17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (2852)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal nú ekki hafa mörg orð um þessa till. eða húsnæðismálin í sambandi við flutning hennar. Það er að vísu nokkuð eftirtektarvert, að það skuli vera félmrh. vinstri stjórnarinnar, sem þarf að láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum, eftir að hann er látinn af ráðherradómi að flytja þáltill. til leiðréttingar á því, sem vangert var í tíð vinstri stjórnarinnar, að búa þannig að húsnæðismálunum og lánamálunum í sambandi við þau, að þessi mál gætu þróazt eðlilega í okkar þjóðfélagi upp frá þeim grunni, sem lagður var með húsnæðismálalöggjöfinni árið 1955.

Ég er hv. flm. algerlega sammála um það, að á sviði þessara mála þarf mikilla úrbóta við og þau þurfa öll að takast til heildarendurskoðunar. Þegar lög um húsnæðismálastjórn voru sett 1955 og komu til framkvæmda síðari hluta þess árs, má segja. að gerð hafi verið tilraun til þess að bæta úr mjög langri vanrækslu hjá okkur í því efni, að einhver stofnun væri til, sem annaðist almenn veðlán til íbúðabygginga. Það var að vísu svo, að veðdeild Landsbankans var orðin nokkuð gömul á þessum tíma, var stofnuð um aldamótin, og hafði oft og einatt sinnt sínu verkefni, en var löngu orðin úrelt og vanrækt á þessum tíma, svo að hún kom að litlu gagni í sambandi við byggingarlánin.

Að sjálfsögðu mátti mönnum vera ljóst, að Þegar stofnað er almennt veðlánakerfi, eins og gert var með l. frá því í maímánuði 1955, þá var þar aðeins um byrjun að ræða. En ef vel hefði verið á haldið, mátti vænta þess, að þetta veðlánakerfi ætti fyrir sér að eflast og innan stundar að vera þess umkomið að sinna því mikla hlutverki, sem því var ætlað, þó að það á fyrstu dögum sínum væri ekki bært um það. Því miður hefur ekki farið svo. Vinstri stjórnin flutti brtt. á þessum lögum að vísu á sínum tíma. Þær hafa kannske átt að vera til einhverrar úrbótar, þær brtt., nokkur ný tekjuöflun fólst í þeim, en að öðru leyti var þessi nýja löggjöf mestmegnis út í hött. Það var illa til hennar vandað. Hún var mesta flýtisverk og hálfgerð vandræði með afgreiðslu hennar hér í þinginu. Við fá stjfrv. hefur verið fluttur annar eins sandur af brtt., sem staðfesti og sýndi, hversu þetta var illa undirbúið af þáv. hæstv. félmrh., þeim sem nú er flm. þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir.

Nú er haft á orði af hv. flm., að ekki sé gott í efni með ástand þessara mála eins og er, og er ég honum, eins og ég sagði áðan, alveg sammála um það, og mikil þörf er að bæta úr, og enn fremur er það tekið fram, að óvænlegra sé þó fram undan, m.a., eins og hv. þm. komst að orði, vegna hinnar væntanlegu gengislækkunar, sem mun nú leiða til þess, að bæði verði erfiðara og dýrara fyrir fólk að byggja en áður og mundi, að því er manni skildist, verða til þess kannske að girða fyrir allar frekari framkvæmdir í þessu mikilvæga máli. En við skulum nú athuga gang þessara mála svolítið nánar.

