02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (2918)

50. mál, bústofnslánadeild

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Tillaga sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 84 og ég ásamt nokkrum öðrum þm. Framsfl. flyt, fjallar um skipun nefndar til þess að athuga, með hverjum hætti verði á komið bústofnslánastarfsemi hér á landi, er geri efnalitlum bændum kleift að koma sér upp hæfilegum bústofni.

Eins og er, eiga bændur, hvorki frumbýlingar né aðrir, kost á sérstökum föstum lánum til bústofnskaupa. Þeir hafa ekki aðgang að neinni sérstakri lánastofnun í því skyni. Að vísu eru að nafninu til í gildi a.m.k. tvenn lagaákvæði, sem gera ráð fyrir bústofnslánum. Í jarðræktarlögunum er ræktunarsjóði heimilað að veita bústofnslán, en sú heimild mun ekki hafa verið notuð, sem varla er heldur að vænta, þar sem ræktunarsjóðurinn hefur naumast haft nægilegt fjármagn til þess að fullnægja sínum aðalverkefnum, að veita byggingar- og ræktunarlán, og vantar beinlínis nú fé til þess að fullnægja eftirspurn eftir þeim lánum. Enn munu og að formi til vera í gildi ákvæði laga nr. 31 1930, er gera ráð fyrir bústofnslánafélögum, en þau lög hafa, að því er ég bezt veit, aldrei komið til framkvæmda, enda eru ákvæði þeirra um bústofnslánafélög einmitt byggð á þeirri forsendu, að til sé föst lánastofnun, þar sem kostur sé á að fá lán til kaupa á bústofni. En þegar lög nr. 31 1930 voru sett, var í gildi 4. kafli laga nr. 31 1929, um Búnaðarbanka Íslands, er fjallaði um bústofnslánadeild Búnaðarbankans, en sá kafli bankalaganna var síðan felldur úr gildi með lögum nr. 91 1935. Stóð niðurfelling ákvæðanna um bústofnslánadeildina í sambandi við kreppulánin, sem þá áttu sér stað, svo sem síðar verður nánar vikið að.

Þrátt fyrir nefnd lagaákvæði er það því svo, að bændur eiga alls enga völ á sérstökum föstum bústofnslánum. Það teljum við flm. þessarar till. illa farið. Við teljum, að mikil þörf sé á fastri bústofnslánastarfsemi, er geri bændum kleift að auka bústofn sinn og geri frumbýlingum auðveldara en ella að komast yfir hæfilegan bústofn. Bú margra bænda eru því miður allt of lítil. Mörgum bændum er nauðsynlegt að stækka búin til þess að geta lifað mannsæmandi lífi af afrakstri þeirra. Þetta á alveg sérstaklega við, eftir að þeir hafa varið verulegu fé til endurbóta á jörðum sínum og aflað sér nokkurs vélakosts, Þá þurfa þeir að standa undir afborgunum og vöxtum vegna þeirra framkvæmda og vélakaupa, en það er þeim mörgum ofraun, nema þeir geti stækkað bú sín mjög verulega. Þetta er ákaflega auðvelt reikningsdæmi. Við jarðræktarframkvæmdir og aukna vélanotkun hafa einmitt skapazt skilyrði til þess á mörgum jörðum að hafa þar stærri áhöfn en áður var og nú er, en þá vantar bændur marga hverja það fjármagn, sem nauðsynlegt er til þess að kaupa hæfilegan bústofnsauka. Ég veit, að ástandið í þessum efnum er eitthvað misjafnt eftir héruðum. Þeir, sem fyrstir voru á ferðinni með framkvæmdirnar, standa óneitanlega betur að vígi.

Alveg sérstök ástæða er þó til þess að létta undir með frumbýlingum í þessu efni. Þeir hafa margir hverjir brýna þörf fyrir bústofnslán. Það vita allir, að það þarf mikið fjármagn til þess að reisa bú. Þótt ráðdeildarsamir frumbýlingar kunni að hafa sparað saman nokkurt fé, áður en þeir stofna heimili, hrekkur það í flestum tilfellum mjög skammt, þótt að því geti að sjálfsögðu verið geysimikill styrkur og það geti oft riðið baggamuninn um það, hversu til tekst.

