17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (2859)

1. mál, Byggingarsjóður ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 7. þm. Reykv. (ÞÞ), var hér með ádeilur nokkrar á bæði fyrrv. ríkisstj. og núv. fyrir það að hafa sinnt húsnæðismálunum og lánveitingum til þeirra minna en vera skyldi. Hann veit það nú raunar fullvel alveg eins og ég, að eins og sakirnar standa í þessu landi bæði með eftirspurn eftir lánsfé vegna aukinna bygginga og möguleikana til þess að verða við þessum óskum húsbyggjenda, þá er ekki og hefur ekki verið möguleiki til þess að verða við þessum lánbeiðnum nema að allt of litlu leyti.

Hv. þm. sagði, að engin skýring væri á því, hvers vegna lánveitingarnar á árinu 1959 hefðu orðið minni nokkuð en á árinu 1958. Skýringin á því er samt afar einföld og liggur beint fyrir. Hún er sú. að á árinu 1958 var eytt nokkuð verulegum hluta af tekjum ársins 1959 með því að nota þær fyrir fram. Þetta liggur alveg beint fyrir, og veit sjálfsagt hv. þm. um þessa ástæðu.

Hann sagði líka, þessi sami hv. þm., að till. Framsfl. til úrbóta í þessu máli hefði ekki verið gefinn sá gaumur sem skyldi. Þeir hefðu borið fram við afgreiðslu fjárl. á s.l. vetri till. um það, að nokkur hluti af tekjuafgangi ársins 1958 yrði notaður til þess að lána til húsbygginga. Þetta er rétt. Þeir báru fram till. um þetta. En þeir vissu líka jafnvel, þegar till. voru bornar fram, að það var búið af fyrrv. stjórn að ráðstafa þessum tekjuafgangi til aðkallandi þarfa til þess að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum bæði hjá ríkissjóði og útflutningssjóði, þannig að þessi tekjuafgangur var þá raunverulega alls ekki fyrir hendi til ráðstöfunar.

Um viðskipti húsnæðismálastjórnar, eða rn. fyrir hennar hönd, við atvinnuleysistryggingasjóð skal ég ekki fara út í að ræða. Ég ætla, að til þess sjóðs hafi áður verið leitað, en ekki með þeim árangri þá, sem búizt hafði verið við. Hins vegar tók ég það mál upp, strax og ég kom í félmrn., að leita til stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs um lán úr sjóðnum, og hefur það mál ekki fengið afgreiðslu enn þá. En ég geri mér vonir um, að þeim málaleitunum ljúki á einhvern þann hátt, sem viðunandi megi telja, en það er ekki tímabært að ræða um það að svo stöddu. Hins vegar liggur það alveg augljóst og opið fyrir, að þetta, sem hv. þm. kallaði áhugaleysi núv. og fyrrv. ríkisstj., er þannig, að ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni skoða það sem eitt sitt aðalverkefni að útvega aukið fé til stjórnar húsnæðismálasjóðs, og það mun hún standa við. Það þarf ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því. Þessi stjórn hefur nú að vísu ekki setið nema þrjá mánuði, en ég ætla, að þeir tilburðir, sem hafðir hafa verið um þetta mál þegar á þessum 3 mánuðum, og aðrir, sem síðar munu verða teknir upp, bendi ekki til þess, að um áhugaleysi í þessum málum sé að ræða, heldur verði reynt að veita þar þá fyrirgreiðslu, sem mögulegt er, og hv. þm. þarf ekki að bera kvíðboga fyrir því.