Það er þá þess að minnast, að eftir 1950, við gengisbreytinguna, sem þá varð, og þegar áhrif hennar fóru verulega að koma í ljós, skapaðist hér í þjóðfélaginu jafnvægi í efnahagsmálum með þeim hætti, að verðlag var stöðugt frá árinu 1952 og allt fram í maímánuð 1955 og vísitalan hreyfðist ekki neitt. Og fyrir þessi áhrif gengislækkunarinnar og annarra ráðstafana í sambandi við hana 1950 hófst hér sparifjármyndun í landinu, sem engin hafði verið á árunum áður eða sáralítil, þannig að frá árinu 1952 og fram til 1955, til ársloka, fór nærri, að sparifjármyndunin tvöfaldaðist í landinu, og ef ég man rétt, munu hafa safnazt á þessum árum í aukningu sparifjár um 600 millj. kr. Og það var þessi nýja og mikla eignamyndun í landinu, sparifjársöfnun, sem m.a. stafaði af hinu stöðuga verðlagi og áhrifum þeirra ráðstafana, sem gerðar voru 1950, sem var grundvöllurinn að því, að húsnæðismálalöggjöfin var sett 1955. Þáv. ríkisstj. undir forsæti Ólafs Thors, núv. hæstv. forsrh., átti um það viðræður við bankana á þessum árum og þeir síðan fyrir hönd ríkisstj. við sparisjóðina einnig, en þó var sérstaklega farið fram á, að bankarnir tryggðu, að lagt yrði fram af þeirra hálfu ákveðið fjármagn til hins nýja almenna veðlánakerfis. Bankarnir tóku þessar skuldbindingar á sínar herðar þá, og sú mikla sparifjármyndun, sem þá átti sér stað og gerði þeim þetta mögulegt, var líka grundvöllurinn undir því, að hægt var að gera 10 ára rafvæðingaráætlunina, sem samið var um, þegar stjórnarmyndunin fór fram 1953 undir forsæti sama forsrh. Bankarnir höfðu hins vegar í sambandi við húsnæðismálalánin á þann fyrirvara, að þeim væri þetta eingöngu kleift vegna hinnar miklu sparifjáraukningar og yrðu að hafa fyrirvara á framhaldi lánanna, ef hún héldi ekki áfram í jafnríkum mæli, þar sem höfuðverkefni þeirra og skylda skv. löggjöfinni, er þeir störfuðu eftir, væri að sinna rekstrarlánsþörf atvinnuveganna.

Eftir þetta lögðu bankarnir mikið fé af mörkum til húsnæðismálanna og einnig til rafvæðingarinnar og hafa lagt fram til dagsins í dag, til þess að hægt væri að framkvæma þessa rafvæðingaráætlun, 10 ára áætlun um rafvæðingu í byggðum landsins.

En það fór nú samt sem áður þannig, að vinstri stjórnin hafði ekki setið lengi að völdum, þegar tók fyrir, að bankarnir teldu sér fært að leggja fram fé til byggingarlánanna, og það var ekki af neinum illvilja sjálfstæðismanna eða neinna í bankastofnunum landsins. Vinstri stjórnin hafði tryggt sér, að svo miklu leyti sem hún þurfti á að halda, full pólitísk yfirráð í öllum bankaráðum bankanna og nægan fjölda bankastjóra sömuleiðis, en samt varð enginn ágreiningur um það innan bankanna, þó að þannig væri um búið, að þeir sæju sig tilneydda að hætta að kaupa bréf byggingarsjóðs eða veðdeildar Landsbankans, eða m.ö.o. að leggja, eins og um hafði verið talað, af mörkum fé til íbúðabygginganna. Um þetta varð enginn ágreiningur, eins og ég sagði, og það var vegna þess, að féð var ekki lengur fyrir hendi. Forsenda þess, sparifjármyndunin, sparifjáraukningin í landinu, hafði brostið eftir það mikla jafnvægisleysi, sem skapaðist hér eftir árið 1955 og mönnum er kunnugt og mjög hefur verið um rætt nú t.d. í sambandi við efnahagsumræðurnar og fyrr og síðar. Það er enginn vafi á því, að við verðum að gera okkur ljóst, Íslendingar, að höfuðundirstaðan undir lánveitingum til íbúðabygginga í landinu hlýtur að vera sparifjármyndunin í landinu sjálfu, aukning sparifjárins á hverjum tíma. Hitt er svo rétt, að þær kringumstæður geta verið, að rétt sé og forsvaranlegt að taka erlend lán til íbúðabygginga. En þær aðstæður eru ekki ævinlega fyrir hendi. Þær voru fyrir hendi, þegar Jón heitinn Þorláksson beitti sér fyrir því að taka erlend lán til þess að hressa upp á veðdeildina á sínum tíma, 1926–27, sem urðu einmitt mikil lyftistöng fyrir veðdeildina þá og íslenzka þjóðfélagið hefur ekki haft neina byrði af á seinni árum, og mun mestallt vera greitt nú. Þessi skilyrði voru líka fyrir hendi, þegar ég flutti hér árið 1950 fyrst till. í þinginu um það að heimila veðdeildinni að taka erlend lán til þess að verja til íbúðabygginga á sama hátt og verið hafði í tíð Jóns heitins Þorlákssonar á sínum tíma. Greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum lánum var þá ekki nema 2–3% af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, en eins og greinilega hefur komið fram í umr. hér að undanförnu um efnahagsmálin, er þessum málum á allt annan veg fyrir komið nú og greiðslubyrðin orðin áhyggjuefni, þannig að þar sé lítt á bætandi. En þar við bætist einnig, að engin skilyrði eða mjög takmörkuð skilyrði munu vera til erlendra lánsútvegana í þessu skyni, nema við Íslendingar komum skaplegu lagi á okkar efnahagsmál, en fljótum ekki sofandi að feigðarósi, svo sem gert hefur verið að undanförnu.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, ætla ég ekki að stofna til af minni hálfu neinna frekari umræðna um þessi mál nú, en vildi láta þessar aths. fram koma. Það er auðvitað alveg höfuðnauðsyn að taka þessi mál nú til endurskoðunar. Og mín skoðun er sú, að endurskoða þurfi löggjöfina sjálfa, húsnæðismálalöggjöfina frá 1955 með síðari breyt., sem á henni hafa orðið, taka til rækilegrar athugunar þróun málanna frá þeim tíma, þegar til þessarar löggjafar var stofnað, og athuga, hvernig hægt er úr að bæta. Byggingar hafa verið ótrúlega miklar á þessum tíma, enda þótt lánsféð hafi verið af skornum skammti. Þannig liggja fyrir um það skýrslur t.d. hér í Reykjavík, að á undanförnum árum og á síðasta ári hefur verið byggt fyrir miklu meiri fjölda fólks en fólksfjölguninni nemur, þannig að á hverju ári er verulega verið að útrýma þeim húsnæðisskorti og þeirri húsnæðiseklu, sem skapaðist hér upp úr stríðsárunum og með þeim tilflutningum í efnahagslífi þjóðarinnar og tilflutningum á fólki, sem áttu sér stað upp úr síðustu styrjöld. Það er enginn vafi á því, að það er langt komið að bæta úr húsnæðiseklunni og sérstaklega hefði verið hægt að gera mjög veruleg átök í því efni, ef stuðlað hefði verið að því, að hægt hefði verið að ljúka með eðlilegum hraða þeim fjöldamörgu byggingum, sem á hverjum tíma hafa verið í smíðum. Það hafa oftast verið hér um 1800 fokheldar íbúðir í Reykjavík einni á undanförnum árum um hver áramót, sem er algerlega óeðlilegt, og vegna hinna margvíslegu erfiðleika á lánamarkaðnum hefur það tekið mörg ár að ljúka þessum byggingum. Það hefur bæði dregið úr, að hægt væri að koma í veg fyrir húsnæðisskortinn, og verið ákaflega fjárhagslega erfitt þjóðhagslega séð, að byggingarnar væru svo lengi í smíðum. Ekki aðeins fyrir einstaklingana hefur það verið mikil byrði, heldur einnig fyrir þjóðina í heild. Það er svo rétt, að lítið hefur verið gert að undanförnu og að mínum dómi of lítið til þess að reyna þó að minnsta kosti að bæta úr sárustu vandræðunum í bili.

