15.03.1960
Neðri deild: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

88. mál, söluskattur

Eysteinn Jónsson:

Ég hafði dregið það að taka til máls aftur, af því að ég gerði ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. mundi tala, m.a. svara fsp., sem til hans hefur verið beint, en það hefur nú ekki orðið, og sá ég því ekki fært annað en setja mig á mælendaskrána til að segja nokkur orð, enda þótt ráðh. hafi ekki tekið til máls, og þá með sérstöku tilliti til þess, að það er orðið nokkuð framorðið og vafalaust nokkuð langt komið þessari 1. umr. málsins. En ég vona, að hæstv. forseti gefi mér tíma til aths., ef hæstv. ráðh. talar hér á eftir og tilefni verður sérstakt til að víkja að einhverju, sem hann tekur fram.

Ég kvaddi mér hljóðs sérstaklega nú til þess að minnast á þá ræðu fáeinum orðum, sem hv. 3. þm. Austf. (EinS) flutti hér í dag og var eiginlega að sumu leyti tileinkuð mér. Þó að hún væri ekki gerð það formlega, þá fór það varla milli mála, að hún var að verulegu leyti tileinkuð mér, þessi ræða, jómfrúræða. Það er mjög veglegt að fá þannig tileinkaða sér jómfrúræðu í þinginu, og er ég ekkert að kvarta yfir því.

Eitt af því, sem þessi hv. þm. sagði í þessari jómfrúræðu, sem tileinkuð var mér með nokkuð sérstökum hætti, var það, að ég væri þessi geysilegi skattamaður. Ég hefði staðið fyrir feikilegum álögum á landsmenn og hefði öll met í því efni. Ég get nú sagt eins og kerlingin sagði hér um árið, að lítið var, en lokið er, og litlar verða mínar framkvæmdir í þeim efnum, samanborið við afrek þeirra, sem nú hafa tekið við þeim málum. Mér dettur í hug í því sambandi að segja frá því, að í fyrradag mætti ég góðum sjálfstæðismanni á götu hér í Reykjavík, sem ég þekki dálítið, og aldrei þessu vant heilsar maðurinn upp á mig og segir: „Ósköp voru þínir skattar litlir.“ Ég rak upp stór augu og segi: „Hefur þér fundizt það?“ „Nei,“ sagði hann, „mér hefur ekki fundizt það, en ég sé það núna vegna þess, hve þessir skattar eru stórir.“

Svona er nú það. Nú er sem sé kominn sá, sem meiri er og langsamlega hefur metíð í öllum skattlengdum og skatthæðum, eins og segja mætti á íþróttamáli.

Þá var hv. þm. eitthvað að tala um Bogesenana, sem ég minntist á að hefðu ríkt hér á árum áður og íhaldið vildi nú endurreisa. Og hv. þm. sagði eitthvað á þá lund, að Bogesenar væru nú ekki lengur til. Ég er ekki alveg víss um, að þeir séu ekki lengur til, en þeir eru fáir. En þeir eru þó til. En aftur á móti eru til talsvert margir, sem vilja verða Bogesenar, og það er að því, sem Sjálfstfl. stefnir með þeirri stefnu, sem hann nú hefur tekið upp, að reyna að planta Bogesenunum á ný. Það er stefnt að því að reyna að eyðileggja framtak annarra, til þess að þessir Bogesenar Sjálfstfl. geti komizt að. Það á að draga saman stuðning við aðra, til þess að hægt sé að styðja þá, og það á að gera sérstakar ráðstafanir til þess að herða kosti almannasamtakanna í landinu, t.d. kaupfélaganna, vegna þess að þessir nýju Bogesenar Sjálfstfl. eru nú ekki meiri fyrir sér en það, að þeir treysta sér ekki til þess að koma sér áfram nema með því að beita almannasamtökin í landinu bolabrögðum og reyna að koma þeim þannig á kné. Þeir treysta sér sem sagt ekki til þess að keppa við almannasamtökin við jöfn skilyrði. Og einn er sá líður í efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj., sem sérstaklega er miðaður við þetta, og hann er sá að draga rekstrarfé, sem almenningur hefur látíð sínum eigin félögum í té, kaupfélögunum, að draga það út úr þessum félögum og inn í bankakerfið til þess að geta svo aftur lánað þetta fé fólksins hinum nýju Bogesenum Sjálfstfl. Þetta eru þær aðfarir, sem núverandi stjórnarmeirihluti stefnir að, og þetta er það, sem þessi hv. þm. á sennilega við, þegar hann er að tala um, að hér verði allt að starfa á jöfnum grundvelli, það verði allir að standa jafnt að vígi. Það eru sennilega þessar aðfarir, sem hann hefur þá í huga m.a.

