06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2932)

78. mál, kaup seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er komin hér fram till. til þál. um endurkaup seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins, og ég skil vel, að slík till. skuli koma fram. Ég held, að það sé tími til kominn, að Alþingi fari að ræða ekki aðeins það, sem snertir þau endurkaup, sem snúa að framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins, heldur hvað snertir endurkaupin yfirleitt, bæði hvað snertir landbúnaðinn og sjávarútveginn og þá aðstoð, ef svo mætti kalla það, sem nú er látin í té af hálfu seðlabankans gagnvart atvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta hefur nokkrum sinnum áður verið gert að umtalsefni hér á Alþingi, og það hefur oft og af mörgum þm. verið deilt á ófremdarástand, sem átti sér stað á undanförnum árum. Það ástand var það, að þegar t.d. útvegsmenn höfðu látið framleiða fisk, og það var gjaldeyrir sama sem, hann var seldur fyrir fram, og bankarnir fengu þennan gjaldeyri, — að þegar þeir ætluðu að fá lánað út á þetta og fengu víxla hjá viðskiptabönkunum og viðskiptabankarnir endurseldu þessa víxla, þá tóku bankar ríkisins af útveginum og öðrum 4½% vexti af þessu, og þetta skiptist þannig á milli bankanna, að viðskiptabankarnir, sem höfðu alla áhættuna í sambandi við þessi útlán, fengu ½%, en seðlabankinn tók til sín 4%. Það var oft deilt á þessar aðfarir, bæði hér á Alþingi og í viðskiptabönkunum, og það var meira rætt og oftar um þessi misskipti, t.d. í bankaráði Landsbankans, þar sem ég á sæti m.a. fyrir hönd Alþingis, heldur en eiginlega nokkuð annað, sem snertir viðskipti bankanna. Og þetta var ill regla, sem þarna var höfð. Það var alveg óþarfi að taka 4½% af þeim atvinnuvegum, sem framleiddu gjaldeyrinn fyrir þjóðina, og það var alveg sérstaklega ómaklegt að skipta þannig á milli viðskiptabankanna annars vegar og seðlabankans hins vegar, að það kæmi ½% í hlut viðskiptabankanna og 4% í hlut seðlabankans, sem hafði ekkert að gera með að græða. Það mátti vel lækka þetta strax niður í 2½% eða svo, láta kannske seðlabankann í mests lagi fá 1% og hina 1½%, þegar um lán var að ræða, sem átti að geta verið nokkurn veginn áhættulaust. Og ég veit, að fátt var meira áhugamál, ekki sízt útvegsmanna og hraðfrystihúsaeigenda og annarra, sem höfðu með framleiðslu útflutningsvörunnar að gera, heldur en einmitt þetta. Og stundum, þegar vinnudeilur voru, þá var því beinlínis haldið fram af hálfu hraðfrystihúsaeigenda og forustumanna Landssambands ísl. útvegsmanna. að það mundi muna meira um það fyrir hraðfrystihúsin og útveginn yfirleitt að fá vaxtalækkun, sem næmi að skera vextina niður um þriðjung, heldur en þó að kaupgjald hefði lækkað um 15%. Því er bezt að gera sér það ljóst frá upphafi, ef til vinnudeilna kemur, hverjir það eru, sem bera ábyrgð á þeim, meðan menn hafa ekki fengizt til þess að skera niður vextina eins og sjálfsagt og nauðsynlegt er að gera í þjóðfélaginu. Og það er engin ástæða til þess að taka af útvegsmönnum og öðrum, sem framleiða gjaldeyrinn, allan gjaldeyrinn og skammta þeim síðan, eins og bankarnir hafa gert, og þykjast eiga allan þennan gjaldeyri og fást ekki einu sinni til að hugsa almennilega um að láta framleiða þennan gjaldeyri. Þetta var mjög slæmt ástand, enda oft deilt á það.

