15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

88. mál, söluskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar maður athugar það frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur hér lagt fyrir um söluskatt, þá er eðlilegt að athuga það sem einn lið í þeirri ránsherferð, sem hæstv. ríkisstj. fer á hendur almenningi í landinu nú, bæði alþýðu og millistéttum, þar sem. hæstv. fjmrh. virðist nú hafa tekið að sér hlutverk ræningjaforingjans. Og mér sýnist, að í þessu frv. sé hann enn þá að reyna að rifja upp eitthvað af sínu slétta máli og fallegu framkomu, sem hann hafði, meðan hann var borgarstjóri í Reykjavík, en hæfir ekki við þau verk, sem hann er að vinna að núna, og ég er hræddur um, að í umræðum um þetta mál allt saman eigi það eftir að koma nokkuð greinilega í ljós, hvernig hér fer saman fjármálaleg glópska og slík svívirða í árásum á almenning, að önnur eins hafi ekki þekkzt.

Hræsnin, sem kemur fram í sambandi við þetta mál, ekki sízt frá hæstv. fjmrh., er dæmalaus. Það hefur verið talað um það í sambandi við þennan söluskatt, að það ætti að afnema einn illræmdan söluskatt, sem verið hefði á Íslandi. Hvernig var sá illræmdi söluskattur? Sá illræmdi söluskattur var þannig, að svo framarlega sem hann hækkaði vörur, eins og hann eðlilega gerði, þá fékk almenningur uppbót fyrir þá vöruhækkun. Þessi illræmdi söluskattur þýddi, að þegar hann lagðist á vöru, sem fátækt fólk þurfti að fá, þá fékk það fátæka fólk, ef það hafði vinnu, nokkra uppbót fyrir. Hvernig er þessi söluskattur, sem hæstv. fjmrh. leggur hérna fram, sem á víst ekki að verða illræmdur? Hann heldur kannske, að hann eigi að verða ósköp vel rómaður? Hann heldur kannske, að hann eigi ekki að verða meingallaður, ranglátur og erfiður í framkvæmd, eins og hann var að lýsa þeim gamla söluskatti? Þessi söluskattur, sem verða mun alræmdur, áður en langt um líður, er lagður á við þær kringumstæður, að hann leggst allur á almenning bótalaust. Hann er nefskattur, sem leggst á alþýðu manna í landinu, á allar hennar nauðsynjar, án þess að alþýða manna fái hann að nokkru leyti upp bættan. Það er þetta hlutverk, sem hæstv. fjmrh. hefur tekið að sér að vinna fyrstur allra fjmrh. í marga áratugi á Íslandi, að níðast á þeim, sem fátækastir eru í landinu, sem eru varnarlausir fyrir, nema þeir verði að leggja til þeirrar atlögu að fara að stöðva vinnu um langt skeið til þess að fá í gegn kauphækkanir. Hingað til hefur alþýða landsins haft þá tryggingu, ef eitthvert ríkisvald, ef einhverjar yfirstéttir í landinu hafa lagt á skatta eins og þennan, að þessar yfirstéttir hafa orðið að gæta sín, vegna þess að skattarnir hafa komið til baka í hausinn á þeim vegna vísitölunnar. Þær hafa orðið að reyna að fara hóflega þar í, af því að almenningur fékk uppbætur samkv. framfærsluvísitölu á sitt kaupgjald. Nú er skákað í því skjólinu, að búið sé að afnema þetta með lögum. Nú á að leggja á söluskatt, án þess að almenningur fái nokkurn skapaðan hlut upp bætta þá dýrtíð, sem hann veldur. Þetta er það fyrsta, sem er afbrigðilegt við þau lög, sem hér liggja fyrir og hæstv. fjmrh. nú hefur lagt fyrir, móts við öll önnur lög, líka þann gamla illræmda söluskatt, þegar hann var settur á.

Og þegar sjálfur hæstv. fjmrh. reyndi í ræðu sinni áðan að skoða þetta sem liði öðrum aðgerðum ríkisstj. þá verður ekki heldur hjá því komizt að skoða þetta sem lið í öðrum ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. er að gera.

Það er skammt stórra höggva á milli hjá þeirri ríkisstj., sem nú er tekin við völdum á Íslandi. Nú nýlega voru allir bankavextir hækkaðir upp í 12% að undirlagi hæstv. ríkisstj., þannig að á sama tíma sem nú eru gerðar gífurlegar ráðstafanir til þess að auka dýrtíðiná í landinu, þá eru líka gerðar alveg sérstakar ráðstafanir af ríkisstjórninni til þess að banna mönnum að bjarga sér. Þeir bankavextir, sem lagðir hafa verið á, vafalaust að undirlagi bæði hæstv. fjmrh. og bankamálaráðh., eru nú 12%, ofur lítið lægri, þegar allra nauðsynlegustu atvinnuvegirnir eiga í hlut, en nógir til þess samt, að annars vegar vofir yfir niðurdrep, stöðvun á frekari framkvæmdum á Íslandi. Menn leggja ekki í ný atvinnutæki. Í venjulegum kapítalistískum þjóðfélögum er gengið út frá því, að t.d. 10% gróði sé sæmileg afkoma eins fyrirtækis á venjulegum tímum. Þegar bankar taka 12% til sín, þá er það raunverulega orðið útilokað að ætla að taka lán hjá þeim til þess að reka venjuleg fyrirtæki. Það þýðir bara sama sem að banna raunverulega slíka starfsemi. Og það er ekki nóg með, að þannig sé verið að hindra, að það sé komið upp nýjum fyrirtækjum í landinu eða þeir, sem fyrirtæki hafa fyrir, auki við þau, a.m.k. fái neina aðstoð frá hálfu ríkisins til þess, heldur vofir beinlínis yfir núna stöðvun á þeim rekstri, sem fyrir er.

Það er vitanlegt, að sums staðar vofir yfir núna stöðvun á útgerðinni um hávertíðina hér sunnanlands vegna ráðstafana ríkisstjórnarinnar, vegna vaxtahækkunar ríkisstj., vegna fyrirmæla ríkisstj. um að draga úr útlánum, vegna asnalegrar stefnu, sem verið er að reka um það að neita mönnum um að fá nægilegt fé til þess að geta borgað út laun til þeirra, sem eiga að draga fiskinn úr sjónum. Þannig er vitanlegt og hefur vofað yfir bæði í Vestmannaeyjum og annars staðar, að útgerðin á Íslandi stöðvaðist þá og þegar, aðeins fyrir þessi asnalegu afskipti ríkisstj. af fjármálum þjóðarinnar.

Þessi vaxtahækkun er í fyrsta lagi, — ég ætla að byrja á þeim frægustu og voldugustu, — árás á atvinnurekendurna í landinu. Það er verið að gera þeim helmingi erfiðara fyrir, einmitt mönnunum, sem hæstv, ríkisstj. þykist sérstaklega vera að starfa fyrir. Þetta er í öðru lagi árás á millistéttirnar í landinu, þessi vaxtahækkun, og fyrst hæstv. fjmrh. hefur verið að tala við kaupmennina og fleiri undanfarið, þá hefur hann kannske fengið að heyra það hjá þeim, hvernig þeir líta á þessar vaxtahækkanir gagnvart sér í sambandi við þeirra veltu og þeirra viðskipti. En síðast, en ekki sízt eru þessar vaxtahækkanir árás á alþýðu manna í landinu, þá alþýðu manna, sem á undanförnum áratugum hefur verið að byggja upp landið, hefur verið að húsa landið, hefur verið í eftirvinnu og næturvinnu svo að segja að skapa sér fögur híbýli, sem jafnvel hæstv. fjmrh. stundum hefur verið að tala um af nokkrum fjálgleik. Það er verið að segja við alla þessa menn, að nú skuli þeir ekki hafa neina slíka drauma lengur, nú skuli þeir hætta að hugsa um það, að þeir geti eignazt sínar eigin íbúðir. Það er það, sem verið er að segja með þeim bankavöxtum, sem nú er verið að pína í gegn að undirlagi ríkisstjórnarinnar.