Núv. hæstv. ríkisstj. mun hafa átt hlut að því, að seðlabankinn lánaði nokkurt fé til húsnæðismálastjórnarinnar eða byggingarsjóðs ríkisins, eins og hv. flm. vék að. Hann hafði um þessa lánveitingu, þar sem hún á að greiðast af tekjum byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári, þau orð, að svona lánsútveganir til húsnæðismála væru aðeins sýndarlán til skammar og þaðan af verri. Þetta eru sams konar lánveitingar og þessi hv. þm. hældi sér hvað mest af um áramótin 1957–58. Ég held það hafi verið eina afrekið fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar þá í þessum málum að fá lánað hjá seðlabankanum með þeim skilyrðum, að lánið yrði endurgreitt aftur af þeim tekjur., sem til byggingarsjóðs ríkisins féllu á árinu 1958. Það þótti þægilegt þá í mánuðinum fyrir bæjarstjórnarkosningarnar að úthluta þessum lánum, en það var alveg látið liggja í láginni, að lánsféð, sem þannig var fengið, var bara verið að taka fyrir fram af því, sem byggingarsjóðurinn hefði síðar á árinu fengið. Ég veit ekki, hvort hv. flutningsmann brestur minni til, hvernig þetta var í pottinn búið, en nákvæmlega sama var um að ræða og það bráðabirgðalán, sem hér hefur verið fengið og er í sjálfu sér alls ekki neitt til að miklast af, en hefur þó sennilega að einhverju leyti stuðlað að því að bæta til bráðabirgða úr þeirri miklu neyð, sem hér er fyrir hendi.

Ég skal svo láta máli mínu lokið, en vildi láta þessar hugleiðingar koma fram, en tel hins vegar, að það sé óhjákvæmilegt að taka þetta mál í heild til miklu róttækari og gagngerðari endurskoðunar en um er að ræða í þessari þáltill. og þá fyrst og fremst með því að taka húsnæðismálalöggjöfina alla til rækilegrar endurskoðunar.