17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2865)

4. mál, verðtrygging sparifjár

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. í till. þeirri til þál. á þskj. 4, sem hér liggur fyrir til umræðu, felst áskorun til ríkisstj. um að skipa fimm manna n. til að athuga, með hverjum hætti verði við komið verðtryggingu sparifjár, þ. á m. innstæðufjár opinberra sjóða. Á aukaþinginu s.l. sumar flutti ég þáltill. sama efnis, en hún varð því miður þá ekki útrædd.

Það er alkunna, að á tveim undanförnum áratugum hefur þróun íslenzkra peningamála verið sú, að verðgildi íslenzkra peninga hefur sífellt farið lækkandi. Kaupmáttur hverrar krónu hefur minnkað ár frá ári, þó auðvitað misjafnlega mikið einstök ár. Það eru til ár, þar sem litlar verðlagssveiflur hafa átt sér stað, en þau ár heyra undantekningum til. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að eitt af aðaleinkennum íslenzkra fjármála og peningamála á þessu tímabili sé einmitt þessi sífellda og áframhaldandi verðgildisrýrnun peninganna. Mér hafa fróðir menn tjáð, að ekki muni fjarri lagi, og það hefur reyndar margoft komið fram í þessum umr., sem hér hafa farið fram að undanförnu um efnahagsmálin, að árleg meðalrýrnun á verðgildi krónunnar þessa tvo síðustu áratugi hafi numið um 9 eða jafnvel upp í 10%. Ég skal að sjálfsögðu ekki fullyrða neitt um það, hvort sú áætlun muni vera rétt, en ég býst þó við, að það sé óhætt að ganga út frá því, að árleg rýrnun á verðgildi krónunnar hafi á þessum tveimur áratugum numið meira að meðaltali en nemur hæstu löglegum vöxtum á sama tíma. Það sjá allir, hversu óeðlilegt slíkt er og í hverjar ógöngur er stefnt, ef þannig er áfram haldið. Það er áreiðanlegt, að þetta ástand í peningamálunum er ein af afleiðingum verðbólgunnar, en jafnframt má svo segja, að það hafi einmitt ýtt undir og örvað verðþensluna.

Það er augljóst, hvert þessi óheillaþróun leiðir. Hún er hvort tveggja í senn til óþurftar einstaklingunum og þjóðfélaginu í heild. Hún bitnar á sparifjáreigendum, en grefur jafnframt undan heilbrigðu efnahagslífi í landinu og kippir smám saman stoðum undan allri sparifjármyndun og sjóðasöfnun. Þessi peningarýrnunarstefna felur í sér ranglæti gagnvart einstökum sparifjáreigendum og sjóðum, en hún felur jafnframt í sér þjóðfélagslega hættu. Ég mun fyrst víkja að hinu fyrrnefnda, hinni ómaklegu meðferð á sparifjáreigendum, en síðar mun ég víkja að síðarnefnda atriðinu, hversu viðsjárverð þessi óheillaþróun er frá almennu sjónarmiði.

Það má nefna þess mýmörg dæmi, hversu ómaklega ráðdeildarsamir sparifjáreigendur hafa verið leiknir af völdum verðbólguástandsins. Það má t.d. nefna það dæmi, að maður hefur lagt talsverða upphæð inn í banka í því skyni að nota þá fjárhæð síðar til íbúðarkaupa eða heimilisstofnunar, en þegar hann tekur svo þessa upphæð út í dag og ætlar að festa kaup á t.d. íbúð, þá rekur hann sig á það, að innstæða hans ásamt vöxtum er orðin í raun og veru langtum minna virði en hún var, þegar hann lagði peningafjárhæðina inn í peningastofnunina á sínum tíma. Fyrir þessa fjárhæð getur hann miklu síður keypt sér íbúð í dag en fyrir upphaflegu innlánsupphæðina, t.d. fyrir 15 árum. Roskið fólk, sem lagt hefur fjárhæð til hliðar til elliáranna. þegar þrek og heilsa fer að bila, fær nú afhentar margfalt verðminni krónur en það lagði inn. Hverri krónu hefur í raun og veru verið breytt í nokkra aura. Þar með er sú ellitrygging, sem það taldi fólgna í sparisjóðsinnstæðunni, runnin út í sandinn. Það má t.d. nefna mann, sem selt hefur íbúð sína fyrir 15 árum, af því að hann hefur ekki þurft á henni þá að halda, og lagt söluverðið í banka. Nú ætlar hann að taka út þessa sparifjárinnstæðu ásamt vöxtum og kaupa sér íbúð, er hann þarf á að halda. Þá kemst hann að raun um, að þessir peningar hrökkva skammt til þess, að hann geti eignazt íbúð sambærilega við þá, sem hann áður átti fyrir 15 árum. Þannig mætti vissulega lengi telja.

