09.03.1960
Sameinað þing: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (2924)

66. mál, Rafleiðsla á 4 bæi í Húnavatnssýslu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það voru aðeina örfá orð viðvíkjandi brtt., sem ég hef flutt við þessa þáltill., sem hér er til umræðu, sem ég vildi skýra hér fyrir hv. þingmönnum. Það hagar þannig til í þessu tilfelli, að það verður að taka rafmagnið frá bæ, sem heitir Torfalækur og er í þessari sömu sveit, og þá þarf að leggja línuna fram hjá eða yfir tún þessara tveggja jarða, sem ég geri brtt. um að teknar séu með. Til þess að geta komið rafmagninu að Hurðarbaki á ásum verður að taka línuna frá Torfalæk og leiða hana annaðhvort yfir túnið á Hæli og Meðalheimi eða rétt við túngarðinn, þannig að það er ógerlegt og óviturlegt í mesta máta að leggja rafmagnið að Hurðarbaki, án þess að rafmagn komi líka á þessar tvær jarðir, sem eru í leiðinni.

Ég var í gær að athuga þetta með þeim mönnum, sem eru að gera áætlanir um raflagnir um sveitirnar, og þá kom í ljós, að það er um 5 km vegalengd á milli þessara þriggja bæja. Á einum þessara bæja er tvíbýli, þannig að meðaltalsvegalengdin á milli býla mundi þá verða um 1¼ úr km. Hins vegar eru þrír bæir aðrir, sem eru með í þessari þáltill. Það eru Húnsstaðir, Hjaltabakki og Holt á Ásum, og það er gert ráð fyrir að taka línuna að þessum bæjum frá Blönduósi, og það mundu verða allt að því 2 km að meðaltali milli býla. Það er líka hægt að taka hana frá Torfalæk, en vegalengdin mundi verða mjög svipuð, þannig að sú álman, sem yrði tekin heim að Hurðarbaki, yrði styttri miðað við býli heldur en hin línan. Vitanlega er ég með því, að allir þessir bæir fái rafmagn, en það er bara óviturlegt að ætla sér að leggja rafmagn að Hurðarbaki, án þess að hinir tveir bæirnir, sem eru í leiðinni, fái rafmagn líka.

Ég styð vitanlega þessa þáltill., en þar fyrir má deila um, hvort það hefur mikla þýðingu að koma með þáltill. viðvíkjandi því, að einstakir bæir fái rafmagn, því að ef farið er að samþykkja slíkar þáltill., kemur skriðan á eftir og allir þm. fara að koma með ótal þáltill. viðvíkjandi þessu.

Hitt er svo annað mál, að mér finnst mjög sanngjarnt um þá bæi, sem eru nálægt þeim vatnsföllum, sem rafmagn er tekið úr, að það sé litið á aðstöðu þeirra, og það er satt, að vatn minnkaði í Laxá við það, að vatn var tekið úr Laxárvatni til virkjunarinnar. Þeir fengu einhverjar skaðabætur, af því að gert var ráð fyrir, að laxveiði mundi minnka. Ég skal ekki fullyrða um, hvort hún hefur minnkað eða ekki, það virtist vera góð veiði í ánni í fyrra. En það má deila um það, það er ekki gott að fullyrða um, hvort það hafi haft áhrif á laxagöngur og laxveiði eða ekki. Má vera, að svo hafi verið og að þeir hafi beðið óbeint tjón, og þá mælir það vitanlega með, að þeir fái rafmagnið.

Ég mun því greiða atkvæði með þessari þáltill., en lít hins vegar á það sem dálítið vafamál, hvort Alþingi getur fallizt á það í framtíðinni að fara að samþykkja till. viðvíkjandi rafleiðslum á einstaka bæi.