En það er ekki nóg með þetta, það er ekki nóg með, að þarna sé verið að ráðast á allan þorrann af Íslendingum, nema örfáa stórkaupmenn í einkaréttaraðstöðu í Reykjavík. Það er líka beinlínis með þessu verið að ráðast á íslenzkt efnahagslíf. Þessar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í bönkunum í Reykjavik nú undanfarið, þýða að heita má bann við íslenzkri bankastarfsemi. Ég veit, að það hafa komið bréf að undirlagi ríkisstj. núna frá Seðlabankanum, þar sem lagt er fyrir viðskiptabankana að auka ekki útlánin frá því, sem þau nú eru. M.ö.o.: hvernig sem fiskurinn kann að hlaupa hér svo að segja á land til okkar, hvernig sem okkar barátta fyrir útvíkkun landhelginnar ber ávöxt í því, að okkar sjómenn afla meira, þá á með vitlausum fjármálalegum ráðstöfunum að gera mönnum helzt ómögulegt að halda áfram að afla meiri fisks, nema því aðeins að menn fari að fá útlenda banka til þess að hjálpa til við bankastarfsemina hér á Íslandi.

Þegar bankar voru myndaðir hér á Íslandi upphaflega, Landsbanki Íslands o.fl., þá var meiningin með þeim að hjálpa atvinnulífi fátækrar þjóðar, hjálpa atvinnulífi þjóðar, sem var að reisa sig úr nýlendukúgun. Til þess voru þeir íslenzku bankar þá stofnaðir. Hvað er sagt við þessa banka nú? Það er sagt við þá, að þeir skuli ekki reka útlánastarfsemi, þeir skuli hafa vexti, sem banna raunverulega alla eðlilega og heilbrigða fjármálastarfsemi í landinu, ag þeir skuli draga úr útlánum, hvað sem snertir þörf þjóðarhags. En útlendir bankar, þeir mega reka bankastarfsemi á Íslandi. Geti menn fengið lán erlendis, þá skal allt vera í lagi, bara íslenzkir bankar mega ekki starfa. Þetta á vafalaust að vera einn liður í þeirri sveltiherferð, sem ríkisstj. undirbýr á hendur almenningi. Það á að vera sem minnst hægt að gera til þess að bjarga sér, eins og menn hafa bjargað sér hér á Íslandi almennt, þegar menn hafa átt við kreppu að stríða, þegar Bogesenarnir hafa farið á hausinn og almenningur sjálfur komið upp sínum samvinnufyrirtækjum eða bæjarfyrirtækjum. Það á að reyna að girða fyrir slíkt nú með háum vöxtum, með banni á útlánum.

Það var svo sem greinilegt, — kom fram við lok ræðu hæstv. fjmrh., — hvaðan þessi pólitík er runnin og að hverju hún stefnir. Það er engin tilviljun, að hæstv. fjmrh. segir í þessari sömu ræðu, að það sé stefna ríkisstj. að draga Ísland inn í eitthvert fríverzlunarsvæði, innlima Ísland í eitthvert kreppukerfi úti í Evrópu í staðinn fyrir að reyna að halda því sjálfstæðu. Og það er auðséð, að þessi bankapólitík eins og þessi söluskattur og gengislækkun og annað slíkt, er einn þáttur í þessari aðför að sjálfstæði íslenzks efnahagslífs og velmegun íslenzkrar alþýðu.

Það er nauðsynlegt, að Alþingi sé ljóst, hvers konar samræmdar aðgerðir þetta eru til þess um leið að koma á atvinnuleysi og fátækt á Íslandi.

Það átti að vera mikill fagnaðarboðskapur, sem kom í blaði hæstv. fjmrh., Morgunblaðinu, á sínum tíma, að nú ætti að afnema hinn illræmda söluskatt. Jú, það var ósköp mikið fagnaðarefni vissulega, ef söluskatturinn yrði afnuminn. Aldrei var hann góður, og lengi var maður búinn að rífast út af honum. Og jafnvei einu sinni var hæstv. núv. fjmrh. sjálfur að leitast við að draga eitthvað úr honum, þó að hann guggnaði á því. En nú átti sá illræmdi söluskattur að hverfa. Man nú hæstv. fjmrh., hvernig og í hvaða sambandi sá illræmdi söluskattur var settur á? Söluskatturinn hélzt alllengi, sá gamli, illræmdi, sem III. kafli laga um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, ég held, að það hafi ekki verið um dýrtíðina, þó að hann væri til þess að auka hana. En I. kafli í þeim lögum var um að mynda sjóð, sem átti annars vegar að bæta útvegsmönnum og sjómönnum upp verð á fiski og hins vegar að greiða niður nauðsynjavöru almennings. Sem sé þessi gamli illræmdi söluskattur var þó lagður á til þess að bæta sjómönnum og útvegsmönnum upp of lítið verð, sem þeir ella hefðu fengið fyrir þann fisk, sem er grundvöllurinn að efnahag Íslands. Og enn fremur var hann lagður á til þess að greiða niður vöruverð hjá almenningi, og samt hefur hann alltaf þótt illræmdur, og nú tilkynnti Morgunblaðið, að það ætti að afnema hann.

Hvað kemur þá í staðinn fyrir gamla söluskattinn? Kemur þá söluskattur, sem á að bæta sjómönnum og útvegsmönnum upp eitthvað, sem á að tryggja afkomu útgerðarinnar, söluskattur, sem á að greiða niður verðlag á vöru almennings? Nei. Vondur var þessi gamli söluskattur, þegar hann var lagður á, vondur var hann þá, en ekkert er hann þó hjá þessum söluskatti, sem nú á að leggja á, því að þessi söluskattur er lagður á einvörðungu til þess að afla tekna í ríkissjóð, án þess að nokkuð af þeim tekjum fari til neins af því, sem tekjurnar af þeim gamla söluskatti upphaflega áttu að fara til. Hann fer hvorki til útvegsins — hvorki til sjómanna né útvegsmanna — né til þess að greiða niður verðlagið. En það, sem gerir þó mestan muninn, eins og ég gat um áðan, er þetta: Með álagningu þessa söluskatts er beinlínis höggvið skarð í tekjur alþýðuheimilanna og ekkert bætt upp, ekki að neinu leyti. Þessi söluskattur leggst á vöruverðið, hækkar vöruverðið, en hann hækkar ekki kaupgjaldið. Vöruverðið hækkar, en kaupgjaldið helzt, vegna þess að það er búið að banna að reikna verðlagsvísitölu á það. M.ö.o.: það, sem verið er að gera með þessari ráðstöfun, er að opna flóðgátt dýrtíðarinnar, þessa flóðgátt, sem aumingja Alþfl. þóttist ætla af miklum hetjuskap að standa á móti í síðustu kosningum og allir hans verkalýðsforingjar gáfu miklar yfirlýsingar um, að svo framarlega sem flóðgátt dýrtíðarinnar yrði opnuð, þá mundu þeir ekki bíða, þá yrði aldeilis lagt út í slaginn. Ég trúi ekki öðru en þeir tali hér. Hv. 1. landsk. þm. (SI), forseti Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem talaði einna djarfast um þetta, og fleiri fulltrúar Alþfl., ef þeir eru ekki búnir að gleyma öllum loforðum, sem þeir gáfu fyrir kosningar, nema þeir séu komnir á það stig, að þeir vilji heldur reyna að láta þögnina skýla sér eftir síðustu og verstu aðgerðir þeirra. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að ég hafði hugsað, að það yrði fundarhlé núna, nema það stæði svo sérstaklega á, að þm. ætti eftir mjög lítið af máli sínu„) Það er það mikið eftir. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er ekki kominn í sæti sitt, og af því að ég kann nú kannske einhverju miður fögru að honum að víkja, þá þykir mér skemmtilegra að mæla það þannig, að hann heyri, heldur en vera að segja honum það á bak, þannig að mér þætti vænt um, að ráðstafanir væru gerðar til þess, að hæstv. ráðh. væri við. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er ekki í húsinu sem stendur.) Ætli það væru ekki ráð þá að fá fundi frestað, þangað til hæstv. fjmrh. kemur, því að eins og hæstv. forseti veit, þá hafa áður orðið vandræði út af því hér í hv. Nd., að hæstv. fjmrh. hefur ekki verið við, og það er ákaflega leiðinlegt, ef það þarf að vera mikil rekistefna út af því, hvar maður eigi að leita hans. Þó að það hafi verið að nóttu til, þá er það sízt skemmtilegra að deginum til. (Forseti: Ég skal verða við þeirri ósk hv. þm. og gera hlé á fundinum í 15 mínútur.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. fyrirfinnst nú enginn enn þá. Það er eitthvað erfitt. Hann er einhvers staðar nálægur. Það er vonandi, að það sé betra að finna hann, þegar bjart er, að degi til, heldur en á nóttunni, eins og fyrir jólin.

Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. lýsti því mjög fagurlega, að hann hefði talað við Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda og Vinnuveitendasamband Íslands og Verzlunarráð Íslands og kaupmannafélagið og stórkaupmannafélagið, ég er eiginlega hálfpartinn að vona, að hann gefi sér tíma til að tala við Alþingi, ég er þess vegna að skyggnast um eftir honum enn þá. — Það er mjög ánægjulegt að sjá loksins hæstv. fjmrh. Það er ákaflega gott að þurfa ekki að vera að leita mjög lengi að honum að deginum til. Það er sitt hvað, þó að það sé erfitt á nóttunni, þegar ekki er leitarbjart. En það er mjög ánægjulegt, að hann skuli loksins vera kominn, og ég var að segja, að hann hefði tilkynnt, að hann hefði talað bæði við vinnuveitendur og stórkaupmenn og ýmis þeirra samtök, og ég var þess vegna hálfpartinn að vona, að hann mundi líka vera til í að tala við Alþingi.

Ég hafði þar komið í ræðu minni áðan, hvers konar árás þessi nýi alræmdi söluskattur, dýrtíðaruppbótarlausi, verður á alþýðu manna. Og auðvitað er það höfuðatriðið í þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. er að gera, að skerða hlut alþýðu, að hrinda henni af því stigi bjargálna, sem hún hefur staðið á í tæp 20 ár, og niður í þá fátækt og atvinnuleysi, sem hún bjó við áður fyrr, og þessi söluskattur, að svo miklu leyti sem hann er liður í hernaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn alþýðu, þá miðar hann að þessu. En söluskatturinn kemur ekki aðeins við alþýðu manna, þó að hann komi þyngst niður á henni og bótalaust. Hann kemur líka við millistéttirnar. Og ég held, að það séu nokkuð margir af millistéttarfólkinu í Reykjavík, jafnvel ekki sízt af smærri kaupmönnunum og handverksmönnum, sem margir hverjir hafa fylgt Sjálfstfl. um áratugi, sem líta með ugg á þessar aðgerðir. Fyrir smákaupmennina lítur það þannig út, að þeirra álagning á ekki að hækka í krónutölu, hins vegar verður velta minnkuð, kostnaður ýmiss konar hjá þeim vex, ríkisstj. gerir alveg sérstakar ráðstafanir til þess að gera þeim erfiðara fyrir um lánsfé og hækka á þeim vexti og gera þá háðari stórkaupmönnunum, og það er nú þegar altalað hér í Reykjavík, að þessar ráðstafanir ríkisstj., þessar samræmdu hernaðaraðgerðir hennar gegn alþýðu og millistétt muni hafa þær afleiðingar að setja allmarga smærri kaupmenn, handverksmenn og millistéttarmenn á hausinn, gera þá gjaldþrota.

Þegar gengislækkunin og öll sú gífurlega dýrtíð, sem hún hefur í för með sér, söluskatturinn og sú dýrtíð, sem hann veldur, og vaxtahækkunin og útlánaminnkunin og þeir erfiðleikar, sem ríkisstj. þar með veldur þessari millistétt, þegar þetta allt kemur saman, þá er greinilegt, hvert stefnt er. Það á, svo að ég noti orðalag, sem einu sinni var notað í öðru sambandi, það á svo að segja að skera niður við trog meginið af millistétt Reykjavíkur, millistétt, sem hefur verið efnuð í krafti þess, að verkalýðurinn hefur verið bjargálna, í krafti þess, að verkalýðurinn hefur haft næga vinnu í krafti þess, að verkalýðurinn hefur getað velt af sér dýrtíðinni með vísitölunni. Þessa millistétt á augsjáanlega að skera niður, og þessi millistétt hefur verið sá þjóðfélagslegi grundvöllur Sjálfstfl. hér í Reykjavík og hans fylgis og jafnvel kannske ekki hvað sízt þeirra vinsælda, sem núv. hæstv. fjmrh. um tíma sem borgarstjóri Reykjavikur hefur átt að fagna í þeim hóp. Ég segi þetta bara til þess, að menn geri sér alveg ljóst, hverjar hljóta að verða þær pólitísku afleiðingar af þessum ráðstöfunum.

Það er kannske ekki alveg úr vegi að minna á, undir hvaða kringumstæðum það var, sem Sjálfstfl. öðlaðist þó nokkuð mikla tiltrú hjá mörgum frjálslyndum mönnum, ekki sízt hér í Reykjavík. Það var ekki fyrir klakahöggið og aðfarirnar að atvinnulausum verkamönnum hér á árabilinu 1930–40. Nei, Sjálfstfl. öðlaðist nokkra tiltrú og skóp sér nokkurt fylgi hjá frjálslyndara fólki m.a. vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru á nýsköpunarárunum, og ekki hvað sízt þeirra ráðstafana, sem gerðar voru til þess að gera vextina handa þeim, sem keyptu togara eða komu sér upp hraðfrystihúsum, 21/2%. Það þótti skynsamlega ráðið. Þá þótti sýnt, að menn væru að hugsa um að koma upp atvinnulífi í landinu, og það voru ýmsir, sem fengu þá trú á Sjálfstfl. En sá Sjálfstfl., sem ávann sér eitthvert traust með því að setja vextina 21/2%, hann mun glata því trausti, þegar hann setur vextina 12%, bætir o alræmdum söluskatti ofan á, hefur fyrst g fremst staðið fyrir þeim illræmda söluskatti, sem áður var, bætir hann að engu upp og kemur svo með gengislækkun ofan á allt saman.

Það er þess vegna bezt, að menn sjái alveg greinilega fyrir, hverjar þær þjóðfélagslegu afleiðingar verða af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. nú er að leggja út í. Þjóðhagslega séð eru allar þessar ráðstafanir ekkert nema vitleysa. Frá efnahagslegu sjónarmiði Íslands hafa aldrei verið færð nein rök fram fyrir neinum af þessum ráðstöfunum, aldrei verið sýnt fram á neina nauðsyn fyrir Ísland að gera eina einustu af þessum ráðstöfunum. En hins vegar eru afleiðingarnar greinilegar.