En einna alvarlegast er þó að mínum dómi, hvernig verðþensluástandið hefur leikið opinbera sjóði. Slíkir sjóðir, sem margir hverjir eru gjafasjóðir, eru stofnaðir til styrktar ákveðnu málefni eða til að standa undir tilteknum þörfum, t.d. oft til styrktar menningar- og mannúðarmálum. Vegna hinnar sívaxandi verðbólgu hefur verðgildi þessara sjóða smám saman verið svo stórlega skert, að þeir eru orðnir eða verða með áframhaldandi óheillaþróun gersamlega ófærir um að gegna hlutverki sínu. Sama máli gegnir um tryggingasjóði ýmiss konar, svo sem lífeyrissjóði. Þeir tærast í verðbólguflóðinu og verða ófærir til þess að standa undir skuldbindingum sínum. Þetta eru staðreyndir. sem blasa við, og ætti því að vera óþarft um þær að fjölyrða. Og hvort sem um þetta er nú talað lengur eða skemur, hlýtur niðurstaðan að verða sú sama, að hér sé ómaklega farið með eigendur sparifjár, hvort heldur eru einstaklingar eða sjóðir, og að með þá sé verr farið en marga eða jafnvel flesta þjóðfélagsþegna aðra.

Sannleikurinn er sá, að í mörgum tilfellum hafa aðrir grætt á kostnað sparifjáreigenda, þ.e.a.s. lántakar, sem endurgreiða að sönnu lán sín með sömu krónutölu, en með miklu verðminni krónum. Það samsvarar því í mörgum tilfellum, að maður hafi fengið t.d. að láni hest, en þurfi aðeins að skila aftur folaldi.

Ég fæ ekki betur séð en þjóðfélagið hafi búið mjög illa að sparifjáreigendum, hafi brugðizt þeim, í raun og veru blekkt þá. Þetta er þeim mun ósanngjarnara og alvarlegra, að hér á oftast í hlut mesta ráðdeildarfólkið í þjóðfélaginu og í mörgum tilfellum bitnar þetta hvað sárast á þeim, sem sízt skyldi, ungu fólki og gamalmennum. Það er að mínum dómi fullkomið sanngirnis- og réttlætismál, að hlutur þessa fólks verði að einhverju leyti réttur, að það verði ekki lengur hlunnfarið með sama hætti og að undanförnu. Verði verðþenslan ekki stöðvuð, þarf að reyna að verðtryggja raunverulegt verðgildi sparifjárins. þannig að kaupmáttur krónunnar haldist, hvað sem verðlagsbreytingum líður.

