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Sú till., sem hér liggur fyrir um fjáröflun til byggingarsjóða á þskj. 12, var, eins og þingskjalsnúmerið gefur til kynna, flutt á fyrstu dögum þessa Alþ. Það dróst alllengi, að allshn. tæki hana til meðferðar, og þegar að því kom að afgr. till., var eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, n. ekki sammála um afgreiðsluna. Meiri hl. leggur til, að þessari till. verði vísað til ríkisstj., og byggir þessa afstöðu sína á því, að ríkisstj. sé að athuga málið. Minni hl., en í honum eru hv. 5. þm. Norðurl. v., hv. 4. landsk. og ég, leggur hins vegar til, að till. verði samþ. með því orðalagi, að Alþ. feli ríkisstj. að beita sér fyrir því, að byggingarsjóður ríkisins og byggingarsjóður sveitabæja fái það fjármagn til umráða á þessu ári, sem þeim er nauðsynlegt, að dómi húsnæðismálastofnunar ríkisins og byggingarsjóðs sveitabæja, til þess að þeir geti bætt úr aðkallandi þörfum vegna íbúðabygginga í sveitum, kauptúnum og kaupstöðum og þá m.a. hækkað einstök lán með tilliti til hækkunar 5 byggingarkostnaði.

Breytingar þar á orðalagi, sem minni hl. n. leggur til að samþ. verði, stafa m.a. af því, hve langt er liðið frá því, að till. var borin fram, og hvað afgreiðsla hennar hefur dregizt lengi í n. en orðalag till. var öðrum þræði miðað við síðustu áramót og að hluti af því, sem þar var farið fram á, kæmi til framkvæmda fyrir áramót. Nú á það að sjálfsögðu ekki lengur við, þar sem áramótin eru liðin, og af þessum ástæðum og einnig öðrum leggjum við til, að till. verði samþ. með þessu orðalagi, sem ég hef tilgreint, en minni hl. n. telur rétt, að fram komi skýr viljayfirlýsing Alþ. um, að ekki verði dregið úr starfsemi þessara íbúðalánasjóða og að tekið verði tillit til hækkandi byggingarkostnaðar, minnkandi starfsemi sjóðanna á árinu 1959 og fjölda umsókna, sem fyrir liggja.

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta mál og nokkur einstök atriði þess og vil þá fyrst víkja nokkuð að íbúðalánastarfseminni í kaupstöðum og kauptúnum.

Veðdeild Landsbanka Íslands var stofnuð með lögum nr. 1 12. jan. árið 1900, og er því sú lagasetning nú 60 ára gömul. Hlutverk hennar skyldi vera, eins og það er orðað í lögunum, að veita lán um langt árabil og með vægum vaxtakjörum gegn veði í fasteign. Síðan voru sett lög um starfsemi veðdeildarinnar og um nýja veðdeildarflokka á árunum 1902, 1905, 1909, 1911, 1913, 1926, 1927 og 1928, en mikið af fé veðdeildarinnar var á þessum tímum lánað til húsbygginga og þá m.a. til íbúðabygginga við sjávarsíðuna, og voru a.m.k. stundum nokkur afföll af þeim lánum.

Árið 1929 beittu Framsfl. og Alþfl. sér fyrir setningu laga um verkamannabústaði, nr. 45 14. júní það ár. Að stofni til eru þau lög eða lagaákvæði enn í gildi, og hafa verkamannabústaðalánin verið hagstæðustu lánin, sem völ hefur verið á, en fé það, sem varið hefur verið til lána af þessu tagi, yfirleitt heldur takmarkað, enda ekki ætlað til íbúðarlána almennt, heldur handa þeim, sem lægstar tekjur höfðu.

Árið 1932 voru svo að frumkvæði Framsfl. sett lög um byggingarsamvinnufélög, nr. 71 23. júní það ár. Fjöldi manna, þar á meðal margir opinberir starfsmenn, hefur byggt sér íbúðir samkvæmt þeim lögum og fengið ríkisábyrgð fyrir lánum, sem samtals nema nú nokkuð á þriðja hundrað millj. kr.

Árið 1952, er Framsfl. og Sjálfstfl. fóru saman með ríkisstj., voru svo sett lög um svonefnda smáíbúðadeild, en sú stofnun veitti lán út á íbúðir í kaupstöðum og kauptúnum gegn 2. veðrétti, og kom það mörgum vel, því að þá var 1. veðréttur laus, ef unnt var að fá lán út á hann annars staðar, t.d. í sparisjóðum úti um land, sem oft hafa veitt lán af þessu tagi.