Afleiðingarnar verða í fyrsta lagi fátækt almennings. Það verður að nefna það því orði, sem við þekktum hér einu sinni. Það má vel vera, að það þyki eitthvað finna núna að tala um kaupgetuleysi eða minnkaða kaupgetu eða eitthvað þess háttar, það þyki eitthvað hagfræðilegra, eitthvað sérfræðingalegra orðalag, en það, sem það þýðir fyrir hinn alinenna mann, það er fátækt. Það má tala um skriffinnsku, það má tala um skömmtun og að allt slíkt kerfi sé slæmt. En það er ekkert slíkt skömmtunarkerfi eða skriffinnskukerfi, sem er verra en fátæktin. Og af því að henni hefur verið haldið frá íslenzkum alþýðuheimilum í 18 ár, þar að gera svona hrottalegar ráðstafanir eins og þessi söluskattur er liður í til þess að leiða hana yfir alþýðuheimllin aftur. Og það er bezt, að menn horfist í augu við þann blákalda veruleika, vegna þess að sá blákaldi veruleiki hefur framkallað þá hörðustu baráttu, sem hér hefur verið háð á Íslandi. Og það er ekki vert, að þeir menn verði neitt hissa, sem horfa framan í þá baráttu seinna, að þeir fari lað kenna einhverjum öðrum um. Það eru þeir sem eru að kalla hana fram með þessu. Og Sjálfstfl., ef hann ætlar að fara að taka upp þá pólitík, sem hann rak á þeim tímum, þá mun hann aftur eiga að horfa framan í það, sem hann hefur helzt hliðrað sér hjá síðustu tvo áratugi, aðgerðir eins og 9. nóv. 1932.

Það var máske hægt alllengi að láta menn búa við fátækt á þeim árum, þegar menn þekktu ekki annað, þegar menn héldu, að það væri óhjákvæmilegt. En það væri fáránleg villa af núverandi valdhöfum að láta sér detta í hug, að sú alþýða Íslands, sem hefur búið við bjargálnir í 20 ár, muni sætta sig við að fá þá fátækt yfir sig aftur. Það mun bezt að horfast í augu við.

Í öðru lagi: Afleiðingin af þessum ráðstöfunum verður hrun millistéttanna. Það er rétt, að millistéttin hér í Reykjavík hefur verið mjög stór, og hún hefur líka verið mjög efnuð og hún hefur oft og tíðum borizt máske óþarflega mikið á, — svo að maður noti orðalag, sem virðist vera hæstv. ríkisstjórn mjög kært: hún hefur kannske stundum lifað um efni fram. En sú hrossalækning að ætla að skera þá millistétt niður á þennan hátt, sem nú er lagt til og þetta frv. er einn liður í, kann ekki góðri lukku að stýra. Hver sú ríkisstj., sem ætlar sér að leiða fátækt yfir almenning og hrun yfir millistéttirnar, verður að horfast í augu við, hverjar afleiðingarnar af hennar verkum verða, og það er bezt fyrir hana að verða ekkert hissa eftir á. Og til hvers er verið að gera þetta hvort tveggja? Til þess að koma hér á harðstjórn peningavaldsins. Til þess að safna peningunum saman í höndum örfárra manna, tryggja þeim góð útlend bankasambönd, láta þá ráða bak við tjöldin íslenzku bönkunum og láta þá uppskera auð að sama skapi sem alþýðan verði fátækari, en millistéttirnar hrynja. Þetta er það, sem stefnt er að með þessum ráðstöfunum. Og það verður óhjákvæmilega svo, að í hvert skipti sem hin einstöku frv. ríkisstj. nú hvert á fætur öðru koma hér fram á Alþingi, sem öll miða að því sama, þá er eðlilegt og nauðsynlegt að minna á allt þetta samhengi.

Svo að ég komi nánar inn á þær sérstöku álögur, sem í þessu felast, þær álögur, sem a.m.k. alltaf óumdeilanlega eru 282 millj., þá er máske rétt að minna á, að fyrir nýár, held ég hafi verið, sagði hæstv. forsrh., að það væru nú eiginlega ljótu tíðindin í aðsigi, hann ætlaði varla að geta komið orðum að því, hvað það væri ljótt, sem hann þyrfti að tilkynna þjóðinni. Það hefði verið svo ægileg aðkoma hjá honum. Það væri hvorki meira né minna en hann sæi fram á, að það þyrfti að leggja 250 millj. kr. í nýjum sköttum og álögum á þjóðina. Svona væri það skelfilegt. Aldrei hefði hann getað grunað, að þetta ætti hann eftir að uppgötva, þegar hann tók við ríkisstjórn, 250 millj. kr., fyrr mætti nú rota en dauðrota að ætla honum að leggja öll þessi ósköp á þjóðina. En það var von hann yrði hissa. — Nú var þetta tóm vitleysa hjá honum. Það þurfti engar 250 millj. að leggja á þjóðina. Ef hann hefði þá nokkurn tíma þorað að ræða þetta við Alþingi, hefði verið hægt að koma honum niður í svona 125, en hann treysti sér aldrei til þess að ræða það neitt. Hvað kemur svo núna? Nú erum við bara með einn pínulítinn þátt, bara með þennan söluskatt, og hæstv. fjmrh. var að segja hér áðan, að þessi söluskattur væri svo saklaus, hann væri svo góður, að raunverulega væri bara gróði að honum fyrir almenning, og hann reiknaði út, hvað alþýðufjölskyldan græddi á því að fá svona fínan söluskatt. Það eru eitthvað annað skattarnir hans Gunnars heldur en skattarnir hans Eysteins. Það er bara stórgróði að því að fá svona söluskatt og sleppa að fá vísitölu á hann. — Nei, hæstv. forsrh. hafði uppgötvað það fyrir nýár, að þessi skelfilegu ósköp, sem fram undan væru, væru þau, að það yrði að leggja 250 millj. kr. á þjóðina. Og það var þetta, sem hann hryllti við. Hæstv. fjmrh. kemur hér aftur á móti með 282 millj., og hann hryllir ekki við. Nei, hann segir, að það sé stórgróði fyrir hverja einustu alþýðufjölskyldu, og reiknar út, hvað hún græði, þær standi miklu betur á eftir. Hann er þó að leggja á 282 millj. með þessu, en hæstv. forsrh. var hræddur við að leggja á 250, enda hefði hann aldrei þurft þess. Það er svo sem auðséð, hverjum er att á foraðið, sem hæstv. ríkisstj. er að skapa með sinni pólitík.

Það er alveg greinilegt af þessum yfirlýsingum, þegar þær koma saman hjá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að það var ekkert til, ekkert fyrirbrigði í þjóðfélaginu, sem gerði þessar álögur nauðsynlegar. Það var ekkert í efnahagskerfi Íslands fyrir, sem gerði neitt af þessu nauðsynlegt. Það var hægt að deila um það hér fyrir nýárið, hvort það væru 125 eða kannske, eins og hæstv. forsrh. sagði, 250 millj., sem þyrfti að leggja á, — eða þá, sem sumir eiga nú erfitt með að hugsa sér, að spara. Það var það, sem þeir áttu að deila um. Það var ekkert í efnahagslífi Íslands, sem gerði neitt af þeim álögum, sem nú hafa verið lagðar á, nauðsynlegt. Krafan um það er komin annars staðar frá, enda ljóstraði hæstv. fjmrh. því upp, þegar hann kom lengra í sinni ræðu. M.ö.o.: hér er nú lagt á bara með þessum pínulitla þætti í ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar, þessum gróðavænlega þætti fyrir alþýðuheimilin, eins og hæstv. fjmrh. sagði, meira en forsrh. upplýsti fyrir nýár að þyrfti yfirleitt að leggja á, þó að gamla uppbótakerfinu væri haldið.