Sannleikurinn í þessum efnum er auðvitað sá, að almenningur víðs vegar um landið hefur komið upp sínum eigin félögum til þess að taka við viðskiptastörfum af þessum Bogesenum þeirra íhaldsmanna, sem þekktust hér á árum áður og sátu yfir allra hlut og vildu sitja yfir allra hlut. Fólkið hefur sjálft komið upp félögum til þess að taka upp samkeppni við þessa aðila á jafnréttisgrundvelli, og víða hefur það farið svo, að bæði viðskipti og atvinnurekstur er mjög í höndum þessara almannafélaga. Þessi félög hatar hv. 3. þm. Austf., það er alkunnugt. Hann hefur þau á heilanum. Og hans framkoma í þeirra garð hefur verið þannig, að ef eitthvert af þessum félögum fólksins hefur verið athafnasamt og komið miklu í framkvæmd í atvinnurekstri eða viðskiptum, þá hefur hann haldið því fram, að þar væri verið að sölsa undir sig allan atvinnurekstur á þeim stað og sitja yfir hlut manna. Ef aftur á móti eitthvert félag hefur farið sér hægara og haft umfangsminni starfsemi á einhverjum stað, þá hefur þessi hv. þm. sagt: Hvers vegna stofnar ekki kaupfélagið hér til útgerðar, hvers vegna reisir það ekki hér atvinnurekstur o.s.frv.? M.ö.o.: það er bara einn fastur punktur í hugsunarhætti þessa hv. þm., og það er hatrið á þessum félagsskap almennings. Það er ekkert samhengi í því, sem hann heldur fram um starfsemi þeirra, það er ýmist of eða van að hans dómi. Ýmist eru þau aðgerðalaus og gera minna en þau ættu að gera eða sitja yfir hlut fólksins og halda uppi einokun á atvinnurekstri og viðskiptum. En hvort tveggja er auðvitað jafnmikil fjarstæða. Þessi félög eru byggð upp á frjálsum grundveili í frjálsu þjóðfélagi í samkeppni við annan atvinnurekstur. En nú er ætlunin að hefta þennan félagsskap, lama hann með afskiptum ríkisvaldsins til þess að ryðja braut hinni nýju tegund atvinnurekstrar, sem nú á að innleiða á nýjan leik.

En hvernig var umhorfs hér í landinu, á meðan Bogesenarnir réðu? Þá var þannig umhorfs, að fólkið bjó yfir höfuð í moldarkofum, það hafði ekki ráð á því að koma sér upp þaki yfir höfuðið, það átti allt undir högg að sækja hjá þessum smákóngum, sem ríktu í byggðarlögunum með stuðningi Sjálfstfl. í gegnum bankavaldið og á annan hátt. Og það er þetta fyrirkomulag, sem var svo ágætt! Þetta voru hinir góðu, gömlu dagar, sem þessa menn dreymir nú um að komi aftur á ný. Þess vegna á m.a. að draga úr þeim stuðningi, sem fólkið á að fá til þess að byggja íbúðir sjálft. Það getur leigt hjá Bogesenunum, þegar þeir verða búnir að byggja einhverja íbúðarbragga til þess að leigja fólkinu, eitt herbergi, tvö herbergi og kannske eldhús. Þetta er hugsjónin. Svo geta menn fengið pláss á útvegi Bogesenanna, eins og áður var, en menn skulu hætta að vera að brjótast í því að eignast mótorbáta sjálfir, vegna þess að 75 tonna bátur á að kosta 41/2 milljón. Og vextirnir eiga að vera 12% og 6% á hlunnindalánunum, og það á að stytta lánstímann o.s.frv. Og fjármagnið m.a. úr framfarafélögum fólksins á að taka með valdi og færa inn í bankakerfið, ekki til þess að lána almenningi það út aftur til að greiða fyrir því að koma sér upp heimilum eða atvinnurekstri. Nei, til þess að bæta upp það, sem á kynni að vanta, að Bogesenarnir gætu komið sér við af eigin rammleik. Til þess á að nota fjármagnið.