Tillitið til sparifjáreigenda er þó hér ekki aðalatriðið að mínum dómi, enda þótt það sé mikilvægt, svo sem rakið hefur verið. Hitt er enn alvarlegra frá mínu sjónarmiði, að sú óheillaþróun, sem hér hefur átt sér stað í peningamálum og ég hef hér lítillega lýst, er stórháskaleg frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það er ekki vafamál, að hún hefur verkað verulega á meðferð fjár. Hún hefur haft í för með sér vantrú, á gildi peninga. Þess vegna hefur greinilega gætt vaxandi tregðu til að geyma verðmæti í peningum. Menn hafa aukið neyzluna og hafa lagt minna til hliðar. Margir hafa keppzt við að eyða sem skjótast hverri krónu, sem þeir hafa aflað. Menn hafa kappkostað að festa fé sitt í fríðu, hvenær sem færi gafst. Menn hafa sannreynt, að það borgaði sig. Eyðslan hefur verið verðlaunuð á kostnað sparseminnar, og afleiðingin hefur óhjákvæmilega orðið aukin eyðslusemi, margvísleg spákaupmennska og ýmiss konar óeðlileg fjárfesting. Sparifjársöfnunin hefur auðvitað af þessum sökum orðið margfalt minni en hún hefði ella orðið. Af þessum sökum hefur svo orðið skortur á lánsfé til nýtilegra og nauðsynlegra framkvæmda. Það má því alveg fullyrða, að hið sírýrnandi verðgildi íslenzkra peninga hafi átt mjög mikinn þátt í óeðlilega mikilli lánsfjáreftirspurn og hafi þannig ýtt undir það jafnvægisleysi, sem hér hefur ríkt að undanförnu á peningamarkaði.

Sparnaður er þjóðfélaginu nauðsyn. Það má ekki gleymast, að sparnaður er undirstaða framkvæmda. Það er mjög hættulegt, að menn glati trúnni á verðgildi peninga og hætti að safna sparifé. Hér er því alveg vafalaust um að ræða eina alvarlegustu meinsemd íslenzkra efnahagsmála, meinsemd, sem hefur sýkt og eitrað út frá sér á ótal vegu. Þá meinsemd þarf að lækna, ef nokkur kostur er. Það þarf með einhverjum ráðum að reyna að tryggja, að kaupmáttur peninganna haldist óbreyttur þrátt fyrir verðlagsbreytingar. Og ef það tækist, þá væri hagur sjóða tryggður, þá mundi sparifjársöfnun stóraukast, eyðslan dragast saman og óeðlileg lánsfjáreftirspurn minnka. Ef hér kæmist á jafnvægi í efnahagsmálum og stöðugt verðlag, mætti segja, að verðtrygging sparifjár væri óþörf. En það er því miður ekkert útlit á stöðvun verðþenslunnar enn, að því er ég fæ bezt séð. Þvert á móti má ætla, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafi í för með sér, þegar fram í sækir, stærri verðlagssveiflur en nokkru sinni fyrr.

Þær fyrirhuguðu efnahagsaðgerðir rýra enn stórlega hlut sparifjáreigenda. Það er augljóst mál, að gengisbreytingin, gengislækkunin, er stórt áfall fyrir sparifjáreigendur. Það er látið í veðri vaka, að þeirra hlut eigi að bæta með vaxtahækkun. Að sjálfsögðu er það þá ljóst, án þess að ég ætli hér að fara út í umr. um efnahagsmálin, sem hér hafa verið rædd áður, að það er annað, sem vakir fyrir höfundum og forsvarsmönnum efnahagsmálafrv. með vaxtahækkuninni en að rétta hlut sparifjáreigenda. Það er augljóst mál, að það, sem fyrir þeim vakir með vaxtahækkuninni, er fyrst og fremst að draga úr útlánum til þess að draga saman, enda er jafnframt, þegar rætt er um vaxtahækkunina, látið í veðri vaka, að hún þurfi e.t.v. aðeins að standa skamma hríð, og ef svo er, þá er auðsætt, að með vaxtahækkuninni út af fyrir sig er ekki að neinu leyti eða a.m.k. að litlu leyti réttur hlutur sparifjáreigendanna, sem æ ofan í æ hafa orðið að sæta verðfalli peninganna vegna þeirra stórkostlegu verðlagssveiflna, sem hér hafa átt sér stað. Ég held þess vegna, að þó að það sé að vísu nokkuð liðið, síðan þessi till. var hér fram borin, og þó að síðar hafi komið fram efnahagstill. ríkisstj., sem hafa ákvæði um vaxtahækkun. þá sé ekki að neinu leyti raskað grundvellinum fyrir þessari þáltill., að það sé alveg jafnmikil ástæða til þess að samþykkja hana eftir sem áður.