Svo var eitt loforðið, sem gefið var, og það var skriffinnskan, þessi óskaplega leiðinlega skriffinnska, hún átti nú aldeilis að hverfa: skriffinnskan í sambandi við skömmtunina, skriffinnskan í sambandi við leyfin, skriffinnskan í sambandi við allt mögulegt. Menn áttu sannarlega ekki lengur að þurfa að fara til neinna kontóra, opinberra stjórnarvalda, til þess að ná í hitt og þetta. Hvernig er svo með þetta frv., sem hér liggur fyrir? Er skriffinnskan alveg þurrkuð út í því? Hér er í annarri hverri grein þessa frv. gert ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. verði að ákveða ótal hluti með sérstökum reglugerðum, sérstökum leyfum. Í staðinn fyrir að þessir hlutir væru gerðir einfaldari í sniðunum en þeir voru áður, þá er allri vitleysunni, sem í þeim var, haldið og bætt svo ofan á hana. Það á meira að segja auðsjáanlega að fara að innleiða svo að segja nýja stétt manna í landið. Þessi söluskattur á að vera þannig, að sérstakir menn eiga að vera undanþegnir honum, og ég er hræddur um, að það komi til með að þurfa nokkuð hárfina aðgreiningu, þegar á að fara að finna út, hvenær menn eiga að sleppa við söluskattinn og hvenær ekki. Mér sýnist t.d., að matsölurnar, ef ég skil rétt, eigi að geta keypt í búðunum með því að hafa eitthvert kort upp á vasann og eigi ekki að greiða söluskatt af því, af því að þær selja aftur. Hvernig ætli það sé með fjölskyldur til dæmis, sem hafa einn eða tvo í kosti? Eiga þær þá að kaupa í matinn, sem fer handa kostgangaranum, söluskattsfrítt, en sennilega að borga söluskatt af því, sem er handa þeim, sem tilheyra heimilinu? Hæstv. fjmrh. virðist sjálfur eiga að aðgreina þetta allt saman. Mér skilst, að hann eigi að gefa út einhver sérstök kort, einhver sérstök skírteini, þau eigi þessir greifar, sem eiga að vera söluskattsfrjálsir, að ganga með upp á vasann, og þegar þeir koma í búðina, þá eigi þeir að sýna, að þeir séu einhverjir skattfrjálsir greifar af náð hátignar fjármálaráðherrans, og þá skuli þeir fá allt söluskattsfritt. En hinir veslingarnir, sem bara eru að sjóða ofan í sig, kaupa handa heimilunum og hafa jafnvel ekki kostgangara á heimilunum, þeir fá ekki neitt kort hjá hæstv. fjmrh. Ég held það þyrfti að skýra dálítið betur fyrir okkur, hvernig þetta allt saman á að verða í framkvæmd.

Hæstv. fjmrh. var að segja það áðan, að hann hefði verið svo meingallaður, fyrir utan það, hvað hann hefði verið ranglátur og erfiður í framkvæmd, sá gamli söluskattur. Ég er nú ofur lítið búinn að sýna fram á, að þessi sé nú enn ranglátari, því að alþýðuheimilin fá þó enga uppbót fyrir þennan skatt, þau fengu þó vísitölu á þann gamla.

Svo vil ég minna á eitt. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem við fáum söluskatt um svipað leyti og við fáum gengislækkun. Þegar gengislækkunin var sett á 1950, var það eitt af höfuðloforðunum, sem voru gefin, að söluskatturinn skyldi verða afnuminn. Af hverju átti að afnema hann? Ég skal minna hæstv. fjmrh. á það. Söluskatturinn var upphaflega settur á til þess að láta útflutningsuppbætur í té handa útveginum. Þess vegna var sagt 1950: Nú ætlum við að afnema söluskattinn, því að nú lækkum við gengið, og nú þarf ekki lengur að hafa söluskatt, því að hann var bara til þess að láta útvegsmenn fá uppbætur. Og hvað var svo gert? Jú, gengið var lækkað, og svo var söluskattinum haldið ofan á allt saman. Þegar menn svo fóru að tala um þessa vitleysu á eftir, hvað sögðu menn þá? Jú, þá sögðu hagfræðingarnir með voðalegri speki: Það var gerð sú vitleysa 1950, þegar gengið var lækkað, að söluskattinum var haldið. Það var haldið áfram að íþyngja almenningi, og það voru allt of miklar tekjur, sem ríkið fékk, í staðinn fyrir að það átti að spara. Svona vitleysur voru gerðar 1950, sögðu þeir lærðu hagfræðingar eftir á. Menn héldu söluskattinum, þegar menn lækkuðu gengið, í staðinn fyrir að þá átti að afnema söluskattinn. Og hvað er svo verið að gera nú? Hvað er verið að gera? Jú, það er verið að lækka gengið til þess að afnema uppbæturnar. Og hvað kemur svo?

Svo kemur söluskatturinn: Sem sé, það á að halda söluskattinum, það á að hækka söluskattinn, og það á að gera hann enn þá ranglátari og enn þá vitlausari en áður. Og svo á vafalaust að koma eftir tvö ár og segja: Dæmalaus vitleysa var þetta, sem gerð var 1960. Menn afnámu ekki söluskattinn, þegar þeir lækkuðu gengið. — Og hálærðir menn frá París og Washington koma og segja: Það er ekki nokkurt vit í þessu stjórnarfari. Hvers konar Bakkabræðrastjórnarlag er þetta? Geta menn ekki munað nokkurn skapaðan hlut af því, sem verið var að tyggja í þá af þeim útlendu hagfræðingum fyrir 10 árum, þó að menn taki aldrei tillit til neins, sem þeir eru aðvaraðir um af íslenzkum alþingismönnum?

Nei, ég skal segja hæstv. fjmrh., hvað er verið að gera með þessum söluskatti. Það er verið að byrja á hringrás vitleysunnar aftur. Það er verið að undirbúa næstu gengislækkun, af því a menn þora ekki að horfast í augu við að reyta okkar þjóðarbúskap. Alveg eins og þessi söluskattur er settur á núna, eins verður átagjaldeyririnn settur á. næsta ár. Og þeir byrja á allri sömu vitleysunni og eftir 1950, af því að ráðin, sem þeir grípa til, eru bara eins og þegar sumir sjúkir menn eru látnir moka sandi á vissan stað.

Mér heyrðist næstum á hæstv. fjmrh. áðan, að hann vær nú eiginlega að byrja að sjá vitleysuna í þessu. Þegar hann fór að tala um þetta frv., þá sagði hann, að sérfræðingar ríkisstj. hefðu undirbúið þetta frv., hagfræðingarnir og vissi lærðir menn, sem hann gat um. Og svo talað hann um athuganir ríkisstj. á þeirra till. Hann var að gefa í skyn, að ríkisstjórnin hefði, ekki búið þetta frv. til, nei, það hefðu bara hagfræðingar gert. Svo hefðu komið til athuganir ríkisstj. á þeirra till. Má ég nú spyrja hæstv. fjmrh: Eru þetta till. ríkisstjórnarinnar eða ekki? Ég spyr vegna þess, að þegar alla vitleysurnar í afleiðingunum af þessu fyrir utan í útreikningunum koma í ljós, þá er það hæstv. ríkisstj., sem á að hrökklast frá, en ekki hagfræðingarnir. Það er ekki til neins að ætla að kenna hagfræðingunum um þetta. Það er eins og að ætla að kenna reiknivélunum um hlutina. (Gripið fram á: Þetta er stjfrv.) Jú, það er líka það eina, sem minnir á það. Það stendur að vísu hvergi, en samkv. reglunum er það það. En eins og hæstv. fjmrh. sagði sjálfur, þá leit helzt út fyrir, að það væru hagfræðingar, sem hefðu útbúið þetta frv., og svo hefðu bara komið til athuganir ríkisstj. á þeirra till. Er hæstv. fjmrh. nú þegar byrjaður að reyna að skjóta ríkisstj. undan ábyrgðinni af þessu frv. og þess afleiðingum? Heldur hann, að af því að sumir héldu, að ha ræðingarnir hefðu týnt 100 milljónunum, sem hann týndi víst sjálfur, þá sé nú hægt að koma sér hjá því, að ríkisstj. beri ábyrgð á þessu frv.?

