02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (2914)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Flm. Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er gott að heyra það frá hæstv. ráðh., að raforkumálaskrifstofan sé þegar byrjuð að vinna að slíkum áætlunum sem um ræðir í þessari tillögu, og er þá meiri von til þess. þegar þetta verk er þegar hafið, að takist að ljúka því á þeim tíma, sem nefndur er hér í tillögunni.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé tilgangslaust að kveða svo á, að verkinu verði lokið fyrir næstu áramót, ef það skyldi verða óframkvæmanlegt á þessum tíma, þ.e.a.s. á þessu ári. En ég vil benda á það, að í niðurlagi till. segir: „Reynt verði að hraða áætlunum þessum svo, að þær verði til í ársbyrjun 1961.“ Það er ekki ákveðið þar, að því skuli lokið, heldur að reynt verði að ljúka þeim fyrir næstu áramót, og ég vænti þess, að allir geti á það fallizt, að það sé rétt að ýta á eftir því, að þetta verk verði framkvæmt og því lokið svo fljótt sem verða má.

Hæstv. ráðh. gaf þær upplýsingar, að það hefði verið aflað fjár 1959 til raforkuframkvæmda, alls 88 milljóna rúmlega. Eins og ég tók fram hér áður, var á næsta ári þar á undan, 1958, varið til stofnkostnaðar við þessar framkvæmdir 130 millj., og er þetta því allmiklu lægri upphæð síðara árið, eins og ég tók líka fram í þeirri ræðu að vera mundi.

Það virtist koma fram í ræðu hæstv. landbrh., að það ætti að standa við hina svonefndu 10 ára áætlun. Það er gleðilegt að heyra það, ef það er meiningin að hverfa frá þeim fyrirætlunum, sem komu fram frá fyrrverandi stjórn á þingi núna fyrir tæpu ári, þar sem þeir voru með áætlanir um að hverfa í veigamiklum atriðum frá þessari 10 ára áætlun, hætta við virkjanir og aðalorkuveitur frá þeim um ýmis byggðarlög og gefa mönnum kost á mótorstöðvum í staðinn.

Það er gott að heyra það, ef nú eru uppi ráðagerðir hjá hæstv. stjórn um það að framfylgja ekki þessari stefnu, sem lýst var hér á þingi í fyrra, heldur framkvæma 10 ára áætlunina eins og til var ætlazt upphaflega, bæði að því er snertir byggingu orkuvera og aðalorkuveitna og einnig þá að því er varðar dreifilínurnar um byggðir landsins.