02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (2912)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Við 7 þm. úr öllum kjördæmum utan Reykjavíkur berum hér fram till. á þskj. 77 um raforkumál. Efni till. er það, að Alþ. feli ríkisstj. að hlutast til um, að raforkumálastjóri og raforkuráð geri áætlanir um áframhaldandi framkvæmdir við rafvæðingu landsins, er séu við það miðaðar, að öll heimili geti fengið rafmagn á sem skemmstum tíma, þau sem ekki hafa það nú þegar, og enn fremur, að reynt verði að hraða þessum áætlunum svo, að þær verði til um næstu áramót.

Mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur nú rafmagn til afnota, og það er kunnugt, að engar meiri háttar framkvæmdir hafa orðið hér á landi í þeim málum án aðstoðar ríkisins. Þannig hefur það verið um allar hinar stærri virkjanir að segja má frá fyrstu tíð, að annaðhvort hafa þær verið reistar af ríkinu eða með aðstoð þess, svo sem með ríkisábyrgðum fyrir lánum. Þannig var með virkjanirnar við Sogið í Árnessýslu frá fyrstu tíð, einnig Laxárvirkjunina í Þingeyjarsýslu. Sama máli gegnir um virkjunina í Fljótum fyrir Siglufjörð og Andakílsárvirkjun í Borgarfirði. Lán til allra þessara stóru framkvæmda voru fengin með aðstoð ríkisins, gegn ríkisábyrgðum og á annan hátt með aðstoð þess opinbera. Ríkið hefur oft annazt lánsútveganir í þessu skyni, t.d. nú til síðustu virkjunarinnar við Sog.

Með raforkulögunum, sem sett voru árið 1946. og sérstaklega með viðauka við þau 1954 voru ákveðnar meiri og víðtækari aðgerðir af hálfu hins opinbera til að auka raforkuframleiðsluna og dreifa orkunni sem víðast um landið en áður hafði verið. Síðan hefur mikið fé verið lagt í virkjanir, aðalorkuveitur og dreifiveitur um byggðirnar. Það eru stórar fjárhæðir, sem rafmagnsveitur ríkisins og héraðsrafmagnsveitur ríkisins hafa lagt í stofnkostnað á undanförnum árum vegna þessara framkvæmda. Á þriggja ára tímabili, 1954–56 að báðum meðtöldum, var stofnkostnaður við framkvæmdir hjá rafmagnsveitum ríkisins um 60 millj. kr., eða um 20 millj. að meðaltali á ári. Árið 1957 bættust þarna við rúmar 50 millj. kr. og 1958 rúml. 106 millj. kr. Á þessum árum var m.a. verið að koma upp stórum orkuverum bæði á Austur- og Vesturlandi. Á sama tímabili hefur mikið fé verið lagt í slíkar framkvæmdir hjá héraðsrafmagnsveitum ríkisins. Á árunum 1954–56 var stofnkostnaður framkvæmda hjá þeim um 61.7 millj. alls, eða röskar 20 millj. að meðaltali á ári. Á árinu 1957 bættust þar við tæpar 25 millj. og 24 millj. á árinu 1958. Ég hef ekki enn tölur fyrir árið 1959, en vitað er, að þá var miklu minna lagt til þessara framkvæmda en næstu árin á undan.

Að því er varðar dreifingu raforkunnar um byggðirnar nú, er þeirri reglu fylgt, að línur eru lagðar um sveitir, þar sem meðalvegalengd milli býla er ekki meira en um það bil einn km. en það eru margir, sem búa á strjálbýlli svæðum, og þeir bíða þess með óþreyju að fá að vita, hvers þeir megi vænta, og þeir eiga rétt á því að fá vitneskju um þetta hið fyrsta og án mikillar tafar. Hér þarf að gera áætlanir. 2 grg., sem þessari till. fylgir, er bent á, að æskilegt væri t.d. að rannsaka, hvað margir menn búa í héruðum, þar sem vegalengd milli býla er 1-l½ km að meðaltali, og í öðru lagi, hvað margir búa á svæðum, þar sem vegalengd milli býla er 1½–2 km. Þetta er fremur auðvelt að rannsaka og upplýsa. Síðan má á þeim grundvelli áætla kostnað við samveitur um þessi svæði. Eftir að slíkar áætlanir hafa verið gerðar, þarf að taka ákvarðanir um það, að hve miklu leyti raforkuþörf þeirra, sem enn eru án rafmagns, verður fullnægt með háspennulínum frá aðalorkuveitum. Þá verður þeirri spurningu svarað, hvort hægt sé að leggja samveitur um byggðir, þar sem vegalengd milli býla er að meðaltali allt að 2 km, eða hvort hægt sé að ganga lengra í hví að dreifa raforkunni með þessum hætti. Jafnframt þarf svo að athuga. hvaða aðstoð er hægt að veita og sanngjarnt er að velta þeim landsmönnum, sem eru þannig settir, að þeir geta ekki fengið rafmagn frá samveitum. Það verður væntanlega tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar, en þrátt fyrir það þarf að líta sanngjarnlega á þeirra mál og veita þeim hliðstæðan stuðning við að ná í þessi eftirsóttu og þýðingarmiklu þægindi.

Eins og ég sagði áður, þá er það þannig, að mikill meiri hluti þjóðarinnar nýtur þessara mikilsverðu þæginda nú, og þar hefur ríkið veitt sína aðstoð með ýmsu móti, þá aðstoð, sem þurfti til þess, að mögulegt væri að ráðast í framkvæmdirnar. Og það er skylda ríkisvaldsins að líta líka til þeirra, sem enn eru án þessara gæða, og veita þeim þann stuðning, sem þarf, til þess að þeir geti einnig fengið rafmagnið í sína þjónustu sem fyrst. Verði þetta ekki gert, er af hálfu þess opinbera gert upp á milli þegnanna, og það má ekki gera. Ég efast ekki um, að allir hv. alþm. séu mér sammála um það, að hér þurfi að greiða fyrir því sem fyrst, að allir landsmenn geti notið rafmagnsins.

Það hefur verið ákveðin ein umr. um till., og ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að umr. verði nú frestað og till. vísað til athugunar til hv. fjvn.