En út af þeim týndu 100 millj., sem nú var verið að bæt ofan á með þessum átta prósentum, þá erum við ekkert hissa á, þótt svona týnist. Við erum ekkert hissa á þessum vitlausu útreikningum. Við erum svo alvanir þessu. Ég var hér nýlega að rekja, hvaða vitleysur hefðu verið gerðar í útreikningunum 1950 í sambandi við fiskverðið. Þá stóð það í gengislækkunarfrv., að fiskverðið ætti að hækka samkv. því frv. úr 75 aurum upp í 93 aura. Og við tókum þetta í gegn í fjhn. þessarar d. og fengum þá yfirlýsingar um það frá hraðfrystihúsunum, að þau mundu ekki borga 93 aura. Þetta var 1950. Og ég sagði frá þessu nú í sambandi við gengislækkunarfrv. Og ég yfirheyrði sérfræðinga ríkisstj. í fjhn. þessarar d. nú í sambandi við gengislækkunarfrv. og ég spurði þá að því, hvað fiskverðið ætti að vera eftir þeirra útreikningi, og þeir gáfu þá yfirlýsingu, að það ætti að hækka um 28% eða a.m.k. úr kr. 2.12 upp í a.m.k. kr. 2.50, þannig að hraðfrystihúsin greiddu til útvegsmanna a.m.k. kr. 2.50 í staðinn fyrir kr. 2.12. Og ég gat um þetta í mínu nál. Hefur þetta verið gert? Er búið að framkvæma þetta? Er búið að hækka verðið svona við smáútveginn? Hafa þessir reikningar sérfræðinganna staðizt? Hefur það, sem Davíð Ólafsson fiskimálastjóri sagði hér í fjhn, þessarar d. við okkur og ég letraði niður eftir honum, hefur það staðizt? Er ekki allt, sem þessir sérfræðingar hafa reiknað út, tóm hringavitleysa?

Svo þarf hæstv. fjmrh. ekki að vera neitt hissa, þó að maður kippi sér ekkert upp við það, þó að tapist einar 100 millj. þarna, því að þarna skakkar það mörg hundruð milljónum. Það skakkar öllum grundvellinum í þessu öllu saman. Það er sagt við þjóðina, að það sé verið að gera alla þessa vitleysu, sem gerð er, til að bjarga sjávarútveginum. En þetta er gert til þess að stöðva sjávarútveginn. Og það, sem ríkisstj. kemur til með að þurfa að gera næstu daga, er að hlaupa frá hverju einasta af öllu því, sem hún er að ákveða, brjóta kerfið, gefa eftir á kerfinu, vinna á móti „prinsipum“ kerfisins til að láta atvinnulífið ganga, því að kerfið er hringlandi vitlaust.

Mótsagnirnar koma alls staðar fram, eins og í ræðu hæstv. fjmrh. áðan. Hann segir við okkur t.d.: Þessi 8.8% á söluskattinum, það er nú bara í ár. Það er nú í bráðabirgðaákvæðunum. — Hvað segir hann svo rétt á eftir? Þá segir hann, að stefnan sé sú að létta af beinum sköttum og fara þess vegna inn á söluskatta. Náttúrlega hefði ekki einu sinni þurft að segja það. Við, sem höfum verið á Alþ. þann tíma, sem ég hef verið, vitum, hvað sjaldan það kemur fyrir, að skattur, sem lagður er á, sé afnuminn. Það þarf þess vegna ekki einu sinni yfirlýsingu, eins og hæstv. fjmrh. gaf, til þess að menn mættu nokkurn veginn vita það, að þessi 8.8% skattur verður líklega ekki í bráðabirgðaákvæðum næst, heldur innlimaður í sjálft frv., kannske um leið og bátagjaldeyririnn yrði settur á.

Hæstv. fjmrh. boðaði fleira, og það er nú eiginlega hið góða við hæstv. fjmrh., að hann kemur helzt ekki hér í stólinn án þess að gefa yfirlýsingar f.h. hæstv. ríkisstj. Að vísu hef ég stundum það á tilfinningunni, að hinir ráðh. hafi ekki ætlazt til þess, að það sleppi svona út úr honum. En það er ágætt, að hann taki slíka forustu fyrir ríkisstj., því að ég hef einhvern veginn þá hugmynd, að allir hinir ráðh. kinoki sér hálfpartinn við því, sem þeir eru að gera, hæstv. fjmrh. sé alveg ósmeykur við að ana út í þetta allt saman. Þess vegna tilkynnti hann: Nú er stefnan að létta beina skatta. — Já, að létta beina skatta. Það á ekki að létta nefsköttum af þjóðinni. Það á ekki að létta söluskatti af þjóðinni, ekki einu sinni illræmdum eða alræmdum söluskatti. Nei, það á að létta beinum sköttum.

Það er eðlilegt, að beinir skattar lendi yfirleitt meira á efnamönnum og þeim ríku í þjóðfélaginu, nefskattar á þeim fátæku, svo að það er alveg auðséð, hverja hæstv. fjmrh. hefur í huga við þessa stefnuyfirlýsingu sína. En merkilegust af þeim yfirlýsingum, sem hann hér gaf, var þó sú, sem hann gaf næst á eftir þessu, hvernig aflétta skyldi beinum sköttum. Þá gaf hann þá yfirlýsingu, að það væri nú meiningin að gera verzlunina frjálsari og komast inn á eitthvert fríverzlunarsvæði eða bandalag. Ég hefði satt að segja eftir öllum reglum um skiptinguna milli ráðherranna kunnað betur við að fá svona yfirlýsingu frá hæstv. viðskmrh., að það væri stefna ríkisstj. að ætla að komast inn í einhver sérstök viðskiptabandalög eða inn á eitthvert sérstakt fríverzlunarsvæði. Hingað til hefur þessi yfirlýsing ekki verið gefin.

Hæstv. fjmrh. hleypur auðsjáanlega fram fyrir skjöldu og gefur nú yfirlýsingu, rétt eins og þegar hann var að tala um nýja efnahagskerfið fyrir nýárið, og þetta er ákaflega gott við hæstv. fjmrh. Hann segir sem sé frá því, sem hinir eru að hugsa. Og þá veit maður, á hverju maður á von. Ég er nefnilega alveg sammála hæstv. fjmrh., að þetta er tilgangurinn hjá hæstv. ríkisstj., sá tilgangur, sem hún er alltaf að reyna að dylja, því að hér hafa verið gefnar margar yfirlýsingar um, að það sé ákveðin stefna ríkisstj. að viðhalda t.d. viðskiptunum við hin sósíalistísku lönd og gera ekkert, sem gæti orðið til þess að brjóta þau niður. Það er auðséð, að hæstv. fjmrh. er allt annarrar skoðunar, að það á þvert á móti að stefna að því, og hann gefur yfirlýsingu um, að það sé stefna ríkisstj. .að innlima Ísland í eitthvert fríverzlunarsvæði. Öll verk ríkisstj. miða að þessu. Og það er ákaflega gott fyrir mig sérstaklega að fá staðfestingu á því frá hæstv. fjmrh., að þetta sé markið, sem stefnt er að, vegna þess að menn hafa verið að bera brigður á það áður. Ég hef haldið því fram, að það, sem býr á bak við allar efnahagsaðgerðir ríkisstj., væri að innlima Ísland í kreppukerfi kapítalismans í vesturátt eða amerískt, það væri höfuðtilgangurinn og sá vilji væri höfuðorsökin fyrir því, að út í þetta er lagt. Það eru engar íslenzkar efnahagslegar aðstæður, sem gera það að verkum, að lagt er út í þá hringavitleysu og þá svívirðu, sem efnahagskerfi ríkisstj. er, heldur einmitt þessi vilji: að innlima Ísland í kreppukerfið. Og það, sem veldur því, að það er gert, er, að voldugir bankar og lánastofnanir í París og New York eða Washington hafa gert það að skilyrði við ríkisstj. í þeirra samningum, að þetta yrði gert, og þess vegna sagði hæstv. forsrh. í umr. um gengislækkunarlögin og raunar hæstv. sjútvmrh. líka, að ríkisstj. ætti einskis annars úrkosta. Það, sem fyrir þeim er nauðung, er fyrir hæstv. fjmrh. fagnaðarboðskapur og stefna. Fyrirskipun auðvaldsins í VesturEvrópu um að innlima Ísland í sitt kreppusvæði, það er stefnan, sem hann er þarna að vinna að.