Það er auðvitað, að verðtrygging sparifjár kostar eitthvað, einhverjir verða að borga. Auðvitað er eðlilegt, að þeir standi undir þeim kostnaði, verðtryggingunni, sem sparifé fá að láni. Á þeim eignum, sem þeir hafa varið lánsfénu til, hefur einmitt oft orðið samsvarandi verðhækkun. Samt sem áður þýðir ekki annað en að horfast í augu við þá staðreynd, að verðtrygging sparifjár, a.m.k. ef hún ætti að vera almenn, mundi hafa í för með sér nokkra hækkun á fjármagnskostnaði. Það er því eðlilegt, að sú spurning vakni, hvort verðtrygging hafi þá ekki í för með sér verðhækkun og ýti þannig aftur undir verðþenslu. Ég hygg, að sú hætta sé þó ekki veruleg, a.m.k. ef verðtryggingin er aðeins bundin við tilteknar tegundir innlánsfjár. En ég hygg, að það mundi verða óhjákvæmilegt að binda hana þannig við tilteknar tegundir af innlánsfé og tiltekin útlán á móti. Ég býst við því, að á lán til framleiðslunnar kæmi vart til mála að setja nokkra vísitöluhækkun. En öll atriði í þessu sambandi þarf sem sagt að athuga mjög gaumgæfilega, eins og gert er ráð fyrir í þessari þáltill., og það verður þá auðvitað að athuga bæði þá pósitífu og negatífu hlið, sem er við verðtryggingu sparifjár. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að það er miklu meira leggjandi upp úr pósitífu hliðinni, hún er miklu þýðingarmeiri, en eins og ég sagði áðan, þá þarf málið allt að athuga af hinum færustu mönnum, og m.a. þarf að athuga, hvort skynsamlegra sé að taka upp verðtryggingu alls sparifjár og í peningasamningum yfirleitt eða binda hana við tilteknar tegundir inn- og útlána, eins og ég sagði áðan og ég býst við að yrði óhjákvæmilegt. Að sjálfsögðu þarf einnig að athuga, við hvað á að miða verðtrygginguna.

Á undanförnum árum hefur stöku sinnum verið gripið til þess að verðtryggja eða vísitölubinda tiltekin skuldabréfalán. Ég hygg, að reynslan hafi sýnt, að þar hefur verið farið inn á skynsamlega braut. Það hefur sýnt sig, að ég held, að menn hafa viljað geyma og ávaxta sparifé sitt í þvílíkum verðbréfum. Nú síðast einmitt voru seld þau skuldabréf, sem bar á góma hér rétt áðan, Sogsvirkjunarlánsbréf, sem vísitölutryggð voru, að vísu með sérstökum hætti. Ég held, að það sé alveg óhætt að segja, að sala þeirra bréfa hafi gengið betur og örar en menn höfðu fyrir fram gert ráð fyrir. Reynslan hér hefur því sýnt það að mínum dómi, að verðtrygging sparifjár er líkleg til þess að hafa í för með sér heppilegar breyt. á framboði og eftirspurn fjármagns og stuðla með þeim hætti að jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þessari till. um athugun á möguleikum á verðtryggingu sparifjár, því að lengra er nú ekki farið í þessari till., verði hér vel tekið og hún fái skjóta og greiða leið hér eftir í gegnum þingið. Framsóknarmenn hafa áður borið fram till., sem gengið hefur í svipaða átt og annar stjórnarflokkurinn og sá stærri þeirra, Sjálfstfl., tók það einmitt upp í sína kosningastefnuskrá s.l. haust, að gerðar yrðu, ráðstafanir til þess að tryggja hag sparifjáreigenda og jafnvægið milli eftirspurnar og framboðs lánsfjár. Það má því vænta þess fyllilega, að þeir leggi þessari till. lið. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en leyfi mér að óska þess, að þessari till. verði vísað til n. að þessari umr. lokinni, sem er víst fjvn., þar sem tvær umr. eiga að fara fram.