11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2896)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að láta í ljós nokkur vonbrigði með afgreiðslu hv. fjvn. á þeirri frumtill., sem liggur til grundvallar í þessu máli. En eins og fram hefur komið, var í þeirri frumtill. farið fram á, að athugaðir væru lánsmöguleikar til Siglufjarðarvegar ytri eða svokallaðs Strákavegar. Ég lít svo á, að það hefði verið nokkurn veginn útlátalaust að samþykkja þessa aðaltill. eftir efni sínu, því að það var ekki farið fram á annað í henni en athuga möguleika til lánsfjárútvegunar til lagningar þessa vegar. Og hvað því viðvíkur, að sú upphæð, sem nefnd er í till., mundi ekki nægja, þá er þess að geta, að þessi till. var flutt á öndverðu þessu þingi og áður en þær verðlagsbreytingar urðu, sem stafa af þeim efnahagsaðgerðum, sem síðar hafa átt sér stað, en það hefði vitaskuld verið mjög auðvelt verk að breyta upphæð þessari í till.

Án þess að ég ætli að fara langt út í forsögu þessa máls hér, vil ég aðeins minna á, að á síðasta reglulega Alþingi ver flutt hér frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna Siglufjarðarvegar ytri. Meðferð á því frv. lauk þannig, að því var vísað til ríkisstj. til athugunar, og ríkisstj. brást þannig við, að hún mun hafa sent vegamálastjóra það til athugunar, og þeirri fsp., sem ríkisstj. sendi til vegamálastjóra, hefur vegamálastjóri í raun og veru þegar svarað með því að láta frá sér fara allýtarlega grg. um þetta efni, þar sem hann m.a. gerir grein fyrir því, hvernig hann álítur skynsamlegt eða í hvaða tímaröð hann álítur skynsamlegt að haga framkvæmdum á þessum stað, þ.e. að því er varðar Siglufjarðarveginn ytri. Það má þess vegna segja, að það liggi nú þegar fyrir að nokkru leyti, að það sé að nokkru leyti raunar þegar búið að framkvæma það, sem tillgr. í sinni núverandi mynd fer fram á, a.m.k. að því er varðar Siglufjarðarveg hinn ytri.

Það fer því ekki hjá því, að þessi afgreiðsla málsins, sem hér er fyrirhuguð, muni valda Siglfirðingum sérstaklega og raunar Skagfirðingum allverulegum vonbrigðum. Það þarf ekki að rekja það fyrir hv. þingmönnum, hversu mikil samgönguvandræði Siglufjörður hefur átt við að búa og á enn við að búa. Þau eru að mínu viti algerlega sérstök, þegar í hlut á jafnstór bær og byggðarlag, sem leggur í raun og veru jafnmikið af mörkum til þjóðarbúsins og Siglufjarðarbær gerir. En það þarf ekki að rekja það hér, að Siglufjörður er ein aðalsíldveiðistöð landsins. Þar er mikið athafnalíf á vissum árstíma, þar er aflað gjaldeyris í þjóðarbúið, sennilega með því mesta, sem er á nokkrum stað. Það er þess vegna ofur eðlilegt, að Siglfirðingar telji sanngjarnt, að þjóðarbúið líti til þeirra og leggi af mörkum eitthvað í þeirra hlut og líti á þeirra þörf. Það má vel vera, að það sé álitamál almennt séð, hvort ríkið eigi að fara út í lántökur vegna vegalagningar, en ég vil benda á það, að samgönguvandræði Siglufjarðar eru í þessu efni alveg sérstök, þar sem byggðarlagið, svo fjölmennt sem það er, er algerlega einangrað mikinn hluta af árinu og þær flugsamgöngur, sem um nokkurt skeið hafa leyst vanda byggðarlagsins, hafa legið niðri um skeið, og er víst mjög vafasamt um framtíð þeirra. Og í raun og veru er það ekkert meira, þegar svona sérstaklega stendur á, að leysa vandræði slíks byggðarlags með lántöku til vegarlagningar en t.d. gert er að leysa samgönguvandræði eins og annars byggðarlags með því t.d. að láta smíða skip á kostnað ríkissjóðs, sem kostar alls ekkert minna fé máske en þarf til slíkrar vegarlagningar sem þessarar, þannig að rök má vissulega finna fyrir því, að það sé litið á þá sérstöku þörf, sem hér er óvefengjanlega fyrir hendi.

Ég skal annars ekki fara að þreyta hv. þm. á því að fara að rekja mál þetta nánar. En ég hef talið rétt að undirstrika það alveg sérstaklega, að þarna er um sérstök samgönguvandræði að ræða, sem þarf að leysa, og það er öllum ljóst, eins og hér hefur verið tekið fram, að þau samgönguvandræði verða ekki leyst nema með alveg sérstökum aðgerðum, því að það kemur ekki til greina, að þau verði leyst með venjulegum framlögum á fjárlögum, og hitt er líka augljóst, að það er ofvaxið byggðarlaginu að leggja í þessa samgöngubót, sem er þó alveg nauðsynleg.