Það er engin tilviljun, að hv. 3. þm. Austf. er eini þm. í stjórnarliðinu, sem í raun og veru virðist hugsa með ánægju til framtíðarinnar, og eini þm., sem hefur verulegan áhuga á því að mæla bót þeirri meginstefnu, sem hér er tekin upp. Það hefur víst enginn annar þm. orðið til þess, nema þá þeir, sem eru blátt áfram til neyddir vegna stöðu sinnar sem framsögumenn, hafa orðið að gera það. En þessi þm. mun vera eini sjálfboðaliðinn í þeirri sveit. Og það er engin tilviljun. Hann rýkur til fyrsta daginn, — hann var ekki búinn að sitja hér nema tvær stundir eða kannske varla það og búinn að hlusta á eina ræðu, — þá er hann kominn hér upp og farinn að mæla fyrir þessari „hugsjón“, sem stjórnin er að framkvæma. Hann er eini maðurinn, sem er hrifinn. Á því geta menn kannske ofur lítið séð, hvert verið er að fara. Ef til vill er það gleggsti votturinn, sem hefur komið fram á þinginu um það, hvað raunverulega er að gerast.

Svo var hv. þm. að tala nokkru nánar um skatta, og hann minntist hér á stóreignaskattinn. Og þá komst hann í feiknaham og sagði, að stóreignaskatturinn hefði verið hreint rán frá einkarekstrinum. Aftur á móti hefur þessi hv. þm. ekkert við þá skatta yfir höfuð að athuga, sem nú er verið að leggja á. Hann gat t.d. ómögulega hugsað sér, að nokkur maður gæti í einlægni fundið að því, að það væri lagður skattur á fisk eða kjöt, sem fólk notar til daglegra þarfa. Honum fannst það svo mikil fjarstæða, að nokkur gæti fundið að því í einlægni, að hann sagði eitthvað á þá lund, að ég hefði verið að gráta hér krókódílstárum út af öðru eins og því, að það væri lagður skattur á fisk og kjöt. Þannig er hugsunarháttur hv. þm. Hann trúir því ekki, að nokkur maður finni að því í einlægni eða af sannfæringu, að nú er fundið upp það snjallræði að skattleggja fiskinn, sem menn eiga að borða, og kjötíð. Í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar er gengið þannig að þessum málum, að það er skattlögð soðningin, sem menn hafa sér til daglegs lífsviðurværis. En því trúir hv. þm. ekki, að nokkur maður geti í einlægni fundið að þessu. En það var annað mál með stóreignaskattinn. Hann er bara hreint rán frá einkarekstrinum — stóreignaskatturinn. Hv. þm. tekur því sem sé ekki aðeins með jafnaðargeði, heldur að því er virðist með fögnuði, að skattleggja algengustu fæðutegundir, eins og fisk og kjöt, en hann ætlar að ganga úr bjórnum af ofsa út af því, að lagður er sérstakur skattur á þá ríku í landinu, stóreignaskatturinn.

Það er ekkert einkennilegt, þó að þessi hv. sjálfboðaliði sé ánægður með þessar ráðstafanir. Það á bara að leggja núna á eða færa til, eins og þeim þykir betra að orða það, 1100 millj. a.m.k., og í öllum þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í því sambandi, vottar ekki fyrir einni einustu ráðstöfun í þá átt, að það eigi að leggja sérstaklega á þá ríku. Það er ekki að furða, þó að þessi hv. þm. sé ánægður. Og þetta er munur eða áður var, bæði í sambandi við gengislækkunina 1950 og yfirfærslugjaldið 1958, þegar stóreignaskatturinn var lagður á, sérstakur skattur á þá, sem höfðu grætt á verðbólgunni. Sá skattur er kallaður rán, en það er ekki rán að leggja á fiskinn og kjötið og aðrar vörur, sem menn nota til daglegrar neyzlu. Og það er að breyta sköttunum í réttlætisátt, hafa þeir haldið fram, þessir hv. þm. og hæstv. ríkisstj., að lækka skatta á hæstu tekjum mest, en leggja tolla á brýnustu nauðsynjar í staðinn. Það verða lækkaðir tekjuskattar hér á hæstu tekjum mest, og það er hugsjón þessara manna að lækka tekjuskattinn á hæstu tekjunum, en leggja í staðinn á nauðsynjar.