Þó að frumbýlingnum ef til vill takist að fá eitthvert lán til jarðarkaupa, sem verður þó aldrei nema örlítið brot af jarðarverðinu, þá er bústofninn eftir. Það er mikill munur að geta byrjað búskapinn strax með nokkurn veginn sæmilegum eða hæfilegum bústofni eða þurfa að berjast við það árum saman að koma slíkum bústofni upp.

Við flm. þessarar tillögu álítum, að það yrði mörgum frumbýlingum ómetanlegur styrkur, ef þeir ættu völ á bústofnslánum með sæmilegum kjörum.

Ég leyfi mér að öðru leyti að vísa til grg. varðandi þörfina á þvílíkum frumbýlingslánum. Ég get tæpast ímyndað mér, að nokkur gerist til þess að andmæla því út af fyrir sig, að frumbýlingum sé þörf á slíkum lánum, svo að ég mun ekki fjölyrða frekar um það atriði, nema tilefni gefist til. Hitt er annað mál, að sjálfsagt verður bent á ýmis vandkvæði á því að koma á fót sérstakri, fastri bústofnslánastarfsemi. Auk hinnar almennu fjármagnsvöntunar, sem hér verður vafalaust stærstur þrándur í götu, verður sennilega bent á ýmsa framkvæmdarerfiðleika, svo sem að bústofn sé ótryggt og óheppilegt veð, að óhagkvæmt sé að hafa búféð veðbundið o.s.frv.

Hugsanlegt er og, að á það verði bent, að ákvæðin um bústofnslánadeild Búnaðarbankans voru á sínum tíma felld úr gildi, án þess að þau hefðu komið til framkvæmda. En eins og ég hef áður tekið fram, verður þar af í rauninni alls engin ályktun dregin. Búnaðarbankinn hafði starfað svo skamma hríð, þegar ákvæðin um bústofnslánadeildina voru felld niður, að ekkert var óeðlilegt við það, að þau ákvæði væru ekki enn komið til framkvæmda. Þegar ákvæðin voru felld niður, voru kreppulánin komin til sögunnar, bústofn margra bænda var þar veðbundinn. Grundvelli var þar með í raun og veru um sinn kippt undan starfsemi bústofnslánadeildarinnar. Niðurfelling þeirra ákvæða á sínum tíma verður því ekki flutt fram nú sem nein gagnrök gegn nauðsyn á sérstökum föstum bústofnslánum. Hitt er okkur flm. vel ljóst, að benda má á ýmsa annmarka á þvílíkri lánastarfsemi. Þess vegna göngum við ekki lengra nú en að óska eftir ýtarlegri athugun á málinu, svo sem í þáltill. segir.

Flutning þessarar þáltill. ber að sjálfsögðu ekki að skoða sem vott þess, að við flm. hennar teljum bústofnslán út af fyrir sig nauðsynlegri en lán til jarðakaupa úr veðdeildinni eða ræktunarsjóðslán, en um þá lánastarfsemi, veðdeildarlánin og ræktunarsjóðslánin, er löggjöf fyrir hendi. Þar vantar aðeins fé, þar þarf að útvega fé. En þd að allt væri þar í lagi, að því er þá fjárfestingarsjóði varðar, þeir hefðu nægilegt fé til þess að sinna sínum verkefnum, þá væri eigi að síður þörf á föstum bústofnslánum, og jafnvel þó að sparisjóðsdeild Búnaðarbankans væri nú þess umkomin að veita bændum viðskipta- og rekstrarlán til skamms tíma, væri allt að einu þörf fyrir hússtofnslánadeild, er veitti bændum lán, sem þeir þurfa til þess að koma sér upp bústofni eða til að auka bústofn sinn. Þau föstu bústofnslán þurfa sjálfsagt ekki að vera til jafnlangs tíma og veðdeildarlán og ræktunarsjóðslán eða önnur lán tryggð með fasteignaveði, en á hinn bóginn þyrftu slík bústofnslán að vera til svo langs tíma, að bústofninn eða bústofnsaukinn sjálfur gæti greitt lánin, þ.e.a.s. gefið af sér sem svarar afborgunum og vöxtum af láninu auk árlegs rekstrarkostnaðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vil aðeins geta þess, að í grg. hefur slæðzt inn sú villa, að vitnað er til laga frá 1947 að því er varðar ræktunarsjóðslán í stað laga frá 1957.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.