En af því tilefni sem er gefið hér í nál. og kom að nokkru leyti fram hjá hv. frsm., að það er látið að því liggja í nál., þar sem segir, að það verði að telja mjög vafasamt, þótt lánsfé vært fáanlegt, að viðkomandi sveitarfélög gætu risið undir vaxtagreiðslum af slíkum lánum, enda liggur ekkert fyrir um það, að þau séu tilbúin að taka á sig slíkar kvaðir, miðað við þessar fjárhæðir og núverandi vaxtakjör, — þó að þetta sé vafalaust rétt, svo langt sem það nær, sem þarna segir, þá vil ég af því tilefni — með leyfi forseta — leyfa mér að lesa upp hér ályktun frá bæjarstjórn Siglufjarðar, sem hún gerði á fundi sínum 11. febr. s.l., en sú ályktun hygg ég að hafi verið send öllum þingflokkunum og muni því í sjálfu sér vera þm. öllum kunn, en mér þykir þó rétt að skjalfesta hana hér. En hún hljóðar þannig:

„Bæjarstjórn Siglufjarðar skorar á þingmenn kjördæmisins að fá samþykkta á þessu þingi svo ríflega fjárveitingu til Siglufjarðarvegar ytri, að hægt verði að fullgera veginn frá Heljartröð út að fyrirhuguðum jarðgöngum að vestan á næstu tveimur sumrum, 1960 og 1961. Jafnframt flytji þeir frv. á Alþingi um lántöku fyrir Siglufjarðarveg ytri, svo að tryggt verði, að jarðgöngin gegnum Stráka, sem þegar er byrjað á, verði fullgerð eigi síðar en haustið 1961 og verði þá á komið vegasambandi við Siglufjarðarveg ytri. Lánið greiðist af ríkissjóði en heimilað verði að leggja á vegarskatt til að afla fjár, sem gæti staðið undir vaxtagreiðslum af láninu a.m.k. að einhverju leyti.“

Þessi ályktun var samþykkt af öllum bæjarstjórnarmönnum. Ég álít því, að það liggi í raun og veru enn fyrir, að Siglfirðingar a.m.k. eru sama sinnis í þessu máli og áður og þeir séu reiðubúnir að reyna að standa undir þessu láni að sínum hluta eða með þeim hætti, sem áður hefur verið um talað.

Ég kemst svo ekki heldur hjá því að lokum að láta það koma í ljós, að mér þykir miður, að blandað skuli saman þeim tveimur vegum, sem hér er um að ræða, Siglufjarðarvegi ytri og Múlavegi. Ekki svo að skilja, að ég vilji á neinn hátt telja eftir samgöngubót Ólafsfirðingum til handa. En ég hygg, að það geti engum kunnugum mönnum blandazt hugur um það, að þarna er tvennu ólíku saman að jafna, og ég fæ ekki skilið það, þegar hv. frsm. var að tala um, að það væri nauðsynlegt, að athuganir á þessum vegum báðum væru gerðar nokkuð jafnhliða. Ég held, að það sé allt annars konar vegargerð, sem er þarna um að ræða, hvor á sínum stað, og jarðgöngin fyrir Stráka og Siglufjarðarveg algerlega sérstaks eðlis, og því fæ ég ekki skilið annað en það, að með því að vera að blanda þessum tveimur málum þannig saman og vera að binda þau saman, þá sé verið að drepa á dreif till., sem flutt var hér á öndverðu þingi um Siglufjarðarveg hinn ytri. Og það vita það allir, sem staðháttum eru kunnugir, að staðhættir eru aðrir varðandi samgöngur við Ólafsfjörð og Siglufjörð. Ég er enginn sérfræðingur í þessum efnum, en ég hygg þó, að mörgum mundi hafa þótt það liggja beinna við að leysa samgöngumál Ólafsfirðinga með góðum og fullkomnum vegi um Lágheiði og tengja hann þannig við Fljót og Skagafjörð. En möguleiki á slíku er alls ekki fyrir hendi að því er til Siglufjarðarvegar kemur.

Ég hef hér látið í ljós nokkur vonbrigði með afgreiðslu þessa máls. Ég mun samt sem áður greiða þessari þáltill., — till., eins og hún liggur fyrir, — atkv., og það geri ég sérstaklega með skírskotun til þess, sem kemur fram í nál., þar sem það kemur fram, að n. er sammála um nauðsyn þess að taka til sérstakrar athugunar, hvernig suðið sé að haga framkvæmdum og fjáröflun til veganna á þann hátt og með þeim skilningi, að þarna sé því í raun og veru jafnframt stefnt til ríkisstj., þó að það komi ekki glöggt fram í tillgr. sjálfri, að það sé um fjáröflunina líka, sem á að fjalla í þessari athugun, enn fremur af þeirri ástæðu, að mér er það ljóst, að hér er um svo stórfellt mál að ræða og hér er um svo mikið átak að ræða, að það verður ekki leyst nema með góðri samstöðu allra stjórnmálaflokka, og það veit ég, að allir Siglfirðingar skilja og vilja, að að málinu verði unnið á þann hátt.