Það er líka táknrænt fyrir vinnubrögð þeirra, sem hér eiga hlut að máli, og mér leikur grunur á, að hv. 3. þm. Austf. hafi verið einn í því liði, að svo ferlegar hafa verið þeirra aðfarir til þess að komast undan réttmætum greiðslum samkv. stóreignaskattslögunum, að það mun hafa verið leitað út fyrir landssteinana, í önnur lönd, til þess að klaga íslenzk yfirvöld fyrir að leggja á stóreignaskattinn, og reyna að fá fulltingi erlendis frá til þess að hnekkja íslenzkri löggjöf. Svo langt hefur verið gengið, þegar um það var að ræða að leggja skatt á þá ríku, og var þó sá skattur sannast að segja mjög hóflegur, á allar lundir mjög hóflegur.

Svo var þessi hv. þm. að tala um það í þessu sambandi, að kaupfélögin hefðu ekki borgað neinn stóreignaskatt. Það er eins og þessi hv. þm. viti ekki, að stóreignaskatturinn var lagður þannig á, að allar eignir hvers einstaklings í landinu voru lagðar saman í eitt dæmi, í hvaða félögum sem þeir áttu eignirnar. Það var til þess, að menn skyldu ekki getað skotið sér undan skattinum með því að skipta eignum sínum í t.d. mörg hundruð félög og vera þannig skattfrjálsir, þótt menn væru ríkustu menn landsins. Það var ljótt, að menn skyldu ekki geta það! Það var höfð sú sjálfsagða aðferð bæði 1950 og 1958, að það var lagt saman í eitt dæmi, hvað hver einstaklingur átti, í hvaða félögum sem það var, og þá kom fram, hverjir það voru, sem raunverulega höfðu dregið saman mestan auðinn og það mestmegnis á alls konar verðbólgubraski. Við vitum, að undanfarið hefur ástandið verið hér í þessu landi þannig, að það hefur helzt ekki verið hægt að græða nema á skuldum, — ekki verulega. Það hygg ég, að fáir viti betur en hv. 3. þm. Austf., að í raun og veru hefur ekki verið hægt að græða stórkostlega nema á skuldum. En þegar dæmið var sett upp svona og skatturinn lagður á þennan sjálfsagða og réttmæta hátt, þá kom í ljós, hverjir höfðu náð saman mestum auði í landinu, og þá kom það einfaldlega fram, að það var ekki almenningur í landinu, sem byggir upp kaupfélögin, sem hafði dregið saman mestan auðinn á sínar hendur. Það kom í ljós, að sárafáir af félagsmönnum kaupfélaganna komu til greina í sambandi við stóreignaskattinn, þegar af þeirri ástæðu, að þeir voru ekki svo efnaðir, að þeir kæmu til greina. Og það er ráðningin á þeirri gátu, hvers vegna kaupfélögin borguðu ekki stóreignaskatt. Það var vegna þess, að milljónerarnir og margmilljónerarnir og þeir, sem áttu tugi milljóna hver, voru ekki í kaupfélögunum. Það er alþýðan í landinu, sem byggir upp kaupfélögin, sem þessum hv. 3. þm. Austf. er svo illa við. Kaupfélögin eru sem sagt félagsskapur alþýðunnar í landinu, en ekki milljónamæringanna.

Hvað vildi þessi hv. þm. láta gera? Vitanlega vildi hann ekki láta leggja á neinn stóreignaskatt. Hann vildi hafa það eins og það er haft núna, leggja á fiskinn og kjötíð, daglega viðurværið, það er hans hugsjón. Það er „réttlætismál“ og ekkert við slíka skatta að athuga. Og það getur ekki verið mælt í einlægni að mæla í móti slíkum álögum. Það hljóta að vera bara krókódílstár, sem felld eru í sambandi við slíkt, að dómi hv. þm. Aftur á móti er það sem sagt engin furða, þótt menn ætli að ganga úr bjórnum út af stóreignaskattinum og þeirri ránsherferð allri saman. Það væri fróðlegt, ef þessi hv. þm. gerði einhverja tilraun til þess að skýra fyrir mönnum þann hugsunarhátt, sem lýsti sér í þessum ummælum.