Mér sýnist hæstv. fjmrh. vera eins og að búa sig undir að verða eins konar faktor þessa erlenda fjármálavalds á Íslandi, sem yrði gert fátækt. Og hafi honum ekki verið ljóst, hvert hann væri að stefna með þessu, þá vonast ég til, að ég tali a.m.k. svo ótvírætt, að hann verði ekkert hissa á því seinna, þó að þetta eigi eftir að koma í ljós. Vegna fyrirskipana erlends auðvalds til þess að innlima Ísland í kreppukerfi þess er ráðizt í þá röngu og skaðlegu efnahagspólitík, sem þessi söluskattur er einn þáttur af. Í krafti þessa er verið að rýra lífskjör íslenzkrar alþýðu, er verið að gera alþýðu Íslands aftur fátækari, er verið að leiða efnahagslegt hrun yfir millistéttirnar á Íslandi og verið að gera öllum atvinnurekstri á Íslandi erfiðara fyrir, leiða kreppu yfir hann, til þess að þeir smærri fari á hausinn og þeir voldugustu, sem hafa velþóknun útlenda auðvaldsins og ríkisstj., geti keypt upp sem mest af eignum, sem hingað til hafa verið dreifðar á marga Íslendinga. Og í samræmi við þessa pólitík boðar hæstv. fjmrh. að létta beinum sköttum af ríkum mönnum og auðkýfingum og boða þyngri söluskatta framvegis, því að eins og hann sagði: Þegar búið er að innlima Ísland í eitthvert fríverzlunarsvæðið, þá má ekki leggja á tolla nema takmarkað. Þá heyrir Ísland undir þau lögmál, að það verður að lækka jafnvel tollana á Íslandi, þannig að þeir séu ekki hærri en í þeim löndum, sem búið er að innlima Ísland í, og þá er það bara söluskattur, sem er eftir, söluskattur, sem leggst jafnt á alla framleiðslu, fiskinn og mjólkina eins og útlenda iðnaðarvarninginn, þá er það nefskattsprinsipið, sem á að ríkja í því fátæka Íslandi, sem útlenda auðvaldið er búíð að klófesta. — Þetta er stefnan, sem hæstv. fjmrh. er að boða.

Svo sagði hæstv. fjmrh., að nú ætti að afnema tekjuskattinn, og reiknaði og reiknaði og reiknaði í sambandi við tekjuskattinn. Má ég spyrja: Af hverju er ekki farið að sýna okkur þennan tekjuskatt enn þá? Því er ekki frv. um þennan tekjuskatt komið fram? Hvað er það, sem tefur Orminn langa? Það var búið að lofa þessu í sambandi við gengislækkunina og lofa þessu í sambandi við söluskattinn. Hvað tefur Orminn langa? Af hverju kemur ekki frv? Er það satt, að þegar ríkisstj. fór að reikna skalann, þá hafi eftirgjafirnar, tekjuskattslækkunin á hálaunamönnunum verið svo gífurleg, að jafnvel sjálfri ríkisstj. hafi þótt nóg um, tekjuskattsminnkunin á alþýðu manna hafi verið svo litil í samanburði við það, sem þeir stóru fengu eftir gefið, að hún hafi ekki þorað að sýna hann, hún sé þess vegna enn þá að endurskoða tekjuskattinn? Því megum við ekki fá að sjá þennan tekjuskatt, sem alltaf er verið að tala um? Er þetta eitthvert huldubarn ?

Eitt er a.m.k. víst. Með breyt., sem á að gera í sambandi við að draga úr tekjuskattinum eða afnema hann á svo og svo stóru svæði teknanna, er verið að gefa tekjuháum mönnum mjög ríflega eftir. En með þessu, sem hér er verið að gera, er verið að auka nefskatta á almenningi mjög ríflega, og þetta kallar hæstv. fjmrh. að létta á landslýðnum. Þetta er að létta á landslýðnum. Landslýðurinn — er það bara þeir ríku? Anzi held ég, að það dragi skammt, t.d. hér í Reykjavík, hvað atkv. snertir næst fyrir Sjálfstfl., ef hann ætlar ekki að reikna landslýðinn annað. Og svo talar hann um tilflutning. Er tilflutningurinn sá, að tekjuskatturinn er tekinn burt, honum er létt af þeim efnameiri og nefskattur í staðinn settur á alþýðu manna? Það er tilflutningurinn. Ef hann heldur lengi áfram, hæstv. fjmrh., og á eftir að vera fjmrh. í mörg ár og þetta er hans fyrsta ganga, hvernig verða þá hinar?

Svo fór hæstv. fjmrh. að reikna. Ég held, að hann eigi að láta sérfræðingana um að reikna. Það er miklu, miklu skynsamlegra. Hann var búinn að reikna. Hvað var hann búinn að fá mikinn gróða? Hann var búinn að reikna fyrir meðalfjölskylduna, að þetta voru ekki nema 1400 kr., sem komu á meðalfjölskylduna, — sumir mundu segja, að það færi upp í nokkur þúsund, — og svo fékk hann í staðinn 1400 eftirgefið í tekjuskatti og 700 eftirgefið í útsvari. Þetta var stórgróði af þessu frv. upp á 700 kr. Og hvernig var farið að við að reikna gengislækkunina? Hvernig var reiknað þá? Jú, þá var gengislækkunin reiknuð, svo var reiknað: svona komu miklar fjölskyldubætur, svona fá menn mikinn frádrátt í skattinum. Því í ósköpunum gleymdi fjmrh. að reikna með fjölskyldubótunum áðan? Gróðinn af þessum söluskatti er miklu, miklu meiri en hann hélt. Hann gleymdi fjölskyldubótunum. Hvernig verður með þær eiginlega á endanum, þessar álögur, sem ríkisstj. er að reikna á? Það lá við, að gengislækkunin væri hagur, og þetta er bara beinn gróði. Hugsið þið ykkur svo, þegar tekjuskatturinn kemur fram, ég tala nú ekki um, þegar við förum að ræða alvarlega almannatryggingarnar hérna. Þvílíkur óskapagróði er ekki af þessari gengislækkun og söluskattinum! Það er ekki amalegt að vera fjmrh. á þessum tímum.

Nei, ég er hræddur um, að hæstv. fjmrh. sé búinn að gleyma því, sem hæstv. forsrh. sagði, þegar hann tilkynnti ríkisstjórnina. Hæstv. forsrh. tilkynnti þá nefnilega, hvaða endurbætur ætti að gera, en talaði í raun og veru sem minnst um allar álögurnar. Honum var nefnilega ljóst, að endurbæturnar voru allar saman smásárabætur á svöðusár, sem átti að veita. Og það er það, sem er inntakið í þessu öllu saman, og það er ekki til neins að ætla að reyna að setja sama plásturinn yfir í hvert einasta skiptí, sem verið er að ræða um þetta. Það er miklu betra að horfast strax í augu við það. Það er verið að undirbúa með öðru frv. að létta sköttum á þeim tekjuháu og þeim efnameiri. Það er verið að þyngja á almenningi, á þeim almenningi, sem var rændur fyrir, á þeim almenningi, sem er níðzt á fyrir með geigvænlegri álögum en þekkzt hafa í sögu margra áratuga á Íslandi, jafnvei nokkurn tíma hafa þekkzt.

