06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

78. mál, kaup seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það væri ef til vill ástæða til að hafa allýtarlega framsögu fyrir þessari till., en vegna þess að tíminn er nú takmarkaður og margar till. aðrar hér á dagskrá, skal ég verða við þeim tilmælum forseta að fara mjög fljótlega yfir sögu.

Það er nú almennt viðurkennt, að iðnaðurinn sé orðinn þriðji aðalatvinnuvegur þjóðarinnar ásamt landbúnaði og sjávarútvegi. En þó að þetta sé viðurkennt í orði, brestur mikið á, að þetta sé gert í verki. Og þetta kemur ekki sízt fram á þann hátt, sem kemur fram í þessari till., að aðalbanki þjóðarinnar, seðlabankinn, veitir iðnaðinum enn ekki sams konar réttindi og t.d. sjávarútvegi og landbúnaði hvað snertir endurkaup á framleiðslu- og hráefnavíxlum.

Fyrir tveimur árum átti Sveinn Guðmundsson forstjóri hér sæti á Alþingi sem varamaður og flutti þá till. um það, að bætt væri úr þessu misrétti. Alþingi tók þessari till. vel og samþykkti till. að mestu leyti óbreytta. En þrátt fyrir það, þó að nú séu ein tvö ár liðin, síðan þessi till. var samþykkt á Alþingi, hafa ekki enn þá neinar framkvæmdir orðið hjá viðkomandi stjórnarvöldum til þess að koma þessum vilja Alþingis í framkvæmd, og þess vegna er það, sem þessi till. er flutt hér að nýju, og er stuðzt að mestu eða öllu leyti við það orðalag, sem Sveinn Guðmundsson hafði á sinni till. upphaflega og Alþingi samþykkti að mestu leyti óbreytta. Það er öllum augljóst, að svo mikil þörf sem var á því fyrir tveimur árum að samþykkja slíka till., þá er þessi þörf orðin enn þá meiri núna vegna þeirra ráðstafana, sem nýlega hafa verið gerðar í okkar efnahagsmálum og hafa það í för með sér, að iðnaðurinn þarf á stórauknu rekstrarfé að halda.

Ég vil þess vegna vænta þess, að þessi till. fái ekki lakari undirtektir Alþingis nú en fyrir tveimur árum og að Alþingi sýni það á þann hátt, að það vilji viðurkenna iðnaðinn sem einn af aðalatvinnuvegum þjóðarinnar og veita honum ekki minni réttindi í sambandi við endurkaup á framleiðslu- og hráefnavíxlum hjá seðlabankanum en landbúnaði og sjávarútvegi.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en legg það til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.