Þessi stofnun, smáíbúðadeildin, var lögð niður á árinu 1955. Sömu flokkar stóðu þá enn að ríkisstj., en hún beitti sér fyrir því, að komið var upp nýrri lánastarfsemi á vegum veðdeildar Landsbankans, og lögðu bankar og sparisjóðir fram fjármagn til þessarar starfsemi. Þetta var ákveðið með lögum um húsnæðismálastjórn o.fl., nr. 55 20, maí það ár. þ.e.a.s. 1955. Þessum lögum var svo árið 1957, í tíð vinstri stjórnarinnar, breytt í lög um húsnæðismálastofnun o.fl. og þá m.a. tekin upp ákvæði um skyldusparnað ungmenna og byggingarsjóð ríkisins, en það, sem fékkst við skyldusparnaðinn og einnig á annan hátt, skyldi renna í byggingarsjóð ríkisins. En það er þessi lánastofnun, sem aðallega hefur veitt lán til íbúða í kaupstöðum og kauptúnum undanfarin 5 ár. Hámark einstakra lána þaðan hefur almennt verið 70 þús. kr., þótt heimilt sé að veita hærri lán.

Hér er, sem kunnugt er, um að ræða tvenns konar lán, svokölluð A-lán með 7% vöxtum, sem nú er búið að hækka eins og aðra vexti, og B-lán með lægri vöxtum en vísitölubundnum afborgunum.

Eins og segir í nál. minni hl. á þskj. 421, námu þessi lán á árunum 1956–58 samtals að meðaltali á ári nálægt 58 millj. kr., en á árinu 1959 urðu þau mun lægri, eða ca. 34.5 millj. kr. Þessi samdráttur á árinu 1959 var tilfinnanlegur, ekki sízt vegna þess, að byggingarkostnaður það ár var mun hærri en hann hafði verið að meðaltali á þriggja ára tímabili. En af þessu leiðir, að umsóknum, sem bíða afgreiðslu, hefur farið mjög fjölgandi, eða a.m.k. fjölgandi, og er þar bæði um að ræða umsóknir um ný lán og umsóknir um viðbótarlán, en húsnæðismálastjórn hefur mjög orðið að grípa til þess ráðs að velta lágar upphæðir í því skyni að geta veitt sem flestum einhverja úrlausn, þó að margir hafi því miður ekkert fengið.

Hinn 1. apríl s.l. lágu óafgreiddar hjá húsnæðismálastjórn 1842 umsóknir samtals, þar af 1120 umsóknir um ný lán og 712 umsóknir um viðbótarlán. Enn hefur byggingarkostnaður hækkað stórlega á þessu ári vegna hinna nýju efnahagslaga og annarra efnahagsráðstafana. Það er álit kunnugra manna, að ekki veiti af, að hámark lána hækki úr 70 þús. kr., sem það hefur hingað til verið, upp í 100 þús. kr., ef þau eiga ekki að lækka hlutfallslega frá því, sem var, og mun hér ekki djúpt tekið í árinni. En til þess að fullnægja á þann hátt öllum umsóknum, sem fyrir lágu 1. apríl s.l. þyrfti um 150 millj. kr. Þetta er að vísu ágizkunartala, en áætluð svo nærri sem unnt er og þá miðað við þessa lánaupphæð, sem ég nefndi áðan, 100 þús. kr. Það má gera ráð fyrir, að lán út á sumar íbúðir, sem búið er að byggja, yrðu ekki svona há, en hins vegar ástæða til að gera ráð fyrir fleiri umsóknum en fyrir lágu 1. apríl s.l., Þegar til næstu úthlutunar kemur. Á þessu ári er búið að veita, snemma á árinu, 15 millj. kr. Hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir að útvega byggingarsjóði 25 millj. á árinu og gera tilraun til að fá banka og sparisjóði til að breyta 15 millj. kr. í víxlum í föst lán. Þetta er þá ekki komið til framkvæmda enn þá, svo að mér sé kunnugt. Sjálfur hefur sjóðurinn nokkrar tekjur, en þó hrökkva þær skammt í þessu sambandi.

Minni hl. virðist því ástæða til, að Alþ. láti þessi mál nokkuð til sín taka, áður en það lýkur störfum, og marki stefnu í því, eins og ég hef áður lýst. Ef ekki tekst að leysa þetta mál á viðunandi hátt, er því miður hætt við, að einhverjir, kannske nokkuð margir, geti ekki haldið íbúðum sínum og að íbúðir í smíðum verði að standa ónotaðar vegna fjárskorts. Má raunar segja, að slíkt geti átt sér stað, eins og nú er komið málum, Þótt starfsemi byggingarsjóðs sé efld eins og hér er gert ráð fyrir, en úr því má þó draga, ef að því er unnið á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessari till. og minni hl. n. mælir með.