Hvað hefur svo gerzt síðan? Það, sem gerzt hefur síðan, er, að þetta hefur versnað um allan helming, og þegar ég segi helming, þá meina ég það bókstaflega, því að það, sem áður var 4½%, hvað er það í dag? Er það ekki 9%? Eða er það meira, það eru kannske menn hérna inni, sem geta upplýst það? (Gripið fram í: 9 og 9½,) Það er 9 og 9½, já. Þá höfum við það frá þeim, sem bezt þekkja. — Vont var þetta áður. Það, sem var óþolandi áður, er núna með tilkomu þessarar nýju hæstv. ríkisstj., — mér þykir mjög leitt, að enginn hæstv. ráðh. skuli vera við, en ég vona, að hún eigi kannske einhvern forsvarsmann hérna inni, þó að ég sé ekki viss í, að nokkur vilji taka upp hanzkann fyrir hana, — í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. er sem sé komið svo, að það, sem var illt áður, er orðið helmingi verra nú.

Ég átti hlut að því hér, einmitt þegar Sveinn Guðmundsson forstjóri, sem kom hér inn sem varaþingmaður Sjálfstfl. fyrir Reykjavík um tíma, flutti þessa till., sem hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) nú flytur, að reyna að styðja hann í því og lagði þessu máli mitt lið, þegar talað var um það í Sþ. þá. Og mér þykir mjög leitt, að það skuli síðan ekki hafa gerzt neitt í þessum efnum. Ég er hræddur um, að það standi í sambandi við það, að svo erfitt sem var að fást við seðlabankann og hans vald, á meðan Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu hér, og ég fyrir mitt leyti sem góður stjórnarstuðningsmaður engu að síður vildi styðja góða till. eins og þessa, sem þessi fulltrúi Sjálfstfl. þá kom fram með, — svo erfitt sem var að fást við seðlabankann sem vald þá, þá er það margfalt verra núna, því að nú lítur helzt út fyrir, að það sé hann, sem hefur tekið yfirstjórnina á ríkisstjórninni, og kunni hún þó ekki sjálf fótum sínum vel forráð, en þó helmingi verr, eftir að seðlabankinn fór að sletta sér fram í þetta, enda heyrist mér það nú svo á þeim ráðstefnum, sem ríkisstj. boðar til hér innanlands núna með sínum embættismönnum, að þar muni fulltrúar seðlabankans og það jafnvel þó að það séu bara sendisveinarnir frá aðalbankastjóranum vaða uppi og segja fyrir um, hvað gera skuli, og ráðh. síðan hlýði. Ef einhver hæstv. ráðh. væri hér, þá gæti hann borið á móti þessu, ef þetta væri ekki satt.

Ég held þess vegna, að það sé full þörf fyrir Alþ. að ræða þetta mál alvarlega, ekki aðeins hvað snertir endurkaupin á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins, heldur líka að skakka þannig leikinn viðvíkjandi sjávarútvegi og landbúnaði, að atvinnuvegir landsins yfirleitt njóti stuðnings af bönkum ríkisins, en bankar ríkisins séu ekki reknir til þess að hengja atvinnuvegina, eins og núna virðist vera.

Sem stendur er verið að brjóta atvinnuvegina niður með þeirri bankapólitík, sem rekin er. Það er svo undarlegt með okkur, sem stöndum í allmikilli snertingu þó við verkalýðshreyfinguna, að það eru tíðari upphringingar, sem við fáum frá atvinnurekendum, kaupmönnum, handverksmönnum og öðrum, jafnvel heldur en frá verkamönnum, um, hvort við ætlum ekki að fara af stað til þess að steypa þessu kerfi, sem sé búið að koma hér á, af því að það sé að drepa atvinnureksturinn. Og ástandið er þannig, að stærstu atvinnurekendur landsins verða núna að fara og tala við blöð stjórnarinnar, eins og t.d. Alþýðublaðið, til þess að birta í því frásagnirnar um, hvernig verið sé að stöðva atvinnulífið, t.d. hérna við Faxaflóa, og eyðileggja atvinnugreinarnar.

Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að horfast í augu við það, að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar og vissulega á að afgreiða það vel, hún á að láta til sín taka, hvaða fyrirmæli Alþingi gefur seðlabankanum og öðrum um, hvernig endurkaupa skuli framleiðslu og hráefnavíxla atvinnugreinanna á Íslandi. Til þess er Alþ. kosið að stjórna þjóðarbúskapnum hér, en ekki til þess að láta einhverja embættismenn úti í bæ gera það, ábyrgðarlausa embættismenn, sem aldrei eiga að leita til neinna kjósenda hér á Íslandi, — og þegar þeir hafa leitað til þeirra, þá hafa þeir alltaf fallið. Það er þingmanna og Alþingis að stjórna þessum málum, en ekki þessara embættismanna, sem aldrei hafa verið kosnir til þess að stjórna þessu. Ég veit ósköp vel, að sumir voldugustu mennirnir, sem núna eiga að stjórna þessum málum, hafa reynt að bjóða sig fram til þings. Ég hef sjálfur staðið í því að slást við þá, og þeir hafa aldrei komizt inn. En þeir þykjast geta stjórnað landinu. og þeir þykjast ætla að segja þingmönnum fyrir, hvernig eigi að stjórna. Ég held þess vegna, að það sé fyllilega tími til kominn, að Alþ. láti til sín taka og láti þessa embættismenn vita, hver er húsbóndi á heimili þjóðarinnar. Við skulum ekki láta okkur nægja neinar frómar óskir viðvíkjandi þeim reglum, sem eigi að gilda um endurkaup framleiðsluvíxla sjávarútvegsins, landbúnaðarins og iðnaðarins. Við skulum setja þær reglur. Og ég vil leyfa mér að vona það, um leið og ég tek undir þessa till., að sjálfstæðismenn í þinginu þori að fylgja henni, þó að þeir séu í stjórnaraðstöðu núna.

Ég vil leyfa mér að vona, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, gangi þannig frá þessu máli, að það verði ekki efazt um vilja Alþingis í þessum efnum. Og það er Alþ., sem ræður þessu. Það er enginn seðlabanki til hér á Íslandi eða nein slík fyrirtæki nema vegna vilja Alþ. og nema vegna þess, að þetta Alþ. hefur ákveðið það á sínum tíma, að þessir bankar skuli vera til, og þegar Alþ. ákveður, að þeir skuli ekki vera til lengur, þá eru þeir ekki til lengur. Það er nauðsyn að láta þá embættismenn, sem þarna ráða úti í bæ og eru að brjóta niður atvinnulíf þjóðarinnar, vita af því, hvar sá aðili sé, sem hefur ábyrgðartilfinningu fyrir atvinnulífinu og lætur þeim ekki haldast svona hluti uppi. Þess vegna held ég. að sú n., sem fær þetta til meðferðar, eigi að taka þetta til rækilegrar meðferðar og setja inn í þessa till. til þál. ákvæði um, hvernig skuli endurkaupa víxlana. Það er engin ástæða til þess, að þær ákvarðanir séu teknar annars staðar en hér. Það er engin önnur stofnun en Alþingi, sem á að ráða því, vegna þess að það er til Alþ. eins, sem er leitað, ef atvinnuvegirnir ekki ganga. Og við vorum hér seinast áðan að ræða mál, sem sýna það, að hingað er komið og til okkar eru kröfurnar gerðar um, hvort einhver síldariðnaður á að vera rekinn á landinu eða ekki. Það er ekki farið til seðlabankans. Það talar víst enginn maður við seðlabankann í dag um það, hvort það eigi að verða einhver síldveiði á Íslandi og hvort það eigi að vera hægt að hagnýta hana, því að einu afskiptin, sem hann hefur haft af því máli núna, eru að reyna að koma í veg fyrir, að það verði nokkur síldarvertíð, með því að stjórna því með sínum vitlausu afskiptum af sölunni á síldarlýsi og síldarmjöli, að síldarverksmiðjurnar allar eru í vandræðum, hvernig þeirra rekstrarafkoma muni verða næsta sumar og hvaða verð eigi að ákveða út af vitlausum afskiptum, sem seðlabankinn og ríkisstj. hafa haft í frammi. Ég held þess vegna, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að taka þetta mál í allshn., sem ég legg til að það fari til, til rækilegrar umr. og ganga þannig frá þessu máli, áður en þingi lýkur, að það sé alveg ákveðið frá Alþingis hálfu, eftir hvaða reglum víxlarnir skuli endurkeyptir.