Þá sagði hv. þm. eitthvað á þá lund, að menn gerðu sér miklar vonir um frelsið. Hann ræddi líka um þann feikna stuðning við atvinnureksturinn, sem stæði til. En aðrir, sem hér hafa talað í kvöld, hafa gert því þau skil, að ég held, að það sé ekki á það bætandi að ræða það atriði. Það hefur verið sýnt rækilega fram á það, í hverju stuðningurinn við einkareksturinn í þessu sambandi er fólginn, — eða hitt þó heldur.

En hv. þm. var að tala um þetta aukna frelsi, sem menn gerðu sér nú vonir um að mundi leiða af þessum nýju efnahagsmálaráðstöfunum. Hvers konar frelsi er það, sem nú er í uppsiglingu í sambandi við þetta? Hvers konar frelsi er það? Það er frelsi alþýðu manna í landinu til þess að hætta yfirleitt við allar meiri háttar fyrirætlanir um þátttöku í atvinnurekstri og fyrirætlanir um að koma sér upp sjálfstæðu heimili. Það er frelsið, sem í þessu er fólgið, því að sú stefna, sem hér er í framkvæmd, er þannig, eins og ég sagði hér í dag, að það er með vísindalegri nákvæmni mögnuð dýrtíðin í landinu til þess að gera mönnum ókleift að kaupa jafnmikið af nauðsynjum og þeir hafa áður getað keypt og til þess að gera mönnum ókleift að ráðast í framkvæmdir, þannig að þeir neyðist til þess að hætta við þær. Það er þetta frelsi, sem á að koma og verið er að vinna að með þeirri efnahagsmálastefnu, sem hér er verið að hrinda í framkvæmd. Eða hvernig heldur hv. 3. þm. Austf. t.d., að það muni ganga fyrir almenningi í landinu að byggja upp sjávarútveg, landbúnað eða koma sér upp þaki yfir höfuðið á næstunni, þegar búið er að hækka allt verðlag jafngífurlega og hér stendur til að gera og skera niður útlán bankanna, eins og hugsað er, og bæta vaxtahækkuninni þar ofan á?

Skelfing verða menn frjálsir, þegar búið er að koma þessu öllu vel í framkvæmd. Þetta jafngildir í raun og veru því að múra menn inni og segja síðan: Nú ertu frjáls, nú geturðu notið þín, nú ertu frjáls. — Þetta er frelsishugsjón hv. 3. þm. Austf. í framkvæmd.

Þá var hv. þm. eitthvað að tala um í dag, að það væri ákaflega þýðingarmikið að minnka ríkisafskipti, sagði: burt með ríkisafskipti, og að það væri stórfelld hugsjón að losna við ríkisafskipti. En hvað er það, sem nú er verið að gera? Ég er hræddur um, að hv. þm. hljóti að verða fyrir vonbrigðum, ef hann íhugar það nánar, og það eiginlega neyðist hann til að gera, held ég, að íhuga þetta nánar. Er verið að minnka ríkisafskiptin núna? Við skulum skoða það ofur lítið að gefnu þessu tilefni frá hv. þm.

Hvernig stendur á því, að vextirnir eru allt í einu komnir upp í 12%? Gerðist það alveg af sjálfu sér. Var það eitthvert náttúrulögmál, eða hvernig gerðist það? Ætli það hafi ekki verið ríkisafskipti? Ætli það séu ekki ríkisafskipti, sem hafa komið þar til greina?

Hvernig stendur á því, að vextirnir í stofnlánadeildum atvinnuveganna, sem áður voru 4% í þeim mörgum, eru nú komnir upp í 61/2 % og lánin hafa verið stytt? Er það náttúrulögmál? Er það eitthvað, sem gerist bara eins og þegar hann kemur á norðan eða snýst í suðaustanrumbu? Hvernig stendur á þessu, að vextirnir hafa allt í einu breytzt? Það eru ríkisafskipti. Það er ríkisstj., sem hefur staðið fyrir þessu og stendur fyrir því að þröngva kosti manna á þessa lund.

