02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (2913)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við þessa till. vil ég upplýsa það, að raforkumálaskrifstofan er að vinna að því að gera áætlun um þá bæi, sem ekki fá rafmagn samkv. tíu ára áætluninni 1953–63. Raforkumálaskrifstofan hefur um nokkurt skeið unnið að þessu, en óformlega þó. En núna fyrir áramótin hef ég lagt áherzlu á það við raforkumálastjóra, að hann hraði þessari áætlun, eftir því sem unnt er. Ég skal ekkert segja um það, hvort þetta verk er svo yfirgripsmikið, að því verði ekki lokið á þessu ári, en ég hygg þó, að svo geti orðið, — en það er það, sem þessi till. ætlast til, að undirbúningi verði lokið fyrir n.k. áramót. Í sjálfu sér er tilgangslaust að kveða svo á, að verkinu skuli lokið á þessu ári, ef það er það yfirgripsmikið, að raforkumálaskrifstofan kemst ekki yfir það. En það má örugglega treysta því, að það verði að þessu unnið með þeim flýti og þeim viðbúnaði, sem raforkumálaskrifstofan getur notað.

Ég vildi aðeins upplýsa þetta, og hefði ég haldið, að hv. 1. flm. þessarar till. hefði haft hugmynd um, að raforkumálaskrifstofan er að vinna að þessu. Það er stutt síðan hann var í raforkuráði og er kunnugur vinnubrögðum á þessari skrifstofu, og jafnvel í hans tíð í raforkuráði var um það rætt, að nauðsyn bæri til að gera áætlun um næsta áfanga í þessum málum.

Það er rétt að geta þess um tíu ára áætlunina frá 1953–63, að, að henni er unnið nú af fullum krafti, og það er óhætt að fullyrða, að við þau verður staðið.

Í sambandi við það, sem hv. 1. flm. þessarar till. sagði hér áðan, að það hefði verið unnið mun minna að raforkuframkvæmdum á árinu 1959 en næstu ár á undan, þá tel ég rétt, af því að ég hef hér fyrir framan mig tölur yfir það, sem unnið var á því ári, að upplýsa, hvað það var mikið, en það er allmiklu meira en mörg undanfarin ár. Fjárþörfin 1959 var 89.6 millj. kr., og fjár var aflað í þessu skyni á árinu 88.85 millj. kr., það sem sagt vantaði 0.75 millj. til þess að fullnægja fjárþörfinni að öllu leyti samkv. áætlun, og má heita, að það hafi sloppið. Ég tel ástæðu til þess að upplýsa þetta hér vegna þeirra orða, sem 1. flm. till. viðhafði hér áðan, gaf í skyn, að það hefði verið jafnvel lítið unnið á s.l. ári, um leið og hann gat þess þó, að hann hefði ekki tölurnar yfir það, sem gert hefði verið. Hitt er svo rétt, sem fram kom í hans ræðu og í þessari till., að það er nauðsynlegt nú þegar að gera sér fulla grein fyrir því, hversu mörg býli það eru á landinu, sem hugsanlegt er að komist í samveitu, t.d. á 5–10 árum, eftir að núv. tíu ára áætlun er lokið, og hversu mörg býli það eru, sem ekki er hugsanlegt að komist í samveitur, og þá þarf að reyna að leysa þeirra mál með þeim hætti að gefa slíkum býlum kost á að fá hentugar og ódýrar dísilvélar. Má segja, að raforkuráð hafi að því stuðlað nú upp á síðkastið að gera ráðstafanir til, að slíkar hentugar og tiltölulega ódýrar vélar verði fyrir hendi handa þeim býlum, sem ekki er hugsanlegt að fái rafmagn frá vatnsorkunni.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að segja öllu fleira í sambandi við þessa till. Það, sem hún fer fram á að verði gert, er þegar í undirbúningi og verður unnið, hvað sem um afgreiðslu þessarar till. annars verður.