17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2858)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög umr. um þetta mál, vegna þess að hér á dagskránni síðar er líka till., sem fjallar um svipað efni og ég er flm. að, og verður þá ástæða til að minnast á einstök atriði í þessu máli.

En það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi vekja athygli á vegna þeirra umræðna, sem hér hafa farið fram, og það atriði er það, að þó að ég hlýddi mjög vandlega á þær ræður, sem hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) var hér að flytja, fann ég ekki í þeim ræðum neina skýringu á þeim óeðlilega samdrætti, sem hefur átt sér stað á útlánum byggingarsjóðs ríkisins á s.l. ári. En eins og hv. 4. þm. Reykn. (JSk) benti á, lækkuðu útlán byggingarsjóðs ríkisins á seinasta ári um 14–15 millj. kr. frá því, sem var á árinu áður, án þess að það sé hægt að finna nokkrar afsakanlegar skýringar á því, að þessi samdráttur átti sér stað. Og þetta segi ég vegna þess, að hér á hv. Alþ. hefur á seinasta ári hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkum verið hvað eftir annað bent á framkvæmanlegar till. til þess að afla fjár í sjóðinn, en ríkisstj., bæði stjórn Emils Jónssonar og núv. ríkisstj., hafa ekkert hirt um það að fylgja þessum till. fram, einfaldlega vegna þess, að það hefur vantað hjá þeim áhuga fyrir því að gera nokkurt nýtt átak í þessum málum.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, að á vetrarþinginu síðasta fluttu framsóknarmenn till. um það, að nokkrum hluta af tekjuafgangi ríkisins yrði að venju varið til byggingarsjóðs ríkisins, eða 15 millj. kr. Ef þessi till. hefði verið samþ., hefði hún alveg nægt til þess, að sjóðurinn hefði getað haldið uppi jafnmiklum útlánum á síðasta ári og á árinu þar á undan. En stjórnarflokkarnir þáverandi og núverandi höfnuðu þessari till. og í staðinn létu þeir allt þetta fé fara í eyðsluhít ríkisins.

Á sumarþinginu flutti ég till. hér á Alþ., sem var byggð á samþykktum húsnæðismálastjórnar, um fjáröflunarleiðir, sem vel voru færar, en ríkisstj. þáverandi og núverandi hafa ekkert hirt um að fara eftir. Í þeirri till. var t.d. bent á þá leið, að veðdeild Landsbankans gæfi út vísitölutryggð bankavaxtabréf, svokölluð B-flokksbréf, fyrir a.m.k. 20 millj. kr. Ríkisstj. þáverandi og núv. hafa ekkert gert til þess að reyna að framkvæma þetta, en það hefur hins vegar sýnt sig í framkvæmd, að slík bréf eru mjög vel seljanleg, því að Sogsvirkjunin gaf síðar út á árinu í fyrra svipuð bréf til þess að greiða skuld við ríkið, sem ekkert lá á að greiða, og ég veit ekki annað en þau bréf hafi mjög vel selzt, svo að ef hæstv. fyrrv. ríkisstj. og núverandi ríkisstj. hefðu haft nokkurn áhuga fyrir því að afla fjár í byggingarsjóð ríkisins. var mjög auðvelt fyrir hana að fara þessa leið og afla nokkurra tuga milljóna króna tekna á þann hátt.

Í þessari till. minni er einnig bent á þá leið, að bankarnir keyptu svokölluð A-flokksbréf fyrir a.m.k. 20 millj. kr. á árinu 1959, og ég held, að það sé mjög sanngjörn krafa og hafi verið mjög eðlilegt, að bankarnir gerðu þetta, og það er alls ekki hægt að bera því við, eins og hv. 5. þm. Reykv. gerði hér áðan, að það hefði engin sparifjársöfnun átt sér stað í bönkunum. Mér sýnist það á Fjármálatíðindunum, sem Landsbankinn gefur út, að sparifjárinneignir í bönkunum hafi á s.l. ári aukizt eitthvað á milli 150 og 200 millj. kr., og ég held, að það verði ekki talið neitt ósanngjarnt, þó að t.d. 10% af þeirri upphæð hefði verið varið til byggingarsjóðs og þeirra útlána, sem hann hefur með höndum.

Í þessari till. minni er enn fremur bent á það, að reynt sé að fá lán hjá atvinnuleysistryggingasjóði, fá þar nokkurt fé til útlána fyrir byggingarsjóð. En ég held, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki sinnt þeirri leið, nema þá ef hún er eitthvað farin að gera það núna alveg upp á síðkastið, en á s.l. ári held ég að hún hafi ekki reynt neitt verulega til þess.

Þannig mætti halda áfram að benda á fleiri leiðir, sem voru vel færar til tekjuöflunar fyrir byggingarsjóð á s.l. ári, en hæstv. þáv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. hafa algerlega vanrækt að fara. Þess vegna verður ekki hægt að mæla á móti því, að það stafar eingöngu af áhugaleysi núv. ríkisstj., að svo stórkostlega skyldu lækka útlán byggingarsjóðs ríkisins á s.l. ári og raun ber vitni um og vegna þessa áhugaleysis stjórnarflokkanna hafa fjöldamargar fjölskyldur nú miklu verri aðstöðu í þessum efnum en þær þyrftu að hafa, ef stjórnarflokkarnir hefðu sýnt nokkurn áhuga fyrir að gera skyldu sína í þessum efnum.

Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa þessi orð öllu fleiri, en ég vil enn einu sinni árétta vítur mínar á hendur fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. fyrir að hafa sýnt alveg óhæfilegt áhugaleysi og trassaskap í þessum efnum með þeim afleiðingum, að fjöldamargar fjölskyldur hafa nú miklu verri aðstöðu en þær mundu hafa haft, ef stjórnarflokkarnir hefðu sýnt einhvern vilja til þess að gera það, sem þeim bar skylda til að gera í þessu máli.