Hvernig stendur á því, að það á núna að fara að leggja á nýjan söluskatt, bara 8.8% ofan á allt, sem áður var komið, svo að maður taki bara eitt lítið atriði? Hvað hefur komið fyrir? Er þetta eins og þegar lægð kemur frá suðurodda Grænlands eða eitthvað slíkt, sem dettur yfir menn og enginn getur við gert? Nei, þetta eru ríkisafskipti, einn liður í þeirri stefnu, sem verið er að framkvæma, og ríkisafskipti.

Og hvað er að gerast núna í útlánapólitíkinni? Það er náttúrlega alveg útilokað, að nokkur ríkisafskipti komi þar framar til greina, þar á allt að fara eftir náttúrulögmálunum! En hvað er að gerast þar? Hvaðan er það komið, að nú á t.d. allt í einu að koma gersamlega í veg fyrir, að lán út á afurðir séu hækkuð, þótt framleiðslan aukist og verðmæti útflutningsframleiðslunnar stóraukist? Hvaðan er þetta komið? Er þetta náttúrulögmál? Hver hefur fundið upp á þessu? Hver hefur komið því í framkvæmd? Eru þetta ekki ríkisafskipti? Ég hugsa, að uppsprettan að þessu sé einhvers staðar nálægt stjórnarráðinu.

Svona væri hægt að telja upp í alla nótt dæmi um — ekki aðeins venjuleg ríkisafskipti, eins og þau hafa þekkzt áður, heldur alveg ný ríkisafskipti, sem áður eru alveg óþekkt í þessu landi. Hefur hv. 3. þm. Austf. gert sér grein fyrir því, hvað raunverulega er að gerast?

Ég fer að halda, að það hefði verið betra fyrir hv. þm. að bíða tveim eða þremur klukkustundum lengur, áður en hann felldi dóm um það, sem hér er raunverulega verið að gera, því að það hlýtur að vera augljóst hverju barni eftir að hafa íhugað þetta af nokkurri nákvæmni, að með þessum ráðstöfunum, sem hér er nú verið að framkvæma, er stefnt að meiri ríkisafskiptum af fjármálum og peningamálum þessa lands en nokkru sinni hafa áður þekkzt og harkalegri íhlutun um þessi mál og meira gengið á rétt einstaklinga og félaga en nokkurn tíma hefur áður komið til greina.

Það þarf mikla trú til þess og litla skoðun að standa upp ótilneyddur og lýsa yfir ánægju sinni yfir þessum aðförum öllum saman — og kalla þetta meira að segja skref í áttina til aukins frelsis og til þess að styðja einstaklingsframtak og sjálfstæðan atvinnurekstur í landinu og minnkandi ríkisafskipti. Ég veit ekki, hvað á að segja um svona frammistöðu. En í raun og veru var ágætt, að hv. þm. tók þessi atriði fram, vegna þess að sannast að segja hefur þessari hlið á málunum ekki verið sinnt áður í umræðunum. Hv. 3. þm. Austf. hefur snúið fram alveg nýjum fleti á þessum málum, sem við höfum vanrækt að ræða áður. En fyrir bragðið skýrist málið, og þess vegna er ástæða til þess að vera honum þakkiátur fyrir það, sem hann hefur lagt í þessar umræður.

Þá er ástæða til þess að minnast með örfáum orðum á eitt í sambandi við þetta innlegg hv. 3. þm. Austf. Ég skal ekki vera langorður um það fremur en annað í þessu sambandi. En það er eiginlega ómögulegt að komast hjá því að minnast á það, vegna þess að hv. þm. fór að mæla svo sterklega með þessari efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstjórnar.