Svo lauk hæstv. fjmrh. ræðu sinni með því að segja, eftir allar þær sjónhverfingar, sem hann var að reyna að hafa hér í frammi: Við í ríkisstj. ráðfærðum okkur við góða menn, áður en við lögðum þetta fyrir Alþ. — Það var mjög fróðlegt að heyra það. Það var nefnilega um það leyti, sem Sjálfstfl. hætti að vera í stjórnarandstöðu og fór að gerast stjórnarflokkur aftur, þá lýsti hann því yfir, að það skyldi nú ekki aldeilis verða haldið þeim hætti, að áður en sum frumvörp væru lögð fram á Alþ., væri verið að tala við hitt og þetta fólk, sem fyrir kosningar er kallað háttvirtir kjósendur utan þingsalanna, og jafnvel forsetinn, sem kosinn var hér þá og tilheyrði Sjálfstfl., tók við sem forseti sameinaðs Alþingis, ef ég man rétt, sagði, um leið og hann tók við, að það yrði nú aldeilis hætt þeim vinnubrögðum að vera að tala við einhverja menn utan þingsala, jafnvel einhver samtök, áður en frv. væru lögð fyrir Alþ. Það var þess vegna mjög gott að fá þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh., sem hann lauk ræðu sinni með hér áðan, eftir að hafa gefið yfirlýsinguna um innlimunina í Vestur-Evrópu. Hann sagði, að það hefði verið talað við nokkra aðila, þetta hefði verið sent sem trúnaðarmál, og auðvitað heyrðum við þm. það fyrst sem trúnaðarmál frá þessum aðilum, sem það var sent til, og þessir aðilar voru Landssamband iðnaðarmanna, Félag íslenzkra iðnrekenda, Samband ísl samvinnufélaga, Vinnuveitendasamband Íslands, Verzlunarráð Íslands, kaupmannasamtökin og Stórkaupmannafélag Íslands. Það eru því þessir menn, sem á að tala við utan þingveggjanna. Það var ekki það, sem var að hér áður fyrr frá sjónarmiði Sjálfstfl., að það var talað við viss samtök utan þingsalanna. Það var bara það að, að talað var t.d. við aðra eins menn og verkamenn og bændur eða þeirra samtök. Það var það, sem var glæpur. Og það er auðséð, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að vera að tala við mennina, sem eiga að borga söluskattinn, sem eiga að bera hann bótalaust. Nei, það var ekki talað við þá. Það eru vafalaust ekki nógu fín samtök fyrir þá, sem ætla að innlima Ísland í fríverzlunarsvæði auðhringanna í Vestur-Evrópu. Nei, það verður að tala við fína menn. Það verður að tala við stórkaupmennina, þá stórkaupmenn, sem eiga að fá sérstök lán í Vestur-Evrópu, þegar bönkunum er lokað fyrir venjulegum Íslendingum. Það eru þessi samtök. Kannske ég mætti spyrja, hvað þessi samtök, a.m.k. flest þeirra nema eitt, borga í Sjálfstfl., það væri a.m.k. gaman að fá útreikninginn yfir það, stórkaupmennirnir, vinnuveitendurnir, Félag ísl. iðnrekenda eða aðrir slíkir. Ég sé, að það hefur ekki einu sinni verið talað við samtök, ef t.d. Alþfl. átti einhverja fulltrúa þar í. Það er ekki verið að hafa svo mikið við þennan flokk, sem verður nú að teljast stjórnarflokkur, að það sé verið að spyrja meira að segja samband eins og Alþýðusamband Íslands, þó að hann hafi þar fjóra menn í stjórn, þar af einn þingmanninn, sem hér er í hv. Ed.

Það er ekki nóg með, að þessum samtökum hafi verið sýnt það sem trúnaðarmál. Nei, hæstv. fjmrh. upplýsti líka, að ábendingar þeirra hefðu verið teknar til greina, vissar ábendingar þeirra. Má ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða ábendingar voru það, sem þessir stórkaupmenn og aðrir slíkir gerðu, sem voru teknar til greina? Það þætti mér vænt um að fá upplýsingar um, ef ekki nú við þessa umr., þá mun ég aftur krefjast upplýsinga um það í fjhn. þessarar hv. d. og í hvaða formi þetta frv. hafi verið, þegar hæstv. ríkisstj. hafi sent það til þessara samtaka. Ég hélt, að þetta væri 1. umr. málsins hér, en það væri ekki nein aukaumræða úti í bæ og fyrst væri farið að breyta frv. þar eftir ábendingum stórkaupmanna, áður en farið er að ræða við Alþingi Íslendinga. Ég hélt, að 1. umr. væri hérna og svo færi málið í nefnd, og hingað til hefur það verið starf nefndanna á Alþ. að senda mál til umsagnar og ræða við hin ýmsu samtök þjóðarinnar og fulltrúar slíkra samtaka kæmu hér til fjhn. Alþ. og segðu þeim, hvað þeir álitu athugavert við þessi mál, fjhn. ræddi innbyrðis um það, ræddi við ríkisstj. um það, reynt að bæta úr, ef hægt hefði verið, ýmsum göllum eða a.m.k. málin verið rædd. Ég sé, að hér mun eiga að hafa aðra hætti á. Eiga kannske þessi finu samtök, sem hæstv. fjmrh. nefndi, að vera eins konar konungkjörin efri deild, sem ríkisstj. útnefnir sjálf og ráðgast sjálf við og tekur ábendingar þessara konungsfulltrúa til greina, áður en málin eru lögð fyrir Alþingi Íslendinga — venjulegra Íslendinga? Hvers konar málsmeðferð er þetta? Og fyrst svona meðferð er höfð, því er þá ekki öllum gert jafnt undir höfði. Maður skyldi ekki halda, að það væri flokkur allra stétta, sem hagar sér svona. Manni liggur við að detta í hug, að þetta sé flokkur yfirstéttar, sem hagar sér svona og þykist of fínn til þess að tala við Alþýðusamband Íslands og Stéttarsamband bænda eða Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem sé fulltrúa 90% Íslendinga, sem eiga að borga.

Hæstv. fjmrh. minntist á það, að það mundi nú verða gefinn kostur á að athuga þetta og bæta. En ég sé það nú, að hæstv. fjmrh. er búinn að gefa vissum aðilum kost á að athuga þetta og bæta, sem sé hinum fínu mönnum í landinu, þeim ríku mönnum í landinu, og þeir hafa vafalaust bætt þetta frá sínu sjónarmiði. Mér skilst þá, að hann ætli að eftirláta okkur í fjhn. að gefa þeim fátækari í landinu, þeim vinnandi stéttum í landinu, þeim sem á að gera fátæka, verkamönnum, launþegum, bændum, gefa þeirra samtökum kost á að athuga þetta og bæta, og ég vona þá, að hæstv, ríkisstj. hafi ekki á móti því, að fjhn. d. sendi þetta þá til umsagnar þeirra samtaka, sem eru fulltrúar fyrir 90% Íslendinga, eftir að ríkisstj. hefur talað við þessi 2–3%, sem hann taldi upp áðan, eða varla það.

Nei, það er greinilegt af öllu, sem hér um ræðir, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að því að þyngja álögur á almenning í landinu. Engar sjónhverfingar, sem hæstv. fjmrh. með sinni sléttu framsetningu á málunum, sínum tilraunum til hvers konar blekkinga í málsmeðferðinni, engar slíkar sjónhverfingar geta dulið, hvað er að gerast.

Það, sem er að gerast, er, að það er verið að skipuleggja fátæktina á Íslandi. Af því að það hefur ekki verið hægt að koma henni á þessi 20 ár með allri þeirri verðbólgu, sem yfirstéttin í landinu hefur stjórnað og ráðið og skipulagt, þá á nú að koma fátæktinni á með harðstjórn peningavaldsins, með þeirri harðstjórn, sem nú er verið að skipuleggja og einstaka menn jafnvel dirfast að kalla frelsi.

Verkið, sem hæstv. fjmrh. hefur tekið að sér að vinna, er að skipuleggja fátæktina. Það er ljótt verk og það er illt verk. Það er versta verkið, sem unnið hefur verið hér á Íslandi um áratugi. Þessi söluskattur og það frv., sem hér er um hann, er aðeins einn þáttur í þessu, einn þáttur í sambandi við vaxtaokrið, einn þáttur í sambandi við gengislækkunina, einn þáttur í sambandi við atvinnuleysið, sem verið er að skipuleggja, einn þáttur í sambandi við stöðvun íbúðarhúsabygginga, sem verið er að undirbúa. En eitt er mönnum rétt að gera sér ljóst og ganga ekki í neinar grafgötur með: Sú alþýða, sem í 20 ár, a.m.k. 18 ár, hefur búið við bjargálnir, sættir sig ekki við fátækt baráttulaust.