Þetta er þá það, sem snertir byggingarsjóð ríkisins, en ég vil þá víkja nokkuð að hinum byggingarsjóðnum, sem þessi till. fjallar um, þ.e.a.s. byggingarsjóði sveitabæja.

Það hefur um langan tíma verið venja, allt fram til ársins 1959, að byrjunarlán út á íbúðarhús, sem komizt hafa undir þak á árinu í sveitum, hafa verið veitt seint í nóvembermánuði eða í desembermánuði, ef skjöl voru fyrir hendi í nóv. eða byrjun des. varðandi þessi lán. Oft hefur sjóðinn skort fé, það vitum við, en Alþ. eða ríkisstj. sú, sem í hlut átti, hefur þá reynzt hafa vilja og getu til að útvega það fé, sem til þess þurfti, að ekki þyrfti að verða truflun á starfsemi sjóðsins. Þetta var orðin svo að segja föst venja, og því var treyst. Hámark lánanna úr byggingarsjóði sveitabæja hefur síðustu árin verið 75 þús. kr. Sú upphæð hefði þurft að vera hærri, einkum á s.l. ári, en það var mikil bót í máli, að því mátti treysta, að lán yrðu veitt á ákveðnum tíma. Þessi byrjunarlán út á hús, sem komin voru undir þak, voru venjulega nálægt helmingi lánsins, en eftirstöðvar svo útborgaðar eftir því, sem verkinu miðaði áfram. En nú á s.l. ári brá svo við, að engin eða svo að segja engin byrjunarlán — engin ný lán — voru veitt úr sjóðnum, aðeins haldið áfram að borga út eftirstöðvar lána, sem veitt höfðu verið á árinu 1958 eða fyrr. Sjóðinn skorti fé, og hæstv. ríkisstj. veitti honum ekki Þá aðstoð við fjáröflun, sem áður hafði tíðkazt. Hlutaðeigandi ráðh., þ.e.a.s. hæstv. landbrh., kvað sig að vísu hafa til þess góðan vilja, er hann var um það spurður í lok nóvembermánaðar fyrsta sinn, en þar við sat. Þetta kom þeim mörgu bændum, sem í hlut áttu, mjög á óvart og hefur sett margan mann í vanda. Margir gerðu sér þá von um, að lánin mundu fást strax eftir áramótin og gætu komið inn í áramótauppgjör, en það var fyrst nú í maímánuði, að byrjað var að veita þessi lán, sem átti að veita í nóvember eða desember. Þar á ofan bætist svo annað, sem kemur líka mjög á óvart í sambandi við þessi lán. Flestir höfðu í vetur skilið vaxtahækkunarboðskap hæstv. ríkisstj., sem gefinn var út eftir samþykkt efnahagslaganna, svo, að vaxtahækkun hjá byggingarsjóði sveitabæja, þ.e.a.s. úr 3½% upp í 6%, ætti ekki að ná til þeirra lána, sem segja mátti að komin væru í afgreiðslu. þar sem öll lánsskjöl voru fyrir hendi. En nú kemur það upp úr kafinu, að í skuldabréfunum eru skráðir 6% vextir af 42 ára lánum og engin aths. þar við um hugsanlega vaxtabreytingu síðar. Og lánsupphæðirnar virðast ekki heldur hafa hækkað.

Það má gera ráð fyrir því, að sumir bændur, sem ætluðu sér að byggja í sumar, hætti við það eða séu a.m.k. á báðum áttum nú vegna hinnar miklu hækkunar, sem orðið hefur á byggingarefni og vegna vaxtahækkunarinnar og loks vegna hinnar bitru reynslu frá s.l. ári, sem ég hef áður minnzt á. Hæstv. landbrh. hefur að vísu nýlega haft um það góð orð, að hann ætli að sjá svo um, að ný lán verði veitt úr Byggingarsjóði sveitabæja í haust, og ég efast ekkert um það, að hann hafi á því góðan vilja að sjá svo um, að þetta verði. En þessi góði vilji ráðh. reyndist léttvæg greiðsla upp í byggingarkostnaðinn um síðustu áramót, og það má þá ekki minna vera eða virðist ekki mega minna vera en að ráðh. fái í þessu þann stuðning frá hv. Alþ., sem í þessari þál. felst, ef samþykkt verður. Og eins og nú er komið, virðist varla annað forsvaranlegt en þessi lán eða hámark lánanna verði nú eitthvað hækkuð. Það sýnist ekki mega dragast, og um það fjallar þessi þáltill. öðrum þræði.