Í kosningabaráttu þeirri, sem háð var á s.l. ári, var þessi hv. þm., eins og gefur að skilja, einn af þátttakendunum, og mér er af sérstökum ástæðum dálítið kunnugt um, hvernig hans stefna var í kosningunum. Hún var í stuttu máli þessi: Þetta gengur allt saman of hægt, það er allt of lítið gert. Og það er náttúrlega Eysteinn og fleiri, sem eru dragbitar á framkvæmdirnar, — stórkostlegir dragbítar á framkvæmdirnar. Það vantar allt, sem til þarf, fyrir fólk: meiri atvinnutæki og meiri vegi, betri vegi. — Hv. þm. hafði það fyrir sið að breiða sig nokkuð út um þetta. Hann sagði, að það þyrfti breiða vegi, góða vegi, og það væri ekkert vit í því að vera að kjótla þessu svona eins og gert hefði verið. Það þyrfti að fá t.d. nokkurra milljónatuga lán og gera þetta í einu átaki, sagði hv. þm. Þetta kjótl, sem Eysteinn hefði staðið fyrir, væri bölvuð ómynd og búið að gera stórtjón. Þetta hjakkaði allt í sama fari. Framfarir væru nánast engar. Það þyrfti að setja stórkostlegan kraft á þetta allt saman, í öllum greinum uppbyggingarinnar.

En nú er hv. 3. þm. Austf. kominn hér á þing, að vísu sjálfsagt fyrir tilviljun, vafalaust einhver bagaleg forföll, svo að það er sjálfsagt tilviljun, að hann er hér, því að hann er varamaður, og engin áætlun eða „plan“ á bak við það. En hann er nú hér kominn og farinn að taka þátt í þingstörfunum. Og hann hefur þegar á fyrsta degi sínum á Alþingi gerzt kröftugur talsmaður þeirrar efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. beitir sér fyrir. Þessi stefna er m.a. fólgin í því, að næstu daga verður hann látinn samþykkja hér á hv. Alþingi í sambandi við fjárlögin stórkostlegan samdrátt verklegra framkvæmda, — það verða sem sé efndirnar á kosningaloforðum hv. þm., — ekki einu sinni, að það eigi að halda í horfinu um þær framkvæmdir, sem verið hafa og hafa náttúrlega ekki verið litlar, eins og þessi hv. þm. leyfði sér að orða það, heldur verulegar. En það á ekki að halda í horfinu, heldur stefnir þingmeirihlutinn, sem þessi hv. þm. er einn liður í, að því alveg markvisst að draga stórkostlega úr þessum framkvæmdum í öllum greinum.

Og það er ekki aðeins stefnt að því að draga úr framkvæmdum ríkisins, heldur með vísindalegri nákvæmni stefnt að því að draga úr framkvæmdum einstaklinganna engu síður og hefta þá á allar lundir. Það er beinlínis leitað að úrræðum til þess að koma þessu fram, samdráttarstefnunni, þveröfugt við það, sem hv. 3. þm. Austf. hélt fram í kosningabaráttunni. Og þegar stjórnarliðið þóttist ekki alveg nægilega öruggt um, að menn væru nægilega fjötraðir með gengisbreytingunni plús nýju tollunum öllum saman og öllum nýju álögunum og lækkun opinberra framkvæmda á fjárlögum og öllu þessu, þá var vaxtahækkuninni bætt við í ofanálag til frekara öryggis, til þess að það væri nú alveg víst, að menn gætu ekki haldið áfram uppbyggingunni eins og áður. Þetta gera þeir hv. þm., sem hafa verið kosnir á þing, ekki aðeins til þess að halda sama framkvæmdahraða og var, heldur til að stórauka framkvæmdir í öllum greinum, en því höfðu þeir lofað.

Þá er eitt atriði, sem er mjög eftirtektarvert í þessu sambandi, og það er ekkert að því að minnast á það líka í leiðinni. Ég hafði hugsað mér að gera það við eitthvert tækifæri, og ég get þá alveg eins gert það núna, fyrst hv. 3. þm. Austf. er orðinn sjálfboðaliði, — eini sjálfboðaliðinn á galeiðu stjórnarinnar, held ég megi segja. Þessi hv. þm. lagði alveg gífurlega áherzlu á það í kosningabaráttunni, að sjómenn og fiskimenn væru rangindum beittir í sambandi við skiptaverð á fiski, það væri höfuðnauðsyn, að sjómennirnir fengju rétt verð fyrir fiskinn, og hann deildi kröftuglega á suma, sem þar voru viðriðnir, fyrir að hafa haldið niðri kjörum sjómannanna. En nú er það einn liðurinn í þeirri efnahagsáætlun, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir, og hv. 3. þm. Austf. er svo ánægður með, að lögbinda fiskverðið óbreytt eins og það var og koma þannig í veg fyrir, að skiptaverðinu verði breytt. Nú vil ég spyrja: Hvernig ætlar hv. 3. þm. Austf. að koma í framkvæmd þeirri hugsjón sinni frá kosningabaráttunni að hækka skiptaverðið til sjómanna? Það er spurning, sem ýmsir munu velta fyrir sér, ekkert síður en þeirri ráðgátu, hvernig á því getur staðið, að menn, sem létu kjósa sig á þing til þess að stórauka framfarir og framkvæmdir í öllum greinum, skuli láta það verða sitt fyrsta verk að leggja öll þau stórgrýtisbjörg, sem þeir geta fundið, í veg fyrir þá, sem eru að brjótast í því að koma framkvæmdum áleiðis.

Einn er enn sá liður, sem ástæða er til að minnast á í þessu sambandi. Þessi hv. þm. hefur talað með manna mestum ofsa gegn skatta og tollaálögum og talið þær algerlega fordæmanlega háar og gersamlega úr hófi fram. Hann sagði í dag það, sem hann hefur oft sagt áður, að ég hafi haft heimsmet í skattaálögum. Ég hef lýst því hér áður, að það er nú kominn annar meiri, sem er þá sjálfsagt heimsmethafi, svo að ekki verður um deilt. En einkennileg örlög eru það og mætti kalla meinleg örlög, að það skuli svo verða hlutskipti þessa hv. þm. eftir allt það starf, því að hv. þm. er ákaflega starfsamur maður, allt það feiknastarf, sem hann hefur lagt í að fordæma skattaálögur og sýna fram á, hversu þær væru gersamlega úr hófi fram og óforsvaranlegar úr öllum máta, — það eru meinleg örlög, að það skuli verða hlutskipti þessa hv. þm. fyrsta daginn, sem hann situr hér á Alþingi, að rísa hér upp og styðja ótilneyddur, — segi ég enn, það er það furðulega, — standa upp ótilneyddur og styðja þá efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. nú er að framkvæma. En í henni eru þær langmestu álögur, sem nokkurn tíma hafa komið til greina í sögu íslenzku þjóðarinnar. Samanburður þar er einna líkastur því að bera saman tunglið og sólina eða eitthvað slíkt, ef það má fremja önnur eins afglöp og þau að líkja þessum aðförum við sólina.

Ég skal ekki lengja umræður þessar úr hófi fram eða ræða þessi atriði nánar, en ég taldi alveg nauðsynlegt að láta þessi fáu orð falla í tilefni af því, að mér var tileinkuð þessi jómfrúræða þm. Það er ekki á hverjum degi sem slíkir atburðir gerast. Ég vænti, að menn skilji það og virði mér til vorkunnar, að ég láti það ekki eins og vind um eyrun þjóta. Ég vildi láta þessi fáu orð falla svo sem eins og í viðurkenningarskyni til hv. þm. fyrir þetta. En af því að mér er — alveg fullkomlega í alvöru sagt — meinlítið við hv. 3. þm. Austf., vildi ég nú segja það að lokum, að ég hefði talið það miklu eðlilegra, að sá hv. þm., sem kominn er hingað á þann hátt, sem þessi hv. þm. er, og ég hef bara pínulítið minnzt á, bara ósköp lítið samanborið við það, sem ástæða hefði verið til, að sá þm. hefði farið að öllu hljóðlega. En hv. þm. hefur viljað hafa á annan hátt, og það er vitanlega hans að ákveða, hvern hátt hann hefur. En mér sýnist það hljóti að fara þannig, eins og þetta er í pottinn búíð, að hans hlutur verði að svo vöxnu í sambandi við þessi mál öll saman því verri, sem hann lætur fara meira fyrir sér. En hann um það, hvernig hann hagar því, og hann getur engum um neitt kennt í því sambandi nema sjálfum sér, — alls engum, — því að hann hefur sjálfur búið í pottinn.