Ég heyrði það nýlega hér á hv. Alþ. í umr. í sambandi við fsp., sem fram kom í sambandi við þetta mál, að hæstv. landbrh. var að skýra þetta eða afsaka ríkisstj., hvernig sem menn nú vilja orða það, með því, að byggingarsjóður sveitabæja og ræktunarsjóður væru illa staddir fjárhagslega og að á þeim hvíldu skuldir, sem þyrfti að greiða. Það er rétt, að þessar skuldir hvíla á sjóðunum. Þær eru þannig til komnar, að þessir sjóðir hafa tekið lán með vöxtum, sem voru hærri en útlánsvextir, en einnig vegna þess, að lán hafa verið tekin erlendis og þau hafa hækkað að krónutölu íslenzkri vegna gengisbreytingar, en útlánin úr sjóðunum eru hins vegar skráð og greidd í íslenzkum krónum.

Þetta er nú í sjálfu sér engin nýlunda og þarf ekki að koma neinum á óvart. Löggjöfin um byggingarsjóð sveitabæja og ræktunarsjóð er þannig úr garði gerð, að þar er gert ráð fyrir því, að um vaxtahalla sé að ræða. Þjóðfélagið hefur ákveðið það á sínum tíma, það er félagsleg ráðstöfun, að þessi lán skuli veitt með lágum vöxtum og til langs tíma, og þá hefur aldrei neinum manni komið það á óvart, að ég ætla, að þarna hlyti að koma fram munur og halli, sem yrði þá á einhvern hátt að jafna, og þetta hefur verið gert. Það hefur um langan tíma verið í lögum nokkurt ríkisframlag til þessara stofnana, að vísu minna en svo, að það hafi hrokkið til þess að greiða þennan mun, en þú hafa verið gerðar aðrar ráðstafanir. Ég man eftir því nú á þessum áratug, að hv. Alþ. hefur a.m.k. tvisvar sinnum gert allmiklar ráðstafanir af þessu tagi, þar sem lánum, sem þessir sjóðir höfðu tekið, var breytt í óafturkræf framlög á kostnað ríkisins að sjálfsögðu, til þess að staðið væri við ákvæði þessarar löggjafar, sem í öndverðu var sett um þessa starfsemi. Þess vegna eru þetta náttúrlega engar fréttir og engin nýlunda, að þarna hafi verið um halla að ræða, og menn hljóta að vera við því búnir, þeir sem vilja styðja þessa löggjöf. að bæta úr því á svipaðan hátt og áður hefur verið gert. Og það er nú svo, að fyrir Alþ, hefur legið, ég ætla um nokkra mánuði, þ.e.a.s. í hv. Ed., frv. um lausn þessa máls frá nokkrum hv. þm., en þetta frv. hefur ekki fengizt afgreitt, og er nú komið fram á síðustu daga þingsins.

Ég verð að taka undir það, sem áður hefur komið fram hér í umr. um skyld mál, að í raun og veru þarf menn ekki að furða svo mjög á því eða láta sér vaxa það svo mjög í augum, þó að ríkið þurfi öðru hverju að taka á sig nokkra byrði til þess að standa við þessa 30 ára gömlu félagsmálalöggjöf um uppbyggingu landsins, þegar lítið er á þær stóru upphæðir, sem ríkið greiðir t.d. til þess að borga niður vörur í landinu, sem nú skipta hundruðum milljóna á hverju einasta ári og virðast fara vaxandi. Og ég verð að segja það, að mér finnst það eiginlega nokkuð hart, ef við treystum okkur ekki til þess nú á þessum tímum, þegar efnahagur þjóðarinnar og afkoma er þó orðin eins og hún er þrátt fyrir allt, að standa við þá löggjöf, sem hér var sett fyrir 30 árum, þegar þjóðin var miklu verr á vegi stödd en hún er nú, um að rækta upp landið og byggja það og stuðla að byggð landsins á þessu sviði. Það er ekki mikill stórhugur í því að vera að vandræðast með að standa við það, sem menn gátu staðið við á þeim tímum, sem stundum hafa verið kallaðir tímar fátæktarinnar í þessu landi. Og ég vona, að það komi ekki heldur til þess til lengdar, að ráðandi menn í landinu telji sér það ekki fært.

Ég skal svo láta máli mínu lokið um þessa till., sem hér liggur fyrir um fjáröflun til byggingarsjóða, og um afstöðu okkar þriggja minnihlutamannanna í allshn. Sþ., en mér virtist þetta vera svo stórt mál, sem hér er um að ræða, að ekki yrði hjá því komizt að láta fylgja þessu nál. nokkra grg.